Samráð fyrirhugað 23.03.2021—09.04.2021
Til umsagnar 23.03.2021—09.04.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 09.04.2021
Niðurstöður birtar

Reglur um viðurkenningu sameiginlegra umsýslustofnana í höfundalögum nr. 73/1972 með síðari breytingum

Mál nr. 84/2021 Birt: 23.03.2021 Síðast uppfært: 06.04.2021
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (23.03.2021–09.04.2021). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Samkvæmt 4. mgr. 26. gr. höfundalaga nr. 73/1972 skal ráðherra setja reglur um málsmeðferð vegna viðurkenningu rétthafasamtaka til umsýslu samningskvaða samninga og annarra viðurkenninga ráðherra vegna umsýslu höfundaréttar.

Rétthafasamtök á sviði höfundaréttar starfa almennt á grundvelli umboða félagsmanna sinna og þurfa ekki viðurkenningu til að sjá um slíka sameiginlega umsýslu höfundaréttar, hvorki samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972 (höfundalögin) né lögum um sameiginlega umsýslu höfundarréttar nr. 88/2019 (umsýslulögin). Hins vegar er ákveðin sameiginleg umsýsla rétthafasamtaka á sviði höfundaréttar háð viðurkenningum skv. höfundalögum. Ber þar hæst viðurkenningu vegna umsýslu samningskvaða, sbr. 4. mgr. 26. gr. a höfundalaga.

Með samningskvöð er átt við það að ákveðið er með lögum að notendum verka, sem varin eru af höfundarétti og sem gert hafa samning við samtök rétthafa um notkun á verkum félagsmanna eða aðildarfélaga þeirra, skuli einnig vera heimilt að nýta verk höfunda sem standa utan samtakanna enda séu verkin sömu tegundar og verk sem samningurinn tekur til og notkunin að öðru leyti háð ákvæðum samningsins. Samningskvöð í höfundalögum skiptist í sérstakar samningskvaðir, sjá 12. gr. b um heimild safna til að gera eintök af verkum í safni sínu og að gera þau aðgengileg almenningi; 3. mgr. 14. gr. um heimild til að endurbirta listaverk í fræðsluskyni, vegna vísindalegrar umfjöllunar eða gagnrýni í fjárhagslegum tilgangi; 1. mgr. 18. gr. um fjölföldun verka í menntastofnunum og í fyrirtækjum; 4. mgr. 19. gr. um mynd- eða hljóðupptöku af hljóðvarpi og sjónvarpi í þágu einstaklinga sem eiga við fötlun að stríða, 1. mgr. 23. gr. um notkun útvarpsstöðva á útgefnum verkum, 23. gr. a um endurvarp verka sem er útvarpað í gegnum kapalkerfi og 1. mgr. 23. gr. b um endurmiðlun eigin framleiðslu útvarpsstöðva sem framleitt er fyrir 2016, sbr. 1. mgr. 26. gr. a, og almenna samningskvöð. Almenn samningskvöð felur í sér að notendur geta samið við umsýslustofnanir sem til þess eru bærar um að samningur um vel afmarkað og skilgreint svið feli í sér samningskvöð. Skilyrði þess eru m.a. að umsamin not væru ekki möguleg án slíkrar samningskvaða, sjá ákvæði 2. mgr. 26. gr. a höfundalaga.

Önnur umsýsla rétthafasamtaka á sviði höfundaréttar sem krefst viðurkenningar eru eftirfarandi: vegna bóta vegna eintakagerðar til einkanota, sbr. 4. mgr. 11. gr.; vegna fylgiréttargjalds, sbr. 5. mgr. 25. gr. b; vegna endurgjalds fyrir not hljóðrita 2. mgr. 47. gr. og vegna endurgjalds viðbótarþóknunar vegna listflutnings á hljóðritum 3. mgr. 47. gr. b.

Skylda til viðurkenningar rétthafasamtaka sem sýsla með samningskvaðaheimildir voru í eldri gerð höfundalaga en ákvæði þar að lútandi voru mjög brotakennd og ólík. Þessu var breytt með lögum nr. 9/2016 sem samræmdu skilyrðin og kváðu á um að ráðherra skyldi setja nánari reglur um málsmeðferð viðurkenninga slíkra rétthafasamtaka.

Meðfylgjandi drög hafa verið unnin að norrænum fyrirmyndum og í samvinnu við höfundaréttarnefnd. Ætlunin er að reglurnar nái til allra viðurkenninga skv. höfundalögum. Jafnframt er í drögunum gegnið útfrá þeirri staðreynd að þau rétthafasamtök sem uppfylla skilyrði um viðurkenningu teljast sameiginlegar umsýslustofnanir höfundaréttar í skilningi laga nr. 88/2019 um sameiginlega umsýslu höfundaréttar

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 STEF - 06.04.2021

Efni: Umsögn STEFs um drög að reglum um viðurkenningu sameiginlegra umsýslustofnana í höfundalögum nr. 73/1972 með síðari breytingum.

Að mati STEFs hefur verið full þörf á að skýra nánar en gert er í höfundalögunum framkvæmd við viðurkenningu sameiginlegra umsýslustofnana vegna umsýslu samningskvaða og þá sérstaklega þau skilyrði sem sameiginlegar umsýslustofnanir þurfa að uppfylla til að geta fengið slíka viðurkenningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Reglur þær sem nú eru birtar í samráðsgátt stjórnarráðsins hafa verið unnar í góðu samráði með STEFi og öðrum höfundaréttarsamtökum á vettvangi höfundaréttarnefndar og hefur STEF því engar efnislegar athugasemdir við þær.

F.h. STEFs

Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkv.stj.

Afrita slóð á umsögn

#2 S.F.H.,Samb flytj/hljómplframl - 09.04.2021

Efni: Umsögn SFH um drög að reglum um viðurkenningu sameiginlegra umsýslustofnana í höfundalögum nr. 73/1972 með síðari breytingum.

Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda (SFH) hefur verið með efni ofangreindra draga til skoðunar og telur tvímælalaust til bóta að slíkar reglur verði settar, enda munu þær styrkja alla framkvæmd hvað áhrærir umsóknir sameiginlegra umsýslustofnana varðandi viðurkenningu ráðuneytisins.

Tekið skal fram að undirbúningur framangreindar reglna hefur verið vandaður og hafa bæði höfundaréttarsamtök og samtök á sviði grannréttinda getað tekið þar þátt.

F.h. Sambanda flytjenda og hljómplöturframleiðenda

Gunnar Guðmundsson, framkv.stj.