Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 21.5.–4.6.2021

2

Í vinnslu

  • 5.6.–5.12.2021

3

Samráði lokið

  • 6.12.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-117/2021

Birt: 21.5.2021

Fjöldi umsagna: 8

Drög að frumvarpi til laga

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjölskyldumál

Drög að frumvarpi til laga um greiðslur vegna umönnunar langveikra og fatlaðra barna.

Niðurstöður

Drög að frumvarpinu voru birt til umsagnar frá 21. maí til 4. júní 2021. Alls bárust átta umsagnir. Gerðar voru breytingar á frumvarpinu til þess að skýra efni frumvarpsins betur í nokkrum tilvikum þar sem talin var þörf á því með tilliti til tiltekinna athugasemda sem bárust. Frumvarpið er á þingmálaskrá 152. löggjafarþings 2021-2022.

Málsefni

Félagsmálaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um greiðslur vegna umönnunar langveikra og fatlaðra barna. Umsagnarfrestur er til 4. júní nk.

Nánari upplýsingar

Í frumvarpinu er lagt til að umönnunargreiðslur skv. 4. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og greiðslur samkvæmt lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, verði sameinaðar og er gert ráð fyrir að í stað þeirra komi umönnunarstyrkur og umönnunargreiðslur. Einnig er gert ráð fyrir að til viðbótar framangreindum greiðslum komi nýr greiðsluflokkur, kostnaðargreiðslur, en þar er um að ræða greiðslur vegna kostnaðar sem ætlað er að koma til móts við þann umframkostnað sem stafar af fötlun eða veikindum barns og aðrir opinberir aðilar greiða ekki. Verði frumvarpið að lögum munu þessir greiðsluflokkar mynda heildstæða löggjöf um fjárhagslegan stuðning ríkisins við fjölskyldur barna sem hafa greinst með alvarlega fötlun eða langvinna sjúkdóma.

Þá er í frumvarpinu lagt til að sveigjanleiki stuðningskerfisins verði aukinn og áherslum breytt á þann hátt að dregið verði úr vægi læknisfræðilegra greininga og innlagna á sjúkrahús. Stuðningur við umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna verði þannig í auknum mæli miðaður við raunverulega umönnunarþörf barnanna umfram það sem á við um heilbrigð börn á sama aldursskeið. Er lagt til nýtt þrepaskipt umönnunarmat sem felur í sér að mat á sérstakri þörf barns fyrir umönnun umönnunaraðila verði samræmt fyrir bæði langveik börn og fötluð börn og byggi á sérstakri umönnunarþörf þeirra. Jafnframt verði aðkoma sveitarfélaga aukin þannig að þeim verði falið að annast mat á umönnunarþörf barns og skili heildstæðri samantekt til Tryggingastofnunar ríkisins sem framkvæmi endanlegt umönnunarmat á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Umönnunarmat Tryggingastofnunar verði grundvöllur greiðslna vegna umönnunar langveiks eða fatlaðs barns.

Jafnframt er lagt til að umsýsla með málaflokkinn verði skilvirkari m.a. með því að starfsemi og þjónusta Tryggingastofnunar verði bætt, s.s. varðandi upplýsingagjöf á ýmsum tungumálum og aðgengi að upplýsingum á rafrænu formi á vef stofnunarinnar. Þá verði upplýsingagjöf til umönnunaraðila bætt þannig að þeir fái góðar og skýrar upplýsingar um mögulegan rétt sinn. Umsóknarferlið verði einfaldað, það verði rafrænt og samskipti verði aukin, þ. á m. við umsækjendur, þjónustuaðila og stofnanir. Áhersla er lögð á að umsóknir verði afgreiddar eins fljótt og unnt er og við umsóknarferlið geti umönnunaraðilar óskað eftir aðstoð félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Félagsmálaráðuneytið

frn@frn.is