Umsagnarfrestur er liðinn (21.05.2021–04.06.2021).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birtir til umsagnar drög að nýrri reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng sem ætlað er að leysa af hólmi gildandi reglugerð á þessu sviði, nr. 992/2007.
Ákvæði gildandi reglugerðar um öryggiskröfur fyrir jarðgöng, nr. 992/2007, taka til allra jarðganga á Íslandi sem tilheyra hinu svonefnda samevrópska vegakerfi, en það eru göngin fjögur á hringveginum (Hvalfjarðargöng, Vaðlaheiðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng og Almannaskarðsgöng). Þá taka þau einnig til annarra jarðganga sem eru lengri en 1000 metrar og umferðarþungi er meiri en 2000 ökutæki að meðaltali á dag á akrein. Samkvæmt gildandi reglugerð fer Vegagerðin með víðtækt eftirlitshlutverk með því að öryggiskröfur fyrir þau jarðgöng sem reglugerðin tekur til séu uppfylltar.
Helstu breytingar sem felast í reglugerðardrögunum sem hér eru birt eru eftirfarandi:
1. Gildissvið reglna um öryggiskröfur fyrir jarðgöng verði útvíkkað þannig að þær taki til allra jarðganga á Íslandi, lengri en 500 m, sem opin eru fyrir almennri umferð.
2. Jarðgöng á Íslandi verði flokkuð í þrjá flokka og gerðar mismunandi öryggiskröfur til hvers flokks. Þetta er lagt til þar sem eðlilegt þykir að gerðar séu sambærilegar kröfur til sambærilegra jarðganga. Flokkarnir eru :
A) Jarðgöng í flokki I: Jarðgöng sem tilheyra samevrópska vegakerfinu og öll jarðgöng tekin í notkun eftir 1. janúar 2021 hvort sem þau tilheyra samevrópska vegakerfinu eða ekki. Í þennan flokk falla Hvalfjarðargöng, Vaðlaheiðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng og Almannaskarðsgöng í þennan flokk.
b) Jarðgöng í flokki II: Jarðgöng utan samevrópska vegakerfisins tekin í notkun á tímabilinu 24. október 2007 – 1. janúar 2021. Í þennan flokk falla Héðinsfjarðargöng, Bolungarvíkugöng, Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng.
c) Jarðgöng í flokki III: Jarðgöng utan samevrópska vegakerfisins tekin í notkun fyrir 24. október 2007. Í þennan flokk falla Strákagöng, Múlagöng og göng undir Breiðadals- og Botnsheiði.
Reglugerðardrögin gera ráð fyrir að allar kröfur I.-III. viðauka gildi um jarðgöng í flokki I.
Um jarðgöng í flokki II gildi sömu kröfur og um jarðgöng í flokki I, utan þess að millibil neyðarstöðva verði 250 metrar í stað 150 metra. Slíkar kröfur eru til samræmis við kröfur evrópureglna til jarðganga lengri en 500 metra sem tilheyra samevrópska vegakerfinu og tekin voru í notkun fyrir árið 2007.
Um jarðgöng í flokki III gildi tiltekin ákvæði um m.a. lýsingu, loftræstingu, neyðarstöðvar, vatnsveitu, umferðarmerki, stjórnstöð, vöktunarkerfi, búnað til lokunar, fjarskiptakerfi, aflgjafa, aflrásir og um brunaþol búnaðar. Öryggiskröfur sem gerðar voru til jarðganga á byggingartíma jarðganga í flokki III eru töluvert ólíkar þeim kröfum sem gerðar eru í dag. Þá eru jarðgöng í flokki III ýmist einbreið með öllu eða einbreið að hluta. Meðal annars vegna þess er ekki lagt til að allar kröfur sem gerðar eru til jarðganga í flokki I séu gerðar til jarðganga í flokki III.
3. Samgöngustofu verði falið skýrt hlutverk við eftirlit með því að öryggiskröfur í jarðgöngum séu uppfylltar og eftirlit því fært frá Vegagerðinni. Þannig verði Samgöngustofu m.a. gert að sjá til þess að framkvæmdar séu reglubundnar skoðanir til að tryggja að öll jarðgöng sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar fullnægi öryggiskröfum. Þá verði Samgöngustofu heimilt að stöðva tímabundið eða takmarka starfsemi jarðganga ef öryggiskröfum er ekki fullnægt.
Þess er óskað að athugasemdir við reglugerðardrögin berist eigi síðar en 4. júní 2021. Gert er ráð fyrir að reglugerðin öðlist þegar gildi við birtingu utan þess að tilteknar kröfur til búnaðar í jarðgöngum í flokki II og III muni öðlast gildi 1. júní 2026.
Meðfylgjandi er umsögn um reglugerð um öryggismál í jarðgöngum. Umsögnin er fh fyrirtækisins Bráðalausna sem sérhæfir sig í gerð Neyðaráætlana, viðbragðsáætlana, kennslu og þjálfun varðandi eld, efna og efnaslysa og skyndihjálpar. Höfundur er fv. deildarstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB.
ViðhengiGóðan dag,
Viðhengd er umsögn Fjallabyggðar um drög að reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng, einnig er hér viðhengd umsögn slökkviliðstjóra vegna sama máls.
Virðingarfyllst.
Elías Pétursson
bæjarstjóri
Viðhengi ViðhengiHjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um reglugerðardrögin.
F.h. sambandsins,
Guðjón Bragason
ViðhengiHér er að finna umsögn Samgöngufélagsins um drög að reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng ásamt viðaukum með reglugerðinni, dags. 4. júní 2021.
Virðingarfyllst.
f.h. Samgöngufélagsins
Jónas Guðmundsson
fyrirsvarsmaður
ViðhengiHeil og sæl.
Undirritaður sá um EuroTAP öryggisúttekt á Hvalfjarðargöngum árið 2010 í samvinnu við Spöl hf. og FIA Foundation öryggissjóð alþjóða bílasambandsins FIA sem fjármögnuðu verkefnið. Niðurstaða þeirrar úttektar var allt annað en glæsileg eins og fram kemur í meðfylgjandi niðurstöðum, en 26 jarðgöng voru tekin út í Evrópu árið 2010.
EuroTAP er samræmd öryggisskoðun á jarðgöngum í Evrópu. Jarðgangasérfræðingur kom til Íslands og stýrði þessari úttekt á Hvalfjarðargöngum. Í kjölfarið réðist Spölur í viðamiklar breytingar á göngunum.
2012 framkvæmdi undirrtaður úttekt á öllum öðrum göngum í rekstri á Íslandi, sem var mun viðaminni en EuroTAP útektin á Hvalfjarðargöngum. Það var gert samhliða EuroRAP öryggisúttekt vega sem þá var í gangi. Niðurstöður þeirrar úttektar fylgir hér með og var allt annað en glæsileg.
Ég fagna mjög að þessi drög að reglugerð hafi litið dagsins ljós, enda veitir ekki af að auka öryggi og eftirlit í jarðgöngum á Íslandi. Það sem skiptir mestu máli er að þessi reglugerð taki mið af því sem best gerist í löndunum í kringum okkur. Þar er aðalatriðið að fylgja tilskipun Evrópusambandsins um öryggi í jarðgöngum EU-54. Þessi reglugerð þarf að fylgja þeirri tilskipun og taka mið af því sem aðrar þjóðir gera. Þetta á sérstaklega við um TERN vegi á Íslandi, en það er skilgreining á Trans European Road Network skv. EES samningnum.
Grundvallaratrið er að greina á milli reksturs og eftirlits með öryggi jarðganga. Rekstraraðilinn á að bera ábyrgð á rekstri og öryggi jarðganga en eftirlitsaðilinn á að setja kröfurnar, taka "stikkprufur" og gera kröfur um úrbætur þegar þarf. Þetta er svipað kerfi og er viðhaft varðandi flug og siglingar og ber að innleiða varðandi jarðgöng og samgöngumannvirki á landi.
Meðfylgjandi eru gögn varðandi þetta og ég er boðinn og búinn til að koma að því sem fylgir þessari reglugerð til að auka öryggi jarðganga á Íslandi, sem er mjög brýnt mál.
Viðhengi Viðhengi Viðhengi