Samráð fyrirhugað 09.04.2021—23.04.2021
Til umsagnar 09.04.2021—23.04.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 23.04.2021
Niðurstöður birtar 17.09.2021

Drög að reglugerð um (5.) breytingu á reglugerð nr. 1255/2018 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands

Mál nr. 96/2021 Birt: 09.04.2021 Síðast uppfært: 17.09.2021
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Niðurstöður birtar

Reglugerð nr. 1255/2018 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands var framlengd óbreytt um mánuð 29. apríl 2021. Reglugerðin hefur ekki sætt frekari breytingum öðrum en framlengingum.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 09.04.2021–23.04.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 17.09.2021.

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið kynnir til samráðs drög að reglugerð um breytingar á reglugerð nr. 1255/2018.

Samningur Læknafélags Reykjavíkur, fyrir hönd sjálfstætt starfandi sérgreinalækna, sem gerður var í lok árs 2013 rann út í lok árs 2018. Síðan þá hafa samningar ekki náðst milli aðila en í lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar er skýrt kveðið á um þá meginreglu að til þess að ríkið greiði hlutdeild í kostnaði við heilbrigðisþjónustu þurfi að liggja fyrir samningur milli aðila um veitingu þjónustunnar. Í lögunum er þó að finna heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um tímabundna endurgreiðslu til sjúkratryggðra á útlögðum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu á grundvelli gjaldskrár sem sjúkratryggingastofnunin gefur út, sbr. 38. gr. laganna. Skýrt er tekið fram í lögunum að umrædd heimild er tímabundið úrræði sem einungis skuli nýta í sérstökum tilfellum. Þá er þetta enn fremur undirstrikar í greinargerð með lögunum þar sem fram kemur að úrræðinu skuli einungis beita í einstökum afmörkuðum tilvikum.

Í reglugerð nr. 1350/2020 um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hefur ráðherra sett fram það hámark sem sjúkratryggður skuli greiða fyrir heilbrigðisþjónustu á tilteknu tímabili. Þetta er mikilvægur liður í því að tryggja öllum sem greiðastan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Aftur á móti hafa sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar í sumum tilvikum sett gjaldskrár til hliðar við opinbera kerfið sem veldur því að sjúklingar þurfa að greiða tvo reikninga þegar þeir sækja þjónustu sérgreinalækna. Annan þeirra fá þeir endurgreiddan í hlutfalli við heildarútgjöld sín til heilbrigðisþjónustu. Hinn reikninginn þurfa þeir að greiða að fullu til sérgreinalæknisins, sjúklingar fá þann kostnað ekki endurgreiddan og hann reiknast ekki til afsláttar af heildarútgjöldum sjúklingsins. Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki upplýsingar um umfang þessara gjalda og þau standa fyrir þrifum því kerfi sem sett hefur verið upp af hinu opinbera með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi.

Fyrirhugar heilbrigðisráðherra að gera breytingu á reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands þess efnis að reglugerðin taki ekki til þeirra sem setji aukagjöld samkvæmt gjaldskrá með ofanrituðum hætti. Þá fyrirhugar heilbrigðisráðherra enn fremur að setja skilyrði um skil sérgreinalækna á ársreikningi vegna rekstursins ef þeir hyggjast hafa milligöngu um endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands sem og að læknum verði skylt að skila í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu, þeim upplýsingum sem nauðsynlegt er fyrir landlækni vegna eftirlits með þjónustunni.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Ólafur Valtýr Hauksson - 11.04.2021

Með þessari reglugerðarbreytingu er verið að skikka alla sérgreinalækna til að vera með sömu ríkisgjaldskrá. Áformin vinna gegn hagsmunum sjúklinga, öfugt við það sem fullyrt er í samantekt, vegna þess að þau draga úr hvata metnaðarfullra sérgreinalækna til að leggja aukalega á sig til að vera fremstir í sínu fagi eða fjárfesta í nýjasta og besta tækjabúnaði.

Þessi áform líta framhjá því að margir sjúklingar eru fúsir til að greiða meira fyrir þá læknisþjónustu sem þeir telja henta sér best. Þeir vilja hafa val um hvort þeir borga meira eða aðeins samkvæmt gjaldskrá sjúkratrygginga. Með reglugerðinni er verið að svipta þessa sjúklinga þeirri greiðsluþátttöku ríkissjóðs sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.

Þá er bagaleg þversögn í þessum áformum. Fram kemur í samantektinni að sjúkratryggingar hafi ekki upplýsingar um umfang umframinnheimtu hjá hluta sérfræðilækna. Samt á að refsa þeim sjúklingum sem leita til slíkra sérfræðilækna með því að meina þeim um greiðsluþátttöku ríkisins. Ef sjúkratryggingar vita ekki hverjir þessir sérfræðilæknar eru sem taka hærra gjald en hinir, hvernig á þá að framkvæma þetta?

Einbeittur sósíalismi skín hér í gegn. Þó einhver vilji leggja meira á sig, viðhalda þekkingu og veita betri þjónustu en hinir, þá má hann ekki fá umbun fyrir það. Sósíalisminn lýsir sér í sjúklegum áhuga á því að sem mest flatneskja ríki í heilbrigðiskerfinu. Sjúklingur sem vogar sér að borga meira skal sviptur réttindum sínum.

Ástæða er til að benda á að Ísland er ekki sósíalistaríki heldur er hér markaðshagkerfi sem byggir á því að hag borgaranna sé best borgið með heiðarlegri og öflugri samkeppni. Markmið samkeppnislaga eru m.a. að stuðla að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Þessum markmiðum skal náð með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum, auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum og stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur. Hér má skipta út orðinu neytendur og setja sjúklingar inn í staðinn til að sjá hve jákvætt það er fyrir sjúklinga að heilbrigð samkeppni nái inn í heilbrigðiskerfið.

Staðreyndin er sú að mismunandi gjaldtaka sérgreinalækna staðfestir að á milli þeirra ríkir eðlileg samkeppni. Þeir sem innheimta meira af sjúklingum en samkvæmt gjaldskrá sjúkratrygginga gera það í krafti þess að sjúklingar eru tilbúnir til að borga meira fyrir betri þjónustu.

Ef einhver alvara er hjá heilbrigðisráðherra að gæta hagsmuna sjúklinga í þessum efnum, þá væri einfaldast að birta verðskrá sérgreinalækna. Þá gætu sjúklingar séð hvaða sérgreinalæknar vinna eftir ríkisgjaldskránni og hverjir innheimta umfram það. Þar með hafa sjúklingar val og þurfa ekki að borga meira frekar en þeir vilja.

Svo er hitt, að það er með ólíkindum að ekki skuli hafa náðst samningar milli ríkisvaldsins og sérgreinalækna um hlutdeild ríkisins í greiðslum fyrir læknisverk.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Reynir Arngrímsson - 20.04.2021

Reykjavík 20. apríl 2021.

Umsögn Læknafélags Íslands um drög að reglugerð um (5.) breytingu á reglugerð nr. 1255/2018 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

LÍ leggst eindregið gegn því að heilbrigðisráðherra staðfesti þessi reglugerðardrög um leið og heilbrigðisráðherra er eindregið hvött til að gefa SÍ fyrirmæli um það að ganga sem fyrst til samninga við sérgreinalækna um þá þjónustu sem þeir veita sjúkratryggðum. Sjá nánar viðhengi.

f.h. stjórnar LÍ

Reynir Arngrímsson, formaður.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Berglind Bergmann Sverrisdóttir - 23.04.2021

Reykjavík 23. apríl 2021.

Umsögn stjórnar Félags almennra lækna um reglugerðardrög um (5.) breytingu á reglugerð nr. 1255/2018 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

Stjórn FAL hvetur heilbrigðisráðherra til að samþykkja ekki reglugerðardrögin í núverandi mynd. Stjórn FAL hvetur jafnframt Sjúkratryggingar Íslands til að semja við sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem fyrst.

F.h. stjórnar Félags almennra lækna

Berglind Bergmann, formaður.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Samtök atvinnulífsins - 23.04.2021

Meðfylgjandi er umsögn SA.

Virðingarfyllst,

Tryggvi Másson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu - 23.04.2021

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka heilbrigðisfyrirtækja um drög að reglugerð um (5.) breytingu á reglugerð nr. 1255/2018 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Viðskiptaráð Íslands - 23.04.2021

Góðan dag

Meðfylgjandi er umsögn Viðskiptaráðs Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Þórarinn Guðnason - 23.04.2021

Góðan dag.

Álit Læknafélags Reykjavíkur í heild er í meðfylgjandi viðhengi.

Í samantekt telur stjórn Læknafélags Reykjavíkur að þessi reglugerðardrög, en einnig gildandi reglugerð, skorti lagastoð. Nokkur helstu atriðin (en ekki öll) eru:

1. Sérgreinalæknum er ætlað að innheimta hlut sjúklinga hjá Sjúkratryggingum Íslands þó ekki sé lagastoð fyrir því fyrirkomulagi.

2. Sjúkratryggðir munu ekki njóta lögvarinnar réttindagreiðslu vegna þjónustu sérgreinalækna ef læknirinn:

a. Innheimtir greiðslur samkvæmt eigin gjaldskrá eða tekur aukagjöld önnur en þau sem er getið um í úreltri gjaldskrá SÍ sem ekki hefur fylgt kostnaðarhækkunum.

b. Skilar ekki inn persónugreinanlegum upplýsingum um sjúklingana í samskiptaskrá til landlæknis, gagnaskil sem Persónuvernd hefur gert athugasemdir við og hvatt ráðuneytið til breytinga á þeim.

c. Skilar ekki SÍ endurskoðuðum ársreikningi ársins á undan þó engin lög kveði á um slíkt. Sjúklingur hefur heldur engan möguleika á að hafa áhrif á slík skil og er skrýtið og ófyrirsjáanlegt að binda sjúkratryggingarétt við þetta.

3. Að lokum virðast þessi skilyrði flest brjóta í bága við rétt sjúklinga til að velja sér lækni með því að spyrða við gjörðir þriðja aðila réttinn á lögvarinni réttindagreiðslu, en valfrelsi er tryggt í 20. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997.

Þau skilyrði sem heilbrigðissráðherra hyggst setja samkvæmt reglugerðardrögum þessum gætu hindrað að sjúkratryggðir fái lögvarða þjónustu og réttindagreiðslur og hafa ekki lagastoð. Stjórn LR telur óskynsamlegt að setja slíka reglugerð og hvetur heilbrigðisráðherra til að setja fremur reglugerð um endurgreiðslu til sjúkratryggðra sem styðst við lög.

Fh stjórnar

Þórarinn Guðnason formaður

Viðhengi