Samráð fyrirhugað 08.06.2021—28.06.2021
Til umsagnar 08.06.2021—28.06.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 28.06.2021
Niðurstöður birtar 23.01.2023

Skýrsla starfshóps um langvinna verki

Mál nr. 128/2021 Birt: 08.06.2021 Síðast uppfært: 23.01.2023
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta
  • Örorka og málefni fatlaðs fólks

Niðurstöður birtar

Allar athugasemdir voru teknar til skoðunar og mat lagt á þær allar. Máli lokið með að uppfæra samþykkta og birta aðgerðaáætlun um heilbrigðistengda endurhæfingu.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 08.06.2021–28.06.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 23.01.2023.

Málsefni

Skýrsla þessi er samin af starfshópi sem heilbrigðisráðherra skipaði í nóvember 2020 til að afla upplýsinga um fjölda, aldur og kyn þeirra sem eiga við langvinna verki að stríða, kortleggja þær meðferðir sem standa til boða og hvar slík meðferð er veitt. Auk þess að gera tillögur að úrbótum og aukinni þjónustu við þennan sjúklingahóp.

Langvinnir verkir eru skilgreindir sem verkir sem hafa varað í a.m.k. 3 mánuði eða lengur. Almennt er talið að fimmti hver fullorðinn glími við langvinna verki, oftast í stoðkerfi. Stoðkerfissjúkdómar eru mjög algeng orsök örorku á Íslandi. Flestir sem leita aðstoðar vegna langvinna verkja leita fyrst til heilsugæslu. Aðgengi að fjölþátta endurhæfingu og sérhæfðri verkjameðferð hefur verið takmarkað og biðlistar langir. Stór hluti einstaklinga með langvinna verki eru með verki á óljósum toga og þá þarf meðferðin að vera heildræn.

Þegar kemur að leiðum til úrbóta ber fyrst að nefna að gera þarf verulegt átak í að fræða bæði almenning og heilbrigðisstarfsmenn um langvinn verkjavandamál. Sama gildir um viðhorf til sterkra verkjalyfa (ópíóða)

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Vigdís Hallgrímsdóttir - 21.06.2021

Við undirrituð erum ánægð með að stígið hafi verið skref í þá átt að ná utan um þjónustu við sjúklinga með langvinna verki. Í skýrslunni er þeim meðferðum sem þegar eru í boði á Íslandi lýst ágætlega sem auðveldar þeim sem vinna í heilbrigðiskerfinu yfirsýn yfir málaflokkinn. Engu að síður hefðum við viljað sjá að hlutverki Landspítala varðandi langvinna verki væru gerð betri skil. Á spítalanum hefur undanfarin ár starfað verkjateymi sem sinnir ráðgjöf og greiningu auk þess að veita sérhæfð inngrip við langvinnum og erfiðum verkjum. Í teyminu starfa svæfingalæknar, sérfræðingar í hjúkrun, hjúkrunarfræðingur, sálfræðingur, lyfjafræðingur og sjúkraþjálfari. Það er ósk stjórnenda sem bera ábyrgð á þessari þjónustu að þetta verkjateymi fái að þróast yfir í það að verða Verkjamiðstöð Landspítala. Hlutverk slíkrar miðstöðvar þarf að koma skýrar fram í skýrslunni. Verkjamiðstöð sinnir kennslu og ráðgjöf, mati og greiningu og vísar sjúklingum í viðeigandi úrræði auk þess sem klínískt starfsfólk getur veitt sérhæfða verkjameðferð. Til Verkjamiðstöðvar er hægt að vísa þeim sjúklingum sem ekki hafa hlotið bót meina sinna hjá öðrum fagaðilum s.s. hjá heilsugæslu eða í þverfaglegri heilsugæslutengdri endurhæfingu. Auk þess sinnir verkjamiðstöð sjúklingum spítalans og rannsóknum á sviði verkja og verkjameðferðar. Við teljum þetta hlutverk Verkjamiðstöðvar Landspítala ekki endurspeglast í þeirri mynd sem sett er fram á bls 13 í skýrslunni.

Vigdís Hallgrímsdóttir forstöðumaður krabbameinskjarna og Ólafur Guðbjörn Skúlason forstöðumaður skurðstofu og gjörgæslukjarna

Afrita slóð á umsögn

#2 Arna Rún Óskarsdóttir - 22.06.2021

Umsögn verkjateymis Kristnesspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, vegna máls nr 128/21 sem Heilbrigðisráðuneytið kynnti til samráðs.

Hluti verkjateymis Kristnesspítala kynnti sér skýrslu starfshóps um langvinna verki.

Í fyrsta lagi telur teymið fræðslu lykilatriði, bæði til almennings og fagaðila. Fræðslu um eðli verkja, nálgun á langvinnan verkjavanda og um meðferð og væntingar til meðferðar. Einnig um þjálfunaraðferðir og lyfjameðferð auk fylgifiska og aukaverkana hennar.

Teymið telur í öðru lagi að miðpunktur fræðslunnar eigi heima í heilsugæslu en að fræðslan þurfi einnig að ná til fagaðila sem starfa sjálfstætt.

Í þriðja lagi leggur teymið til að sett verði á stofn eitt teymi hið minnsta innan hvers heilbrigðisumdæmis sem geti veitt þverfaglega meðferð við langvinnum verkjum.

Það teymi þarf að hafa aðgang að sérhæfðu teymi á stofnun þar sem er sérþekking á meðferð langvinnra verkja er til staðar. Æskilegast er að sú stofnun hafi það heilbrigðisumdæmi á sínu upptökusvæði til að skapa nauðsynlega samvinnu og samfellu um meðferð þessa flókna vandamáls.

Afrita slóð á umsögn

#3 Öryrkjabandalag Íslands - 25.06.2021

Meðfylgjandi er umsögn ÖBÍ.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Helga Björk Haraldsdóttir - 28.06.2021

Ég undirrituð er mjög ánægð að sjá að sett sé fram yfirlit yfir stöðu langvinnra verkja á landinu, meðferðir við þeim og tillögur til úrbóta. Ég barðist sjálf við langvinna verki í yfir þrjátíu ár og prófaði ansi margt svo sem bótox, flogaveikislyf, þunglyndislyf, blóðþrýstingslyf, ýmis mígrenilyf, nudd, nálastungur og alls konar lífstílsbreytingar. Meðferðir skiluðu stundum bata í einhvern tíma en aldrei til langs tíma og stundum fann ég engan mun á mér. Við þetta bættust svo aukaverkanir af lyfjunum sem voru oft truflandi. Eftir að ég kynntist appinu CurableHealth náði ég loksins bata og umbreyttist líf mitt á ótrúlega stuttum tíma. Fjöldi fólks með langvinna verki hefur sömu sögu að segja, oft fólk frá Bandaríkjunum og Ástralíu en einnig er þessi nálgun á verkjasjúkdóma að ryðja sér til rúms hægt og rólega víðs vegar um heiminn. Það virðist litlu skipta hvort um er að ræða mígreni, bakverki, vefjagigt eða langvinna verki af öðrum toga, ef fólk er opið fyrir að prófa þessa nálgun þá eru oft góðar batalíkur og aðferðafræðin er mjög valdeflandi fyrir sjúklinginn. Því finnst mér mikilvægt að CurableHealth og sambærileg öpp séu ekki einungis listuð í viðauka í skýrslunni heldur séu sett fram í kafla þrjú um úrræði sem eru í boði. Flestir íslendingar skilja vel ensku og geta nýtt sér þessi góðu verkfæri með litlum tilkostnaði.

Langvinnir verkir eru oft læknanlegir og spilar fræðsla þar stórt hlutverk og því fagna ég þeirri áherslu á fræðslu um langvinna verki sem sett er fram í skýrslunni. Í viðauka skýrslunnar finnst mér þó vanta eftirfarandi linka:

tamethebeast.org

painpsychologycenter.com

tmswiki.org

unlearnyourpain.com

Í skýrslunni er ítrekað talað um langvinna verki sem verki af óljósum toga og hefði ég viljað sjá meiri áherslu á hvaða þekking er til staðar í taugavísindum varðandi orsakir langvinnra verkja. Í stuttu myndbandi á tamethebeast.org fer Lorimer Moseley taugavísindamaður yfir hve stóran þátt nám leikur í verkjum. Margt er vitað um orsakir langvinnra verkjasjúkdóma og spilar taugakerfið þar stórt hlutverk. Ef sjúklingur hefur gengið á milli lækna án þess að finna neina lausn eða skýringu þá á setning Bradley Fanestil, læknis í Bandaríkjunum, vel við: “Focus on the Brain, Not the location of the Pain”.

Virðingarfyllst, Helga B. Haraldsdóttir sálfræðingur, fyrrverandi verkjasjúklingur, certified Pain Reprocessing Therapist og höfundur Verkjacastsins (hljóðvarp).

Afrita slóð á umsögn

#5 Hrefna Frímannsdóttir - 28.06.2021

Hluti teymis Háls- og bakdeildar HVE Stykkishólmi hefur kynnt sér skýrslu starfshóps um langvinna verki mál 128/21.

Við fögnum því að farið var af stað að skoða skipulag og möguleg úrræði fyrir einstaklinga sem glíma við langvinna verki.

Skilgreining langvinnra verkja eins og hún er í dag er okkur ekki gagnleg í þessu samhengi nema að hluta; Langvinnir verkir eru verkir sem hafa varað lengur en þrjá mánuði. Við teljum að miklu máli skipti hversu hratt aðrir þættir fara að hafa áhrif s.s. sálrænir og félagslegir sem virðast hafa mikið vægi þegar um langvinna verki er að ræða og hafa áhrif á batann. Mikilvægt að finna leið til að meta þá þætti til að geta vísað í rétt meðferðarúrræði.

Tökum undir með þeim sem hafa sent inn athugasemdir áður varðandi ráðgefandi teymi og að það þurfi að skýra betur leiðir að úrræðum. Einnig að finna þarf leiðir til að ekki byggist upp langir biðlistar fyrir viðeigandi meðferðarúrræðum og að flæði og samstarf sé á milli þeirra eininga sem vinna að þessum málum.

Tökum einnig undir athugasemdir frá Sigríði Zoega og Sigurði Ásgeiri Kristinssyni.

Til áréttingar þá er Háls- og bakdeild HVE Stykkishólmi dagdeild, með gistingu að meðaltali 10 meðferðardagar samfelldir mán-fös (lokað um helgar).

Þar er einstaklingsbundin meðferð fyrir þá sem þurfa meiri þjálfun (intensive), fræðslu og tíma en almenn göngdeildarþjónusta getur veitt.

Tilvísun þarf til að koma á deildina og þurfa flestir að koma í „forskoðun“ til mats fyrir meðferð á deildinni sem fer þá oft fram í Corpus Medica, en annars í Stykkishólmi. Fer eftir búsetu hvort hentar betur.

Hrefna Frímannsdóttir, yfirsjúkraþjálfari Háls- og bakdeildar HVE - Stykkishólmi