Samráð fyrirhugað 14.06.2021—16.07.2021
Til umsagnar 14.06.2021—16.07.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 16.07.2021
Niðurstöður birtar 25.11.2021

Áform um frumvarp til laga um upplýsingar tengdar sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu.

Mál nr. 131/2021 Birt: 14.06.2021 Síðast uppfært: 25.11.2021
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála

Niðurstöður birtar

Engar umsagnir bárust. Unnið er að drögum að frumvarpi sem birt verða í Samráðsgátt stjórnvalda.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 14.06.2021–16.07.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 25.11.2021.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðherra áformar að leggja fram á haustþingi 2021 frumvarp til nýrra laga um upplýsingar tengdar sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu til innleiðingar á reglugerðum (ESB) nr. 2019/2088 um sama efni og 2020/852 um ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu.

Í reglugerð (ESB) 2019/2088 er mælt fyrir um samræmdar reglur fyrir aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa um gagnsæi að því er varðar samþættingu áhættu tengda sjálfbærni og að teknu tilliti til skaðlegra áhrifa á sjálfbærni í ferlum þeirra og veitingu upplýsinga sem tengjast sjálfbærni að því er varðar fjármálaafurðir. Reglugerðin tekur mið af markmiðum Parísarsáttmálans um að draga verulega úr áhættu og áhrifum af loftslagsbreytingum og leggur skyldur á herðar aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjöfum til að birta tilteknar upplýsingar varðandi nálgun þeirra á samþættingu áhættu tengda sjálfbærni og möguleg skaðleg áhrif á hana.

Gagnsæiskröfurnar lúta að:

- áhættustefnu tengda sjálfbærni

- skaðleg áhrif á sjálfbærni á einingastigi

- Starfskjarastefnu

- Samþættingu áhættu tengda sjálfbærni

- Skaðleg áhrif á sjálfbærni á stigi fjármálaafurða

- Eflingu umhverfislegra eða félagslegra þátta í upplýsingagjöf áður en samningur er gerður.

- Sjálfbærum fjárfestingum og eflingu umhverfislegra og félagslegra þátta þeirra.

Reglugerðin var birt 27. nóvember 2019 og tók gildi í ESB 10. mars 2021.

Reglugerð (ESB) 2020/852 kveður á um samræmdan ramma sem stuðlar að sjálfbærum fjárfestingum. Með reglugerðinni er komið á fót flokkunarkerfi með skilgreiningum á því hvað teljist sjálfbær atvinnustarfsemi. Kerfinu er ætlað að auka gagnsæi með tengdri upplýsingagjöf markaðsaðila og stórra fyrirtækja og hjálpa fjárfestum og fyrirtækjum að átta sig á því hversu sjálfbær tiltekin atvinnustarfsemi er svo þeim sé kleift að taka upplýstar fjárfestingarákvarðanir.

Flokkunarkerfið tekur mið af sex umhverfismarkmiðum:

- Mildun loftslagsbreytinga.

- Aðlögun vegna loftlagsbreytinga.

- Sjálfbær nýting og verndun vatns og sjávarauðlinda.

- Umbreytingu í hringrásarhagkerfi.

- Mengunarvarnir og – stjórnun.

- Verndun og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa.

Í reglugerðinni eru sett fram fjögur grunnskilyrði þess að atvinnustarfsemi geti talist sjálfbær:

- Verulegt framlag við a.m.k. eitt af umhverfismarkmiðunum

- Starfsemin skaði ekki verulega neitt af öðrum markmiðum

- Lágmarks verndarráðstöfunum sé fullnægt

- Megindlegum og eigindlegum tæknilegum viðmiðunum sé fullnægt.

Reglugerðin var birt 18. júní 2020 og tók að hluta gildi í ESB 12. júlí 2020, en tiltekin ákvæði taka gildi annars vegar 1. janúar 2022 og hins vegar 1. janúar 2023.

Samkvæmt reglugerðunum ber aðildarríkjum að tryggja lögbærum yfirvöldum allar nauðsynlegar valdheimildir til að þau geti sinnt eftirliti með því að farið sé að kröfunum.

Unnið er að upptöku reglugerðanna í EES-samninginn en ekki er gert ráð fyrir að óskað verði eftir efnislegum aðlögunum. Jafnframt er unnið að afleiddum gerðum hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þar sem tæknileg matsviðmið verða nánar útfærð.

Lagt er til að reglugerðir (ESB) 2019/2088 og 2020/852 verði innleiddar í íslenskan rétt með tilvísunaraðferð og þá að fullu innleiddar samkvæmt orðanna hljóðan í samræmi við a-lið 7. gr. EES-samningisins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Áformað er að fela Fjármálaeftirlitinu eftirlit með því að farið sé að lögunum enda fer það almennt með eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.