Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 21.5.–4.6.2021

2

Í vinnslu

  • 5.6.2021–

Samráði lokið

Mál nr. S-120/2021

Birt: 21.5.2021

Fjöldi umsagna: 6

Drög að reglugerð

Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og fjarskiptamál

Drög að reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birtir til umsagnar drög að nýrri reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng sem ætlað er að leysa af hólmi gildandi reglugerð á þessu sviði, nr. 992/2007.

Nánari upplýsingar

Ákvæði gildandi reglugerðar um öryggiskröfur fyrir jarðgöng, nr. 992/2007, taka til allra jarðganga á Íslandi sem tilheyra hinu svonefnda samevrópska vegakerfi, en það eru göngin fjögur á hringveginum (Hvalfjarðargöng, Vaðlaheiðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng og Almannaskarðsgöng). Þá taka þau einnig til annarra jarðganga sem eru lengri en 1000 metrar og umferðarþungi er meiri en 2000 ökutæki að meðaltali á dag á akrein. Samkvæmt gildandi reglugerð fer Vegagerðin með víðtækt eftirlitshlutverk með því að öryggiskröfur fyrir þau jarðgöng sem reglugerðin tekur til séu uppfylltar.

Helstu breytingar sem felast í reglugerðardrögunum sem hér eru birt eru eftirfarandi:

1. Gildissvið reglna um öryggiskröfur fyrir jarðgöng verði útvíkkað þannig að þær taki til allra jarðganga á Íslandi, lengri en 500 m, sem opin eru fyrir almennri umferð.

2. Jarðgöng á Íslandi verði flokkuð í þrjá flokka og gerðar mismunandi öryggiskröfur til hvers flokks. Þetta er lagt til þar sem eðlilegt þykir að gerðar séu sambærilegar kröfur til sambærilegra jarðganga. Flokkarnir eru :

A) Jarðgöng í flokki I: Jarðgöng sem tilheyra samevrópska vegakerfinu og öll jarðgöng tekin í notkun eftir 1. janúar 2021 hvort sem þau tilheyra samevrópska vegakerfinu eða ekki. Í þennan flokk falla Hvalfjarðargöng, Vaðlaheiðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng og Almannaskarðsgöng í þennan flokk.

b) Jarðgöng í flokki II: Jarðgöng utan samevrópska vegakerfisins tekin í notkun á tímabilinu 24. október 2007 – 1. janúar 2021. Í þennan flokk falla Héðinsfjarðargöng, Bolungarvíkugöng, Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng.

c) Jarðgöng í flokki III: Jarðgöng utan samevrópska vegakerfisins tekin í notkun fyrir 24. október 2007. Í þennan flokk falla Strákagöng, Múlagöng og göng undir Breiðadals- og Botnsheiði.

Reglugerðardrögin gera ráð fyrir að allar kröfur I.-III. viðauka gildi um jarðgöng í flokki I.

Um jarðgöng í flokki II gildi sömu kröfur og um jarðgöng í flokki I, utan þess að millibil neyðarstöðva verði 250 metrar í stað 150 metra. Slíkar kröfur eru til samræmis við kröfur evrópureglna til jarðganga lengri en 500 metra sem tilheyra samevrópska vegakerfinu og tekin voru í notkun fyrir árið 2007.

Um jarðgöng í flokki III gildi tiltekin ákvæði um m.a. lýsingu, loftræstingu, neyðarstöðvar, vatnsveitu, umferðarmerki, stjórnstöð, vöktunarkerfi, búnað til lokunar, fjarskiptakerfi, aflgjafa, aflrásir og um brunaþol búnaðar. Öryggiskröfur sem gerðar voru til jarðganga á byggingartíma jarðganga í flokki III eru töluvert ólíkar þeim kröfum sem gerðar eru í dag. Þá eru jarðgöng í flokki III ýmist einbreið með öllu eða einbreið að hluta. Meðal annars vegna þess er ekki lagt til að allar kröfur sem gerðar eru til jarðganga í flokki I séu gerðar til jarðganga í flokki III.

3. Samgöngustofu verði falið skýrt hlutverk við eftirlit með því að öryggiskröfur í jarðgöngum séu uppfylltar og eftirlit því fært frá Vegagerðinni. Þannig verði Samgöngustofu m.a. gert að sjá til þess að framkvæmdar séu reglubundnar skoðanir til að tryggja að öll jarðgöng sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar fullnægi öryggiskröfum. Þá verði Samgöngustofu heimilt að stöðva tímabundið eða takmarka starfsemi jarðganga ef öryggiskröfum er ekki fullnægt.

Þess er óskað að athugasemdir við reglugerðardrögin berist eigi síðar en 4. júní 2021. Gert er ráð fyrir að reglugerðin öðlist þegar gildi við birtingu utan þess að tilteknar kröfur til búnaðar í jarðgöngum í flokki II og III muni öðlast gildi 1. júní 2026.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa samgangna

postur@srn.is