Drög að aðgerðum vegna stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna fylgir í viðhengi.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 26.05.2021–14.06.2021.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 23.08.2021.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnir til samráðs drög aðgerðaáætlun vegna tillögu Æskulýðsráðs að stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna. Stefnan hefur ekki verið formlega samþykkt af ráðherra. Umfang stefnumótunarinnar miðast við gildissvið æskulýðslaga nr. 70/2007.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið kynnir til samráðs drög að aðgerðaáætlun vegna tillögu Æskulýðsráðs að stefnu í tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna. Stefnan hefur ekki verið formalega samþykkt af ráðherra. Gildistími stefnunnar verður til ársins 2030. Vakin er athygli á að um vinnuskjal er að ræða þar óskað er eftir athugasemdum fyrir áframhaldandi vinnu við aðgerðaáætlun. Þetta er liður í auknu samráði í vinnuferlinu þar sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft víðtæk áhrif á samráð við hagahafa.
Stefna um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna hefur nú þegar farið í gegnum samráðsgátt stjórnvalda og unnið hefur verið úr öllum þeim athugasemdum sem bárust. Það voru einkum fimm verkefni sem flestir umsagnaraðilar töldu brýnt að fara í.
- Ný lög um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna.
- Lagalegur rammi um tómstunda- og félagsstarf sveitarfélaga fyrir börn og ungmenni.
- Gæðaviðmið í skipulögðu tómstunda- og félagsstarfi.
- Ýmis miðlæg þjónusta og unnin verkefni fyrir alla lögaðila sem starfa í tómstunda- og félagsstarfi fyrir börn og ungmenni.
- Fleiri og fjölbreyttari sjóðir sem koma til móts við fjárþörf til tómstunda- og félagsstarfs.
Drög að aðgerðaáætlun er til samræmis við þær umsagnir sem bárust á stefnuna sjálfa og endurspeglar það sem ráðuneytið hyggst leggja áherslu á til að styðja við framkvæmd stefnu um félags- og tómstundastarf á næstu þremur árum. Með stefnu í skipulögðu tómstunda- og félagsstarfi er hægt að stuðla enn frekar að innleiðingu Barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna og tilmæla Evrópuráðsins um gæða félags- og tómstundastarf. Um leið er sett framtíðarsýn fyrir málaflokkinn og forgagnsröðun verkefna. Með þátttöku í skipulögðu tómstunda- og félagsstarfi fá börn og ungmenni tækifæri til að taka þátt á sínum forsendum, þroskast í öruggu umhverfi og um leið styðja við grunngildi þessi að búa í lýðræðislegu samfélagi.
Stefnt er að því að stefnan taki gildi um mitt ár 2021.
Umsögnum skal skilað eigi síðar en 7. júní 2021 í samráðsgátt
Umsögn Reykjavíkurborgar um drög að aðgerðaráætlun stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna 2020-2030
ViðhengiUmsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um drög að aðgerðaáætlun vegna stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna
Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir boð um að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.
Samtökin gerðu áður umsögn um drög að stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna 2020-2030 og fylgir hún hér með fyrir neðan.
Drögin að aðgerðaáætlun innihalda markmið þau sem í stefnunni er fjallað um og aðgerðir á grunni þeirra, eðli málsins samkvæmt. Að Barnaheilla eru aðgerðir skynsamlegar og ekkert við þær að athuga.
Uppfærð stefnudrög Æskulýðsráðs eru jafnframt vel unnin að mati samtakanna og er sérstaklega ánægjulegt að sjá stefnuna miða að því að ná til allra barna án mismununar til að stuðla að jöfnum tækifærum þeirra til þátttöku. Barnaheill vilja sérstaklega nefna mikilvægi þess að ná til barna af erlendum uppruna, barna með fötlun og annarra hópa barna sem hætt er við að verði út undan, vegna stöðu þeirra eða foreldra.
Að mati Barnaheilla er þó mikilvægt að í stefnunni séu sértækari stefnumið, svo sem um að almennt eigi að miða við að tómstundum barna fram að 10 ára aldri skuli lokið fyrir kl. 17 á daginn, þ.e. á vinnutíma og að frístundum og tómstundum sé fléttað saman þannig að börn kynnist fjölbreyttum tómstundum.
Enn fremur benda Barnaheill enn á mikilvægi þess að tómstundir barna upp að 10 ára aldri u.þ.b. séu ekki afreksmiðaðar. Setja þarf viðmið um það hvað sé tilhlýðilegt fyrir börn á mismunandi aldursstigum, t.d. um tímafjölda á viku sem mælt er með að börn sæki og rækti tómstundir.
Barnaheill hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi og leggja áherslu á rétt barna til jafnra tækifæra og rétt þeirra til að vera ekki mismunað, m.a. á grundvelli stöðu foreldra.
Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um drög að stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna 2020-2030.
Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir boð um að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.
Samtökin fagna því að nú séu komin fram stefnudrög fyrir félags- og tómstundastarf barna til ársins 2030.
Barnaheill þakka fyrir gott samráð við hagsmunaaðila og þau tækifæri sem gefin eru til að taka þátt í mótun stefnunnar. Samtökin fengu þannig áður tækifæri til að leggja fram tillögur að því hvað koma skyldi fram í stefnunni og um helstu sjónarmið sem samtökin töldu að gæta þyrfti að við mótun hennar. Margt af því sem Barnaheill lögðu til í áðursendu skjali til ráðuneytisins hefur náð inn í stefnudrögin og fyrir það þakka samtökin.
Stefnudrögin byggja á inntaki Æskulýðslaga nr. 70/2007. Að mati Barnaheilla er um margt orðið tímabært að endurskoða Æskulýðslögin og breyta þeim til samræmis við samtímaþekkingu og í takt við þróun sem hefur átt sér stað á fagsviði tómstunda- og félagsmálafræða. Skilgreina þarf á nýjan leik orðið Æskulýðsstarf í lögunum, með víðfeðmari hætti en gert er í núgildandi lögum, þar sem telja ætti með að æskulýðsstarf væri liður í að styðja við bætta lýðheilsu barna, þ.m.t. að tiltaka rétt þeirra til heilnæms umhverfis, líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsu.
Heilt yfir innihalda stefnudrögin gagnleg sjónarmið. Það er ánægjulegt að sjá að á hana sé litið sem þátt í innleiðingu Barnasáttmálans. Með því má ætla að við útfærslu og innleiðingu sjálfrar stefnunnar verði að horfa til allra meginreglna sáttmálans, 1) um að börn skuli hafa jafnan aðgang og jöfn tækifæri til félags- og tómstunda óháð stétt og stöðu, 2) um að allar ákvarðanir um börn og félags- og tómstundir skuli taka með það sem barni er fyrir bestu, 3) að með félags- og tómstundum skuli unnið að því að börn njóti besta mögulega lífs og þroska og 4) að við félags- og tómstundaiðju skuli börn fá að láta rödd sína heyrast og fá að taka virkan þátt í mótun og framfylgd stefnunnar. Gagnlegt væri að sjá fjallað um þessi sjónarmið í stefnunni frekar en nú þegar er gert.
Barnaheill vilja enn fremur ítreka eftirfarandi úr áðursendu skjali til ráðuneytis:
!) Mikil áhersla er lögð á það í stefnudrögunum að börn stundi félags- og tómstundastörf á eigin forsendum og það sé lýðræðislegt val. Að mati Barnaheilla er mikilvægt að börnum séu veitt tækifæri á fyrstu árum ástundunar, t.d. fram að 9 ára aldri, til að kynna sér fjölbreyttar tómstundir svo þau finni sjálf hvar áhugi þeirra, ánægja og styrkleikar liggja. Þetta mætti gjarnan tiltaka í stefnunni
2) Mikilvægt er að tryggja jafnt aðgengi allra barna í raun, að teknu tilliti til ólíkra þarfa, svo sem hvað varðar þjóðerni og tungumál, fjárhag, misjafnrar félagslegrar stöðu svo og fötlunar. Í stefnunni þarf að tiltaka þau sjónarmið svo ljóst sé að stefnan miði að því að veita þeim börnum sem þurfa sérstakan stuðning til að geta í raun nýtt sér rétt til þátttöku í félags- og tómstundastarfi.
3) Gott væri að tiltaka í stefnunni að mikilvægt sé að vera vakandi fyrir því að ekki sé þrýst um of á börn að taka þátt í of mörgum frístundum sem komið getur niður á hvíld og næðistíma. Styðja þarf börn í að temja sér jafnvægi og kenna þeim á mörkin sín og að hlusta á innsæi sitt, hvenær komið er nóg. Jafnframt er mikilvægt að hinir fullorðnu styðji við skoðanir og þarfir barna þannig að ekki sé sett á þau umframpressa um að skara fram úr ef það er ekki það sem barnið sækist eftir.
4) Mikilvægt er að tryggja fagþekkingu í öllu frístunda- og tómstundastarfi, þ.á m. þekkingu í forvörnum og viðbrögðum við hvers kyns ofbeldi, líkamlegu, andlegu, kynferðislegu og gegn misnotkun, skeytingarleysi og hvers kyns mismunun og einelti í æskulýðsstarfi. Gera þarf að skyldu að starfsfólk og sjálfboðaliðar sitji námskeið í forvörnum, m.a. gegn ofbeldi og einelti, ásamt skyndihjálp og viðhaldi þeirri þekkingu sem þau öðlast í slíkri fræðslu.
Barnaheill hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi og leggja áherslu á vernd barna gegn ofbeldi og á bann við mismunun. Samtökin hvetja til þess að stefna þessi verði kláruð að teknu tilliti til athugasemda og að unnin verði aðgerðaáætlun með skilgreindum hlutverkum og ábyrgð aðila sem hana framkvæma.
ViðhengiGóðan dag
Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
f.h. sambandsins
Valgerður Rún
ViðhengiUmsögn námsbrautar í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands um Drög að aðgerðaráætlun vegna Stefnu um tómstunda- og félagsstarfi barna og ungmenna 202-2030.
ViðhengiBANDALAG ÍSLENSKRA SKÁTA
UMSÖGN UM DRÖG AÐ AÐGERÐARÁÆTLUN STEFNU UM TÓMSTUNDA- OG FÉLAGSSTARF
BARNA OG UNGMENNA
Bandalag íslenskra skáta (BÍS) fagnar því að skýrar aðgerðir séu settar til að ná markmiðum í stefnu og að
ábyrgð verkefnanna sé miðlæg hjá ráðuneytinu. Okkur þykir margt gott að finna í aðgerðaráætlun og
eftirfarandi er afstaða okkar:
• Við fögnum því sérstaklega að mennta- og menningarmálaráðuneytið setji í lög og námskrá að veittar
verði einingar fyrir þátttöku í hálfformlegu og óformlegu námi. Fjöldinn allur af ungu fólki tekur þátt
í námskeiðum og þjálfun á vegum okkar og annarra samtaka til að rækta sig og öðlast reynslu sem
samtímis nýtist til góðs í þeirra nærsamfélagi. Eftir styttingu menntaskólans reynist ungu fólki oft
erfitt að leggja jafn mikla rækt á tómstundir og félagsstarf og þau sjálf myndu vilja samhliða fullu
námi. Því teljum við að þessi aðgerð sé mjög dýrmæt fyrir unga fólkið sem þessi stefna er unnin fyrir.
• Þeirri aðgerð ber að fagna að gera sameiginlegar öryggis- og siðareglur ásamt verkferlum og
viðbragðsáætlun fyrir allt tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna. Skátarnir hafa stuðst við
viðbragðsáætlun frá 2011 sem síðar var tekin upp á öllum vettvangi Æskulýðsvettvangsins (ÆV) og
einnig starfað samkvæmt samræmdum siðareglum ÆV frá 2013. Reynsla okkar er bara góð af því
starfa með svona plögg í verkfærakistunni ásamt skýrum stefnum í eineltis- og kynferðisbrotamálum.
Það tryggir að fagleg ferli grípa börn, ungmenni og fullorðna í erfiðum aðstæðum og hefur þar að auki
forvarnargildi. Það er merkur áfangi að svo mikill samhugur ríki um þessi mál á vettvangi íþrótta og
æskulýðsstarfs og ánægjulegt að þessi vinna sé þegar hafin.
• BÍS fagnar því að æskulýðslög séu endurskoðuð. Margt er gott við lögin frá 2007 sem voru
æskulýðsstarfi til framfara, s.s. ákvæði um öflun upplýsinga úr sakaskrá til að auka öryggi í starfi með
börnum en tími er kominn til að styrkja lagarammann út frá nútímaumhverfi. Í þeirri vinnu er
mikilvægt að skilgreina lykilhugtök í lögunum, að efla sjóðsumhverfi, að tryggja aukna aðkomu
ungmenna að málaflokknum, t.d. í gegnum ungmennaráð hjá ráðuneytinu, og endurskoða hvort fleiri
en bara fíkniefna- og kynferðisbrot útiloki aðila frá ábyrgðarstöðum með börnum (s.s. brot við
köflunum XXIII – Manndráp og líkamsmeiðingar og XXIV. Kafla - Brot gegn frjálsræði manna).
• Við mótun þjónustuvettvangs fyrir alla lögaðila í tómstunda- og félagsstarfi yrði að gæta jafns
aðgangs allra sem vinna innan málaflokksins. Ef fjármagnaður yrði vettvangur sem þegar er til þyrfti
sá vettvangur að endurskipuleggja sig á þann máta að hann færi ekki að þjónusta eingöngu þann
afmarkaða hóp innan málaflokksins sem vettvangurinn þjónusti í dag og leggja sig fram að ná til þeirra sem ekki tilheyrðu vettvangnum áður. Við fögnum því að slíkum vettvangi sé ætlað að tryggja og
styðja við aukið samráð og samvinnu innan málaflokksins um sameiginleg hagsmunamál.
• Fagleg gæðaviðmið veita stórum sem smáum félögum aðhald og vegvísi að gæðastarfi. Það er til
úrbóta að koma sér saman um mælikvarða gæðastarfs í málaflokki þar sem svo fjölbreytt starfsemi
fer fram. Það auðveldar félögum að draga fram þau afrek sem þau vinna og eru stolt af en eru oft
ekki svo sýnileg.
• BÍS fagnar því að standa eigi fyrir hvatningarátaki um mikilvægi sjálfboðaliða. Það hefur verið öllum
til góðs hvað fagmennska hefur aukist í málaflokknum undanfarinn áratug en engu að síður eru
sjálfboðaliðar dýrmætir í öllu starfi með börnum og ungmennum sé það innan eða utan
sjálfboðaliðasamtaka.
• Mikilvægt er að einfalda eigi ferlið í kringum umsóknir um fjárhagslegan stuðning fyrir börn frá
efnaminni heimilum til þátttöku í tómstunda- og félagsstarfi. Telur BÍS mikilvægt að þeirri stóru
hindrun sé rutt úr vegi að hafa slíka styrki í endurgreiðsluformi. Þá væri einnig æskilegt að umsóknir
væru mótaðar svo ábyrgðaraðilar í tómstunda- og félagsstarfi gætu aðstoðað fjölskyldur að sækja
um. Þannig myndi þekkingin á styrkjum vera nær börnunum í starfinu sem auki líkur á að styrkirnir
nái til þeirra sem eigi rétt á þeim.
• BÍS telur að aðgerðaráætlun ætti að nefna sérhæfðari aðgerðir til að ná settu markmiði um jafnan
aðgang allra barna og tækifæri þeirra til þátttöku líkt og er gert með efnaminni börn. Allar rannsóknir
staðfesta tilfinningu þeirra sem hafa yfirsýn yfir breiðan vettvang starfs með börnum og ungmennum.
Einstaklingar með fatlanir, einstaklingar af fyrstu og annarri kynslóð innflytjenda og börn sem tilheyra
trúfélögum öðrum en þjóðkirkjunni verða útundan. Aðgerðaráætlunin ætti að ávarpa hvernig við
jöfnum hlut þeirra.
Fyrir hönd Bandalags íslenskra skáta
_____________________________
Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjór
Drög að aðgerðaráætlun vegna stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna
Mál nr. 121/2021
Umsögn:
Á sviði æskulýðsmála er af mjög mörgu að taka, sem gerir það að verkum að verulega vandasamt er að koma frá sér umsögn sem nær yfir alla þá mikilvægu þætti sem löngu tímabært er að fjalla um. Enda verður það ekki gert í þessu samhengi að er í formi stuttrar umsagnar. Kjarni málsins er sá að hér á landi er engin æskulýðsstefna af hálfu ríkisins eins og marg oft hefur verið bent á. Við Íslendingar höfum verið eftirbátar annara þjóða og sérfræðingar á þessu svið segja einfaldlega „Iceland has no Youth Policy „ og vitna til alþjóðlegra stofnanna máli sínu til stuðnings. Umfjöllun mín er því meira í formi almennra og persónulegra hugleiðinga fremur en umfjöllun um einstaka punkta/efnisatriði er liggja fyrir. (Sjá umsögn Námsbrautar í tómstunda- og félagsmálafræðibrautar sem ég er hluti af).
Mikilvægasta verkefnið á þessum vettvangi er setja lög um æskulýðsmál sem virka. Í þeim efnum má líta til Finnsku laganna, Ungdomslagen (Riksdag, 2016). Í Finnsku löggjöfinni má finna svör við flestu því sem reifað er í aðgerðaráætluninni sem hér er til umfjöllunar.
Fyrirliggjandi tillögur eru afar tímabærar og sérstakt fagnaðarefni að unnið hafið verið með þeim hætti sem hér er gert. Hvað varðar stefnumótun ríkisins á þessu sviði þá eru verulegt rými til framfara eins og áður hefur verið bent á. Í raun hefur lítið sem ekkert átt sér stað síðustu þrjá fjóra áratugina. Margar tilraunir hafa verið gerðar til stefnumótunar, sem allar hafa með einum eða öðrum hætti dagað uppi nú síðast árið 2014, stefna sem aldrei fékk þá eftirfylgi sem til þurfti (Ingibjörg Valgeirsdóttir o.fl., 2014).
Á síðustu áratugum hefur vaxið upp nýtt fag- og fræðaumhverfi, bæði með tilkomu aukinnar þjónustu sveitarfélaganna á sviði frítímans það er frístundaheimila , félagsmiðstöðva, menningarhúsa ungmenna og ekki síður með markvissri starfsemi félaga og félagasamtaka með meiru. Og ekki síður með tilkomu náms í tómstunda- og félagsmálafræðum sem hófst við Háskóla Íslands fyrir 20 árum. Þrátt fyrir þessa öru þróun þá hefur allt regluverk af hálfu ríkisins verið í skötulíki. Nema ef frá eru taldar viðætur í grunnskólalögum varðandi starfsemi frístundaheimilanna. Viðbætur sem að mati þess sem þetta ritar ættu að öllu jöfnu heima í heildarlöggjöf um æskulýðsmál/ æskulýðsstefnu fremur en undir lögum um grunnskóla. Ástæða þess sennilega meira af lagatæknilegum ástæðum þar sem einfaldara er að gera viðbætur á ríkjandi lögum en að samþykkja nýja heildarlöggjöf.
Það vantar allar nánari skilgreiningar á því hvað er félagsstarf/starfsemi, opið æskulýðsstarf með meiru. Ramma, markmið og kröfur af hálfu ríkisins um starfsemina. Stefnuleysi varðandi fjárveitingar, takmarkaðar fjárveitingar og óljóst regluverk hefur leitt til landvarandi leiðinda og jafnvel sundurlyndis á þessum mikilvæga vettvangi. (sjá m.a. skýrslu Tinnu Isebarn o.fl.) (Tinna Isebarn, 2021).
Þetta er bara nokkrir punktar sem sýna vandann í hnotskurn , toppinn af ísjakanum. Hægt er að bæta fjölmörgu við sem ekki verður gert að sinni. Vonandi gefast tækifæri til þess í nánustu framtíð, tilefnið er ærið. Þau gögn sem hér eru lögð fram og þær tillögur sem um er að ræða kjarna að mínu mati vel vandann. Einstaklega gott framlag, skynsamlega unnið og góður grunnur að heildræni æskulýðsstefnu/lögum. Sú leið sem frændur vorir Finnar fóru í þessum efnum hefur reynst vel og affarasælast væri að mínu mati að fylgja fordæmi þeirra í þeirri mikilvægu vinnu sem framundan er hjá okkur. Heildarlöggjöf í þessum efnum, í þeim anda sem fram koma í aðgerðaráætlunin, væru jafnframt í takt við þær breytingar sem núverandi félags- og barnamálaráðherra hefur staðið fyrir á sviði barnaverndar og forvarna. Legg því eindregið til að vinna við nýja (ungmenna) æskulýðslöggjöf verði hafin sem allra fyrst.
Virðingarfyllst,
Árni Guðmundsson
Félagsuppeldisfræðingur m.m. / Starfsmaður Tómstunda- og félagsmálafræðibrautar. Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Heimildir:
Ingibjörg Valgeirsdóttir, Jakob Frímann Þorsteinsson, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Hreiðar Már Árnason, Margrét Vala Gylfadóttir, Margrét Sigurðardóttir, . . . Valur Rafn Halldórsson. (2014). Stefnumótun í æskulýðsmálum. Reykjavik: Æskulýðsráð.
Riksdag, F. (2016). Ungdomslag 1285/2016, 1285/2016. Helsnki: Finlands Riksdag.
Tinna Isebarn, S. H. B., Rut Einarsdóttir, Heiða Vigdís Sigfúsdóttir, Ólafur Daði Birgisson (2021). Staða ungmennageirans: Greining á rekstrarumhverfi ungmennafélaga í Íslandi Landssamband Ungmennafélaga - The National Youth Council of Iceland.
Meðfylgjandi er umsögn Landssambands ungmennafélaga (LUF) um drög að aðgerðaráætlun vegna stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna, mál nr. 121/2021.
Virðingarfyllst f.h. LUF
Tinna Isebarn, framkvæmdastjóri
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Samfés um drög að aðgerðaáætlun stefnu um tómstunda- og félagsstarfs barna og ungmenna 2020-2030.
Viðhengi