Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 23.4.–12.5.2021

2

Í vinnslu

  • 13.5.–9.9.2021

3

Samráði lokið

  • 10.9.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-103/2021

Birt: 23.4.2021

Fjöldi umsagna: 5

Drög að stefnu

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Almenn eigandastefna ríkisins fyrir öll félög í eigu ríkisins

Niðurstöður

Endurskoðuð almenn eigandastefna fyrir félög í eigu ríkisins hefur nú verið birt á stjórnarráðsvefnum og tekið formlegt gildi. Við endurskoðunina var lögð áhersla á að innleiða nýrri sjónarmið, svo sem um samfélagslega ábyrgð, þ.m.t. loftlagsmál og jafnrétti. Ráðuneytið þakkar öllum umsagnaraðilum fyrir góðar ábendingar sem hafðar voru til hliðsjónar í endurskoðunarferlinu. Ekki voru gerðar neinar efnislegar breytingar eftir samráðið á stefnunni heldur aðallega skerpt á orðalagi til að koma í veg fyrir mistúlkun og til að auka skýrleika á stefnunni.

Málsefni

Endurskoðuð almenn eigandastefna fyrir félög í eigu ríkisins.

Nánari upplýsingar

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með eignarhald félaga í eigu ríkisins nema lög mæli fyrir um annað. Markmiðið með þessu fyrirkomulagi er að halda utan um félög ríkisins á miðlægan hátt og skilja sem mest á milli faglegrar umsýslu félaga af hálfu ríkisins og því lögbundna hlutverki þess að sjá um reglusetningu og eftirlit með starfsháttum einstakra atvinnugreina.

Setning almennrar eigandastefnu fyrir öll félög í eigu ríkisins er einn lykilþátta í meðferð eignarhaldsins. Fjármála- og efnahagsráðherra mótar stefnuna í samræmi við 44. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015. Árið 2012 var fyrst gefin út almenn eigandastefna ríkisins sem gildir um hlutafélög og sameignarfélög í eigu ríkisins önnur en fjármálafyrirtæki. Í kjarna hennar felst að félögin séu rekin á faglegan og gagnsæjan hátt þannig að almennt traust ríki um stjórn og starfsemi þeirra.

Eigandahlutverk ríkisins byggir á viðurkenndum leiðbeiningum um góða stjórnarhætti fyrirtækja og þá sérstaklega leiðbeiningum OECD um stjórnarhætti fyrirtækja í opinberri eigu, auk almennra viðmiða um hlutverk og skyldur eiganda. Áhersla er lögð á reglubundin samskipti og upplýsingagjöf milli eiganda og félaga í eigu ríkisins um rekstur og stefnumörkun þeirra, sem verður þó að byggjast á skýrum ábyrgðarskilum milli eiganda, stjórna og stjórnenda.

Ríkið á nú þegar þýðingarmikil félög í íslensku atvinnulífi og gegna sum þeirra mikilvægu kerfislegu hlutverki í samfélaginu auk þess að starfa á samkeppnismarkaði. Þá hefur ör þróun í tækni og neytendahegðun mikil áhrif á rekstur og rekstrargrundvöll fyrirtækja og á það sama við um opinber fyrirtæki. Því er mikilvægt að vel sé haldið um eignarhald á ríkisfélögum.

Hin almenna eigandastefna ríkisins skiptist í fimm meginkafla ásamt viðaukum þar sem fjallað verður ítarlegar um einstök mál, einstaka geira og stærri félög, eftir því sem þörf krefur. Mun eigandastefnan ásamt viðaukum sæta reglulegri endurskoðun eftir því sem þörf verður á.

Mikilvægt er að eigandastefna ríkisins á hverjum tíma sé aðgengileg almenningi og kynnt stjórnum og stjórnendum félaganna. Sama gildir um Alþingi og aðra aðila sem hagsmuna eiga að gæta, s.s. í atvinnulífinu og stjórnkerfinu. Skýr og formleg stefna eiganda er til þess fallin að auka á festu og byggja upp áframhaldandi traust á þeim félögum sem undir stefnuna falla og því umhverfi sem þau starfa í. Eigandastefna ríkisins gildir fyrir öll fyrirtæki að meiri hluta í eigu ríkisins.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar að loknum umsagnarfresti. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa stjórnunar og umbóta

postur@fjr.is