Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 2.–12.3.2021

2

Í vinnslu

  • 13.3.–14.12.2021

3

Samráði lokið

  • 15.12.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-66/2021

Birt: 2.3.2021

Fjöldi umsagna: 9

Drög að frumvarpi til laga

Matvælaráðuneytið

Ferðaþjónusta

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun (Ferðatryggingasjóður)

Niðurstöður

Frumvarpið varð að lögum nr. 95/2021, um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Í samráðskafla greinargerðar frumvarpsins er að finna efnisleg viðbrögð við þeim umsögnum sem bárust í samráðinu. Þær umsagnir sem bárust leiddu ekki til breytinga á frumvarpinu.

Málsefni

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018 (Ferðatryggingasjóður). Einnig eru til samráðs drög að reglugerð um Ferðatryggingasjóð.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót nýju tryggingakerfi fyrir pakkaferðir í stað gildandi tryggingakerfis. Hið nýja kerfi felst í stofnun Ferðatryggingasjóðs sem er sameiginlegur tryggingasjóður þeirra fyrirtækja sem selja pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og eru vegna þess tryggingaskyldir. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir nýjum V. kafla í lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem felur í sér lagaumgjörð Ferðatryggingasjóðs. Stofnun Ferðatryggingasjóðs mun hafa í för með sér mikið hagræði fyrir ferðaskrifstofur þar sem tryggingafé þeirra mun geta lækkað umtalsvert og að sama skapi mun tilkoma sjóðsins auka neytendavernd þar sem tryggt verður að allar kröfur ferðamanna vegna ógjaldfærni eða gjaldþrots seljenda pakkaferða munu fást greiddar að fullu. Við gerð frumvarpsins var höfð hliðsjón af sambærilegum tryggingasjóðum í Danmörku og Noregi.

Ferðatryggingasjóður verður sjálfseignarstofnun í umsýslu Ferðamálastofu. Þriggja manna stjórn fer fyrir sjóðnum en Ferðamálastofa mun sjá um daglegan rekstur sjóðsins. Ferðaskrifstofur munu vera háðar skylduaðild að sjóðnum og munu greiða árlegt iðgjald auk þess að leggja fram tryggingafé líkt og verið hefur sem mun þó lækka umtalsvert. Gert er ráð fyrir því að Ferðatryggingasjóður verði stofnaður þann 1. júlí nk. með einskiptisgreiðslu allra ferðaskrifstofa sem nemi 1,5% af tryggingafjárhæðum ársins 2019. Auk þess munu ferðaskrifstofur greiða iðgjald á gjalddaga 1. september og eigi síðar en þann dag mun tryggingafé þeirra lækka í samræmi við nýjar reglur.

Líkt og verið hefur verður kveðið á um útreikning tryggingafjárhæðar og iðgjalda í reglugerð sem ráðherra setur og er í opnu samráði samhliða frumvarpi þessu. Útreikningurinn byggir á sama grundvelli og gilt hefur og upplýsingaskylda ferðaskrifstofa helst áfram sú sama og sú reikniregla sem tekin var upp með reglugerð nr. 150/2019 mun áfram verða notuð í lítt breyttri mynd.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa ferðamála og nýsköpunar

postur@anr.is