Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 11.05.2021–31.05.2021.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 06.12.2021.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti óskar eftir umsögnum um tillögu að breytingu á gildandi aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 og 2013. Markmið breytinganna er að tryggja fjöltyngdum nemendum enn betri þjónustu en áður. Tillögurnar hafa verið unnar af Menntamálastofnun í samstarfi við hagsmunaaðila.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti óskar eftir umsögnum um tillögu að breytingu á gildandi aðalnámskrá grunnskóla sem hafa verið unnar að beiðni ráðuneytis af Menntamálastofnun í samstarfi við hagsmunaaðila. Annars vegar breytingar á kafla um íslensku sem annað tungumál í greinasviðahluta aðalnámskrár frá 2013 og hins vegar almenna hluta hennar frá 2011 þar sem lagt er til að bætt sé við nýjum undirköflum um menningarfærni, móttöku og fjöltyngi.
Markmið breytinganna er að veita framúrskarandi menntun með áherslu á þrautseigju, hugrekki, þekkingu, hamingju og sjálfbærni í umhverfi þar sem allir skipta máli og geta lært í anda nýrrar menntastefnu til ársins 2030.
Með auknum fjölda aðfluttra tekst íslenskt skólakerfi á við nýjar áskoranir en nemendum sem hafa fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn hefur fjölgað ár frá ári undanfarin ár. Nemendur með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn eru nú tæp 12% allra grunnskólanemenda og hvernig við mætum þessum nemendum í grunnskólum landsins skiptir sköpum fyrir einstaklingana og samfélagið í heild.
Breytingarnar fela í sér aukna áherslu á íslensku sem annað tungumál í aðalnámskrá grunnskóla með skýrari afmörkun greinasviðsins og skýrari viðmiðum. Með þessum tillögum að breytingum hefur almenn umfjöllun um íslensku sem annað tungumál í aðalnámskrá grunnskóla verið aukin og endurspeglast í áherslu á móttöku, mat á fyrri þekkingu, fjöltyngi, máltöku, námsorðaforða og næmi fyrir tungumálum almennt.
Þær breytingar sem hér eru settar fram er ætlað til að bregðast við þeim áskorunum sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir í kjölfar samfélagsbreytinga undanfarinna ára.
Með þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi, sem samþykkt var á Alþingi 7. júní 2019, er stefnt að því að íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum. Þeir einstaklingar sem búsettir eru á Íslandi og hafa annað móðurmál en íslensku, eiga að njóta viðeigandi og jafngildra tækifæra til íslenskunáms og stuðnings í samræmi við þarfir sínar. Leiðarljósið er virkt tvítyngi og að nemendur með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn standi jafnfætis jafnöldrum sínum sem hafa íslensku að móðurmáli.
Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi 15. ágúst 2021.
Umsögnum skal skilað eigi síðar en 31. maí 2021 í samráðsgátt.
Meðfylgjandi er umsögn ADHD samtakanna og Sjónarhóls ráðgjafamiðstöðvar.
ViðhengiGóðan dag
Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
f.h. sambandsins
Valgerður Rún
ViðhengiHér kemur stutt umsögn frá Vallaskóla Selfossi.
Okkur finnst orðalag stundum of langt og töluvert um endurtekningar... kannski eiga þær að vera....?
Spurning að einfalda setningar og passa betur uppá stíganda.
Annars að mestu gott :)
Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um tillögu að breytingu á aðalnámskrá grunnskóla nr. 113/2021
Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir boð um að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.
Að mati Barnaheilla er ánægjulegt að komið er til móts við stækkandi hóp barna sem hafa annað móðurmál en íslensku og fjölbreyttan menningarbakgrunn í tillögu að breytingu á aðalnámskrá grunnskóla. Með því er tekið stórt skref til að efla hæfni nemenda af erlendum uppruna í íslensku sem mun valdefla þau og jafna betur stöðu þeirra í íslensku samfélagi. Mikilvægt er að mati samtakanna að aðalnámskrár allra skólastiga séu í stöðugri þróun og í samræmi við þær breytingar sem eiga sér sífellt stað í íslensku samfélagi.
Í aðalnámskrá kemur fram að starfshættir skólans skuli mótast af umburðarlyndi og jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð. Ein leið til að ná fram því markmiði eru breytingar sem þessar sem nú eru lagðar fram. Bakgrunnur barna í íslenskum grunnskólum er fjölbreyttur og ekki eingöngu vegna mismunandi móðurmáls heldur er menning þeirra, uppruni, trúarbrögð, siðir og venjur af mismunandi toga. Í drögum að stefnu um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út árið 2020 kemur fram að þessi börn eru oft í viðkvæmri félagslegri stöðu. Þá er algengara að þau finni til meiri vanlíðanar en önnur börn.
Barnaheill líta svo á að þær breytingar sem nú eru lagðar til í aðalnámskrá grunnskóla stuðli að auknu jafnrétti allra barna til náms og þátttöku í samfélaginu. Með þessum breytingum kemur skýrt fram mikilvægi þess að bilið milli þeirrar menningar sem barnið býr við á heimili sínu og þeirrar menningar sem ríkjandi er í grunnskólanum sé brúað. Þessar breytingar eru í samræmi við 2. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um að öll börn eigi að njóta sömu réttinda burtséð frá mismunandi menningarbakgrunni og 28. gr. sem fjallar um að öll börn eigi rétt á menntun og það eigi að hvetja þau til að mennta sig.
Barnaheill telja að til að tryggja jafngóð tækifæri allra til íslenskunáms sé brýnt að nemendum sé boðið upp á kennslu í íslensku sem annað tungumál í grunnskólum á skólatíma, þeim að kostnaðarlausu. Er það að mati samtakanna í samræmi við greinargerðina sem fylgir tillögu þessari að breytingum á aðalnámskrá en þar kemur m.a. fram að: „Ábyrgð á íslenskunáminu hvílir á skólastjórnendum, umsjónarkennurum, íslenskukennurum og kennurum allra námssviða sem þurfa að vinna saman til að námið verði markvisst.“ Enn fremur kemur fram að: „Þeir einstaklingar sem búsettir eru á Íslandi og hafa annað móðurmál en íslensku, eiga að njóta viðeigandi og jafngildra tækifæra til íslenskunáms og stuðnings í samræmi við þarfir sínar.“
Auk ofangreinds telja Barnaheilla það vera mikilvæga forsendu þess að börn af erlendum uppruna nái góðum tökum á íslensku, að þau hafi góðan grunn í sínu móðurmáli. Því telja samtökin brýnt að öll börn fái kennslu í sínu móðurmáli á skólatíma þeim að kostnaðarlausu undir stjórn faglegs menntaðs starfsfólks. Þau úrræði sem börnum af erlendum uppruna gefst í dag kostur á að nýta til að efla sig í móðurmáli sínu eru oftar en ekki kennsla sem fram fer utan skólatíma. Þar með er skóladagur þeirra barna enn lengri en annarra barna auk þess sem þau fela oft í sér kostnað sem stuðlar að því að ekki geta öll börn eflt sig í móðurmáli sínu vegna mismunandi fjárhagslegrar stöðu foreldra sinna.
Að mati Barnaheilla er mikilvægt að hafa í huga að þegar börnum er skipt á stig eftir hæfni þeirra í íslensku sem öðru tungumáli sé komið til móts við nemendur burtséð frá aldri þeirra svo tryggt sé að hver og einn hafi námsefni við hæfi og í samræmi við annan þroska. Það má gera ráð fyrir því að börn standi misvel að vígi í íslensku sem öðru tungumáli og því mega ekki vera sömu nálganir og námsefni í boði fyrir t.a.m. 7 ára nemanda annars vegar og 14 ára nemanda hins vegar þó þau falli undir sama hæfniramma. Nemendur þurfa allir að fá að koma út úr þessu námi og flokkun á hæfni þeirra með reisn.
Barnaheill fagna þeirri auknu áherslu sem lýtur að samstarfi skóla og foreldra. Til að tryggja velferð barns er mikilvægt að gagnkvæm virðing sé ríkjandi milli heimilis og skóla og þá skiptir höfuðmáli að miðla upplýsingum þar á milli. Foreldrar af erlendum uppruna hafa í sumum tilfellum ólíka sýn á uppeldi, menningu og menntun en ríkjandi er í skólum og þarf því að ríkja gagnkvæmur vilji til skilnings svo nám og vellíðan barnsins sé haft í forgrunni.
Barnaheill vilja þó árétta að þrátt fyrir mikilvægi þeirrar áherslu að mæta hverju og einu barni út frá mismunandi menningarbakgrunni, m.a. vegna mismunandi móðurmáls, þarf aðaláherslan ætíð að vera á það sem börnin eiga sameiginlegt frekar en það sem greinir þau í sundur. Mikilvægt er að leggja áherslu á gildi margbreytileikans og að mismunandi bakgrunnur og mismunandi styrkleikar nemenda geri hópinn sterkari og hvern og einn víðsýnni. Kennarar á grunnskólastigi þurfa að vera meðvitaðir um að koma til móts við hvert og eitt barn þegar nám þeirra er skipulagt en í 29. gr. Barnasáttmálans kemur fram að menntun eigi m.a. að hjálpa börnum að læra að rækta sjálfsmynd sína, hæfileika og færni.
Í tillögunum er lögð áhersla á að foreldrar séu reglulega upplýstir um stöðu og framfarir barna sinna og þarfir þeirra fyrir stuðning við námið. Foreldrahópurinn er fjölbreyttur, með mismunandi bakgrunn og forsendur til að taka við upplýsingum, skilja þær og að veita börnum sínum stuðning við námið. Taka þarf tillit til þess og skólinn þarf að laga sig að mismunandi forsendum foreldra.
Barnaheill leggja áherslu á að til að umrædd markmið verði að veruleika, börnum til góðs, þarf að tryggja nægilega margar kennslustundir til að árangur náist.
Barnaheill leggja mikla áherslu á rétt barna til jafnra tækifæra og að vera ekki mismunað, vernd barna gegn ofbeldi og vanrækslu og á rétt barna til að hafa áhrif á ákvarðanir sem þau varða. Samtökin hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi.
Viðhengi