Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 19.4.–3.5.2021

2

Í vinnslu

  • 4.5.2021–

Samráði lokið

Mál nr. S-101/2021

Birt: 19.4.2021

Fjöldi umsagna: 4

Annað

Utanríkisráðuneytið

Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Mótun skuldbindinga íslenskra stjórnvalda í tengslum við þátttöku í átaksverkefni UN Women, Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Forum).

Málsefni

Stýrihópur forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis efnir til samráðs við haghafa á sviði jafnréttismála um mótun skuldbindinga og aðgerða af Íslands hálfu um upprætingu kynbundins ofbeldis.

Nánari upplýsingar

Kynslóð jafnréttis er unnið á sex málefnasviðum og stýrt af aðgerðabandalögum. Íslensk stjórnvöld veita aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi (e. Action Coalition on Gender Based Violence) forystu ásamt Bretlandi, Úrúgvæ, Kenía, Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, UN Women, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Ford Foundation (góðgerðasjóður) og völdum alþjóðasamtökum kvennahreyfingarinnar.

Aðgerðabandalagið birti 8. mars síðastliðinn, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, stefnuyfirlýsingu, meginþemu og markmið bandalagsins til næstu fimm ára. Þátttakendur vinna nú að mótun skuldbindinga og aðgerða til næstu fimm ára og verða þær kynntar á ráðstefnu verkefnisins í París dagana 30. júní – 2. júlí næstkomandi. Samráð við hagaðila þjónar þeim tilgangi að nýta sjónarmið samtaka kvennahreyfingarinnar og sérfræðinga á sviði jafnréttismála við mótun skuldbindinga íslenskra stjórnvalda.

Kynslóð jafnréttis er stærsta verkefni UN Women hingað til og meðal helstu áherslumála aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, António Guterres. Markmiðið er að unnið sé markvisst að úrbótum á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030. Þátttakendur eru ríki, alþjóðastofnanir og frjáls félagasamtök sem leiða aðgerðir á sviði jafnréttismála til fimm ára (2021-2026).

Verkefninu var ýtt úr vör í tilefni 25 ára afmælis fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um málefni kvenna sem haldin var í Peking árið 1995. Á ráðstefnunni var samþykkt pólitísk yfirlýsing og framkvæmdaáætlun um réttindi kvenna, Pekingáætlunin, sem m.a. byggist á ákvæðum kvennasáttmála SÞ frá árinu 1979, um afnám allrar mismununar gegn konum.

Frá því í júní 2020 hafa fulltrúar stýrihóps forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins tekið þátt í fundum aðgerðabandalagsins þar sem unnið var að mótun megináherslna annars vegar og markmiðum og mælikvörðum hins vegar. Áherslur aðgerðabandalagsins eru birtar í sérstöku fylgiskjali hér til hliðar, bæði á íslensku og ensku.

Fyrsta ráðstefna verkefnisins var haldin með fjarfundabúnaði frá Mexíkó 29.–31. mars 2021. Á ráðstefnunni voru áherslur aðgerðabandalaganna kynntar og kallað eftir skuldbindingum þátttakenda í verkefninu.

Önnur ráðstefna verkefnisins verður haldinn í samstarfi við frönsk stjórnvöld í París 30. júní – 2. júlí 2021. Á ráðstefnunni kynna þjóðarleiðtogar, ráðherrar og fulltrúar annarra samstarfsaðila skuldbindingar sínar og fjármögnun aðgerða til næstu fimm ára.

Kynningarfundur fyrir innlenda hagsmunaðila um Kynslóð jafnréttis var haldinn 16. nóvember 2020. Samráðsfundir um gerð tillagna að skuldbindingum og aðgerðum verða haldnir með fjarfundabúnaði mánudaginn 26. apríl 2021.

Nánari upplýsingar um verkefnið Kynslóð jafnréttis, sem nýtast við gerð umsagna má nálgast í fylgiskjölum hér til hliðar.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Stýrihópur forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis

utn@utn.is