Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 31.3.–28.4.2021

2

Í vinnslu

  • 29.4.–15.9.2021

3

Samráði lokið

  • 16.9.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-92/2021

Birt: 31.3.2021

Fjöldi umsagna: 8

Drög að frumvarpi til laga

Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og fjarskiptamál

Frumvarp til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá

Niðurstöður

Frumvarpið var ekki lagt fram á Alþingi á 151. löggjafarþingi 2021.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá. Því er ætlað að stuðla að skráningu kaupskipa á Íslandi. Samhliða frumvarpi þessu er fyrirhugað að frumvarp til laga um skattlagningu kaupskipa verði lagt fram.

Nánari upplýsingar

Með lögum um íslenska alþjóðlega skipaskrá, nr. 38/2007, var slíkri skipaskrá komið á fót hér á landi (IIS). Er hún aðgreind frá hinni almennu skipaskrá sem um gilda lög um skráningu skipa, nr. 115/1985. Íslenska alþjóðlega skipaskráin er sérstaklega ætluð kaupskipum og var tilgangurinn með lögunum að bregðast við aukinni alþjóðlegri samkeppni um skráningar kaupskipa en frá árinu 2004 hefur ekkert slíkt skip verið skráð hér á landi. Talið er mikilvægt að hér á landi séu kaupskip sem sigli undir íslenskum fána og falli undir íslensk lög til að tryggja vöruflutninga ef upp kæmi ófriðarástand. Þá er það mikilvægt til að viðhalda eftirspurn eftir skipstjórnarmönnum, siglingaþekkingu og reynslu hér á landi.

Samhliða voru sett lög um skattlagningu kaupskipaútgerðar, nr. 86/2007. Fólu þau í sér ákveðið skattalegt hagræði af því að skrá skip á íslensku alþjóðlega skipaskrána. Þessi lagasetning skilaði hins vegar ekki tilætluðum árangri. Í fyrsta lagi voru lög um skattlagningu kaupskipaútgerða, nr. 86/2007, talin fela í sér ólögmæta ríkisaðstoð í skilningi EES-réttar og síðar felld úr gildi. Í öðru lagi hafa lög um íslenska alþjóðlega skipaskrá, nr. 38/2007, ekki að geyma ákvæði þess efnis að um kjör skipverja mætti fara eftir kjarasamningum lögheimilislanda þeirra. Frá gildistöku laganna 1. janúar 2008 hafa því engin kaupskip verið skráð hér á landi.

Með frumvarpi þessu er gerð tillaga að nýjum lögum um alþjóðlega íslenska skipaskrá sem koma myndu í stað gildandi laga nr. 38/2007. Er fyrirhugað að fjármála- og efnahagsráðherra muni samhliða frumvarpi þessu mæla fyrir um nýtt frumvarp til laga um skattlagningu kaupskipaútgerða. Frumvarpið byggir að meginstefnu til á gildandi lögum en bætir jafnframt við nýjum ákvæðum sem talin eru nauðsynleg til að lögin nái því tilætlaða markmiði að stuðla að skráningu kaupskipa á Íslandi. Ber þar helst að nefna ákvæði þess efnis að um kjör skipverja í áhöfn kaupskips fari eftir þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið við stéttarfélög viðkomandi ríkja þar sem skipverji á lögheimili. Sá fyrirvari er þó gerður að kjör og réttindi skipverja séu aldrei lakari en þau sem mælt er fyrir um í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um vinnuskilyrði farmanna frá árinu 2006 (Maritime Labour Convention (MLC) 2006) og Alþjóðaflutningaverkamannasambandið (ITF) miðar við á hverjum tíma. Hér er um sambærilegt ákvæði að ræða og gildir í nágrannaríkjum Íslands. Þannig er t.d. í Noregi starfrækt alþjóðleg skipaskrá (Norsk Internasjonalt Skipsregister, NIS) og samkvæmt þarlendum reglum er heimilt að greiða erlendum áhafnarmeðlimum laun samkvæmt kjarasamningum í heimalandi þeirra. Ljóst er að ef ætlunin er að fá kaupskip skráð á íslenska alþjóðlega skipaskrá er nauðsynlegt að lög hafi að geyma sambærileg ákvæði. Að öðrum kosti mun hún ekki vera raunhæfur kostur í augum skipafélaga.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa samgangna

srn@srn.is