Samráð fyrirhugað 22.06.2021—18.08.2021
Til umsagnar 22.06.2021—18.08.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 18.08.2021
Niðurstöður birtar

Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030

Mál nr. 135/2021 Birt: 22.06.2021 Síðast uppfært: 06.07.2021
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa
  • Sjúkrahúsþjónusta

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 22.06.2021–18.08.2021. Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Skýrsla þessi er afurð af geðheilbrigðisþingi sem haldið var í desember 2020 þar sem mótuð var framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030.

Stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem var samþykkt á Alþingi 2016 var fyrsta heildstæða stefnan í málaflokknum og tók til samþættingu þjónustu sem snýr að geðheilbrigðismálum, eflingu þekkingar og færni þeirra sem að málum koma. Sérstök áhersla var á geðrækt og forvarnir, snemmtækar íhlutanir og sjálfsvígsforvarnir. Einnig var lögð áhersla á að fólki væri ekki mismunað á grundvelli geðheilsu.

Heilbrigðisstefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi 2019 er leiðarvísir að uppbyggingu á heildstæðu, öflugu og enn betra heilbrigðiskerfi til framtíðar. Leiðarljós stefnunnar er að allt fólk á Íslandi hafi aðgang að öruggri og hagkvæmri heilbrigðisþjónustu. Framtíðarsýnin er að íslensk heilbrigðisþjónusta sé á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir sé hluti af allri þjónustu og þá sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar. Áhersla er á að veita örugga, árangursríka og aðgengilega heilbrigðisþjónustu. Framtíðarsýninni er nánar lýst með sjö grunnstoðum:

• Forysta til árangurs

• Rétt þjónusta á réttum stað

• Fólkið í forgrunni

• Virkir notendur

• Skilvirk þjónustukaup

• Gæði í fyrirrúmi

• Hugsað til framtíðar

Lýðheilsustefna til ársins 2030 var nýverið samþykkt á Alþingi. Lýðheilsustefnan á sér stoð í heilbrigðisstefnu og leiðarljós hennar er að heilsuefling og forvarnir verði hluti af allri þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og viðhaldi þannig og bæti heilbrigði fólks og komi í veg fyrir sjúkdóma eins og kostur er. Áhersla er á að lýðheilsustarf verði markvisst, á heimsmælikvarða og einkennist af þverfaglegu samstarfi heilbrigðisþjónustu, sérstaklega heilsugæslu, og annarra hagaðila á Íslandi með áherslu á heilsueflingu og forvarnir. Framtíðarsýn lýðheilsustefnu tekur einnig mið af lykilstoðunum sjö sem nefndar voru hér fyrir ofan.

Geðheilbrigðisþing 2020: Framtíðarsýn til 2030

Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 fellur einnig að heilbrigðisstefnunni og lykilstoðunum sjö. Í undirbúningsvinnu fyrir geðheilbrigðisþing sem móta ætti framtíðarsýn til 2030 var áhersla lögð á að fá sem víðtækast samráð fagfólks og haghafa. Í ljósi heimsfaraldurs og samkomutakmarkana var ákveðið að halda geðheilbrigðisþingið í tveimur hlutum, ráðstefnu og vinnustofu, með því að nýta fjarfundatækni og samskiptaforrit. Á fjórða þúsund manns tóku þátt í geðheilbrigðisþingi í beinu streymi þann 9. desember síðastliðinn. Margir tóku virkan þátt í þinginu í gegnum samskiptaforrit og komu á framfæri spurningum og hugleiðingum til fyrirlesara. Upptöku af geðheilbrigðisþingi má finna hér: https://vimeo.com/488121911

Strax í kjölfar ráðstefnuhluta geðheilbrigðisþingsins fóru fram sjö vinnustofur í sérstökum rafrænum fundarrýmum, en vinnustofurnar endurspegluðu eitt af grunnstoðunum sjö úr heilbrigðistefnunni. Á vinnustofunum unnu þátttakendur að framtíðarsýn með forgangsröðun aðgerðum til þess að ná fram þessari framtíðarsýn. Innan hvers hóps var framkvæmd greining á ógnum og tækifærum á viðkomandi lykilviðfangsefnum. Hópstjórar sendu niðurstöður vinnunnar til heilbrigðisráðuneytisins.

Til þess að gefa fólki enn meiri tækifæri til þess að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri var frá upphafi ákveðið að afurð geðheilbrigðisþings, skýrsla þessi, færi í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda að þinginu loknu. Undir sömu fyrirsögnum og settar eru fram í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 eru hér settar fram tillögur vinnuhópanna að framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum með áherslu á árangur, skilvirkni og gæði þjónustunnar.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.