Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 9.3.–6.4.2018

2

Í vinnslu

  • 7.4.–4.9.2018

3

Samráði lokið

  • 5.9.2018

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-30/2018

Birt: 9.3.2018

Fjöldi umsagna: 3

Áform um lagasetningu

Dómsmálaráðuneytið

Fjölskyldumál

Breytingar á barnalögum

Niðurstöður

Dómsmálaráðuneytinu bárust 3 umsagnir vegna fyrirhugaðra breytinga á barnalögum. Ein umsögn barst frá Þjóðskrá Íslands, ein frá Hagsmunasamtökum heimilanna og ein frá Félagi um foreldrajafnrétti. Í umsögnunum var m.a. fagnað áformum um fyrirhugaðar breytingar á barnalögum og bent á að í ljósi breyttra búsetuhátta og samfélagslegra aðstæðna væri við hæfi að taka það upp sem meginreglu að bæði skyldur og réttindi vegna barna skiptist jafnt milli beggja foreldra, óháð því hvernig sambandi þeirra og búsetu væri háttað að öðru leyti, nema í undantekningartilvikum þar sem annað fyrirkomulag þætti nauðsynlegt og réttlætanlegt. Þá kom fram rannsóknir á líðan barna gefi sterka vísbendingu um að það sé börnum fyrir bestu að vera sem mest með báðum foreldrum. Ef foreldrar búa ekki saman að börn séu þá til jafns á báðum heimilum. Einnig kom fram sú tillaga að jafnt búsetuform yrði meginregla hjá foreldrum sem ekki búa saman, en búa þó í sama eða nærliggjandi skólahverfi og einnig að dómari hefði heimild til að dæma jafnt búsetuform. Kom m.a. fram frá Þjóðskrá Íslands að mikilvægt yrði að haft yrði samráð við stofnunina við gerð frumvarpsins vegna breytinga sem þarf að gera á lögum sem heyra undir stofnunina og þeirra breytinga sem gera þarf á þjóðskrá. Ráðuneytið mun við samningu frumvarpsins hafa til hliðsjónar þær ábendingar og tillögur sem bárust. Bent er á að þegar drög að frumvarpi liggja fyrir verður einnig hægt að veita umsögn um þær tillögur sem lagðar eru fram.

Málsefni

Hér er um að ræða áform um breytingar á barnalögum nr. 76/2003 sem snúa að því að lögfesta ákvæði um heimild foreldra til þess að semja um skipta búsetu barns auk þess að endurskoða ákvæði barnalaga varðandi framfærslu barns og meðlag. Í tengslum við þessa breytingu á barnalögunum eru tilheyrandi breytingar á ýmsum öðrum lögum.

Nánari upplýsingar

Aðdragandi málsins er sá að á grundvelli þingsályktunar frá 12. maí 2014 skipaði innanríkisráðherra starfshóp sem falið var að kanna með hvaða leiðum mætti jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna með tilliti til réttinda, skyldna og skráningar sem fylgir lögheimili barns. Í skýrslu starfshópsins frá 1. september 2015 var lagt til að tekið verði upp í barnalög ákvæði þar sem foreldrum, sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða að ala það upp saman á tveimur heimilum, verði veitt heimild til að semja um skipta búsetu barns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í framhaldi af skýrslunni var skipuð verkefnisstjórn þriggja ráðuneyta, þ.e. innanríkis, velferðar- og fjármála- og efnahagsráðuneytis, auk fulltrúa frá Þjóðskrá Íslands. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar var að útbúa nákvæma greiningu á því hvaða ákvæðum laga og reglugerða sé nauðsynlegt að breyta svo hægt sé að útbúa frumvarp og lögfesta ákvæði í barnalög sem heimila foreldrum, sem fara með sameiginlega forsjá barns og hafa ákveðið að ala það upp saman á tveimur heimilum, að semja um skipta búsetu barns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Við upphaf vinnu verkefnisstjórnarinnar var ljóst að ekki þyrfti einungis að breyta ákvæðum laga og reglugerða heldur þyrfti einnig að gera tilteknar kerfisbreytingar. Verkefnisstjórnin lauk störfum í mars 2017 en samkvæmt niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar þarf að breyta lögum, reglugerðum, reglum og öðrum atriðum sem heyra undir dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og velferðarráðuneyti.

Varðandi endurskoðun á ákvæðum barnalaga er varða meðlag þá liggja fyrir til hliðsjónar drög að frumvarpi til breytinga á barnalögum frá 2010. Ekki liggur fyrir hvort og þá að hvaða miklu leyti stuðst verður við þær tillögur sem þar komu fram. Umrædd drög að frumvarpi frá 2010 voru samin af nefnd sem skipuð var af dóms- og kirkjumálaráðherra 7. maí 2008 til að fara yfir reglur barnalaga um framfærslu barna með það fyrir augum að kanna hvort núverandi fyrirkomulag þjóni hagsmunum barna og foreldra með sanngjörnum hætti. Á meðal þess sem nefndinni var falið að taka afstöðu til var hvort ástæða væri til að viðhalda því fyrirkomulagi að ávallt bæri að ákveða meðlag við skilnað, sambúðarslit og breytingar á forsjárskipan og hvort ástæða væri til að hafa lágmarksmeðlag lögbundið. Einnig hvort rétt væri að gera breytingar á þeim grundvallarþáttum sem hafa áhrif á meðlagsfjárhæðina. Í umræddum drögum að frumvarpi frá 2010 kemur m.a. fram að núgildandi meðlagskerfi hafi sætt gagnrýni og ekki hafi verið tekið nægilega mikið mið af breytingum í samfélaginu eða þróun í barnarétti. Í drögum að frumvarpi var lagt til að gera verulegar breytingar á núgildandi reglum íslenskra laga um framfærslu barns og ákvörðun meðlags þegar foreldrar búa ekki saman. Var vísað til þess að með tillögum að nýju meðlagskerfi væri verið að undirstrika jafna ábyrgð beggja foreldra á framfærslu barns. Samkvæmt fyrrnefndum drögum að frumvarpi var byggt á eftirfarandi sjónarmiðum: Sameiginlegri ábyrgð beggja foreldra á framfærslu barns, auknu frelsi foreldra til að semja um meðlag, tilliti til kostnaðar af framfærslu barns, tilliti til tekna beggja foreldra og tilliti til umgengni foreldrisins sem barnið býr ekki hjá.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar að loknum umsagnarfresti. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa réttinda einstaklinga

postur@dmr.is