Samráð fyrirhugað 23.03.2021—05.04.2021
Til umsagnar 23.03.2021—05.04.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 05.04.2021
Niðurstöður birtar 29.11.2021

Drög að reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi.

Mál nr. 85/2021 Birt: 23.03.2021 Síðast uppfært: 29.11.2021
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Sjúkrahúsþjónusta
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Niðurstöður birtar

Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 467/2015 var birt á vef Stjórnartíðinda 14. apríl 2021 og hlaut þegar gildi. Með breytingunni var skilyrðum fyrir almennu lækningaleyfi breytt þannig ekki væri lengur gerð krafa um 12 mánaða starfsþjálfun (kandídatsár).

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 23.03.2021–05.04.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 29.11.2021.

Málsefni

Lagðar eru til breytingar á skilyrðum fyrir veitingu almenns lækningaleyfis. Krafa um kandídatsár verði felld brott en 12 mánaða starfsnám verði skylda í upphafi sérnáms, svokallaður sérnámsgrunnur.

Drögin stafa frá vinnuhóp sem ráðherra skipaði um breytingu á reglugerð nr. 467/2015. Vinnuhópnum var falið að endurskoða og skilgreina nánar umgjörð og stjórnskipulag framhaldsnáms í læknisfræði hér á landi með heilbrigðisstefnu til ársins 2030 til hliðsjónar. Sú vinna hópsins stendur enn yfir en hér eru aðeins lagðar til breytingar sem varða breytt skilyrði fyrir veitingu almenns lækningaleyfis

Lagt er til að almennt lækningaleyfi verði veitt að loknu 6 ára læknanámi við Háskóla Íslands (cand. med.) og að í staðinn fyrir kandídatsár, sem hefur hingað til verið skilyrði fyrir almennu lækningaleyfi, verði 12 mánaða starfsþjálfun bætt við í upphafi sérnáms, svokallaður sérnámsgrunnur. Sérnámsgrunnur verði hluti af sérnámi. Í bráðabirgðaákvæði er gert ráð fyrir að þau sem lokið hafa kandídatsári muni teljast hafa lokið sérnámsgrunni.

Ekki eru lagðar til breytingar á þeim nefndum sem ráðherra hefur skipað á grundvelli reglugerðarinnar, að öðru leyti en því að nefndin sem hefur hingað til skipulagt kandídatsárið skuli framvegis skipuleggja sérnámsgrunn og nefnd skv. 15. gr. reglugerðarinnar skuli staðfesta marklýsingu og viðurkenna kennslustöðvar fyrir sérnámsgrunn í stað kandídatsárs.

Breytingum þessum er ætlað að tryggja að sérnámslæknar frá Háskóla Íslands séu ekki lakar settir en sérnámslæknar frá öðrum ríkjum. Æ fleiri ríki bætast hóp þeirra sem hafa starfsþjálfun sem hluta af sérnámi en ekki grunnnámi lækna. Nýlega bættist Noregur við og Svíþjóð mun einnig bætast í hópinn frá 1. júlí n.k. Í ljósi þess að flestir læknar frá Háskóla Íslands sækja sér sérfræðimenntun til Svíþjóðar standa vonir vinnuhópsins til þess að þær breytingar sem hér eru lagðar til öðlist gildi innan EES-svæðisins fyrir 1. júlí 2021.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Daníel Kristinn Hilmarsson - 25.03.2021

Ein spurning varðandi okkur sem erum þegar útskrifuð, erum á kandídatsári en munum ekki klára í júní. Ef núverandi 6. ár nær að fá fullgilt lækningaleyfi í vor, er þá ekki líka hægt að breyta okkar tímabundnu lækninga leyfum í fullgild í vor á sama tíma? Annars myndast ósamræmi þar sem unglæknar útskrifaðir á eftir okkur fá fullgilt lækningaleyfi á undan okkur og þar með lengri starfsaldur og í betri stöðu v að varðar sérnám á Norðurlöndunum.

Enda erum við með sama nám að baki (það hefur ekkert breyst) og gæti þetta breytt stöðunni fyrir okkur þannig að við náum að taka kannski 2-4 (eða eins og í mínu tilviki 8) mánuði af kandídatsári með fullgilt lækningaleyfi og þannig mögulega í betri stöðu hvað varðar áframhaldandi sérnám í Noregi og Svíþjóð.

Afrita slóð á umsögn

#2 Engilbert Sigurðsson - 26.03.2021

Sem forseti læknadeildar Háskóla Íslands vill undirritaður að það komi fram að tveir akademískir starfsmenn læknadeildar áttu sæti í hópnum sem vann þessar tillögur (Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir dósent og kennslustjóri) og Runólfur Pálsson prófessor (á sæti í kennsluráði og deildarráði læknadeildar). Að auki var undirritaður boðaður á einn fund með hópnum og lögfræðingum í heilbrigðisráðuneytinu til að fara yfir málið. Tillögurnar eru því unnar í góðu samráði við læknadeild.

Engilbert Sigurðsson prófessor og forseti læknadeildar

Afrita slóð á umsögn

#3 Berglind Bergmann Sverrisdóttir - 05.04.2021

Ég sendi umsögn þessa í viðhengi sem formaður Félags almennra lækna (FAL). Ég hafði í hug að senda umsögnina fyrir hönd FAL en þar sem íslykillinn skilaði sér ekki í heimabanka FAL um páskana, og þar af leiðandi var ekki hægt að veita mér umboð, sendi ég hana undir mínu nafni.

Afrita slóð á umsögn

#4 Teitur Ari Theodórsson - 05.04.2021

Stjórn Félags læknanema fagnar hversu hratt og vel unnið var að þessari reglugerðarbreytingu.

Það er brýnt að efla sérnám á Íslandi en jafnframt er mikilvægt að íslenskir læknar haldi áfram að sækja sér menntun út fyrir landsteinana. Til þess þarf að standa vörð um samkeppnishæfni lækna menntaðra á Íslandi en einnig leitast við að ryðja hindrunum úr vegi íslenskra lækna sem halda út í sérnám.

Reglugerðarbreytingin gerir atlögu að hvoru tveggja. Hún tryggir að læknar menntaðir á Íslandi standi jafnfætis læknum erlendis, sem hljóta lækningaleyfi við útskrift, til dæmis hvað varðar umsóknir til sérnáms. Að auki greiðir hún veg lækna sem halda til Norðurlanda í sérnám þar sem menntun þeirra og þjálfun verður metin með nýju reglugerðinni. Meirihluti íslenskra lækna sækir sitt sérnám til Norðurlandanna og því er ljóst að hér eru miklir hagsmunir í húfi.

Læknanemar við Háskóla Íslands hljóta mikla klíníska þjálfun og koma vel út í alþjóðlegum samanburði. Við teljum að hæfni þessara nema sé að minnsta kosti til jafns við aðra læknanema í Evrópu og í því ljósi standa íslenskir læknanemar vel undir þeirri ábyrgð sem veitingu lækningaleyfis við útskrift fylgir.

Reykjavík, 5. apríl 2021

____________________________________________

Teitur Ari Theodórsson

Formaður Félags læknanema

Viðhengi