Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 11.–31.5.2021

2

Í vinnslu

  • 1.6.–5.12.2021

3

Samráði lokið

  • 6.12.2021

Mál nr. S-113/2021

Birt: 11.5.2021

Fjöldi umsagna: 4

Annað

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Leikskólar, grunnskólar, önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála

Endurskoðun aðalnámskrár grunnskóla

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðuneyti óskar eftir umsögnum um tillögu að breytingu á gildandi aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 og 2013. Markmið breytinganna er að tryggja fjöltyngdum nemendum enn betri þjónustu en áður. Tillögurnar hafa verið unnar af Menntamálastofnun í samstarfi við hagsmunaaðila.

Nánari upplýsingar

Mennta- og menningarmálaráðuneyti óskar eftir umsögnum um tillögu að breytingu á gildandi aðalnámskrá grunnskóla sem hafa verið unnar að beiðni ráðuneytis af Menntamálastofnun í samstarfi við hagsmunaaðila. Annars vegar breytingar á kafla um íslensku sem annað tungumál í greinasviðahluta aðalnámskrár frá 2013 og hins vegar almenna hluta hennar frá 2011 þar sem lagt er til að bætt sé við nýjum undirköflum um menningarfærni, móttöku og fjöltyngi.

Markmið breytinganna er að veita framúrskarandi menntun með áherslu á þrautseigju, hugrekki, þekkingu, hamingju og sjálfbærni í umhverfi þar sem allir skipta máli og geta lært í anda nýrrar menntastefnu til ársins 2030.

Með auknum fjölda aðfluttra tekst íslenskt skólakerfi á við nýjar áskoranir en nemendum sem hafa fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn hefur fjölgað ár frá ári undanfarin ár. Nemendur með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn eru nú tæp 12% allra grunnskólanemenda og hvernig við mætum þessum nemendum í grunnskólum landsins skiptir sköpum fyrir einstaklingana og samfélagið í heild.

Breytingarnar fela í sér aukna áherslu á íslensku sem annað tungumál í aðalnámskrá grunnskóla með skýrari afmörkun greinasviðsins og skýrari viðmiðum. Með þessum tillögum að breytingum hefur almenn umfjöllun um íslensku sem annað tungumál í aðalnámskrá grunnskóla verið aukin og endurspeglast í áherslu á móttöku, mat á fyrri þekkingu, fjöltyngi, máltöku, námsorðaforða og næmi fyrir tungumálum almennt.

Þær breytingar sem hér eru settar fram er ætlað til að bregðast við þeim áskorunum sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir í kjölfar samfélagsbreytinga undanfarinna ára.

Með þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi, sem samþykkt var á Alþingi 7. júní 2019, er stefnt að því að íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum. Þeir einstaklingar sem búsettir eru á Íslandi og hafa annað móðurmál en íslensku, eiga að njóta viðeigandi og jafngildra tækifæra til íslenskunáms og stuðnings í samræmi við þarfir sínar. Leiðarljósið er virkt tvítyngi og að nemendur með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn standi jafnfætis jafnöldrum sínum sem hafa íslensku að móðurmáli.

Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi 15. ágúst 2021.

Umsögnum skal skilað eigi síðar en 31. maí 2021 í samráðsgátt.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

mrn@mrn.is