Samráð fyrirhugað 12.03.2021—02.04.2021
Til umsagnar 12.03.2021—02.04.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 02.04.2021
Niðurstöður birtar

Mælaborð um farsæld barna

Mál nr. 76/2021 Birt: 11.03.2021
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (12.03.2021–02.04.2021). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Undanfarin þrjú ár hefur félags- og barnamálaráðherra farið fyrir margþættri vinnu við endurskoðun á félagslegri umgjörð barna á Íslandi. Mikilvægur liður í þessari vinnu er þróun mælaborðs sem heldur utan um helstu tölfræðigögn er varpa ljósi á líðan, velferð og réttindi barna á Íslandi. Félags- og barnamálaráðherra óskar eftir athugasemdum og hugmyndum frá haghöfum og almenningi.

Undanfarin þrjú ár hefur félags- og barnamálaráðherra farið fyrir margþættri vinnu við endurskoðun á félagslegri umgjörð barna á Íslandi, en þrjú frumvörp er tengjast samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru lögð fyrir Alþingi nýlega. Samhliða hefur verið unnið að heildstæðri stefnu og aðgerðaáætlun um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem kynnt verður á næstunni. Mikilvægur liður í þessari vinnu er þróun mælaborðs sem heldur utan um helstu tölfræðigögn er varpa ljósi á farsæld barna á Íslandi.

Í frumvarpi um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er farsæld skilgreind svo: „Aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar“. Þættir sem stuðla að farsæld eru meðal annars lífsgæði, réttindi og þjónusta sem stuðla í senn að góðri æsku og góðu lífi á fullorðinsárum. Við þróun mælaborðs um farsæld barna á Íslandi þarf því að horfa til fjölbreyttra þátta svo sem heilsu, hamingju, menntunar, öryggis, tækifæra, lífskjara, félagslegra tengsla, fjölskyldulífs, þátttöku í samfélaginu og áhrifa barna á ákvarðanir sem varða daglegt líf þeirra. Mælaborðið skal nýtast við stefnumótun og forgangsröðun opinberra aðila jafnt sem til upplýsingar við opinbera umræðu um málefni er varða börn.

Í október síðastliðnum hófst formleg vinna innan Stjórnarráðsins við þróun mælaborðsins, með stofnun stýrihóps Stjórnarráðsins um mælaborð um velferð barna. Formaður hópsins er Kolbeinn Stefánsson dósent við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og í hópnum sitja fulltrúar sjö ráðuneyta, auk embættis umboðsmanns barna, Hagstofu Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Aðalmarkmiðið með þróun mælaborðsins er að draga fram heildstæða mynd af farsæld barna hér á landi, á grundvelli þeirra fjölþættu tölfræðigagna sem til staðar eru, fyrir ríki og sveitarfélög. Er þar horft til þess að safna tölfræðigögnum um ólík málefni og hópa barna og tryggja að stjórnvöld hafi yfirlit yfir þætti er varða farsæld barna hér á landi, yfirlit sem að byggir á nýlegum og aðgengilegum gögnum. Markmið mælaborðsins er enn fremur að tryggja að þau tölfræðigögn sem til eru séu nýtt með markvissum hætti við lagasetningu, stefnumótun og mat á áhrifum aðgerða opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga.

Vinna við mælaborð stjórnvalda byggir á mælaborði sem Kópavogsbær þróaði árið 2019 fyrir sveitarfélagið, í samstarfi við félagsmálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi (sjá hér). Mælaborðið í Kópavogi hefur hlotið Alþjóðleg verðlaun UNICEF auk þess sem það hefur vakið töluverða athygli innan sem utan landssteinanna. Það er hins vegar ljóst að mælaborðið verður ekki heimfært á einfaldan hátt yfir á önnur sveitarfélög eða Ísland í heild sinni enda verður að horfa til þátta eins og aðgengi að gögnum og gæðum þeirra.

Til að tryggja aðkomu sem flestra að þróun mælaborðsins og að athugasemdir komi fram í upphafi þróunarvinnunnar óskar félagsmálaráðuneytið og stýrihópur Stjórnarráðsins um mælaborð um farsæld barna eftir athugasemdum og hugmyndum frá haghöfum og almenningi. Sérstaklega er óskað eftir :

1) tillögum að mælingum sem varpa ljósi á farsæld barna á Íslandi

2) ábendingum um gögn sem geta nýst í mælaborðið

3) ábendingum um hópa barna í viðkvæmri stöðu sem er ástæða til að leggja áherslu á, annað hvort með því að draga þá sérstaklega fram í niðurbroti mælinga eða með sérstökum mælingum sem eru sértækar fyrir hópinn.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Landssamtökin Þroskahjálp - 24.03.2021

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um mælaborð um farsæld barna.

Íslensk stjórnvöld fullgiltu samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbundu sig þar með til að tryggja fötluðu fólki, þar með talið fötluðum börnum, öll þau réttindi og alla þá vernd fyrir mismunun sem samningurinn mælir fyrir um. Að mati samtakanna verður að líta svo á að verkefnið „Barnvæn sveitarfélög“ sé meðal annars hugsað sem tæki til að tryggja fötluðum börnum mannréttindi og verja þau fyrir mismunun á grundvelli fötlunar. Landssamtökin Þroskahjálp fagna því.

Í 7. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina “Fötluð börn” segir m.a.:

“Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við önnur börn.”

Í samningi S.Þ. um réttindi fatlaðs fólks er lögð rík áhersla á söfnun tölfræðigagna um stöðu fatlaðs fólks, þar á meðal fatlaðra barna, sem auðveldar stjórnvöldum að leggja mat á stöðu mannréttinda fatlaðs fólks og framfylgd við samninginn. Í 31. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina “Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun” segir m.a. um það:

“Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og fram¬fylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar. … Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.”

Í 23. gr. Barnasáttmála SÞ eru réttindi fatlaðra barna einnig áréttuð sérstaklega. Þá fela heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem íslensk stjórnvöld hafa ásett sér að vinna markvisst að, í sér skýra yfirlýsingu og ásetning um að enginn verði skilinn eftir og flest hafa yfirmarkmiðin þar mörg undirmarkmið um hvernig skuli unnið markvisst og sérstaklega að því að bæta hag og aðstæður hópa í sérlega viðkvæmri stöðu, sem fötluð börn tilheyra augljóslega.

Í ljósi ofangreinds benda Landssamtökin Þroskahjálp á mikilvægi þess að sérstaklega sé horft til þeirra skyldna sem af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks leiða við gerð mælaborðsins. Einnig óska samtökin þess að samningsins sé sérstaklega getið sem grundvallar mælaborðsins, þar sem hann veitir fötluðum börnum ákveðna viðbótarvernd hvað varðar mannréttindi og gerir kröfur um öflun sérstakrar tölfræði og sértækrar nálgunar á málefni fatlaðra barna í því skyni að tryggja þeim þau almennu réttindi sem öll börn eiga að njóta. Til þess að leggja mat á það er nauðsynlegt að hafa fötlun sem breytu í mælingum á stöðu barna í sveitarfélögum, til viðbótar við aðrar breytur sem þegar hafa verið skilgreindar. Jafnframt er nauðsynlegt að þeir sem veita þjónustu, og bera þannig mikla ábyrgð á framfylgd samningsins, þekki innihald hans og þær kröfur sem hann gerir.

Í ljósi þess sem að fraamn er rakið leggja Landssamtökin Þroskahjálp eindregið til að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi faltaðs fólks verði hafður til hliðsjónar, auk Barnasáttmálans, í innleiðingarferli mælaborð um farsæld barna.

1. Tillaga að mælingum sem varpa ljósi á farsæld barna á Íslandi.

Skoða þarf sérstaklega hver staða fatlaðra barna er gagnvart öllum þeim þáttum sem mældir eru í mælaborðinu til að fá raunhæfa mynd af stöðu þeirra.

2. Ábending um gögn sem geta nýst í mælaborðið.

Hagstofan er að hefja söfnun tölfræðiupplýsinga varðandi stöðu og aðstæður fatlaðs fólks.

3. Ábending um hópa barna í viðkvæmri stöðu sem er ástæða til að leggja áherslu á, annað hvort með því að draga þá sérstaklega fram í niðurbroti mælinga eða með sérstökum mælingum sem eru sértækar fyrir hópinn.

Landssamtökin benda á að ekki er nóg að fella málefni fatlaðra barna undir “hópa í viðkvæmri stöðu” eða almenna áherslu á jafnræði og jafnrétti heldur þarf að safna sérstökum gögnum og gera sérstakar ráðstafanir sem taka mið af aðstæðum og fötlun til að tryggja þátttöku þeirra og sýnileika í verkefninu. Samtökin leggja því eindregið til að fötlun verði breyta í niðurbroti á tölfræði rétt eins og kyn og aldur. Þannig verður auðveldara að leggja mat á stöðu fatlaðra barna með tilliti til þess sem mælt er og stöðu barna almennt.

Af öðrum þáttum sem mikilvægt er að skoða sérstaklega benda samtökin á mikilvægi þess að hafa tölfræði um:

Fjölda fatlaðra barna á biðlista eftir þjónustu.

Fjölda fatlaðra barna í sértækum námsúrræðum.

Þátttöku fatlaðra barna í (almennum) íþróttum og tómstundum.

Fjölda fatlaðra barna í sértækum/aðgreindum þjónustuúrræðum.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs og samstarfs um Það verkefni sem hér er til umfjöllunar og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks:

“Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.”

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp í málefnum fatlaðra barna og ungmenna

Afrita slóð á umsögn

#2 Reykjavíkurborg - 31.03.2021

Umsögn skóla- og frístundarsviðs og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar er á meðfylgjandi fylgiskjali.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Samband íslenskra sveitarfélaga - 31.03.2021

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

f.h. sambandsins

Valgerður Rún

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 31.03.2021

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um Mælaborð um farsæld barna.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir boð um að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.

Samtökin fagna fyrirhugaðri þróun mælaborðs til þess að halda utan um tölfræðigögn sem varpa ljósi á líðan, velferð og réttindi barna á Íslandi og taka gjarnan þátt í undirbúningi þess eins og þörf verður fyrir.

Barnaheill taka undir þau sjónarmið sem fram koma í umfjöllun um yfirstandandi innleiðingu Barnasáttmálans að mikilvægur hluti innleiðingarinnar er að safna tölfræðigögnum og að afla þekkingar á stöðu barna almennt og jafnframt stöðu ákveðinna hópa barna. Slíkar upplýsingar eru grundvöllur fyrir raunverulega framfylgd mannréttinda barna eins og þau birtast í Barnasáttmálanum. Það er því mikið fagnaðarefni að ráðast skuli í að halda vel utan um upplýsingar og gögn sem safnað er og sem segja til um hver raunveruleg staða barna er og hvar á vantar að þau njóti sinna lágmarksréttinda.

Eins og fram kemur í undirbúningsskjali í samráðsgáttinni þarf „við þróun mælaborðs um farsæld barna á Íslandi … að horfa til fjölbreyttra þátta svo sem heilsu, hamingju, menntunar, öryggis, tækifæra, lífskjara, félagslegra tengsla, fjölskyldulífs, þátttöku í samfélaginu og áhrifa barna á ákvarðanir sem varða daglegt líf þeirra.“

Að auki þarf að mati Barnaheilla að horfa til þátta eins og afleiðinga ofbeldis, vanrækslu, eineltis og fátæktar, stöðu flóttabarna, fatlaðra barna, langveikra barna og barna af erlendum uppruna og áhrifa þessara þátta á tækifæri barna til lífshamingju. Enn fremur þarf að afla upplýsinga, halda utan um þær og nýta, um stöðu ungra foreldra og um velferð foreldra sem hafa alist upp við erfiðar aðstæður og áföll. Mikilvægt er að halda utan um upplýsingar um áföll foreldra svo aðstoða megi þá við að vinna sig út úr vanlíðan vegna áfalla sinna, svo draga megi úr líkum á því að áföll foreldra komi niður á hæfni þeirra eða tækifærum til að búa börnum sínum góð uppeldisskilyrði.

Ráðuneytið og stýrihópur Stjórnarráðsins um mælaborð hafa óskað eftir tilteknum upplýsingum og leggja Barnaheill eftirfarandi að mörkum:

1) Tillögur að mælingum sem varpa ljósi á farsæld barna á Íslandi:

a. Áhrif úrvinnslu áfalla foreldra og barna á líf barna og vegferð

b. Mælingar á þekkingu foreldra á jákvæðum og virðingarríkum uppeldisaðferðum, fyrir og eftir íhlutun/fræðslu

c. Áhrif íhlutunar/inngripa þegar börn hafa fengið stuðning vegna hvers lags vanda, svo sem í tilfellum barnaverndarþjónustuúrræða, þegar barn hefur fengið sálfræðimeðferð/stuðning eftir áföll, þegar barn hefur fengið stuðning eða þjónustu til að takast á við námserfiðleika o.fl.

d. Mælingar á þekkingu barnaverndarstarfsfólks, kennara og annarra sem starfa með og fyrir börn á áfallamiðaðri nálgun og hvernig skal lesið úr einkennum og afleiðingum áfalla (ACE).

e. Mæling á lengd biðar eftir þjónustuúrræðum og eftir afgreiðslu sýslumannsembætta á málum sem tengjast börnum (börn geta ekki beðið)

f. Safna þarf gögnum um börn sem eru aðstandendur sjúklinga

g. Safna þarf gögnum um börn sem eru aðstandendur fíkla

h. Safna þarf gögnum um afdrif barna sem eru eða hafa verið í fóstri, hvort sem er tímabundnu eða ótímabundnu

i. Safna þarf gögnum um börn sem eru veik og um áhrif veikinda þeirra á afkomu og velferð fjölskyldunnar

j. Mæla þekkingu á Barnasáttmálanum

2) Ábendingar um gögn sem geta nýst í mælaborðið:

a. Lýðheilsuvísar Embættis landlæknis

b. SAFT rannsóknir

c. Upplýsingar um biðlista eftir þjónustu fyrir börn, svo sem bið eftir greiningum og úrræðum ýmiskonar

d. Gögn frá Rannsóknum og greiningu

e. Gögn frá Skólapúlsinum

f. Gögn frá Félagsvísindastofnun

g. Rannsóknir og gögn frá meistaranemum í félagsvísindum, svo sem félagsráðgjöf o.fl.

h. Upplýsingar um þjónustuúrræði í boði

i. Upplýsingar um stofnanir sem veita tiltekna þjónustu

j. Upplýsingar frá Greiningarstöð ríkisins

k. Gögn frá heilsugæslu um heilsuvernd barna, yngri og eldri

l. Gögn frá Barnaheillum – skýrslur og rannsóknir

m. Gögn frá UNICEF – skýrslur og rannsóknir

n. Gögn frá umboðsmanni barna – ársskýrslur og annað, m.a. niðurstöður barnaþings.

o. Gögn frá SAMFÉS – frá landsþingi ungmenna o.fl.

p. Gögn frá LUF – Landssambandi ungmennafélaga

q. Gögn frá SÍF – Sambandi íslenskra framhaldsskólanema

r. Rannsóknir úr tómstundafræðum

s. Rannsóknir úr fjölskyldufræðum

t. Rannsóknir úr tengslafræðum

u. Rit og önnur gögn Sigrúnar Aðalbjarnardóttur

v. Könnun SAMAN hópsins - Samverustundir-og-viðhorf-til-áhættuhegðunar.pdf (samanhopurinn.is)

w. Gögn úr ungbarnaeftirliti og mæðravernd

x. Upplýsingar um brotthvarf úr framhaldsskólum

y. Mengunarmælingar Umhverfisstofnunar

z. Aðrar umhverfismælingar sem mælt geta áhrif á líf barna

3) Ábendingar um hópa barna í viðkvæmri stöðu sem er ástæða til að leggja áherslu á, annað hvort með því að draga þá sérstaklega fram í niðurbroti mælinga eða með sérstökum mælingum sem eru sértækar fyrir hópinn.

a. Börn af erlendum uppruna

b. Fötluð börn

c. Langveik börn

d. Börn sem eru eða hafa verið í neyslu

e. Börn sem búa við fátækt eða undir lágtekjumörkum

f. Börn foreldra sem hafa orðið fyrir áföllum

g. Börn sem hafa orðið fyrir áföllum

h. Börn sem aðstandendur veikra

i. Börn sem aðstandendur fatlaðra,

j. Börn sem aðstandendur fíkla

k. Börn sem aðstandendur fanga

l. Börn sem hafa verið á flótta

m. Börn sem hafa orðið fyrir einelti

n. Börn sem ekki eru í skóla eða heimakennslu

o. Börn sem búa á heimilum þar sem töluð eru fleiri en eitt tungumál

p. Börn sem búa á barnmörgum heimilum

Barnaheill hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi og leggja áherslu á vernd barna gegn ofbeldi og á bann við mismunun. Samtökin hvetja til þess að undirbúningur og þróun mælaborðsins verði framsýn og heildstæð frá upphafi og geri ráð fyrir greiðu aðgengi að upplýsingum fyrir börn og fullorðna, fyrir þjónustustofnanir, námsfólk og menntastofnanir svo og alla sem vinna með og fyrir börn.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Öryrkjabandalag Íslands - 02.04.2021

Hér meðfylgjandi er umsögn ÖBÍ um mælaborð um farsæld barna.

Viðhengi