Samráð fyrirhugað 19.04.2021—03.05.2021
Til umsagnar 19.04.2021—03.05.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 03.05.2021
Niðurstöður birtar

Mótun skuldbindinga íslenskra stjórnvalda í tengslum við þátttöku í átaksverkefni UN Women, Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Forum).

Mál nr. 101/2021 Birt: 19.04.2021
  • Utanríkisráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
  • Utanríkismál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (19.04.2021–03.05.2021). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Stýrihópur forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis efnir til samráðs við haghafa á sviði jafnréttismála um mótun skuldbindinga og aðgerða af Íslands hálfu um upprætingu kynbundins ofbeldis.

Kynslóð jafnréttis er unnið á sex málefnasviðum og stýrt af aðgerðabandalögum. Íslensk stjórnvöld veita aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi (e. Action Coalition on Gender Based Violence) forystu ásamt Bretlandi, Úrúgvæ, Kenía, Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, UN Women, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Ford Foundation (góðgerðasjóður) og völdum alþjóðasamtökum kvennahreyfingarinnar.

Aðgerðabandalagið birti 8. mars síðastliðinn, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, stefnuyfirlýsingu, meginþemu og markmið bandalagsins til næstu fimm ára. Þátttakendur vinna nú að mótun skuldbindinga og aðgerða til næstu fimm ára og verða þær kynntar á ráðstefnu verkefnisins í París dagana 30. júní – 2. júlí næstkomandi. Samráð við hagaðila þjónar þeim tilgangi að nýta sjónarmið samtaka kvennahreyfingarinnar og sérfræðinga á sviði jafnréttismála við mótun skuldbindinga íslenskra stjórnvalda.

Kynslóð jafnréttis er stærsta verkefni UN Women hingað til og meðal helstu áherslumála aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, António Guterres. Markmiðið er að unnið sé markvisst að úrbótum á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030. Þátttakendur eru ríki, alþjóðastofnanir og frjáls félagasamtök sem leiða aðgerðir á sviði jafnréttismála til fimm ára (2021-2026).

Verkefninu var ýtt úr vör í tilefni 25 ára afmælis fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um málefni kvenna sem haldin var í Peking árið 1995. Á ráðstefnunni var samþykkt pólitísk yfirlýsing og framkvæmdaáætlun um réttindi kvenna, Pekingáætlunin, sem m.a. byggist á ákvæðum kvennasáttmála SÞ frá árinu 1979, um afnám allrar mismununar gegn konum.

Frá því í júní 2020 hafa fulltrúar stýrihóps forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins tekið þátt í fundum aðgerðabandalagsins þar sem unnið var að mótun megináherslna annars vegar og markmiðum og mælikvörðum hins vegar. Áherslur aðgerðabandalagsins eru birtar í sérstöku fylgiskjali hér til hliðar, bæði á íslensku og ensku.

Fyrsta ráðstefna verkefnisins var haldin með fjarfundabúnaði frá Mexíkó 29.–31. mars 2021. Á ráðstefnunni voru áherslur aðgerðabandalaganna kynntar og kallað eftir skuldbindingum þátttakenda í verkefninu.

Önnur ráðstefna verkefnisins verður haldinn í samstarfi við frönsk stjórnvöld í París 30. júní – 2. júlí 2021. Á ráðstefnunni kynna þjóðarleiðtogar, ráðherrar og fulltrúar annarra samstarfsaðila skuldbindingar sínar og fjármögnun aðgerða til næstu fimm ára.

Kynningarfundur fyrir innlenda hagsmunaðila um Kynslóð jafnréttis var haldinn 16. nóvember 2020. Samráðsfundir um gerð tillagna að skuldbindingum og aðgerðum verða haldnir með fjarfundabúnaði mánudaginn 26. apríl 2021.

Nánari upplýsingar um verkefnið Kynslóð jafnréttis, sem nýtast við gerð umsagna má nálgast í fylgiskjölum hér til hliðar.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 UN Women Ísland - 03.05.2021

UMSÖGN UN WOMEN Á ÍSLANDI

um mál nr. 101/2021

mótun skuldbindinga íslenskra stjórnvalda í tengslum við þátttöku í átaksverkefni UN Women, Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Forum).

UN Women á Íslandi er ein tólf landsnefnda UN Women Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna. UN Women á Íslandi er stolt af því að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að leiða aðgerðarbandalag UN Women um kynbundið ofbeldi. Það sýnir að stjórnvöldum er alvara í setja sér raunhæf markmið til að útrýma kynbundnu ofbeldi á Íslandi sem og á alþjóðavettvangi.

Eftirfarandi eru tillögur UN Women á Íslandi að mögulegum skuldbindingum Íslands innanlands sem og í þróunar- og mannúðarstarfi íslenskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi.

Aðgerð 1

- Stuðlað verði að stefnumótun og lagasetningu sem hafi að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum.

• Fara í gegnum þá íslensku lagabálka sem á einhvern hátt mismuna konum á grundvelli kyns. Uppfæra lög með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands þ.á.m. CEDAW Kvennasáttmála SÞ og Istanbúlsamninginn.

• Endurmenntun dómsvalds, þannig að allir þeir sem koma að rannsóknarferli brotaþola hljóti endurmenntun. Reglulegri fræðslu verði komið á laggirnar þannig að það sé tryggt að allir séu upplýstir um ný lög sem taka gildi og hvernig þeim beri að beita.

• Nota í ríkari mæli þá alþjóðasáttmála sem Ísland hefur undirgengist til viðmiðunar í málefnum og komu hælisleitenda og flóttafólks hvað varðar réttindi kvenna og stúlkna sbr. CEDAW og Istanbúlsáttmálann.

• Þrýsta á önnur ríki t.d. í gegnum tvíhliða samstarf í þróunarmálum, að undirrita og standa við skuldbindingar sínar gagnvart alþjóðasáttmálum sem varða réttindi kvenna og stúlkna.

• Ísland skuldbindi sig í tvíhliða þróunarsamvinnu að styðja við samstarfsríki sín í þeim verkefnum þar sem þarf að bæta stefnumótun og lagasetningu með því deila þekkingu og reynslu frá lögreglu, Bjarkarhlíð, Stígamótum o.s.frv.

Aðgerð 2

- Stuðlað verði að samþykkt og framkvæmd gagnreyndra aðgerðaáætlana um forvarnir með það að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum.

• Endurmenntun á öllum stigum réttarkerfisins; bráðamóttöku, lögreglu, saksóknaraembættum og á öllum dómsstigum, þ.e. öll þau sem koma að rannsóknarferli brotaþola hljóti endurmenntun. Reglulegri fræðslu verði komið á laggirnar þannig að það sé tryggt að allir séu upplýstir um ný lög sem taka gildi og hvernig þeim beri að beita.

• Fræðsla og viðbragðsáætlanir innan heilbrigðis- og skólakerfis sé tryggð. Viðbragðsáætlanir séu til staðar innan kerfisins þannig að tryggt sé að ferlið sé skýrt fyrir alla sem að því koma.

• Beina þarf sjónum að gerendum og úrræðum fyrir gerendur með því að auka fjármagn til meðferðarúrræða gerenda ofbeldis.

• Stjórnvöld horfi til fyrirbyggjandi aðgerða með aðferðum og kenningum jákvæðrar karlmennsku. Að Ísland verði leiðandi innanlands og á alþjóðavettvangi, sem og í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð, að innleiða fyrirbyggjandi aðgerðir jákvæðrar karlmennsku sem hvetur karlmenn og stráka til að beita sér í þágu jafnréttis.

Aðgerð 3

- Stuðlað verði að bættum aðgangi þolenda kynbundins ofbeldis að hvers kyns þjónustu aðila sem hafi burði til að sinna hlutverki sínu.

• Stjórnvöld styðji í tvíhliða og marghliða þróunar- & mannúðarstarfi við þolendur kynbundins ofbeldis, hvort sem er með veitingu fjármagns í verkefni eða sem stuðning við kvennaathvörf og griðastaði kvenna.

• Að brotaþolar sem kæra kynferðisbrot eða ofbeldi í nánum samböndum verði veitt aðild að sakamálinu, ekki síst í því skyni að styrkja réttarstöðu þeirra gagnvart ríkinu og veita lögreglu og ákæruvaldi aðhald í málinu. Í dag eru brotaþolar einungis vitni í eigin máli og hafa því lítinn rétt á að fylgjast með framgangi málsins eða gera athugasemdir. Einnig verður að tryggja að ríkið geti verið skaðabótaskylt ef brotið er á rétti brotaþola til réttlátrar málsmeðferðar.

• Að brotaþolum verði veitt kæruheimild á rannsóknarstigi telji brotaþoli að verið sé að fyrirgera rétti um réttláta málsmeðferð og að lögfest verði hlutlæg skaðabótaábyrgð þegar slæleg vinnubrögð lögreglu og ákæruvalds valda því að ekki er hægt að ákæra í máli.

• Að brotaþolar njóti áfram aðstoðar réttargæslumanns þó svo mál, sem er samsett úr nokkrum kæruliðum, klofni og þeim kæruliðum sem eftir standi fylgi ekki réttargæslumaður.

• Að brotaþolar í kynferðisbrotamálum og málum er varða ofbeldi í nánum samböndum hafi rétt á gjafsókn og ríkissjóður ábyrgist dæmdar bætur í einkamálum gegn tjónvöldum með sambærilegum hætti og kveðið er á um í lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Þetta myndi veita brotaþolum aukinn möguleika á lagalegri viðurkenningu á því óréttlæti sem þær voru beittar, sé sakamálarannsókn á broti gegn þeim hætt eða mál fellt niður.

Aðgerð 4

- Samtökum kvennahreyfingarinnar verði gert kleift að halda úti starfsemi og hafa áhrif á stefnumótun sem varðar kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum.

• Stjórnvöld styðji við grasrót kvennasamtaka á Íslandi með fyrirsjáanlegum framlögum til lengri tíma sem geri þeim kleift að halda úti sínu mikilvæga starfi í vitundarvakningu, forvörnum og þjónustu við þolendur.

• Stjórnvöld hefji samtal við kvennahreyfinguna á Íslandi um stefnumótun og langtímamarkmið í utanríkismálum Íslands hvað varðar áherslur í jafnréttismálum og þá sérstaklega hvað varðar kynbundið ofbeldi og móti um leið feminíska utanríkisstefnu. Áherslur sem hægt væri að tengja við starf stjórnvalda á hverjum tíma, eins og t.d. setu í stjórnum og sæti í alþjóðastofnunum.

• Stjórnvöld styðji við verkefni í mannúðarmálum sem hafa það að markmiði að kvenmiða neyðaraðstoð, taka tillit til þarfa kvenna og valdefla konur. Að 50% ODA sem rennur til mannúðaraðstoðar fari til samtaka/verkefna sem tryggja það.

• Að Ísland verði miðstöð grasróta kvennasamtaka og femínista á heimsvísu. Vettvangurinn verði nýttur til að eiga samtal árlega/2 ára fresti í Reykjavík um kynbundið ofbeldi. Í samstarfi við sérfræðinga og grasrótina verði settir fram mælikvarðar sem hægt er að nota til að mæla á heimsvísu stöðuna í málaflokknum. GBV Reykjavík Index.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Alþýðusamband Íslands - 03.05.2021

Meðfylgjandi sendist umsögn ASÍ.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Tinna Rut B. Isebarn - 03.05.2021

Meðfylgjandi er umsögn Landssambands ungmennafélaga (LUF) um mótun skuldbindinga íslenskra stjórnvalda í tengslum við þátttöku í átaksverkefni UN Women, Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Forum).

Virðingarfyllst f.h. LUF

Tinna Isebarn, framkvæmdastjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Kvenréttindafélag Íslands - 03.05.2021

Hér í viðhengi er umsögn Kvenréttindafélags Íslands um mótun skuldbindinga íslenskra stjórnvalda í tengslum við þátttöku í átaksverkefni UN Women, Kynslóð jafnréttis.

bestu kveðjur, Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

Viðhengi