Fyrirhuguðum drögum að frumvarpi til laga um breytingum á lögum um virðisaukaskatt (byggingarstarfsemi, almenningssamgöngur o.fl.) var frestað á 151. löggjafarþingi 2020-2021. Ný áform og drög að frumvarpi verða kynnt almenningi og hagsmunaaðilum í Samráðsgátt stjórnvalda verði áformað að leggja frumvarpið fram síðar.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 31.03.2021–14.04.2021.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 24.06.2021.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt, m.a. með það að leiðarljósi að styrkja og betrumbæta þau ákvæði laganna er varða almenningssamgöngur, frjálsa og sérstaka skráningu fasteigna, uppgjörstímabil landbúnaðaraðila o.fl.
Meginefni frumvarpsins er í níu liðum. Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:
1. Kveðið verði á um skattskyldu aðkeyptrar akstursþjónustu verktaka við fólksflutninga vegna almenningssamgangna o.fl.
2. Á tímabilinu 1. janúar 2022 til og með 31. desember 2024 skuli endurgreiða ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra, eða félögum sem alfarið eru í þeirra eigu, 50% þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna aðkeyptrar akstursþjónustu er varðar almenningssamgöngur, skipulagða ferðaþjónustu fatlaðs fólks og aldraðra og skipulagðan flutning skólabarna sem veitt er innan sama tímabils.
3. Gerðar verði breytingar á 6. gr. laganna þar sem skilyrði og heimildir fyrir sérstakri skráningu verði skýrð enn frekar. Í ákvæðinu verði m.a. kveðið á um forsendur sérstakrar skráningar, leiðréttingarskyldu innskatts o.fl.
4. Kveðið verði á um heimild til frjálsrar skráningar í nýrri 6. gr. A., samhliða þeim breytingum sem lagðar eru til á 6. gr. laganna. Í ákvæðinu verði m.a. kveðið á um ákvörðun leiguverðs, tímabil frjálsrar skráningar, heimild til færslu innskatts o.fl.
5. Að viðmið skattverðs í 2. mgr. 8. gr. laganna vegna afhendingu án endurgjalds nái jafnt til vöru og veitingar þjónustu.
6. Bætt verði nýju ákvæði við lögin sem verði 10. gr. A þar sem heimild verður veitt til að miða skattverð við söluþóknun samkvæmt samningi milli aðila að tilteknum skilyrðum uppfylltum þegar um er að ræða móttöku á notuðu lausafé frá einstaklingi utan rekstrar til umsýslu- eða umboðssölu.
7. Styrkari stoðum verði skotið undir heimild ráðherra til að setja nánari reglur um afmörkun leiðréttingartímabils vegna breytingar á skattskyldum notum varanlegra rekstrarfjármuna.
8. X. kafli laganna, þar sem kveðið er á um sérstök ákvæði um landbúnað verði felldur niður og uppgjörstímabil skráningarskyldra aðila sem stunda landbúnað fari eftir almennum skilamáta aðila og verði tveir mánuðir, sbr. IX. kafla laganna.
9. Ákvæði til bráðabirgða XLII í lögunum þar sem kveðið er á um undanþágu virðisaukaskatts vegna streymis frá tónleikum, listdanssýningum og leiksýningum verði framlengt til og með 31. desember 2021.
Umsögn Reykjavíkurborgar um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, mál nr. 93/2021
ViðhengiÁgæti viðtakandi,
Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt (byggingarstarfsemi, almenningssamgöngur o.fl.)
Með góðum kveðjum
F.h. SAF
Gunnar Valur Sveinsson
ViðhengiViðhengd er umsögn KPMG um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt (byggingastarfsemi, almenningssamgöngur o.fl.)
ViðhengiGóðan daginn.
Í viðhengi er umsögn Hopp Mobility ehf. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, mál nr. 93/2021.
Virðingarfyllst
Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir
Framkvæmdastjóri Hopp Mobility ehf.
Viðhengi