Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 9.–23.4.2021

2

Í vinnslu

  • 24.4.–16.9.2021

3

Samráði lokið

  • 17.9.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-96/2021

Birt: 9.4.2021

Fjöldi umsagna: 7

Drög að reglugerð

Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Drög að reglugerð um (5.) breytingu á reglugerð nr. 1255/2018 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands

Niðurstöður

Reglugerð nr. 1255/2018 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands var framlengd óbreytt um mánuð 29. apríl 2021. Reglugerðin hefur ekki sætt frekari breytingum öðrum en framlengingum.

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið kynnir til samráðs drög að reglugerð um breytingar á reglugerð nr. 1255/2018.

Nánari upplýsingar

Samningur Læknafélags Reykjavíkur, fyrir hönd sjálfstætt starfandi sérgreinalækna, sem gerður var í lok árs 2013 rann út í lok árs 2018. Síðan þá hafa samningar ekki náðst milli aðila en í lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar er skýrt kveðið á um þá meginreglu að til þess að ríkið greiði hlutdeild í kostnaði við heilbrigðisþjónustu þurfi að liggja fyrir samningur milli aðila um veitingu þjónustunnar. Í lögunum er þó að finna heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um tímabundna endurgreiðslu til sjúkratryggðra á útlögðum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu á grundvelli gjaldskrár sem sjúkratryggingastofnunin gefur út, sbr. 38. gr. laganna. Skýrt er tekið fram í lögunum að umrædd heimild er tímabundið úrræði sem einungis skuli nýta í sérstökum tilfellum. Þá er þetta enn fremur undirstrikar í greinargerð með lögunum þar sem fram kemur að úrræðinu skuli einungis beita í einstökum afmörkuðum tilvikum.

Í reglugerð nr. 1350/2020 um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hefur ráðherra sett fram það hámark sem sjúkratryggður skuli greiða fyrir heilbrigðisþjónustu á tilteknu tímabili. Þetta er mikilvægur liður í því að tryggja öllum sem greiðastan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Aftur á móti hafa sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar í sumum tilvikum sett gjaldskrár til hliðar við opinbera kerfið sem veldur því að sjúklingar þurfa að greiða tvo reikninga þegar þeir sækja þjónustu sérgreinalækna. Annan þeirra fá þeir endurgreiddan í hlutfalli við heildarútgjöld sín til heilbrigðisþjónustu. Hinn reikninginn þurfa þeir að greiða að fullu til sérgreinalæknisins, sjúklingar fá þann kostnað ekki endurgreiddan og hann reiknast ekki til afsláttar af heildarútgjöldum sjúklingsins. Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki upplýsingar um umfang þessara gjalda og þau standa fyrir þrifum því kerfi sem sett hefur verið upp af hinu opinbera með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi.

Fyrirhugar heilbrigðisráðherra að gera breytingu á reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands þess efnis að reglugerðin taki ekki til þeirra sem setji aukagjöld samkvæmt gjaldskrá með ofanrituðum hætti. Þá fyrirhugar heilbrigðisráðherra enn fremur að setja skilyrði um skil sérgreinalækna á ársreikningi vegna rekstursins ef þeir hyggjast hafa milligöngu um endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands sem og að læknum verði skylt að skila í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu, þeim upplýsingum sem nauðsynlegt er fyrir landlækni vegna eftirlits með þjónustunni.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa innviða heilbrigðisþjónustu

hrn@hrn.is