Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 10.–19.3.2021

2

Í vinnslu

  • 20.3.2021–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-73/2021

Birt: 10.3.2021

Fjöldi umsagna: 8

Drög að frumvarpi til laga

Forsætisráðuneytið

Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar

Frumvarp til laga um Vísinda- og nýsköpunarráð

Málsefni

Forsætisráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til nýrra laga um Vísinda- og nýsköpunarráð. Lagðar eru til breytingar sem styrkja langtímastefnumótun í málaflokknum en standa vörð um styrkleika núverandi fyrirkomulags.

Nánari upplýsingar

Markmið nýs fyrirkomulags vísinda, tækni og nýsköpunarmála er að styrkja langtímastefnumótun í vísinda- og nýsköpunarmálum með heildrænni nálgun á málaflokkinn, skýrari hlutverkum helstu aðila og öflugri sjálfstæðri gagnagreiningu, ásamt eftirfylgni og auknu samstarfi og samhæfingu á milli ráðuneyta.

Það fyrirkomulag vísinda, tækni og nýsköpunarmála sem sett er fram í þessu frumvarpi byggir á vinnu verkefnishóps forsætisráðherra um endurskoðun lagaumhverfis Vísinda- og tækniráðs en ekki hafa verið gerðar breytingar á yfirstjórn málaflokksins eða hlutverki ráðsins frá því það var sett á laggirnar árið 2003. Frumvarpið tekur jafnframt mið af þeim umsögnum sem um tillögur verkefnishópsins bárust í umsagnarferli í Samráðsgátt haustið 2020.

Meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að gert er ráð fyrir að ný lögbundin ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun hafi skýrt stefnumótandi hlutverk og gefi út samræmda stefnu um vísindi, nýsköpun og tækni ásamt aðgerðaáætlun. Samhliða ráðherranefnd er í frumvarpinu lagt til að starfi Vísinda- og nýsköpunarráð sem skipað sé af ráðherra til fjögurra ára í senn. Í því sitji níu fulltrúar með afburðaþekkingu og reynslu. Ráðið sé sjálfstætt í sínum störfum, spyrji áleitinna spurninga um stöðu mála og komi jafnvel með róttækar hugmyndir að breytingum. Ráðið væri smærra en nú er, skipað til lengri tíma, og ekki tengt tilnefningum hagsmunaaðila. Önnur lykilbreyting í frumvarpi þessu er að stuðningur við starf Vísinda- og nýsköpunarráðs og ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun sé stutt af sjálfstæðum sérfræðingum innan ráðuneytis sem greini stöðu vísinda-, nýsköpunar- og tæknimála í landinu og styrki þannig grunn stefnumótunar í málaflokkinum.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Forsætisráðuneytið/skrifstofa stefnumála

for@for.is