Samráð fyrirhugað 14.04.2021—28.04.2021
Til umsagnar 14.04.2021—28.04.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 28.04.2021
Niðurstöður birtar 15.06.2021

Stafrænt Ísland - stefna um stafræna þjónustu

Mál nr. 99/2021 Birt: 14.04.2021 Síðast uppfært: 15.06.2021
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Hagskýrslugerð og grunnskrár
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Niðurstöður birtar

Sex umsagnir bárust um drög að stefnu um stafræna þjónustu frá alls 7 aðilum. Almennt séð fögnuðu umsagnaraðilar þeim drögum sem til umsagnar voru. Mikilvægi málaflokksins fyrir íslenskt samfélag var dregið fram og nefnt að markmið stjórnvalda sem fram koma í stefnudrögunum væru metnaðarfull og líkleg til árangurs. Farið var yfir allar umsagnir og breytingar gerðar á einstaka áherslum stefnunnar með tilliti til athugasemda sem bárust að því leyti sem hægt var. Í framhaldi af útgáfu stefnunnar verða árangursmælikvarðar birtir ásamt yfirliti aðgerða sem gerir forgangsröðun sýnilegri.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 14.04.2021–28.04.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 15.06.2021.

Málsefni

Stefna um stafræna þjónustu er nú til umsagnar. Efling stafrænnar þjónustu er eitt af forgangsmálum stjórnvalda og mun stefnan leggja grunn að því að Ísland verði á meðal fremstu þjóða heims þegar kemur að stafrænni opinberri þjónustu.

Stefna um stafræna þjónustu er umgjörð um sýn og áherslur hins opinbera um hagnýtingu upplýsingatækni og stafrænnar þjónustu til að veita framúrskarandi þjónustu með öruggum hætti. Þá er henni jafnframt ætlað að miða að styrkri samkeppnisstöðu Íslands, um störf í þekkingariðnaði og auka hagsæld með nýsköpun og skilvirkara samfélagi. Þá mun efling stafrænnar þjónustu skila aukinni hagræðingu í ríkisfjármálum og minnka áhrif opinberrar starfsemi á umhverfið. Viðfangsefnið er í örri þróun og því verður stefnan í stöðugri endurskoðun. Samhliða stefnunni verður birt yfirlit yfir verkefni sem eru í vinnslu og yfirlit yfir stöðu hins opinbera í stafrænni vegferð. Þá verður í öllum aðgerðum lögð sérstök áhersla á samvinnu hvort sem er við aðila hins opinbera, einkageirans og sveitarstjórnarstigið.

Stefnan er leiðandi fyrir aðrar opinberar stefnur sem og stefnumarkandi ákvarðanir á þessu sviði. Hún byggir á aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um eflingu stafrænnar þjónustu, sem samþykkt var í maí 2019, og yfirlýstum markmiðum um að stafræn samskipti verði megin samskiptaleið hins opinbera við almenning. Þá hefur Ísland gengist undir sameiginlega yfirlýsingu Norðurlandanna, Digital North, og vinnur í nánu samstarfi við hin Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin að markmiðum um vistvæna og sjálfbæra þróun auk hagnýtingar á gögnum og gervigreind. Þá byggir stefnan jafnframt á könnun sem fjármála- og efnahagsráðuneytið lét gera um stöðu stafrænnar umbreytingar (e. Digital Transformation) hjá stofnunum ríkisins.

Ábyrgð stefnunnar er hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og heyrir hún undir málaflokk 5.3 og 6.1 í fjármálaáætlun. Framkvæmd stefnunnar og aðgerða er hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu ásamt Verkefnastofu um stafrænt Ísland í náinni samvinnu við stofnanir ríkisins, önnur ráðuneyti, sveitarfélög, almenning og fyrirtæki.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Samtök verslunar og þjónustu - 19.04.2021

"SVÞ fagnar framkomnum drögum að stefnu um stafræna þjónustu stjórnvalda enda er hún í samræmi við áherslur samtakanna um aukna nýtingu stafrænnar tækni og hröðun stafrænnar umbreytingar í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni Íslands, auka verðmætasköpun og hagsæld. Sýn stjórnvalda er skýr og metnaðarfull og frábær fyrirmynd fyrir aðra hluta samfélagsins, svo sem íslenskt atvinnulíf og vinnumarkað.

Samtökin hvetja jafnframt stjórnvöld til að standa vörð um og efla enn frekar þann samstarfsanda sem er gegnumgangandi í stefnunni og kemur m.a. fram í auknu aðgengi að gögnum og upplýsingum á ábyrgan hátt og nýtingu opins hugbúnaðar þar sem við á. Samtökin hvetja einnig eindregið til enn frekara víðtæks samstarfs á öllum sviðum stafrænnar umbreytingar, hvort sem er á hinum ýmsu stigum stjórnsýslunnar (s.s. milli stjórnvalda og sveitarfélaga) og milli hins opinbera og einkageirans.

Í því sambandi vilja samtökin sérstaklega hvetja til öflugrar nýtingar á fyrirhuguðum samstarfsvettvangi um hröðun stafrænnar þróunar og eflingu stafrænnar hæfni innan klasasamstarfs sem nú er í undirbúningi að frumkvæði SVÞ, VR og HR með aðkomu stjórnvalda. Slíkur samstarfsvettvangur veitir ómæld tækifæri til öflugra tenginga, upplýsingaflæðis, þekkingaryfirfærslu, samstarfs og nýtingar samlegðaráhrifa á fjölmörgum sviðum, og ekki síst á því sviði sem lögð er höfuðáhersla á með klasanum, sem er að efla vitundarvakningu, fræðslu og upplýsingagjöf almennt og efla stafræna hæfni í atvinnulífi, á vinnumarkaði og þannig meðal almennings. Ljóst er að til að ná fram hámarks hagræðingu af stafrænni umbreytingu hins opinbera, og tryggja jafnt aðgengi allra landsmanna að opinberri þjónustu, er nauðsynlegt að allir Íslendingar hafi til að bera þá hæfni sem þarf til að nýta stafræna þjónustu. Því er stafræn hæfni grundvallaratriði á þeirri vegferð. Það er því von SVÞ að allir hagaðilar, þ.m.t. stjórnvöld, geti sameinast um klasann sem samstarfsvettvang til að ná fram því markmiði.

Jákvætt er að kveðið er á um nýtingu gervigreindar við opinbera þjónustu með ábyrgum hætti þar sem við á. Í því samhengi hvetja samtökin stjórnvöld til að tryggja nána samvinnu um mismunandi verkefna á þessu sviði, bæði innan og utan stjórnsýslunnar, s.s. þeirrar stefnu sem verið er að vinna að um gervigreind og aðgerða sem af henni leiða, við verkefni Stafræns Íslands, vinnu Almannaróms við máltæknistefnu, vinnu innan gervigreindarseturs HR, og annarra viðeigandi verkefna, hvort sem er á vegum hins opinbera eða einkageirans. Getur ofangreint klasasamstarf jafnframt verið vettvangur til að styðja við slíkt samstarf, tengingar og upplýsingaflæði.

Í stefnunni er það orðað fullum fetum að opinberar stofnanir skuli byggja upp nútímalegra starfsumhverfi og nýta að fullu möguleika fjórðu iðnbyltingarinnar, sem bæði ber að fagna og er önnur frábær fyrirmynd fyrir íslenskt atvinnulíf og vinnumarkað. Í því samhengi sjá samtökin sérstaklega mikil tækifæri til samstarfs og samlegðar við fyrirhugaðan klasa, vitundaruppbyggingu hans, upplýsingagjöf og fræðslu. Samtökin hafa við hvert tækifæri bent á ótvíræða kosti þess að í íslensku samfélagi, sem ekki telur nema tæplega 370 þúsund manns, sé óhagkvæmt og ekki vænlegt til árangurs að hver og einn vinni að sambærilegum verkefnum á þessu sviði sinn í hverju horninu og allir séu að finna upp hjólið. Stafræn umbreyting veldur gríðarhröðum breytingum á heimsvísu og íslenskt samfélag verður að hafa sig allt við til að halda í við samanburðarlönd, hvað þá ef ná á forystu á þessu sviði. Þar er samstarf lykilatriði eins og m.a. kom fram í máli norrænna viðmælenda samtakanna í þætti sem sýndur var í tilefni af aðalfundi SVÞ þann 18. mars sl. Norðurlöndin raða sér undantekningarlaust í efstu 10. sætin á alþjóðlegan mælikvarða þegar kemur að stafrænni umbreytingu. Gríðarmikil tækifæri eru til öflugs samstarfs hérlendis á þessu sviði þar sem mikið af upplýsinga- og fræðsluefni getur nýst bæði hjá hinu opinbera sem og í einkageiranum, og nýta má þannig fjárma" SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu

Afrita slóð á umsögn

#2 Samband íslenskra sveitarfélaga - 19.04.2021

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Þjóðskjalasafn Íslands - 20.04.2021

Meðfylgjandi er umsögn Þjóðskjalasafns Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Landssamtökin Þroskahjálp - 28.04.2021

sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Samtök fjármálafyrirtækja - 28.04.2021

Meðfylgjandi er umsögn SFF um stefnuna. Með þökkum fyrir tækifærið til að gera athugasemdir.

Bestu kveðjur, Jóna Björk

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins - 03.05.2021

Viðhengi