Samráð fyrirhugað 31.03.2021—28.04.2021
Til umsagnar 31.03.2021—28.04.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 28.04.2021
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá

Mál nr. 92/2021 Birt: 31.03.2021 Síðast uppfært: 20.04.2021
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (31.03.2021–28.04.2021). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá. Því er ætlað að stuðla að skráningu kaupskipa á Íslandi. Samhliða frumvarpi þessu er fyrirhugað að frumvarp til laga um skattlagningu kaupskipa verði lagt fram.

Með lögum um íslenska alþjóðlega skipaskrá, nr. 38/2007, var slíkri skipaskrá komið á fót hér á landi (IIS). Er hún aðgreind frá hinni almennu skipaskrá sem um gilda lög um skráningu skipa, nr. 115/1985. Íslenska alþjóðlega skipaskráin er sérstaklega ætluð kaupskipum og var tilgangurinn með lögunum að bregðast við aukinni alþjóðlegri samkeppni um skráningar kaupskipa en frá árinu 2004 hefur ekkert slíkt skip verið skráð hér á landi. Talið er mikilvægt að hér á landi séu kaupskip sem sigli undir íslenskum fána og falli undir íslensk lög til að tryggja vöruflutninga ef upp kæmi ófriðarástand. Þá er það mikilvægt til að viðhalda eftirspurn eftir skipstjórnarmönnum, siglingaþekkingu og reynslu hér á landi.

Samhliða voru sett lög um skattlagningu kaupskipaútgerðar, nr. 86/2007. Fólu þau í sér ákveðið skattalegt hagræði af því að skrá skip á íslensku alþjóðlega skipaskrána. Þessi lagasetning skilaði hins vegar ekki tilætluðum árangri. Í fyrsta lagi voru lög um skattlagningu kaupskipaútgerða, nr. 86/2007, talin fela í sér ólögmæta ríkisaðstoð í skilningi EES-réttar og síðar felld úr gildi. Í öðru lagi hafa lög um íslenska alþjóðlega skipaskrá, nr. 38/2007, ekki að geyma ákvæði þess efnis að um kjör skipverja mætti fara eftir kjarasamningum lögheimilislanda þeirra. Frá gildistöku laganna 1. janúar 2008 hafa því engin kaupskip verið skráð hér á landi.

Með frumvarpi þessu er gerð tillaga að nýjum lögum um alþjóðlega íslenska skipaskrá sem koma myndu í stað gildandi laga nr. 38/2007. Er fyrirhugað að fjármála- og efnahagsráðherra muni samhliða frumvarpi þessu mæla fyrir um nýtt frumvarp til laga um skattlagningu kaupskipaútgerða. Frumvarpið byggir að meginstefnu til á gildandi lögum en bætir jafnframt við nýjum ákvæðum sem talin eru nauðsynleg til að lögin nái því tilætlaða markmiði að stuðla að skráningu kaupskipa á Íslandi. Ber þar helst að nefna ákvæði þess efnis að um kjör skipverja í áhöfn kaupskips fari eftir þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið við stéttarfélög viðkomandi ríkja þar sem skipverji á lögheimili. Sá fyrirvari er þó gerður að kjör og réttindi skipverja séu aldrei lakari en þau sem mælt er fyrir um í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um vinnuskilyrði farmanna frá árinu 2006 (Maritime Labour Convention (MLC) 2006) og Alþjóðaflutningaverkamannasambandið (ITF) miðar við á hverjum tíma. Hér er um sambærilegt ákvæði að ræða og gildir í nágrannaríkjum Íslands. Þannig er t.d. í Noregi starfrækt alþjóðleg skipaskrá (Norsk Internasjonalt Skipsregister, NIS) og samkvæmt þarlendum reglum er heimilt að greiða erlendum áhafnarmeðlimum laun samkvæmt kjarasamningum í heimalandi þeirra. Ljóst er að ef ætlunin er að fá kaupskip skráð á íslenska alþjóðlega skipaskrá er nauðsynlegt að lög hafi að geyma sambærileg ákvæði. Að öðrum kosti mun hún ekki vera raunhæfur kostur í augum skipafélaga.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Alþýðusamband Íslands - 19.04.2021

Alþýðusamband Íslands tekur ekki að svo stöddu afstöðu til þess hvort eða hvernig skattlagningu alþjóðlegrar íslenskrar skipaskrár verður háttað en leggst af miklum þunga gegn þeim áformum að svipta íslensk stéttafélög samningsrétti og mæla fyrir um að kjör áhafna á íslenskum farskipum ráðist af lögheimili þeirra skv. reglum sem ætlað er að koma í veg fyrir þrælahald og mannsal.

Í greinargerð frumvarpsins sem nú hefur verð kynnt eru alvarlegar og villandi staðhæfingar eins og hér verður rakið.

Í upphafi er vakin athygli á því, að í 4. kafla greinargerðar með frumvarpsdrögunum er fjallað um „Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar“. Þar er fullyrt í lokamálsgrein kaflans að það sé „mat ráðuneytisins að frumvarp þetta sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.“ Eins og leitast verður við að rökstyðja hér á eftir þá er þetta mat rangt og umfjöllunin villandi. Frumvarpið er andstætt 74. og 65.gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins, 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. l. 62/1994, 8.gr. Alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sbr. auglýsingu nr. 10/1979, 22.gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sbr. auglýsingu nr. 10/1979, 19.gr. b. lið 4.tl. Félagsmálasáttmála Evrópu sbr. auglýsingu nr. 3/1976 og ákvæðum Samþykktar ILO um vinnuskilyrði farmanna frá 2006 sem fullgilt var hér á landi 4. apríl 2019.

Í kaflanum um meginefni frumvarpsins segir m.a.: „Í 12. gr. er gerð tillaga um ákvæði þess efnis að um kjör skipverja í áhöfn kaupskips fari eftir þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið við stéttarfélög viðkomandi ríkja þar sem skipverji á lögheimili. Líkt og rakið hefur verið í 2. kafla greinargerðarinnar er talið að staða skráninga muni ekki breytast nema ákvæði af þessu tagi verði samþykkt. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um tiltekin lágmarkskjör, að þau skuli aldrei vera lakari en þau kjör og réttindi sem mælt er fyrir um í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um vinnuskilyrði farmanna frá árinu 2006 (Maritime Labour Convention (MLC) 2006) eins og þau eru á hverjum tíma og þau lágmarkskjör sem Alþjóðaflutningaverkamannasambandið (ITF) miðar við á hverjum tíma.“

Í kaflanum Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar segir síðan m.a.: „Jafnframt hefur íslenska ríkið fullgilt samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna (e. Maritime Labour Convention – MLC). ... Í reglu 2.2 er mælt fyrir um laun farmanna. ... Þá fjallar ákvæðið um lágmarkslaun farmanna. Þar segir að grunnkaup eða -laun fyrir þjónustu fullgilds farmanns í almanaksmánuð eiga ekki að vera lægri en sú fjárhæð sem er ákveðin reglulega af hálfu siglingamálanefndar eða annarrar stofnunar í umboði stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Að fenginni ákvörðun stjórnarnefndarinnar skuli forstjóri tilkynna aðildarríkjum stofnunarinnar um endurskoðaða fjárhæð. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði farmanna, nr. 82/2018, voru breytingar gerðar á lögum til samræmis við kröfur samþykktarinnar. ....“

Hér eru staðreyndir settar fram með afskaplega villandi hætti og látið líta út sem svo að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), MLC samþykktin, mæli með skuldbindandi „reglu“ fyrir um lágmarkskjör á farskipum og að með setningu laga nr. 82/2018 hafi öllum kröfum samþykktarinnar verið fullnægt.

Hið rétta er að grundvallarregla samþykktarinnar og sú sem skuldbindandi er, er sú að um laun fari skv. kjarasamningum sbr. 3.gr. hennar þar sem segir um grundvallarréttindi og reglur:

„Hvert aðildarríki skal tryggja að í ákvæðum eigin laga og reglugerða séu virt, að því er varðar þessa samþykkt, grundvallarréttindi til:

a) félagafrelsis og virk viðurkenning á réttinum til aðildar að kjarasamningum;

b) afnáms hvers konar nauðungar- og skylduvinnu;

c) afnáms vinnu bana; og

d) afnáms misréttis með tilliti til atvinnu eða starfa.“

Í 5.tl. 4.gr. segir síðan um starfsréttindi og félagsleg réttindi farmanna:

„Hvert aðildarríkiskal tryggja, innan marka lögsögu sinnar, að starfsréttindi og félagsleg réttindi farmanna sem kveðið er á um í framangreindum málsgreinum þessarar greinar séu framkvæmd í samræmi við kröfur þessarar samþykktar. Hrinda má slíku í framkvæmd með landslögum eða reglugerðum, með viðeigandi kjarasamningum, með öðrum ráðstöfunumeða samkvæmt venju, nema kveðið sé á um það með öðrum hætti í samþykktinni.“

Hér á landi gildir sú meginreglna, að kjarasamningar ráða kaupi og kjörum vegna allra starfa sem unnin eru innan lögsögu íslenska ríkisins þ.m.t. um borð í loftförum og skipum sem skráð eru hér á landi en hvorki erlendir kjarasamningar eða leiðbeiningar alþjóðastofnana.

Í MLC samþykktinni segir síðan í þessu samhengi í 6.gr. þar sem fjallað er um „Reglur ásamt A- og B-hlutum kóðans“ að ákvæði B-hluta kóðans, séu ekki skuldbindandi en öll umfjöllun greinargerðarinnar með frumvarpinu um laun og starfskjör byggir einmitt á þeim hluta þ.e. leiðbeiningum B2.2.3. – Lágmarkslaun, og þannig gefið í skyn að verið sé að fullnægja „reglum“ samþykktarinnar.

Tilgangur þeirra B-hluta kóðans er að tryggja að um borð í farskipum sem skráð eru í ríkjum þar sem réttarstaða launafólks og stéttarfélaga er lítil eða engin og þar sem kjarasamningar eru jafnvel hvorki gerðir eða virtir þá skuli beita tilteknum viðmiðum um starfskjör og laun. Almennt eru slík ríki kölluð hentifánaríki en nýlega hefur í íslenskum fjölmiðlum verið fjallað um hvernig skipafélag í íslenskri eigu hefur nýtt sér slík ríki til þess að losa sig við skip til niðurrifs með tilheyrandi mannréttinda- og umhverfisbrotum. Þá hefur einnig nýlega verið fjallað um hvernig fyrirtæki í eigu Íslendinga misnotuðu alþjóðlegu skipaskrána í Færeyjum með því að skrá áhafnir á fiskiskipum sínum í Afríku á farskip í færeysku skránni til þess að eins að losna undan skattgreiðslum í einu fátækasta ríki heims.

Um leiðbeiningar B-hluta kóðans er jafnframt skýrt tekið fram í „Leiðbeiningum B2.2.3-Lágmarkslaun“

að „Með fyrirvara um grundvallarregluna um frjálsa karasamninga ætti hvert aðildarríki að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, að mæla fyrir um málsmeðferð til að ákveða lágmarkslaun farmanna. Hlutaðeigandisamtök útgerðarmanna og farmanna ættu að taka þátt í að viðhalda slíkri málsmeðferð.“ Hér er meginreglan kjarasamningar og undantekningin samráð en frumvarpsdrög þau sem nú er veitt umsögn um virða ekki einu sinni þessar leiðbeingar en mæla fyrir um lægstu finnanlegu viðmið til þess að koma í veg fyrir þrælahald og mannsal um borð í faskipum.

Ítrekað skal einnig, að í ársbyrjun 2007 gaf ASÍ umsögn um frumvarp til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá (( https://www.althingi.is/altext/erindi/133/133-1592.pdf ) þar sem gert var ráð fyrir því að kjarasamningar farmanna á kaupskipum sem skráð væru í skránna yrðu útfærðir þ.a. að um kjör einsakra áhafnarmeðlima færi eftir kjarasamningum í því ríki sem þeir ættu lögheimili. Eins og ítarlega er rökstutt í þeirri umsögn, þá er slík útfærsla andstæð stjórnarskrá Íslands, lögum nr. 80/1938, lögum nr. 55/1980 og alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland er aðili að. Þau lögfræðilegu sjónarmið hafa ekkert breyst og reyndar má frekar merkja þróun þar sem bæði hér á landi og á alþjóðavísu er lagst gegn félagslegum undirboðum, mismunun og misnotkun á vinnuafli frá löndum sem standa höllum fæti, efnahagslega og þróunarlega hvað mannréttindi varðar.

Í fyrrgreindri umsögn ASÍ var m.a. vísað til umfjöllunar ILO um framkvæmd Danmerkur á samþykkt nr. 98 um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega sem Ísland er einnig bundið af, hvað varðar dönsku alþjóðlegu skipaskrána (DIS). Það mál er enn til meðferðar innan eftirlitskerfis ILO, síðast á árinu 2019 og þar segir nú eftir nýjustu samskipti aðila (https://www.ilo.org/dyn/normlex/en/f?p=1000:13100:0::NO:13100:P13100_COMMENT_ID:4023414):

“While welcoming the step taken through the amendment of the DIS Act, the Committee requests the Government to continue, in consultation with the social partners, to make every efforts to ensure the full respect of the principles of free and voluntary collective bargaining so that Danish trade unions may freely represent in the collective bargaining process all their members and that collective agreements concluded by Danish trade unions may cover all their members – working on ships sailing under the Danish flag whether they are within or beyond Danish territorial waters or continental shelf, and regardless of their activities. The Committee requests the Government to provide information on any developments in this regard.”

Í þessu felst að Danmörku er í reynd skylt að tryggja erlendum áhöfnum á farskipum í þeirra alþjóðlegu skipaskrá, rétt til aðildar að dönskum stéttarfélögum og þá um leið rétt þeirra stéttarfélaga til þess að semja um kaup þeirra og kjör.

Hyggist ríkisstjórn Íslands, eins og nú virðist raunin, feta sömu leið mannréttindabrota og sumar aðrar þjóðir hafa gert í þessu samhengi leggst sambandið af miklum þunga gegn þeim hugmyndum.

Afrita slóð á umsögn

#2 Sjómannafélag Íslands - 20.04.2021

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Sölvhólsgötu 7

150 Reykjavík

Reykjavík 20. apríl 2021

Umsögn Sjómannafélags Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum um íslenska alþjóðlega skipaskrá.

Sjómannafélag Íslands (SÍ) gerir ekki athugasemdir við ákvæði frumvarpsins um íslenska alþjóðlega skipaskrá, ef frá eru taldar fyrirætlanir samkvæmt 12. gr. frumvarpsins, að kjör áhafna á íslenskum farskipum skuli fara eftir lögheimilisskráningu áhafnarinnar.

Í fyrsta lagi, hverju sem öðru líður, er aldrei hægt að samþykkja lagabreytingu, sem felur í sér augljóst brot gegn mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, 65., 74. og 75. gr., sbr. 3., 12. og 13. gr. laga nr. 97/1995. Umrætt ákvæði færi jafnframt gegn ákvæðum íslenskrar vinnulöggjafar, til dæmis 1. gr. laga nr. 55/1980 og 7. gr. laga nr. 19/1979, og alþjóðasamninga sem Ísland hefur skulbundið sig að alþjóðarétti til að fara eftir. Eru rangar og óskilijanlegar þær örökstuddu fullyrðingar í frumvarpsdrögunum, að ákvæði laganna um breytt launakjör skipverja á íslenskum farskipum sé í fullu samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

Þá er að sjálfsögðu ekki hægt að samþykkja breytingu á lögum sem hefðu í för með sér endalok íslenskrar farmannastéttar, þar sem vel á annað hundrað íslenskra farmanna, flestir félagsmenn SÍ, myndu missa vinnuna. Að sama skapi yrði að gjalda varhug við því fordæmi sem stjórnvöld væru að skapa, með því að heimila slíka grundvallarbreytingu á íslenskum vinnumarkaði, en ljóst er að aðrar starfsgreinar myndu fylgja í kjölfarið. Lagabreytingartillaga sem felur í sér möguleika á félagslegum undirboðum og að neyð launþega í fátækum löndum sé nýtt í gróðaskyni er aldrei hægt að samþykkja.

SÍ gerir athugasemdir við rangfærslur og ónákvæmni í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum. Íslensk skipafélög hafa um árabil í raun ein setið að stykkjavöruflutningum til og frá Íslandi. Er því ekki rétt að segja að setja þurfi í lög framangreinda 12. gr. frumvarpsins til tryggja samkeppnishæfi Íslands á alþjóðavettvangi á sviði kaupskipaútgerðar, þegar engin áform eru um aðra kaupskipaútgerð en til og frá Íslandi. Sökum landfræðilegrar stöðu Íslands sitja íslenskar kaupskipaútgerðir í raun einar að stykkjavöruflutningum til og frá landinu. Eru því starfandi skipafélög hér á landi í afar góðri stöðu, vegna þeirrar fákeppni sem hér á landi er.

Sé það raunverulegur vilji viðkomandi útgerða að hefja kaupskipaútgerð milli annarra landa en ekki aðeins til og frá Íslandi, þá er viðkomandi aðillum algjörlega innan handar að stofna og reka slíka útgerð í þeim löndum, þar sem um kaup og kjör áhafnar fer samkvæmt reglum þeirra landa þar sem áhöfnin er með skráð lögheimili.

Þá verður ekki horft framhjá því að þó svo að þau kaupskip sem flytja vörur til og frá Íslandi séu skráð í Færeyrjum, þá eru þau í raun og veru, í öllum meginatriðum, rekin af íslenskum útgerðum og hafa gert með góðum árangri og ágóða um langt árabil. Væri það því engin sérstök viðbót við íslenskan efnahag að samþykkja framangreinda tillögu, en horfa verður einnig til þess að það er ekkert í hendi um að skipin yrðu yfir höfuð skráð á íslenska alþjóðlega skipaskrá, þó svo að framangreint 12. gr. frumvarpsins yrði samþykkt sem lög.

Loks halda ekki vatni sem rök fyrir framangreindri grundvallarbreytingu á launakjörum skipverja á íslenskum farskipum, að mikilvægt sé að skipin lúti íslenskum lögum til að hægt sé að tryggja örugga vöruflutninga til og frá landinu, til dæmis á stríðstímum.

Þá er það augljós rangfærsla að með því að lögleiða framangreint ákvæði um launakjör skipverja á farskipum, muni það leiða af sér aukningu á þeim sem vilja öðlast vél- og skipstjórnarmenntun hér á landi, enda sjá það allir að það yrðu ekki íslenskir vélstjórar og stýrimenn sem myndu manna íslensku farskipin til frambúðar. Myndi það því hafa þveröfug áhrif, leiða til fækkunar á umsóknum um vél- og skipstjórnarnám hér á landi, ef samþykkja ætti umrætt ákvæði.

Loks liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar eða úttekt um það með hvaða hætti skattlagning íslenskrar skipaskrár verði hagað, m.a. hvort þær reglur feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð eða samræmist að öðru leyti íslenskum lögum eða þeim skuldbindingum sem fara skal eftir samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.

Hlýtur það því að vera útilokað, að Alþingi Íslendinga samþykki framangreinda breytingu á starfskjörum skipverja á íslenskum farskipum, sem fela í sér brot gegn mannréttindaákvæðum, íslenskri vinnulöggjöf og leiða af sér endalok íslenskrar farmannastéttar, auk alls annars sem rakið hefur verið, að því virðist í þeim tilgangi einum að auka verulega hagnað íslenskra farskipaútgerða sem starfa nú þegar á fákeppnismarkaði og njóta hagnaðar og arðs til samræmis við það.

f.h. Sjómannafélags Íslands,

Bergur Þorkelsson, formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Félag íslenskra atvinnuflugmanna - 23.04.2021

Umsögn Félags íslenskra atvinnuflugmanna um framlögð drög að frumvarpi til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá, sbr. mál nr. 92/2021

Vísað er til draga að frumvarpi til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá, frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sem birt hafa verið í samráðsgátt til umsagnar, sbr. mál nr. 92/2021. Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) þakkar tækifærið til að koma með athugasemdir við frumvarpið. FÍA gerir ekki athugasemdir við ákvæði frumvarpsins að öðru leyti en það sem 12. gr. felur í sér, sbr. nánar hér fyrir neðan, og leggst þannig gegn samþykkt þess ákvæðis.

Með frumvarpinu er lagt til að launakjör skipverja um borð í íslenskum kaupskipum miðist við kjör í því landi þar sem umræddur skipverji hefur lögheimili. Markmiðið er sagt vera að skapa samkeppnishæft rekstrarumhverfi á Íslandi fyrir kaupskip en samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er markmið laganna að stuðla að skráningu kaupskipa á Íslandi. Að mati FÍA er hér aftur móti um að ræða alvarlega aðför gegn öllum launþegum landsins og með umræddum ákvæðum frumvarpsins er brotið gegn grundvallarreglum íslenskrar vinnulöggjafar með því að sniðganga íslenska kjarasamninga, auk þess sem þau ganga með augljósum hætti gegn stjórnarskrárvörðum réttindum, sbr. 74. og 75. gr. laga nr. 33/1944.

Að mati FÍA er með frumvarpinu alvarlega vegið að þeim kjarasamningsbundnu réttindum sem samið hefur verið um og gilda hér á landi auk þess sem óljóst er af frumvarpinu með hvaða hætti íslensk stjórnvöld ætla sér að framfylgja kjarasamningum, séu þeir fyrir hendi, í löndum þar sem lítið aðhald stjórnvalda er við lýði og jafnvel ekki einu sinni tvísköttunarsamningar. Með frumvarpinu er beinlínis hvatt til þess að íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi leiti til þeirra landa að skipverjum þar sem launin eru lægst og réttindi minnst. Myndi lagabreytingin þannig leiða til þess að félagsleg undirboð væru gerð lögmæt en slíkt getur ekki staðist íslensk lög.

Umrætt fyrirkomulag sem lagt er til að verði að lögum gengur augljóslega gegn markmiðum íslenskrar vinnulöggjafar, s.s. varðandi vinnu erlendra aðila fyrir íslensk fyrirtæki, t.d. lögum um útsenda starfsmenn og skyldu erlendra þjónustuveitenda nr. 45/2007. En í þeim lögum er alla jafna gert ráð fyrir að íslenskir kjarasamningar og íslensk löggjöf gildi um starfskjör starfsmanna, án tillits til erlendrar löggjafar sem að öðru leyti getur gilt um ráðningarsamband starfsmanna við hlutaðeigandi fyrirtæki.

Með frumvarpinu er sett afar hættulegt fordæmi gagnvart íslensku launafólki þar sem það getur nýst sem fordæmi svipaðra laga inn á önnur svið s.s. í flugrekstur þannig að flugrekendur gætu haft flugför sín skráð á Íslandi en ráðið inn fólk frá þeim löndum þar sem laun gætu boðist sem lægst og réttindi sem minnst. Þarf ekki að hafa mörg orð um hversu alvarleg áhrif yrðu af því fyrir allt launafólk í landinu og atvinnuástand ef fyrirtæki hafa opna þessa leið að geta ráðið inn fólk frá löndum þar sem réttindi eru nær engin og laun lægri en íslenskir kjarasamningar segja til um.

Varðandi þá fyrirvara um laun er byggja á samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) er það einnig varhugavert og illa rökstutt í greinargerð með frumvarpinu þar sem þær tryggja í raun ekki lágmarkslaun þar sem ákvæðin sem um ræðir eru aðeins viðmið er varða ríki sem ekki hafa leiðir til að ákveða lágmarkslaun. Þetta virðist því heldur ekki nægilega rannsakað eða byggja á traustum grunni. Með vísan til alls framangreinds má finna það alvarlega ágalla á umræddu ákvæði frumvarpsins að það getur vart fengist samþykkt.

Virðingarfyllst,

Sonja Bjarnadóttir, lögfræðingur FÍA

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Guðmundur Úlfar M. Jónsson - 27.04.2021

Flugvirkjafélag Íslands telur að frumvarpið geti haft alvarlegar afleiðingar er varða undirboð á íslenskum vinnumarkaði enda heimili það ráðningar skipverja á kjarasamningum sem ekki eru í gildi á Íslandi.

Hér er gerð tilraun til þess að lækka launakostnað og fara framhjá íslenskum stéttarfélögum með undirboðum sem eru ósamkeppnishæf við íslenskan vinnumarkað og þarf að skoðast á sama tíma sem brot á vinnulöggjöf.

F.h Stjórnar FVFÍ

Guðmundur Úlfar M. Jónsson.

Afrita slóð á umsögn

#5 Einar Vignir Einarsson - 27.04.2021

Umsögn um Íslenska alþjóðlega skipaskrá

Ég tel mikilvægt nú loksins þegar frumvarp um íslenska alþjólega skipaskrá liggur fyrir þinginu að þá fái málið brautargengi og að komið verði á laggirnar íslenskri alþjóðlegri skipaskrá. Okkur skipstjórum hefur sviðið það í gegnum tíðin að sigla skipum okkar undir erlendum fána þjóðar sem er sjö sinnum færri en við Íslendingar. Öll þau lönd sem við siglum til og berum okkur saman við hafa komið sér upp, fyrir mörgum árum, alþjóðlegum skipaskrám, þar með talið Svíþjóð, Noregur, Finnland og Færeyjar.

Ég sigldi nýlega hjá norsku fyrirtæki sem sér um „management“ eða stjórnun fyrir fyrirtæki sem eiga skip og skipstjórarnir sem leystu mig af eru Norðmenn, Íslendingur, og Úkraínumaður. Sú útgerð er með skip sem sigla m.a. undir NIS flaggi og sigldi ég á einu slíku.

Við vorum með háseta frá Eistlandi, Lettlandi, Myanmar, Ukraínu og Filippseyjum og voru launin þeirra tæplega 2000 og upp í 2700 dollarar á mánuði með bónusum. Þau laun eru skattfrjálst. Það þarf að hafa í huga að framfærsla þessara manna er miklu minni en hér hjá okkur á Íslandi þar sem til dæmis matvö-ruverð kostar brotabrot af því sem það kostar hér hérlendis svo ekki sé minnst á húsnæð, fatnað og annan kostnað. Þetta snýst um hvað menn eiga eftir í buddunni þegar allur kostnaður hefur verið greiddur hvar sem menn búa í veröldinni.

Ég er sannfærður um að enginn íslenskur farmaður mun missa starf vegna flutnings yfir á íslenska skipaskrá, einfaldlega vegna þess að hjá minni útgerð hafa skipin verið skráð í Færeyjum í 16 ár og enginn misst vinnuna ennþá. Sama má segja um hitt íslenska skipafélagið. Íslendingar sem sigla á íslenskum skipum, eru og verða á íslenskum kjarasamningum og því er villandi sem komið hefur fram að það séu einhver undirboð i gangi. Vonandi sjá margar útgerðir sér hag í því að skrá skipin sín undir íslenskri alþjóðlegri skipaskrá en ekki bara íslensku skipafélögin, annars væri hún ekki alþjóðleg.

Tækniskólinn hefur ekki sinnt skyldum sínum nægilega vel að mínu mati og erfitt hefur reynst að fá menntunarkröfur uppfylltar hér á landi sem yfirmenn farskipa þurfa að hafa til að sigla útí heimi. Úr þessu þarf að bæta, við þurfum að mennta fleiri sjómenn með alþjóðleg réttindi og þá verður þeirra framtíð björt.

Mér finnst Samgöngustofa vera mjög langt á eftir og ekki fylgja alþjóðlegum lögum og reglum. Sú stofnun þarf að bæta vinnubrögðin hjá sér til að uppfylla þær kröfur sem gerðar yrðu til hennar varðandi skipaskrána en með réttum mannskap og réttu hugarfari ætti það að takast. Hvernig það verður útfært er önnur saga en alla vega er mikilvægt að þar verði góður mannskapur til að takast á við mjög krefjandi verkefni. Með Íslenskri Skipaskrá myndi svo margt lagast í alþjóðlegum samskiptum, aukin tækifæri fyrir íslensk þjónustufyrirtæki og Manegement fyrirtæki fyrir skipin myndu opna á Íslandi og við yrðum miklu samkepnisfærari en áður. Nýr iðnaður hæfi þá störf með tilheyrandi veltiáhrifum fyrir Íslenskt samfélag með sérþekkingu.

Hvers vegna ættu störf okkar farmanna að vera í meiri hættu ef og þegar skipin verða flutt yfir á íslenska skrá? Ég tel að við værum öruggari með störf okkar á skipum skráðum á Íslandi, það er það sem við viljum. Um leið og við styrkjum stöðu okkar farmanna skapast ótrúleg tækifæri að vaxa og dafna í þessum Shipping heimi með þeirri sérþekkingu sem þarf, þannig að skattaívilnarnir koma margfalt til baka og veltiáhrifin stóraukast. Ég er bjartsýnn á að fleiri skip muni bætast í flotann á komandi árum og ég sé ákveðin tækifæri felast í stækkandi flota. Farmannastéttin íslenska er fámenn og hefur verið lengi og þess vegna eigum við að grípa tækifæri þegar við sjáum jákvæðar breytingar verða í greininni.

Einar Vignir Einarsson skipstjóri

Afrita slóð á umsögn

#6 SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu - 28.04.2021

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins og SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um drög að frumvarpi til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Eimskipafélag Íslands hf. - 28.04.2021

Efni: Umsögn um drög að frumvarpi til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá (Mál nr. 92/2021)

Þann 31. mars sl. birtust upplýsingar á samráðsgátt frá Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu um drög að frumvarpi til laga um alþjóðlega skipaskrá.

Eins og áður hefur komið fram þá gegnir kaupskipaútgerð mjög mikilvægu hlutverki í alþjóðaviðskiptum og ekki síður fyrir íslenskt samfélag en Eimskip er eina íslenska samstæðan sem gerir út kaupskip á íslenska markaðnum. Það skiptir máli að lagaumgjörð um slíka starfsemi sé samkeppnishæf og að allar eftirlits- og öryggiskröfur séu samræmdar og tryggðar. Er það mat Eimskip að þau drög sem liggja fyrir vegna uppfærslu á íslenskri alþjóðlegri skipaskrá séu að mestu sambærileg þeirri umgjörð sem gengur og gerist á alþjóðlegum mörkuðum.

Tilgangur og markmið frumvarpsins hljóta alltaf að vera að byggja upp alþjóðlega skipaskrá sem stuðlar að því að hér skapist tækifæri, bæði í landi og fyrir íslenska farmannastétt á alþjóðlegum skipum sem sigla undir íslenskum fána líkt og t.d. nágrannaríkin Færeyjar og Noregur hafa náð að gera.

Að þessu sögðu þá bendir félagið á mikilvægi þess að umgjörðin taki m.a. tillit til eftirfarandi þátta:

• Tryggja þarf þjónustu við skráningu skipa, s.s. útgáfu vottorða, skráningar á veðum og útgáfu skírteina til áhafna o.s.frv. Sú þjónusta þarf að vera opin allan sólarhringinn alla daga ársins.

• Íslensk alþjóðleg skipaskrá þarf að vera samkeppnishæf skattalega og mikilvægt að nýtt frumvarp Fjármála- og efnahagsráðuneytis komi fram samhliða þessu frumvarpi, eins og boðað er í umsögn um það.

• Reglur vegna skipaskoðunar þurfa að vera skýrar og eftirlit þarf að vera í höndum alþjóðlegra viðurkenndra flokkunarfélaga.

• Mikilvægt er að þær reglugerðir sem ráðherra setur á grundvelli þessara laga endurspegli einnig þau markmið að skráin verði samkeppnishæf sem alþjóðleg skipaskrá.

Að ofansögðu er það von félagsins að frumvarpið fái málefnalega umfjöllun á Alþingi og skapi þar með grundvöll fyrir því að hér takist að byggja upp samkeppnishæfa alþjóðlega skipaskrá með þeim tækifærum sem því fylgir.

F.h. Eimskipafélags Íslands hf.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Árni Sverrisson - 28.04.2021

Umsögn FS og VM í viðhengi.

Viðhengi