Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 18.6.–13.8.2021

2

Í vinnslu

  • 14.8.–2.11.2021

3

Samráði lokið

  • 3.11.2021

Mál nr. S-134/2021

Birt: 18.6.2021

Fjöldi umsagna: 5

Annað

Dómsmálaráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála

Niðurstöður

Leitast var við að taka tillit til þeirra athugasemda sem fram komu í umsögnum. Lokaútgáfu skýrslunnar á íslensku og ensku má finna á vef dómsmálaráðuneytisins. Skýrslan var send mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna 11. október 2021 og verður lögð til grundvallar við fyrirtöku Íslands hjá mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í janúar 2022.

Málsefni

Óskað er eftir umsögnum og ábendingum um drög að skýrslu í tilefni af þriðju allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi.

Nánari upplýsingar

Stýrihópur Stjórnarráðsins um mannréttindi hefur tekið saman drög að skýrslu í tilefni af þriðju allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi.

Við gerð skýrslunnar var tekið mið af leiðbeiningum frá Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Í samræmi við þær leiðbeiningar er fyrst og fremst farið yfir það hvernig íslensk stjórnvöld hafa fylgt eftir þeim tilmælum sem Ísland fékk í síðustu allsherjarúttekt. Skýrslan má ekki vera lengri en 10.700 orð.

Kaflaskipting skýrslunnar tekur mið af framsetningu tilmælanna sem Ísland fékk í síðustu úttekt. Í drögum að fylgiskjali má finna yfirlit yfir tilmælin og stöðu þeirra.

Vakin er athygli á því að drögin hafa ekki verið prófarkalesin og verða unnin nánar í samræmi við niðurstöður samráðsins.

Nánar um ferlið:

Allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna (Universal Periodic Review eða UPR) felur í sér heildarúttekt á stöðu mannréttindamála innan aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og fer fram á u.þ.b. fimm ára fresti. Ferlið byggir á jafningjarýni ríkja, en í því felst að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna fara yfir stöðu mannréttindamála hjá hverju öðru og koma með ábendingar og áskoranir um það sem mætti betur fara. Markmiðið með þessu ferli er meðal annars að bæta stöðu mannréttindamála í heiminum og hvetja ríki til þess að uppfylla skuldbindingar sínar á sviði mannréttindamála.

Ísland hefur tvisvar sinnum farið í gegnum slíka úttekt, fyrst árin 2011 til 2012 og nú síðast árin 2016 til 2017. Þriðja allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi fer fram árin 2021 til 2022 og er skýrsla þessi grundvöllur þeirrar úttektar.

Stýrihópur Stjórnarráðsins um mannréttindi hefur sem fyrr segir haldið utan um skýrsluskrifin og hefur sérstök áhersla verið lögð á víðtækt samráð við félagsamtök og aðra hagsmunaaðila.

Óskað er eftir umsögnum og ábendingum um efni skýrslunnar fyrir 13. ágúst nk. Senda þarf skýrsluna í þýðingu í september og skila henni til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir 11. október 2021. Fyrirtakan mun svo fara fram í janúar/febrúar 2022.

Skýrslur félagasamtaka:

Frjáls félagasamtök eru hvött til þess að koma sjónarmiðum sínum einnig á framfæri beint við Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna, með því að skila inn skýrslu til skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Slíkar skýrslur mega að jafnaði ekki vera lengri en 2815 orð en þó mega þær vera allt að 5630 orðum ef tvö eða fleiri samtök kjósa að skila skýrslu inn sameiginlega. Frestur frjálsra félagasamtaka til þess að skila inn skýrslu vegna stöðu mannréttindamála á Íslandi er til 1. júlí 2021. Nánari upplýsingar má nálgast hér: https://www.ohchr.org/en/hrbodies/upr/pages/ngosnhris.aspx

Þá hafa hagsmunaaðilar og frjáls félagsamtök tækifæri til að kynna afstöðu sína til mannréttindamála á Íslandi á forfundi sem haldinn verður af frjálsu félagasamtökunum UPR info í Genf. Nánari upplýsingar má finna hér: https://www.upr-info.org/en/review/Iceland

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Stýrihópur Stjórnarráðsins um mannréttindi

mannrettindi@dmr.is