Samráð fyrirhugað 15.06.2021—29.06.2021
Til umsagnar 15.06.2021—29.06.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 29.06.2021
Niðurstöður birtar 03.09.2021

Drög að reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 200/2020, um innflutning hunda og katta

Mál nr. 132/2021 Birt: 15.06.2021 Síðast uppfært: 03.09.2021
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Almanna- og réttaröryggi

Niðurstöður birtar

Reglugerðin var í opnu samráði á samráðsvef stjórnvalda dagana 15. júní til 29. júní sl. Alls bárust fjórar umsagnir, þ.e. frá Hundaræktarfélagi Íslands, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Félagi ábyrgra hundaeigenda og Jóni Júlíusi Þórssyni. Þann 30. júní óskaði ráðuneytið eftir afstöðu Matvælastofnunar til umsagnanna sem barst 13. ágúst 2021. Sjá nánari samantekt í niðurstöðuskjali.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 15.06.2021–29.06.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 03.09.2021.

Málsefni

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 200/2020.

Lagðar eru til breytingar á núgildandi reglugerð nr. 200/2020, um innflutning hunda og katta. Tillögurnar eru byggðar á reynslu af framkvæmd á gildandi reglugerð. Helstu breytingar sem lagðar eru til á gildandi regluverki lúta að ákvæðum sam hafa ekki skilað tilætluðum árangrin eða eru talin óþarflega íþyngjandi fyrir innflytjendur hunda og katta. Einnig lúta breytingarnar að skýrara orðalagi ákvæða reglugerðarinnar.

Lagt er til að skýra nánar tegundaheiti hunda í 1. tl. f. liðar 14. gr. reglugerðarinnar en lagt er til að bætt verði við heitunum „American Staffordshire Terrier“ og „American Bulldog“. Ástæðan fyrir því er sú að tegundirnar „Pit Bull Terrier“, „American Staffordshire Terrier“, „Staffordshire Bull Terrier“ og „American Bulldog“ teljast sem sama tegund en einungis sé um að ræða mismunandi afbrigði. Mikilvægt er að ekki leiki vafi á því að bannið taki til allra þessara tegunda þar sem hætta geti stafað af þeim.

Lagt er til að bætt verið við þremur nýjum hundategundum á bannlista f. liðar 14. gr. reglugerðarinnar sem eru „Cane Corso“, „Presa Canario“ og „Boerboel“. Matvælastofnun hefur borist umsóknir um leyfi til innflutnings þessara tegunda en um er að ræða hunda sem hætta getur stafað af og hefur Matvælastofnun hingað til hafnað slíkum umsóknum á grundvelli núgildandi 5. tl. f. liðar 12. gr. reglugerðarinnar. Þessar tegundir hunda búa yfir eiginleikum sem henta vel til veiða á stórum dýrum, sem varðhundar og til notkunar í dýraati. Geðslag og líkamsbyggð þeirra gerir það að verkum að nauðsynlegt sé að hafa sérstaka kunnáttu og sýna aðgát í allri umgengni við hundanna en annars sé hætt við að árásargirni komi fram sem haft getur alvarlegar afleiðingar fyrir menn og önnur dýr.

Lagt er til að krafa um opinbera áritun heilbrigðis- og upprunavottorðs verði felld úr gildi. Framkvæmdin hefur leitt í ljós að það sé íþyngjandi fyrir innflytjanda dýrs að þurfa að útvega slíkt vottorð. Það sé kostnaðarsamt, erfitt að nálgast hjá dýralæknayfirvöldum útflutningslands og oft þurfi að krefjast þýðingar á vottorðunum. Hin opinbera áritun hefur valdið töfum á skilum heilbrigðis- og upprunavottorða til Matvælastofnunar. Með því að heimila eingöngu innflutning frá viðurkenndum útflutningslöndum og krefjast opinberrar áritunar eru í raun settar tvöfaldar varnir gegn óréttmætum eða fölsuðum gögnum.

Lagt er til að gerð verði breyting á ákvæði um meðhöndlun gegn útvortis sníkjudýrum með sníkjudýralyfjum. Í núgildandi reglugerð er gerð krafa um að hundar og kettir séu meðhöndlaðir tvisvar sinnum en þau sníkjudýralyf sem algengast er að nota eru langverkandi í fjórar vikur. Lagt er til að að ef langvarandi lyf hafi verið notað í fyrri meðhöndlun skuli sú meðhöndlun einnig teljast sem seinni meðhöndlun að því gefnu að verkun lyfsins sé enn í gildi á innflutningsdegi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Jón Júlíus Þórisson - 16.06.2021

Samkvæmt ykkar tillögu í þessum drögum að bæta skal við tegundir sem banna skal innfluttning vegna hættu sem stafar af þeim ekki við rökum reistar. Óska ég eftir þeim upplýsingum sem farið er eftir og hvaðan þær koma. Einnig þarf að skilgreina hæfnisgetu þann sem getur tekið út svona mat. Matvælastofnun verða að upplýsa nákvæmlega ferlið á skapgerðamati og setja það í fastan farveg svo að hentisemi þann eða þau sem taka það hafi ekki vægi. Reglurnar þurfa að vera upp á borði, svo ég vitna í 13. gr Reglugerð um innflutning hunda og katta.

Smá fróðleikur handa þeim sem þurfa að taka þetta út. Það eru nú þegar hundar hér á landi sem eru hættulegri en þeir sem eru nú þegar á listanum og hafa þjónað sínum eigendum vel.

Það hefur verið mikil umræða og þekking sem hefur komið síðustu 10 ár gegnum alnetið sem gerir okkur hæfari eigendur.

Það vita flest allir að það er hægt að gera hund slæman með röngu uppeldi og skiptir tegundinn ekki máli.

Mín tilllaga er sú að taka 13. gr. Reglugerð um innflutning hunda og katta og upplýsa nánar það ferli svo það sé opið handa þeim sem hafa í huga að flytja dýr inn til landsins.

Það má fella 14. gr. f. lið. alfarið út þar sem það eru enginn rök að þessir eru hættulegri enn aðrir hundar.

Svo eitt að lokum sem hefur kennt okkur " Its not the breed, It's the owners"

Með virðing og vinsemd

Jón Júlíus

Afrita slóð á umsögn

#2 Félag ábyrgra hundaeigenda - 23.06.2021

Stjórn Félags ábyrgra hundaeigenda vill koma eftirfarandi umsögn á framfæri varðandi breytingu á Reglugerð um innflutning hunda og katta.

Okkar helstu áhyggjur lúta að breytingum sem geta stuðlað að geðþóttaákvörðunum Matvælastofnunar við ákvarðanatöku um innflutning hunda.

Í 14.gr. núgildandi reglugerðar stendur m.a. í lið f):

"Óheimilt er að flytja til landsins.... 5.aðrar hundategundir eða blendinga samkvæmt rökstuddri ákvörðun Matvælastofnunar í hverju tilfelli"

En eftir breytingu á þar að standa:

"Óheimilt er að flytja til landsins..... 8.hunda sem hafa sambærilegan uppruna, líkamsbyggingu og/eða geðslag og tegundir í 1.-7. tl. Samkvæmt mati Matvælastofnunar hverju sinni".

Þessi breyting á orðalagi, úr "rökstuddri ákvörðun Matvælastofnunar" yfir í "mati Matvælastofnunar", býður hættunni heim að okkar mati. Okkur þykir ekki boðlegt að embættismenn Matvælastofnunar hafi það vald að geta bannað innflutning hunda án rökstuðnings. Enda hefur það sýnt sig að dýralæknar Matvælastofnunar hafa ekki mikla þekkingu á hundategundum eða atferli mismunandi tegunda, samanber mál English Bull Terríer hundsins Rjóma. Eiganda Rjóma var neitað um innflutning í 5 ár, á grundvelli vanþekkingar og tegundafordóma MAST, og með þessum breytingum á reglugerðinni verður enn auðveldara fyrir MAST að hafna innflutningi, því rökstuðningur þarf ekki að liggja fyrir.

Við viljum því eindregið leggja til að orðalagið "samkvæmt rökstuddri ákvörðun Matvælastofnunar" verði haldið áfram inni.

Í nýju reglugerðinni er einnig verið að leggja til að banna 3 hundategundir að auki við þær 5 sem eru nú þegar bannaðar. Félag ábyrgra hundategunda vill ekki tjá sig sérstaklega um þessar þrjár tegundir sem lagt er til að banna.

Hins vegar viljum við eindregið tjá okkur um það markmið sem hlýtur að liggja að baki slíku banni á hundategundum. Það er staðreynd að hundar geta bitið fólk og dýr, og slík slys viljum við auðvitað öll reyna að koma í veg fyrir. Félag ábyrgra hundaeigenda vill stuðla að öryggi í samfélagi hunda og manna - en til þess þarf fræðsluátak í íslensku samfélagi, mun stærra átak en svo að sjálfboðaliðasamtök eins og FÁH geti staðið ein undir. Langflest slys í tengslum við hunda gerast vegna þekkingarleysis á hundaatferli og merkjamáli hunda. Þessu þarf að breyta og fræðslan þarf að vera markviss ef hún á að skila árángri.

Bann á ákveðnum hundategundum skilar hinsvegar litlum, ef nokkrum árangri, ef marka má rannsóknir sem hafa verið gerðar á Ítalíu, Spáni, Hollandi, Kanada og víðar (heimildir: 1,2,3,4,5,6,7). Aðrar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að enginn mælanlegur munur sé á árásargirni milli "bannaðra" hundategunda og þeirra hundategunda sem oft er lýst sem "vinalegum" (heimildir: 8, 9, 10). Sumir vilja þá koma með þau rök að "bönnuðu" hundategundirnar séu svo sterkar að þær geti valdið mun meiri skaða en "leyfðar" hundategundir af sömu stærð. Journal of Veterinary behvaiour fjallaði einmitt um þessi rök í grein sem var birt árið 2016, og þar kom fram að engin gögn liggi fyrir sem styðji þessa staðhæfingu.

Félag ábyrgra hundaeiganda vill einfaldlega benda á að yfirvöld á Íslandi eru á villigötum ef þau ætla sér að tryggja öryggi Íslendinga gagnvart hundsbitum með því að banna innflutning á ákveðnum hundategundum. Mun árangursríkara er að hefja fræðslu í grunnskólum og víðar meðal almennings í samvinnu við hundaþjálfara og hagsmunasamtök eins og Félag ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélag Íslands.

Einnig vantar á Íslandi heildarlöggjöf um hundahald og við teljum að hún yrði vænlegri til árangurs heldur er boð og bönn sem byggja ekki á öðru en gömlum mýtum sem margoft er búið að hrekja. Í Fréttablaðinu 16.júní upplýsti Hrund Hólm, dýralæknir inn- og útflutnings að yfirdýralæknir hafi ítrekað kallað eftir heildarlöggjöf um hundahald. Við hjá Félagi ábyrgra hundaeigenda höfum einnig kallað eftir því að málefni hundaeigenda verði einfölduð og færð frá sveitarfélögum enda teljum við að mörg atriði sem hafa ratað í hundasamþykktir hafi ekki beina lagastoð. Við viljum fá að taka virkan þátt í mótun þessarar löggjafar enda mikilvægt í þessum málum sem öðrum að hagsmunaaðilar komi sem fyrst að borðinu í ferlinu.

Virðingarfyllst

Stjórn Félags ábyrgra hundaeigenda - FÁH

Heimildir:

1.Mariti C, Ciceroni C, Sighieri C. Italian breed-specific legislation on potentially dangerous dogs (2003): assessment of its effects in the city of Florence (Italy). Dog Behavior. 2015;1(2):25–31.

2.Rosado B, García-Belenguer S, León M, Palacio J. A comprehensive study of dog bites in Spain, 1995–2004. Vet J. 2009;179(3):383–91.

3.Cornelissen JM, Hopster H. Dog bites in The Netherlands: a study of victims, injuries, circumstances and aggressors to support evaluation of breed specific legislation. Vet J. 2010;186(3):292–8.

4.Clarke NM, Fraser D. Animal control measures and their relationship to the reported incidence of dog bites in urban Canadian municipalities. Can Vet J. 2013;54(2):145.

5.Klaassen B, Buckley JR, Esmail A. Does the dangerous dogs act protect against animal attacks: a prospective study of mammalian bites in the accident and emergency department. Injury. 1996;27(2):89–91.

6.Bandow JH. Will breed-specific legislation reduce dog bites? Can Vet J. 1996;37(8):478–81.

7.De Keuster T, Lamoureux J, Kahn A. Epidemiology of dog bites: a Belgian experience of canine behaviour and public health concerns. Vet J. 2006;172(3):482–7.

8.Ott SA, Schalke E, von Gaertner AM, Hackbarth H. Is there a difference? Comparison of golden retrievers and dogs affected by breed-specific legislation regarding aggressive behavior. J Vet Behav: Clin Apps Res. 2008;3(3):134–40.

9.Schalke E, Ott SA, von Gaertner AM, Hackbarth H, Mittmann A. Is breed-specific legislation justified? Study of the results of the temperament test of lower Saxony. J Vet Behav: Clin Apps Res. 2008;3(3):97–103.

10.Martínez ÁG, Pernas GS, Casalta FJ, Rey ML, De la Cruz Palomino LF. Risk factors associated with behavioral problems in dogs. J Vet Behav: Clin Apps Res. 2011;6(4):225–31.

11.Patronek GJ, Bradley J, Cleary D. Who is minding the bibliography? Daisy chaining, dropped leads, and other bad behavior using examples from the dog bite literature. J Vet Behav: Clin Apps Res. 2016;14:17–9.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Svava Svanborg Steinarsdóttir - 29.06.2021

Umsögn send f.h. Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um drög að reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 200/2020, um innflutning hunda og katta

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Auður Sif Sigurgeirsdóttir - 29.06.2021

Meðfylgjandi er umsögn Hundaræktarfélags Íslands

Viðhengi