Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 23.3.–5.4.2021

2

Í vinnslu

  • 6.4.–28.11.2021

3

Samráði lokið

  • 29.11.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-85/2021

Birt: 23.3.2021

Fjöldi umsagna: 4

Drög að reglugerð

Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkrahúsþjónusta

Drög að reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi.

Niðurstöður

Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 467/2015 var birt á vef Stjórnartíðinda 14. apríl 2021 og hlaut þegar gildi. Með breytingunni var skilyrðum fyrir almennu lækningaleyfi breytt þannig ekki væri lengur gerð krafa um 12 mánaða starfsþjálfun (kandídatsár).

Málsefni

Lagðar eru til breytingar á skilyrðum fyrir veitingu almenns lækningaleyfis. Krafa um kandídatsár verði felld brott en 12 mánaða starfsnám verði skylda í upphafi sérnáms, svokallaður sérnámsgrunnur.

Nánari upplýsingar

Drögin stafa frá vinnuhóp sem ráðherra skipaði um breytingu á reglugerð nr. 467/2015. Vinnuhópnum var falið að endurskoða og skilgreina nánar umgjörð og stjórnskipulag framhaldsnáms í læknisfræði hér á landi með heilbrigðisstefnu til ársins 2030 til hliðsjónar. Sú vinna hópsins stendur enn yfir en hér eru aðeins lagðar til breytingar sem varða breytt skilyrði fyrir veitingu almenns lækningaleyfis

Lagt er til að almennt lækningaleyfi verði veitt að loknu 6 ára læknanámi við Háskóla Íslands (cand. med.) og að í staðinn fyrir kandídatsár, sem hefur hingað til verið skilyrði fyrir almennu lækningaleyfi, verði 12 mánaða starfsþjálfun bætt við í upphafi sérnáms, svokallaður sérnámsgrunnur. Sérnámsgrunnur verði hluti af sérnámi. Í bráðabirgðaákvæði er gert ráð fyrir að þau sem lokið hafa kandídatsári muni teljast hafa lokið sérnámsgrunni.

Ekki eru lagðar til breytingar á þeim nefndum sem ráðherra hefur skipað á grundvelli reglugerðarinnar, að öðru leyti en því að nefndin sem hefur hingað til skipulagt kandídatsárið skuli framvegis skipuleggja sérnámsgrunn og nefnd skv. 15. gr. reglugerðarinnar skuli staðfesta marklýsingu og viðurkenna kennslustöðvar fyrir sérnámsgrunn í stað kandídatsárs.

Breytingum þessum er ætlað að tryggja að sérnámslæknar frá Háskóla Íslands séu ekki lakar settir en sérnámslæknar frá öðrum ríkjum. Æ fleiri ríki bætast hóp þeirra sem hafa starfsþjálfun sem hluta af sérnámi en ekki grunnnámi lækna. Nýlega bættist Noregur við og Svíþjóð mun einnig bætast í hópinn frá 1. júlí n.k. Í ljósi þess að flestir læknar frá Háskóla Íslands sækja sér sérfræðimenntun til Svíþjóðar standa vonir vinnuhópsins til þess að þær breytingar sem hér eru lagðar til öðlist gildi innan EES-svæðisins fyrir 1. júlí 2021.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa innviða heilbrigðisþjónustu

hrn@hrn.is