Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 11.–21.6.2021

2

Í vinnslu

  • 22.–27.6.2021

3

Samráði lokið

  • 28.6.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-130/2021

Birt: 11.6.2021

Fjöldi umsagna: 0

Drög að reglugerð

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Markaðseftirlit og neytendamál

Drög að reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja

Niðurstöður

Engar umsagnir bárust. Skjalið var birt með minni háttar breytingum sem reglugerð nr. 749/2021.

Málsefni

Áformað er að setja reglugerð til að veita evrópskum gerðum sem breyta reglugerð ESB nr. 575/2013, um varfærniskröfur til lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, sem er oft nefnd CRR, og varða m.a. eiginfjárgrunn og stórar áhættuskuldbindingar, gildi hér á landi.

Nánari upplýsingar

Áformað er að innleiða reglugerð ESB 2019/630, sem er oft nefnd NPE (e. Non-Performing Exposures). Reglugerðin áskilur að fjármálafyrirtæki dragi hluta lána í vanskilum frá eiginfjárgrunni ef ekki eru til staðar varasjóðir til að mæta væntu tapi af lánunum. Lán teljast í grófum dráttum í vanskilum ef lántaki hefur ekki efnt greiðsluskyldu í 90 daga eða ætla má af öðrum sökum að hann muni ekki standa í skilum. Umfang frádráttarins ræðst af því hvort um tryggt eða ótryggt lán sé að ræða og hve lengi það hefur verið í vanskilum. Frádrátturinn gildir aðeins um lán sem eru veitt eftir að gerðin tekur gildi svo ekki þarf að endurreikna eiginfjárgrunn vegna áður veittra lána.

Einnig er áformað að innleiða reglugerð ESB 2017/2188. Gerðin varðar forgangseiningar sem gefnar eru út af frönskum Fonds Communs de Créances eða samsvarandi verðbréfunarstofnunum.

Ráðgert er að veita meginefni reglugerðar ESB 2019/876, sem er oft nefnd CRR II (e. Capital Requirements Regulation II), gildi hér á landi. Hún breytir allmörgum ákvæðum reglugerðar ESB nr. 575/2013, einkum til að skýra ákvæði sem hafa þótt óljós og til að taka mið af öðrum breytingum á evrópsku regluverki og á alþjóðlegum viðmiðum um varfærniskröfur til lánastofnana, svonefndum Basel-stöðlum. CRR II mælir fyrir um 3% lágmarks vogunarhlutfall til að takmarka vogun banka og lágmark stöðugrar fjármögnunar til að vinna gegn því að bankar reiði sig um of á óstöðuga skammtímafjármögnun. Reglugerðin herðir kröfur um stórar áhættuskuldbindingar með því að reikna þær sem hlutfall af eigin fé þáttar 1 eingöngu fremur en af hæfu fjármagni sem tekur einnig að vissu marki til eigin fjár þáttar 2. Þá rýmkar hún skilyrði fyrir afslætti af eiginfjárkröfum vegna lánveitinga til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og veitir afslátt af eiginfjárkröfum vegna lánveitinga til innviðaverkefna. Gert er ráð fyrir að tilgreindum ákvæðum reglugerðarinnar sem tengjast náið tilskipunum ESB 2019/878 og 2019/879, sem ekki hafa verið innleiddar hér á landi, verði þó ekki veitt gildi hér á landi að sinni.

Þá er ráðgert að veita reglugerð ESB 2020/873 í heild gildi hér á landi. Með henni voru gerðar breytingar á CRR til að auðvelda fjármálafyrirtækjum að bregðast við heimsfaraldri kórónuveiru. Hluta hennar hefur þegar verið veitt gildi hér á landi. Verði meginefni CRR II veitt gildi hér á landi, líkt og til stendur, verður unnt að veita reglugerð ESB 2020/873 í heild gildi hér á landi.

Gert er ráð fyrir að breyta vísunum í hæft fjármagn í nokkrum ákvæðum reglugerðar um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja, nr. 233/2017, í vísanir í eiginfjárgrunn eða eigið fé þáttar 1. Það samræmist fyrrnefndri breytingu samkvæmt CRR II um að reikna stórar áhættuskuldbindingar sem hlutfall af eigin fé þáttar 1 eingöngu fremur en af hæfu fjármagni.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa fjármálamarkaðar

gunnlaugur.helgason@fjr.is