Samráð fyrirhugað 19.03.2021—02.04.2021
Til umsagnar 19.03.2021—02.04.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 02.04.2021
Niðurstöður birtar

Menningarstefna

Mál nr. 82/2021 Birt: 19.03.2021 Síðast uppfært: 08.04.2021
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (19.03.2021–02.04.2021). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðherra undirbýr þingsályktun um menningarstefnu fram til 2030 þar sem fjallað er um fjölbreyttar hliðar lista og menningararfs. Stefnunni er ætlað að nýtast stjórnvöldum og Alþingi við frekari umræðu, stefnumótun á afmörkuðum sviðum og ákvarðanatöku auk þess að vera leiðarljós þeirra aðila sem standa að lista- og menningarstarfi um allt land.

Alþingi samþykkti þingsályktun árið 2013 um menningarstefnu og hefur verið stuðst við hana í störfum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Á þeim árum sem liðin eru frá samþykkt menningarstefnunnar hefur margt breyst í íslensku samfélagi og því var ráðist í að endurnýja stefnuna með þátttöku og aðild fjölmargra aðila í lista- og menningarlífi þjóðarinnar.

Stefnan lýsir, á breiðum grundvelli, aðkomu ríkisins að málefnum lista og menningararfs og tekur mið af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Henni er ætlað að nýtast stjórnvöldum og Alþingi við frekari umræðu, stefnumótun á afmörkuðum sviðum og ákvarðanatöku auk þess að vera leiðarljós þeirra aðila sem standa að lista- og menningarstarfi um allt land.

Drögum að nýrri menningarstefnu er skipt í fimm kafla og undir þeim eru tilgreind átta markmið. Í fyrsta kafla, um aðgang og þátttöku, eru markmiðin að stuðla að jöfnu aðgengi um land allt, fjölbreyttari valkostum fyrir atvinnufólk í listum, fleiri tækifærum til þátttöku í menningarstarfi og ríkara framboði viðburða. Þá er markmið að menningin endurspegli breiðan hóp og þátttaka og aðgengi allra sé tryggð sem best má verða. Annar kafli er fjallar um trausta stöðu í síbreytilegum heimi og sett markmið um að hlúa að innviðum á sviði menningararfs, auka aðgang og vitund þjóðarinnar um menningarverðmæti og menningararf Íslands og marka höfundaréttarstefnu. Þriðji kafli er um menntun, menningu og rannsóknir og markmiðið að fjölga möguleikum nemenda á öllum skólastigum að njóta lista og menningar og efla list- og menningarlæsi. Einnig að skapa vettvang fyrir samtal um rannsóknir á sviði lista og menningar. Fjórði kafli fjallar um menningarstjórnsýslu og sjóðakerfi menningar og markmið sett um að efla það kerfi auk þess að bæta starfsumhverfi sjálfstætt skapandi listamanna. Að lokum er í fimmta kafla vikið að menningu í alþjóðasamhengi og markmiðið að Ísland sé virkur og sýnilegur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi á öllum sviðum menningar og lista sem fari fram bæði erlendis og á Íslandi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Branislav Bédi - 30.03.2021

AÐGANGUR OG ÞÁTTTAKA

• Tungumál heyrir undir menningarstefnu og er partur af menningarlæsi allra sem tala, tákna eða læra það.

MENNTUN, MENNING OG RANNSÓKNIR

• Tungumál er partur af menningarverðmæti þjóðarinnar og þessa þekkingu á að miðla á þverfaglegan hátt í riti, tali, táknmáli og list. Undir þetta fellur kennsla í íslensku sem móðurmál og sem annað mál, menntun tilvonandi kennara og þýðenda, þjálfun sérfræðinga í mismunandi faggreinum eins og t.d. fjölmiðlum og list, og ekki síst rannsóknir.

MENNING Í ALÞJÓÐASAMHENGI

• Tryggja þarf notkun tungumálsins í stafrænum heimi. Það er gert með aðgengi að rafrænum tólum og tækjum sem uppfylla kröfur í nútímasamfélagi. Þessi verkfæri auðvelda skilning á tungumálinu og nútímanotkun þess hjá öllum aldurshópum hér- og erlendis.

Markmið VIII. Sýnileiki og virk þátttaka í alþjóðasamhengi

• Íslenskukennsla erlendis fellur undir íslenska menningu á alþjóðavettvangi. Íslenskukennarar við erlenda háskóla gegna eins konar hlutverki menningarfulltrúa. Þeir aðstoða við þjálfun nýrra þýðenda og koma íslenskum bókmenntum, fornum og nýjum, listum, sögu og íslensku samfélagi á framfæri erlendis. Auk þess vekja þeir áhuga fólks á íslenskri menningu almennt.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Karl Ágúst Úlfsson - 30.03.2021

Ef þessi menningarstefna á að virka verður að fylgja henni framkvæmdaáætlun. Öll markmið hennar eru góð, en engin leið að átta sig á því hvernig eigi að ná þeim. Við hvert markmið fyrir sig vantar því hugmyndir um framkvæmd. Einnig þarf að koma fram hver eða hverjir eigi að bera ábyrgð á framkvæmdinni. Það eru ekki líkur á að nokkuð breytist ef engum er beinlínis falið að vinna að umræddum markmiðum og svara fyrir það hvort eitthvað miði í rétta átt eða hvað uppá vanti. Ábyrgðaraðilar gætu verið stofnanir, miðstöðvar listgreina, hópar listamanna, ráðuneyti osfrv.

Afrita slóð á umsögn

#3 Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum - 31.03.2021

Aðgangur og þátttaka

• Tungumál heyrir undir menningarstefnu og er hluti af menningarlæsi allra sem tala, tákna eða læra það.

Markmið III. Menningarverðmæti, varðveisla og miðlun.

• Kjarnahugtök hefðbundinnar íslenskrar málstefnu eru varðveisla og efling. Íslendingar hafa sett sér það mark að varðveita íslenska tungu og efla hana. Íslensk tunga er ríkur þáttur í sjálfsmynd þeirra sem hana nota en hún gegnir einnig hlutverki þjóðtungu Íslendinga. Íslensk tunga er miklu meira en einfalt tæki til hversdagslegra samskipta; hún á sér langa og samfellda sögu og hana þarf að umgangast í samræmi við þá menningarlegu og sögulegu þýðingu sem hún hefur fyrir þjóðina. Nýsköpun í listum, menningu og fræðastarfi er nátengd þeim arfi sem býr í samfelldri sögu íslensks ritmáls og bókmennta.

Menntun, menning og rannsóknir

• Tungumál er hluti af menningarverðmætum þjóðarinnar og þekkingu á tungumáli á að miðla á þverfaglegan hátt í riti, tali, táknmáli og list. Undir þetta fellur kennsla í íslensku sem móðurmáli og sem öðru máli, menntun tilvonandi kennara og þýðenda, þjálfun sérfræðinga í mismunandi faggreinum eins og t.d. fjölmiðlum og listum, og ekki síst rannsóknir.

Menning í alþjóðasamhengi

• Tryggja þarf notkun tungumálsins í stafrænum heimi. Það er gert með aðgengi að rafrænum tólum og tækjum sem uppfylla kröfur í nútímasamfélagi. Þessi verkfæri auðvelda skilning á tungumálinu og nútímanotkun þess hjá öllum aldurshópum hérlendis og erlendis.

Markmið VIII. Sýnileiki og virk þátttaka í alþjóðasamhengi

• Íslenskukennsla erlendis fellur undir íslenska menningu á alþjóðavettvangi. Íslenskukennarar við erlenda háskóla gegna hlutverki eins konar menningarfulltrúa. Þeir aðstoða við þjálfun nýrra þýðenda og koma íslenskum bókmenntum, fornum og nýjum, listum, sögu og íslensku samfélagi á framfæri erlendis. Auk þess vekja þeir áhuga fólks á íslenskri menningu almennt.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Landssamtökin Þroskahjálp - 31.03.2021

Meðfylgjandi er umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um menningarstefnu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 31.03.2021

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um Menningarstefnu fram til 2030.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir boð um að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.

Samtökin fagna menningarstefnunni eins og hún er fram sett að mestu leyti, en vilja koma eftirfarandi á framfæri:

Í kaflanum um aðgang og þátttöku í menningarlífi fjallar um tiltekna þætti sem þarf að líta til þegar hugað er að því tryggja öllum aðgengi. Eftirfarandi þættir eru nefndir: Búseta, uppruni, félagsleg staða, líkamleg geta, móðurmál, aldur eða annað.

Að mati Barnaheilla er mikilvægt að einnig sé horft til efnahagslegrar stöðu barna og fjölskyldna því að rýr efnahagsleg staða er án vafa ein aðalástæða þess að börnum er mismunað um aðgengi að menningu, tómstundum og listum, eins og þau hafa rétt til að njóta samkvæmt 31. grein Barnasáttmálans.

Barnaheill hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi og leggja áherslu á vernd barna gegn mismunun og rétt þeirra til þátttöku.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Arkitektafélag Íslands - 31.03.2021

Arkitektafélag Íslands (AÍ) fagnar áhuga stjórnvalda á að koma á laggirnar Menningarstefnu Íslands en gerir athugasemd við drög að stefnunni sem nú eru aðgengileg í samráðsgátt stjórnvalda.

Í inngangi stefnunnar stendur eftirfarandi:

Stefnu þessari er ætlað að móta grundvöll lista- og menningarlífs í landinu næsta áratug og tryggja að það þrífist og dafni með sameiginlega hagsmuna þjóðarinnar og þátttöku hennar að leiðarljósi.

Síðan eru talin upp fimm meginmarkmið stefnunnar. Vandamálið hér er að hvergi er lista-og menningarlíf í landinu skilgreint frekar. Stefnan er mótuð á grundvelli lista- og menningarlífs en þá spyrjum við: Hvað eru listir og menning? Hvar flokkast arkitektúr og hönnun í menningarstefnu stjórnvalda 2021-2030? Flokkast þau sem list? Ef svo er, af hverju er arkitektúr og hönnun þá ekki að finna á Listasafni Íslands eða það sem betra væri í Byggingarlistasafni Íslands?

Í tungumálinu eru listir engan veginn gegnsætt orð, en skilgreining á listum er einnig háð menningu og pólitík hvers tíma. Til þess að stefnan nái að þjóna þeim tilgangi sem hún á að þjóna er gríðarlega mikilvægt að byrja á grunninum og skilgreina vel hvað fellur undir ramma lista og menningar í íslensku samfélagi á okkar tímum. Arkitektúr er þverfagleg starfsgrein sem tekur á mörgum ólíkum þáttum eins og umhverfismálum, lýðheilsu, menningu, fagufræði, fjármálum og svo má áfram telja. Arkitektafélag Íslands veit að arkitektúr og öll hönnun á heima í Menningarstefnu Íslands og því leggjum við til að þessar stóru og mikilvægu starfsgreinar séu skilgreindar inn í stefnuna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Kári Kárason Þormar - 01.04.2021

Kópavogur 25.mars 2021

Umsögn um menningarstefnu Mennta og menningarmálaráðuneytisins

Það er mikið fagnaðarefni að fá nýja menningarstefnu. Þar er allt gott að finna, markmiðin eru skýr og komið er inn á atriði sem mig langar að ýja betur að. Það snertir listkennslu í skólum, sérstaklega framhaldsskólum.

Ég er sjálfur tónlistarmaður og starfa sem organisti við Dómkirkjuna. Ég hef í gegnum tíðina starfað við listir og menningarmál. Ég starfaði m.a. við Kirkju og menningarmiðstöðina í Fjarðabyggð, sem var einskonar miðstöð tónlistar á austurlandi og rekin fyrir fé frá ríki og sveitarfélagi. Þar starfaði ég mikið með kórum á svæðinu sem kórstjóri og leiðandi aðili í menningarstefnu. Í gegnum þetta starf opnuðust augu mín fyrir mikilvægi menningarþáttöku á framhaldsskólaárum. Ég var sjálfur meðlimur í kór í Flensborgarskólans í Hafnarfirði. Það var tími og reynsla sem ég hefði alls ekki viljað missa af og hafði mikil og mótandi áhrif á það hvað ég geri í dag.

Á Austurlandi eru einmitt nokkrir af mínum gömlu menntaskólafélögum búsettir og urðu þar góðir endurfundir við gamla kórfélaga úr Flensborg. Þessir gömlu félagar mínir eru allir virkir þáttakendur í kórum á Austurlandi og starfa að félagsmálum, leikfélögum eða hvers kyns menningarstarfssemi. Þetta leiðir hugann að mikilvægi kórastarfs í menntaskólum. Góður hluti þeirra sem hafa verið í menntaskólakórum halda áfram í öðrum blönduðum kórum, kirkjukórum, karla eða kvennakórum, kammerkórum og halda áfram um árabil að auðga menningarlíf okkar. Allflestir okkar frábæru söngvara hafa byrjað í menntskólakór og fengið áhuga þar á frekara söngnámi. Ber þar að nefna Kristinn Sigmundsson, Ólaf Kjartan Sigurðarson og Hallveigu Rúnarsdóttur sem öll voru í Hamrahlíðakórnum. Má einnig nefna Hafsteinn Þórólfsson og Hreiðar Ingi Þorsteinsson tónskáld, sá síðarnefndi stjórnar nú Kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Hafsteinn og Hreiðar Ingi byrjuðu í Menntaskólakór á Laugarvatni á sínum tíma. Svona má lengi telja.

Sjálfur stjórnaði ég Kór Menntaskólans við Reykjavík í nokkur ár. Mikið af fyrrverandi kórfélögum úr þeim kór hafa haldið áfram að syngja í kór, þar má nefna Háskólakórinn, Mótettukór Hallgrímskirkju og hjá mér í Dómkórnum.

Almennt er talið að fólk sem alist hefur upp í kórstarfi í framhaldsskóla og heldur síðan áfram að syngja með kór, verður undir sterkum áhrifum þeirrar samkenndar og eflingar andans sem slíkt starf laðar fram. Þar verða því til listunnendur og listneytendur í breiðum skilningi. Því hlýtur maður að álykta það að ef ein listgrein getur alið af sér þennan hóp er nýtur menningar í miklum mæli, hvað þá með aðrar greinar eins og myndlist, leiklist, dans, kvikmyndagerð og margt fleira.

Ég myndi því vilja sjá í þessari menningarstefnu tillögu menningartengt /listtengt skyldufag í framhaldsskólakerfinu á Íslandi. Það gæti verið í 2 annir eða lengur. Ef nemandi finnur sína hillu í faginu, þá eru miklar líkur á að hann haldi áfram það sem eftir er námsins, eins og hefur sýnt sig í kórastarfi skólanna. Þar kemur einnig inn félagslegi þátturinn sem gerir það að verkum fólk tengist kórsöng alla ævi og það á örugglega við allar aðrar listgreinar. Rannsóknir hafa sýnt að slík listiðkun hafi mótandi áhrif á ungar manneskjur, ekki síst hvað varðar valdeflandi þátt þeirrar tengingar er snýr að öðru bóklegu námi. (Ken Robinson).

Ef þetta næði fram að ganga, þá má búast við eftirfarandi áhrifum:

• Meiri almennur áhugi á listum

• Meiri þátttaka almennings á listviðburðum

• Menningarviðburðir verða sjálfbærari

• Fleiri stöður innan skólakerfisins fyrir listkennara.

Ef við fáum fleira menningamiðaðra fólk í stöður fjársterkra fyrirtækja framtíðarinnar, þá er meiri líkur á að þau fyrirtæki sýni vilja og stefnumótun í átt að ríkulegri stuðningi við menningargeirann.

Ísland gæti með þessu móti orðið fyrsta landið í heiminum, þar sem þetta yrði gert að skyldufagi. Við erum lítið samfélag og framkvæmdin gæti orðið farvegur aukins alþjóðlegs samstarfs, bæði hvað varðar menningu og menntun.

Það er sárt að horfast í augu við að íslendingar, þessi mikla menningarþjóð með alla þá fjölmörgu listamenn sem bera hróður okkar út fyrir landsteinanna, skortir þetta innan skólakerfisins.

Hér hef ég einungis nefnt framhaldskólastigið en auðvitað má útfæra þetta einnig á grunnskólastigið.

Í öllum skólum landsins er skylda að vera í íþróttum, sem er algerlega frábært og okkur öllum finnst það alveg sjálfsagt. Því ekki sama um menninguna? Væri árangur okkar á íþróttasviðinu svona frábær ef við hefðum ekki skólaskyldu í íþróttum?

Kári Þormar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Hönnunarmiðstöð Íslands ehf. - 02.04.2021

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs fagnar að stjórnvöld vinni að nýrri menningarstefnu til næstu tíu ára og vonar að stefnunni muni fylgja vel skilgreindar aðgerðir og fé.

Gerðar eru þrjár athugasemdir við drög að nýrri menningarstefnu í Samráðsgátt stjórnvalda. Skjalið er nokkuð almennt og ágætt sem slíkt, en erfitt er að átta sig á áherslum, umfangi og forgangsröðun.

1. Til þess að stefnan sé skýr og nái að þjóna tilgangi sínum þarf að fylgja skilgreining á því hvað fellur innan ramma lista og menningar í íslensku samfélagi.

2. Hönnun og arkitektúr eru þverfaglegar starfsgreinar sem snúa að ólíkum þáttum; listum, menningu, fagurfræði, umhverfismálum, lýðheilsu, atvinnu- og efnhagslífi. Arkitektúr og hönnun eru stórar og mikilvægar starfsgreinar sem eiga heima í Menningarstefnu Íslands og því brýnt að þær séu skilgreindar sem hluti hennar. Engum fulltrúa hönnunar né arkitektúrs var boðið í vinnu við mótun stefnunnar.

3. Stefnunni fylgja ekki skilgreindar aðgerðir, fjármagn né forgagnsröðun og því erfitt að átta sig á því hvernig hún getur verið tæki til breytinga, hverju henni er ætlað að koma til leiðar og hvernig.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Tónskáldafélag Íslands - 02.04.2021

Stjórn Tónskáldafélags Íslands hefur kynnt sér núverandi drög að þingsályktun um menningarstefnu Íslands og gerir við þau eftirfarandi athugasemdir:

Kafli 1. Aðgangur og þátttaka

Gerð er athugasemd við að hér sé notað hugtakið aðgangur. Betur færi á að segja aðgengi, sem er viðurkennt hugtak í þessu samhengi t.d. í fötlunarfræðum.

Markmið II Fjölbreytt og opið menningarlíf

Hér er lögð áhersla á sýnileika mismunandi þjóðarbrota í menningu og listum og síðan rætt um aðgengi allra. Hér mætti líka fjalla um sýnileika annarra jaðarsettra hópa s.s. fatlaðra, hinsegin fólks o.fl. Setninguna mætti orða á þann hátt að hún nái til fleiri hópa.

Markmið V Endurskoðun starfslaunakerfis og starfsumhverfis

Hér mætti víkka og stækka kaflann eilítið til að ná líka utan um listir sem atvinnugrein. Það mætti hefja kaflann á svofelldum orðum: Listir eru mikilvæg atvinnugrein sem stuðlar að velferð, gjaldeyristekjum og kynningu á Íslandi. Mikilvægt er að tryggja að listamenn fái sanngjörn laun fyrir vinnu sína, bæði á sjálfstæðum vettvangi og innan menningarstofnana.

Stjórn TÍ minnir að lokum á að til þess að menningarstefna öðlist merkingu, festist í sessi og verði virkjuð er nauðsynlegt að henni fylgi aðgerðaráætlun þar sem nákvæmlega er útfært bæði hvernig og hvenær þau stefnumál sem í henni eru skuli framkvæmd.

Afrita slóð á umsögn

#10 Erling Jóhannesson - 02.04.2021

Meðfylgjandi er umsögn Bandalags íslenskra listamanna

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Stjórn Félags leikstjóra á Íslandi - 06.04.2021

Umsögn FLÍ

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Félag íslenskra leikara og sviðslistafólks - 08.04.2021

Umsögn félags íslenskra leikara og sviðslistafólks

Viðhengi