Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 9.6.–8.7.2021

2

Í vinnslu

  • 9.7.–24.11.2021

3

Samráði lokið

  • 25.11.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-129/2021

Birt: 9.6.2021

Fjöldi umsagna: 24

Drög að stefnu

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál

Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum — Drög að stefnu

Niðurstöður

Á grundvelli umsagna í samráðsgátt var gengið frá uppfærðri hvítbók sem og fyrstu stefnu íslenskra stjórnvalda um aðlögun að loftslags-breytingum, Í ljósi loftslagsvár. Sjá meðfylgjandi niðurstöðuskjal og frétt á síðu ráðuneytisins: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/09/10/Stefna-um-adlogun-samfelagsins-ad-ahrifum-loftslagsbreytinga-gefin-ut/

Málsefni

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið birtir til umsagnar hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum sem unnin er af starfshóp sem ráðherra skipaði í desember 2020.

Nánari upplýsingar

Hvítbókin inniheldur umfjöllun um aðlögun að loftslagsbreytingum og tillögu að grunngildum og grunnmarkmiðum stjórnvalda vegna hennar auk sértækra markmiða fyrir tiltekna málaflokka og samhæfingu aðlögunarvinnu.

Aðlögun að loftslagsbreytingum felur í sér aðgerðir sem snúa að því að auka viðnámsþrótt samfélagsins gagnvart áhrifum og afleiðingum loftslagsbreytinga. Slíkar aðlögunaraðgerðir geta haft samlegð með öðrum loftslagsaðgerðum sem miða að því að auka kolefnisbindingu eða samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda en hafa það ekki að meginmarkmiði.

Í 5. gr. a laga um loftslagsmál nr. 70/2012 segir að ráðherra láti vinna áætlun um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum og setji reglugerð um gerð og eftirfylgni hennar. Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum er undanfari stefnu sem verður grundvöllur þeirrar áætlanagerðar sem mælt er fyrir í lögum.

Athyglinni er fyrst beint að viðfangsefninu aðlögun að loftslagsbreytingum, áhrifum þeirra og þeirri náttúruvá sem þeim fylgja. Þá er fjallað um mismunandi þætti samfélagsins þar sem aðlögunar kann að vera þörf: skipulag, vatn og fráveitur, orkumál, samgöngur, atvinnuvegi, þjóðarhag, lýðheilsu og félagslega innviði. Að lokum er farið yfir núverandi stofnanagerð, samþættingu aðlögunarvinnu og næstu skref.

Aðlögun er mjög víðfeðmt viðfangsefni og kaflaskiptingin endurspeglar hvorki tæmandi lista atriðaflokka sem tengjast aðlögun né nákvæma fyrirmynd að skiptingu flokka við áætlanagerð. Nefna má þætti líkt og tegundir aðlögunaraðgerða (t.d. náttúrumiðaðar lausnir), málaflokka (t.d. mannvirkjagerð og sveitarstjórnarmál) og áhrifaþætti (t.d. aukna úrkomuákefð) sem skjóta upp kollinum þvert á kafla þó að tilefni gæti verið til að skoða þá sérstaklega á síðari stigum líkt og við áætlanagerð.

Aðgerðir til aðlögunar að loftslagsbreytingum, líkt og mótvægisaðgerðir vegna losunar, verða til í gegnum margþætt ferli rannsókna, vöktunar, greiningar, stjórnsýslu, ákvarðanatöku, útfærslu, framkvæmda, stöðutöku og endurmats.

Ákvarðanataka og aðgerðir eiga að byggja á bestu fáanlegu vísindalegu upplýsingum og fela í sér að tekið sé tillit til áhættumats og viðmiða um ásættanlega áhættu fyrir samfélag og lífríki frammi fyrir loftslagsbreytingum.

Mikilvægt er að samhæfa skilning hinna ýmsu aðila sem koma að aðlögunarvinnu á markmiðum aðlögunar og samhliða því tryggja aðkomu almennings og félagasamtaka og eflingu nærsamfélags við skipulag, skilgreiningu og framkvæmd aðgerða.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa loftslagsmála

uar@uar.is