Samráð fyrirhugað 22.06.2021—18.08.2021
Til umsagnar 22.06.2021—18.08.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 18.08.2021
Niðurstöður birtar

Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030

Mál nr. 135/2021 Birt: 22.06.2021 Síðast uppfært: 06.07.2021
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa
  • Sjúkrahúsþjónusta

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (22.06.2021–18.08.2021). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Skýrsla þessi er afurð af geðheilbrigðisþingi sem haldið var í desember 2020 þar sem mótuð var framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030.

Stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem var samþykkt á Alþingi 2016 var fyrsta heildstæða stefnan í málaflokknum og tók til samþættingu þjónustu sem snýr að geðheilbrigðismálum, eflingu þekkingar og færni þeirra sem að málum koma. Sérstök áhersla var á geðrækt og forvarnir, snemmtækar íhlutanir og sjálfsvígsforvarnir. Einnig var lögð áhersla á að fólki væri ekki mismunað á grundvelli geðheilsu.

Heilbrigðisstefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi 2019 er leiðarvísir að uppbyggingu á heildstæðu, öflugu og enn betra heilbrigðiskerfi til framtíðar. Leiðarljós stefnunnar er að allt fólk á Íslandi hafi aðgang að öruggri og hagkvæmri heilbrigðisþjónustu. Framtíðarsýnin er að íslensk heilbrigðisþjónusta sé á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir sé hluti af allri þjónustu og þá sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar. Áhersla er á að veita örugga, árangursríka og aðgengilega heilbrigðisþjónustu. Framtíðarsýninni er nánar lýst með sjö grunnstoðum:

• Forysta til árangurs

• Rétt þjónusta á réttum stað

• Fólkið í forgrunni

• Virkir notendur

• Skilvirk þjónustukaup

• Gæði í fyrirrúmi

• Hugsað til framtíðar

Lýðheilsustefna til ársins 2030 var nýverið samþykkt á Alþingi. Lýðheilsustefnan á sér stoð í heilbrigðisstefnu og leiðarljós hennar er að heilsuefling og forvarnir verði hluti af allri þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og viðhaldi þannig og bæti heilbrigði fólks og komi í veg fyrir sjúkdóma eins og kostur er. Áhersla er á að lýðheilsustarf verði markvisst, á heimsmælikvarða og einkennist af þverfaglegu samstarfi heilbrigðisþjónustu, sérstaklega heilsugæslu, og annarra hagaðila á Íslandi með áherslu á heilsueflingu og forvarnir. Framtíðarsýn lýðheilsustefnu tekur einnig mið af lykilstoðunum sjö sem nefndar voru hér fyrir ofan.

Geðheilbrigðisþing 2020: Framtíðarsýn til 2030

Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 fellur einnig að heilbrigðisstefnunni og lykilstoðunum sjö. Í undirbúningsvinnu fyrir geðheilbrigðisþing sem móta ætti framtíðarsýn til 2030 var áhersla lögð á að fá sem víðtækast samráð fagfólks og haghafa. Í ljósi heimsfaraldurs og samkomutakmarkana var ákveðið að halda geðheilbrigðisþingið í tveimur hlutum, ráðstefnu og vinnustofu, með því að nýta fjarfundatækni og samskiptaforrit. Á fjórða þúsund manns tóku þátt í geðheilbrigðisþingi í beinu streymi þann 9. desember síðastliðinn. Margir tóku virkan þátt í þinginu í gegnum samskiptaforrit og komu á framfæri spurningum og hugleiðingum til fyrirlesara. Upptöku af geðheilbrigðisþingi má finna hér: https://vimeo.com/488121911

Strax í kjölfar ráðstefnuhluta geðheilbrigðisþingsins fóru fram sjö vinnustofur í sérstökum rafrænum fundarrýmum, en vinnustofurnar endurspegluðu eitt af grunnstoðunum sjö úr heilbrigðistefnunni. Á vinnustofunum unnu þátttakendur að framtíðarsýn með forgangsröðun aðgerðum til þess að ná fram þessari framtíðarsýn. Innan hvers hóps var framkvæmd greining á ógnum og tækifærum á viðkomandi lykilviðfangsefnum. Hópstjórar sendu niðurstöður vinnunnar til heilbrigðisráðuneytisins.

Til þess að gefa fólki enn meiri tækifæri til þess að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri var frá upphafi ákveðið að afurð geðheilbrigðisþings, skýrsla þessi, færi í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda að þinginu loknu. Undir sömu fyrirsögnum og settar eru fram í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 eru hér settar fram tillögur vinnuhópanna að framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum með áherslu á árangur, skilvirkni og gæði þjónustunnar.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Elín Vigdís Guðmundsdóttir - 25.06.2021

Eftirfararandi umsögn við skýrslu um geðheilbrigðismál er unnin af Elínu Vigdísi Guðmundsdóttur, formanni SÁTTar (Samtaka um átröskun og tengdar raskanir) og fyrir hönd samtakanna. Samtökunum finnst mikilvægt að minna átraskanir eru alvarlegir geðsjúkdómar sem hafa ekki fengið hljómgrunn í heilbrigðiskerfinu. Átraskanir eru auk þess oft nátengdar öðrum geðrænum vanda, svo sem kvíða og þunglyndi, áfallastreitu o.fl. sem er mjög erfitt að takast á við þegar ekki er unnt að fá aðstoð til að takast á við átröskun fyrst. Allt þetta leiðir m.a. til þess (eins og fjallað er um að neðan) að dánartíðni og alvarlegir fylgikvillar eru eru há hjá þessum hópi. Það er lykilatriði að vera með góða stefnu í málaflokknum sem vinna þarf að almennilega með fullnægjandi fjármagni. Samtökin SÁTT beina þeim tilmælum til stjórnvalda að brýnt sé að tekist verði á við þann vanda sem sjúklingar og aðstandendur þeirra standa frammi fyrir. Samtökunum er einnig mjög ofarlega í huga, að stuðla að eflingu forvarna og fræðslu.

Ekkert er fjallað um átraskanir í skýrslunni og viljum við því halda eftirfarandi til haga:

Um átraskanir

Átraskanir eru alvarlegir langvinnir geðsjúkdómar sem einkennast af miklum truflunum á mataræði. Átröskun er samspil líkamlegra, sálrænna og félagslegra þátta sem hafa innbyrðis áhrif hver á annan. Átröskun er sjúkdómur sem ágerist hratt og getur haft alvarlegar afleiðingar ef ekki er gripið inn í snemma. Sjálfsvígshætta er há ásamt flóknum líkamlegum kvillum, hjartabilun, nýrnabilun, skertri frjósemi o.s.frv. Það úrræði sem stendur einstaklingum með átröskun til boða, dagdeild og göngudeild með matarstuðningi þrjá daga í viku, er ófullnægjandi. Einstaklingar sem þurfa meiri aðstoð, oft í bráðri lífshættu, hafa verið lagðir inn á almenna bráðageðdeild, þar sem þekking á átröskunum er takmörkuð og meðferð miðast ekki við þær þarfir og heildrænu nálgun sem nauðsynleg er.

Staðan í dag

Þjónustu við átröskunarsjúklinga hefur verið ábótavant um langt skeið. Fá og einsleit úrræði og langir biðlistar eru eftir þeirri þjónustu sem í boði er. Á meðan á biðinni stendur er eina úrræðið kostnaðarsöm sálfræðiþjónusta sem er hvorki fullnægjandi, né á allra færi. Brýnt er að auka fjármagn sé veitt í þessu þjónustu s.s. starfsemi átröskunarteymis Landspítalans og BUGL (Barna og unglingageðdeildar Landspítalans).Á síðastliðnum fimm árum hafa alls 490 einstaklingar fengið þjónustu á dag- og göngudeild átröskunar á Landspítala.

Fordómar

Fordómar gegn átröskunarsjúkdómum birtast á ýmsan hátt. Viðhorf margra er að átraskanir séu eins konar tískusjúkdómur sem ungar stúlkur fá, til að vera mjóar. Raunin er önnur. Um mjög alvarlegan sjúkdóm er að ræða, sem í einhverjum tilvikum byrjar sem megrun. Í mörgum tilvikum getur verið um deyfingu á sársauka að ræða, sem á rætur að rekja til áfalla og er þannig af mörgum talinn eins konar fíknisjúkdómur. Þeir sem glíma við átröskun eru mjög stór og fjölbreyttur hópur. Mörg glíma einnig við fjölþættan vanda sem má rekja til átröskunarinnar, eins og áfallastreitu, kvíða og þunglyndi.

“Metoo” byltingin

Í kjölfar annarrar ,,metoo”-bylgju er einnig vert að nefna að stór hluti þeirra sem glíma við átraskanir hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi. Slíkt ofbeldi getur leitt til alvarlegra geðsjúkdóma á borð við átraskanir. Þá verður ekki litið framhjá því að þó að karlmenn glími líka við átraskanir (og í sívaxandi mæli) þá sýna rannsóknir að konur eru í meirihluta. Aðgerðarleysi stjórnvalda á þessu sviði bitnar því helst á ungum konum og er óhjákvæmilegt að líta á þá staðreynd frá kynjasjónarmiði.

Forvarnir

Nauðsynlegt er að vinna að bættum forvörnum og fræðslu í skólum og í íþróttahreyfingunni, m.a. með heimsóknum og samtali, en einnig með framleiðslu fræðsluefnis og viðburðum sem höfða til breiðs hóps fólks. Þá er nauðsynlegt að stuðla að bættum stuðningi og fræðslu fyrir aðstandendur.

Aðgerðir nauðsynlegar

Við núverandi ástand meðferðar við átröskun verður ekki unað. Þjónusta hefur skerst mörg undanfarin ár og biðlistar lengst. Hætt er við að vanfjármögnun og undirmönnun leiði til vítahrings, þar sem reyndir sérfræðingar hrökklast úr starfi frekar en að starfa við óviðunandi aðstæður. Ef ekki verður gripið í taumana hið fyrsta er hætt við að sú góða reynsla sem byggst hefur upp við meðferð átröskunar á Landspítala hverfi og erfitt getur reynst að byggja upp á ný.

SÁTT

Samtökin SÁTT (Samtök um átröskun og tengdar raskanir) eru hagsmunasamtök, stofnuð í júlí 2020 af þremur konum sem eiga það sameiginlegt að hafa glímt við átraskanir. Meginmarkmið samtakanna er að stuðla að bættri heilbrigðisþjónustu, meðferð og félagslegri þjónustu fyrir fólk sem glímir við átraskanir. Markmiðið er einnig að auka skilning og þekkingu stjórnvalda, heilbrigðisstétta og almennings á átröskunum. Þá er nauðsynlegt að veita aðstandendum fræðslu og stuðning.

Rafrænn fundur SÁTT-ar, var haldinn þann 28. maí sl.og bar yfirskriftina: Átröskun: Staða meðferðarúrræða á Íslandi og erlendar fyrirmyndir. Upptaka af fundinum er að finna: https://vimeo.com/555161146

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu samtakanna www.atroskun.is og facebook-síðu SÁTTar https://www.facebook.com/atroskun/

SÁTT styður þingsályktunartillögu um ,,Aðgerðir gegn átröskun” sem lögð var fram af Andrési Inga Jónssyni og lögð áhersla á umfjöllun sem er að finna þar. https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=151&mnr=856

Þar er m.a. kallað eftir að skipaður verði starfshópur til að skoða hvernig megi bæta aðstöðu og aðbúnað og þjónustu á meðferðarúrræðum á vegum Landspítala, möguleika á að setja á fót langtímameðferðarúrræði, vinna að gerð forvarnarefnis og fræðsluefnis um átraskanir fyrir heilbrigðisfólk, aðstandendur, skólayfirvöld og íþróttafélög og miða aðgerðir við framkvæmd á nágrannalöndum.

SÁTT-arkveðja,

Elín Vigdís Guðmundsdóttir

s. 698-3110

Afrita slóð á umsögn

#2 Ólafur Baldursson - 02.07.2021

2. júlí 2021/ÓB

Varðandi: Umsögn Landspítala um drög að Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030.

Landspítali fagnar vinnslu þessa skjals og tekur undir það í megindráttum. Hér eru nokkrar ábendingar sem vonandi verða til gagns:

Kafli 1 Forysta til árangurs

Leggjum til að við forgangsraðaðar aðgerðir verði bætt inn einum lið, þ.e.

7. Tryggja betur réttarstöðu heilbrigðisstarfsfólks hvað varðar alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu, sbr. skýrslu starfshóps þar að lútandi (https://www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/rit-og-skyrslur-2015/skyrsla-starfshops-um-alvarleg-atvik-i-heilbrigdisthjonustu.pdf).

Kafli 2 Rétt þjónusta á réttum stað

Í sýn til framtíðar í kafla 1 er

• Stofna „geðgátt“ svipaða og hjartagátt til að tryggja enn betur þverfaglega nálgun og samvinnu.

Leggjum til að þessi aðgerð verði flutt undir kafla 2 - sýn til framtíðar.

Leggjum til að við sýn til framtíðar verði bætt inn einum lið, þ.e.

• Hanna þarf skýra þjónustuferla fyrir sjúklinga með algenga og/eða alvarlega geðsjúkdóma, þannig að þeim, aðstandendum og þjónustuveitendum sé ljóst á hvaða stigi þeir eigi að fá þjónustu hverju sinni, og hvernig þeir flytjist með auðveldum og skilvirkum hætti milli stiga þegar það á við.

Leggjum til að við forgangsraðaðar aðgerðir verði bætt inn:

• Að ráða einstaklinga með persónulega reynslu til starfa í geðheilbrigðisþjónustu og nýta krafta þeirra til jafns við aðrar fagstéttir.

Kafli 3 Fólkið í forgrunni

Í forgangsröðuðum aðgerðum í kafla 2 eru eftirfarandi aðgerðir

2. Styðja við menntun geðhjúkrunarfræðinga til að mæta skorti á þessum faghópi.

3. Styðja við menntun fagstétta í geðheilbrigðisþjónustu.

Leggjum til að þessar aðgerðir verði fluttar undir kafla 3 – forgangsraðaðar aðgerðir.

Kafli 4 Virkir notendur

Í sýn til framtíðar er m.a. eftirfarandi setning

• Samfélagslegt viðhorf – svörin liggja ekki bara í einni nálgun.

Leggjum til að þessi setning verði skýrð betur þannig að allir viti hvað átt sé við.

Nokkrum línum neðar kemur þessar setningar:

• Mikilvægt að tryggja að þverfagleg samvinna virki. Tryggja þarf vettvang fyrir þetta þverfaglega samstarf.

Mælum með því að fjallað verði um teymisvinnu heilbrigðisstarfsfólks í kaflanum Fólkið í

forgrunni og sett fram aðgerð um hvernig megi efla hana og bæta.

Í forgangsröðuðum aðgerðum leggjum við til að fyrsta aðgerð verði skýrari og setningin um „læknisfræðilega“ nálgun tekin út og áherslan sett á fjölbreytilega hugmyndafræði og bata – sem er einmitt málið.

Kafli 7 Hugsað til framtíðar

Leggjum til að lið 7 í forgangsröðuðum aðgerðum verði skipt upp, þ.e.

7. Byggja nýtt húsnæði geðsviðs Landspítala og endurskoða hugmyndafræði og innihald meðferðar

Verði

7. Byggja nýtt húsnæði fyrir geðþjónustu á Landspítala

8. Endurskoða hugmyndafræði og innhald meðferðar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Geðhjálp - 05.07.2021

Reykjavík 5. júlí 2021

Umsögn Geðhjálpar um Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030

Landssamtökin Geðhjálp fagna þeirri vinnu sem heilbrigðisráðuneytið ráðist í undanfarin misseri í geðheilbrigðismálum. Skýrsla ráðuneytisins Geðheilbrigðisþingi, sem haldið var að frumkvæði ráðuneytisins árið 2020, og vinnustofur í kjölfarið eru skref í rétta átt. Þar koma fram ýmis atriði sem Geðhjálp getur tekið undir og styður. Þessi atriði eru vörður á leiðinni í átt að skýrri stefnu í geðheilbrigðismálum.

Framtíðarsýnin er einskonar samantekt af vinnu ráðuneytisins á kjörtímabilinu og geðheilbrigðisþingi sem haldið var í lok stefnunnar auk ályktana sem draga má í kjölfar síðustu geðheilbrigðisstefnu (2016-2020). Framtíðarsýnin byggir svo á sjö grunnstoðum heilbrigðisstefnu til 2030 og hálfri SVÓT-greiningu á þeim stoðum sem leggja ásamt öðru efni grunn að sýn í áhersluatriðum og forgangsatriðum um framtíðina.

Grunnstoðirnar sjö sem framtíðarsýnin byggist á er sniðug leið til að tvinna saman heilbrigðisstefnu til 2030 við áherslur og vonandi nýja stefnu í geðheilbrigðismálum (2021-2025). Þær eru: 1. forysta til árangurs, 2. rétt þjónusta á réttum stað, 3. fólkið í forgrunni, 4. virkir notendur, 5. skilvirk þjónustukaup, 6. gæði í fyrirrúmi og 7. hugsað til framtíðar.

Framtíðarsýnin sjálf og forgangsröðunin undir hverri stoð og svo í lokakafla skjalsins er að okkar mati góðra gjalda verð. Þar er ekkert sem kemur á óvart eða stingur í stúf. Flest atriðin sem lögð eru upp sem stef til framtíðar og væntanlega sem grunnur að næstu geðheilbrigðisstefnu hafa verið í umræðunni nú um allnokkur tíma.

Þó viljum við nefna nokkur atriði sem vekja athygli.

1. „Leggja áherslu á að lögbinda forvarnir og snemmbæra íhlutun“.

Þær leiðir að breyttri hegðun og hugsun almennings þar sem farin er sú leið að lögbinda frjálsan vilja íbúa eru að okkar mati umhugsunarefni og ætti að forðast. Í stefnumótun í heilbrigðismálum ætti að okkar mati að leitast við að hafa áhrif á hugsun og hegðan íbúa með „soft power“ leiðum og aðferðafræði. Slíkt er að okkar mati vænlegra til árangurs en beinn boðháttur í gegnum lagasetningu.

2. „Tryggja viðveru sálfræðinga, félagsráðgjafa og iðjuþálfa í skólum“.

Hér viljum við benda á þá hugmyndafræðilegu þróun að heilbrigðiskerfið er að færa nálgun sína í ríkara mæli út í aðrar samfélagslegar skipulagsheildir og umhugsunarefni við slíka þróun hlýtur að vera sú að við flytjum ekki út einkennamiðaða og sjúkdómsvædda nálgun út í þær skipulagsheildir. Slíkt getur leitt af sér síaukna sjúkdómavæðingu á eðlilegum frávikum mannlegrar tilveru. Þetta er umhugsunarefni í samhengi þess að fleiri og fleiri greinst nú með frávik og raskanir er kemur að geðslagi á sama tíma og öryrkjum vegna geðraskanna á síðustu þrjátíu árum fjölgar í fjórföldu hlutfalli við íbúafjölgun landsins. Þessa þróun þarf að ræða í stærra samfélagslegra samhengi.

3. „Hefja undirbúning að byggingu geðdeildarbyggingar á Landspítala sem stenst kröfur nútímans“.

Er kemur að þróun geðheilbrigðisþjónustunnar innan sjúkrahúsa er mikilvægt að hafa í huga að ný bygging og umfang slíkrar þjónustu þarfa að miða við nútímajafnvægi á milli sjúkrahúsþjónustu og samfélagsþjónustu. Opna má á hugmyndir aukinnar samfélagsþjónustu eins og skjólshús og lyfjalausar deildir innan sjúkrahúsþjónustunnar. Leggja má að því drög að geðheilsuteymi heilsugæslunnar breytist í þverfaglegteymi. Fjölga þarf notendum með hlutverk í bataferli annarra innan geðheilbrigðisþjónustunnar. Uppræta þarf með öllu „refsimenningu“ innan geðheilbrigðisþjónustunnar.

4. „Notandinn er í öndvegi og hann á þess kost að velja þjónustu og meðferð“.

Þetta er mikilvægasta stef framtíðarsýnarinnar og verður að endurspeglast í öllum framtíðarstefnum um geðheilbrigðismál. Hafa þarf í huga að í þessu samhengi og öllu samhengi þarf að taka hugmyndafræði og aðferðfræði geðlækninga til gagngerrar endurskoðunar. Þessu er alfarið skautað fram hjá í þessari framtíðarsýn og er að okkar mati grundvallarsjónarmið í allri framþróun geðheilbrigðismála. Vitna má til orða Daniusar Puras geðlæknis frá Litáen og fyrrverandi talsmanns SÞ um mannréttindi er hann segir:

„Ef heilbrigðiskerfi á að vera í samræmi við rétt sérhvers manns til heilbrigðis verður að finna jafnvægi á milli líflæknisfræðilegu og sálfélagslegu líkananna og inngripanna, og forðast þá handahófskenndu hugmynd að líflæknisfræðileg inngrip séu árangursríkari. Brýn þörf fyrir áherslubreytingar ætti að leiða til þess að nýsköpun í stefnumótun sé sett í forgang á vettvangi íbúanna sjálfra, með áherslu á félagslega ákvörðunarþætti og horfið sé frá því ráðandi læknisfræðilega líkani sem leitast við að lækna einstaklinga með því beina sjónum að „röskunum“. Geðheilbrigði heldur hins vegar áfram að verða fyrir barðinu á of mikilli sjúkdómsvæðingu og hið smættandi líflæknisfræðilega líkan, stutt af geðlæknisfræðinni og lyfjaiðnaðinum, er ráðandi við klíníska meðhöndlun, í stefnumótun, rannsóknaráætlunum, menntun lækna og fjárveitingum til geðheilbrigðismála um heim allan. Greiningartæki á borð við alþjóðlega flokkun sjúkdóma, ICD, og greiningar og tölfræðihandbók geðsjúkdóma, DSM, halda áfram að færa út kvíarnar hvað varðar mæliþætti einstakra sjúkdómsgreininga, oft án þess að fyrir hendi sé traustur fræðilegur grundvöllur. Gagnrýnendur gjalda varhug við því að offjölgun greiningarflokka þrengi að mannlegri upplifun með þeim hætti að það geti leitt til takmarkaðri viðurkenningar á mannlegri fjölbreytni.“

Að lokum vill Geðhjálp ítrekar þá sýn samtakanna að til þess að móta megi stefnu til framtíðar í málaflokknum er mikilvægt að setja eftirfarandi atriði í forgang:

1. Gera heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi

Nánar: Úttektin er nauðsynleg svo hægt sé að ná utan um málaflokkinn og auka samhæfingu þeirra þriggja stoða sem eru á hendi ríkisins (sjúkrahús, heilsugæsla og sérfræðiþjónusta). Úttektin taki einnig til búsetu- og félagsþjónustu sveitarfélaga þannig að styrking hennar og samhæfing við þjónustu ríkisins verði auðsóttari.

2. Efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og gera þjónustuna þverfaglegri

Nánar: Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður í flestum tilfellum. Geðheilsuteymi heilsugæslunnar geta verið ákveðin fyrirmynd að þjónustu þar sem sjónarmið notenda hafa aukið vægi. Innan heilsugæslunnar ættu að starfa félagsráðgjafar, notendafulltrúar, iðjuþjálfar, þroskaþjálfar o.fl. stéttir við hlið lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga.

3. Stórauka stuðning og fræðslu fyrir foreldra

Nánar: Liður í því að huga að áhrifaþáttum geðheilbrigðis er að styðja foreldra í uppalendahlutverki sínu. Að auka mæðraeftirlit, foreldrafræðslu og ungbarnaeftirlit með það fyrir augum að fræða foreldra um mikilvægi tengslamyndunnar fyrstu 1.000 dagana í tilveru hvers barns. Á leikskóla- og grunnskólaaldri þarf einnig að styðja við foreldra og draga þannig úr árekstrum og erfiðleikum síðar meir í lífi barnsins.

4. Hefja niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu

Nánar: Að framfylgja samþykkt Alþingis um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Samþykktin er enn óútfærð hvað varðar fjármögnun og brýnt er að skýra framkvæmdina.

5. Gera geðrækt hluta af aðalnámskrá grunnskóla

Nánar: Það er ein besta fjárfesting hvers samfélags að kenna börnum frá unga aldri um verndandi þætti geðheilbrigðis og hvernig hægt er að nýta þá í daglegu lífi. Mikilvægt er að geðrækt verði kennd á menntavísindasviði til að styðja við getu kennara við að miðla þessari fræðslu.

6. Fjölga atvinnutækifærum fyrir ungmenni og fólk með geðrænar áskoranir

Nánar: Við viljum tryggja ungmennum virkni eða nám við hæfi. Við 16 ára aldur flyst ábyrgð á nemendum frá sveitarfélögum til ríkisins. Á aldrinum 16 til 18 ára er umtalsvert brottfall úr námi og virkni oft lítil. Á þessum árum er veruleg hætta á að ungmenni detti alveg úr virkni sem hefur slæm áhrif á geðheilsu þeirra.

Einnig býr fólk með geðrænar áskoranir, á öllum aldri, gjarnan við lítinn hvata til virkni.

7. Byggja nýtt húsnæði geðsviðs LSH og endurskoða hugmyndafræði og innihald meðferðar

Nánar: Húsnæði geðsviðs LSH er óhentugt. Starfsemin fer fram á Hringbraut og við Elliðaárvog og er því aðallega dreifð á tvo staði en einnig í aðrar byggingar. Hugmyndafræði og innihald meðferðar þarfnast endurskoðunar samhliða endurskoðun á húsakostinum. Geðhjálp vill vera opin fyrir nýjungum við meðferð sem eru fjölmargar í löndunum í kringum okkur og má þar nefna lyfjalausar deildir, opna samræðu (Open dialogue) o.fl. Áherslur Geðhjálpar miða að því að það heyri til undantekninga í framtíðinni að þurfa að leggjast inn á geðdeild en sé þess þörf verði þjónustan nútímaleg og framsækin.

8. Útiloka nauðung og þvingun við meðferð

Nánar: Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er hvers kyns nauðung og þvingum óheimil. Ísland hefur enn ekki lögfest þennan samning. Ítrekað hefur verið bent að nauðung og þvingun í meðferð einstaklinga með geðrænar áskoranir standist ekki lög. Þetta hefur OPCAT eftirlit staðfest en því sinna óháðir aðilar og heimsækja þeir staði sem hýsa einstaklinga sem eru sviptir frelsi sínu. Samhliða núverandi endurskoðun lögræðislaga leggur Geðhjálp til að Ísland verði gert að þvingunarlausu landi sem tilraunarverkefni til þriggja ára.

9. Koma á fót Geðráði, breiðum samráðsvettvangi um geðheilbrigðismál

Nánar: Undanfarna áratugi hafa geðheilbrigðismál iðulega verið rædd í ólíkum hópum á ólíkum stöðum en þessir hópar tala mismikið saman og vita jafnvel ekki hver af öðrum. Ábyrgð á samhæfingu og upplýsingamiðlun þvert á alla þessa hópa og stjórnsýslustig getur verið óljós. Geðráði er ætlað að breyta þessu með því að kalla að sama borðinu stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur til þess að fjalla á hlutlægan hátt um málaflokkinn og leggja grunn að stefnumótun og aðgerðum.

Virðingarfyllst,

Héðinn Unnsteinsson

formaður

STÖÐUG FRAMSÆKNI ÖFLUG GEÐRÆKT MANNRÉTTINDI TRYGGÐ

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Halldóra Jónsdóttir - 06.07.2021

Reykjavík 06.07.2021

Umsögn Geðþjónustu Landspítala um Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum.

Það er virkilega ánægjulegt að sjá afrakstur geðheilbrigðisþings og kraftinn í þeirri vinnu sem þar fór fram. Þessi vinna er mikilvægur grunnur að breytingum og uppbyggingu sem þarf að fara fram á næstu árum. Við teljum að þær grunnstoðir sem skilgreindar eru í skjalinu skili þessari vinnu á skýran og greinargóðan hátt og nýtist vel í þeirri vinnu sem framundan er. Einnig er virkilega flott að sjá að verkefnum er forgangsraðað og það er samhljómur í forgangsröðuninni á milli grunnstoðanna

Við í Geðþjónustu Landspítala teljum mikilvægt að skilgreina þjónustumódelið í heild og skýra hlutverk og verkaskiptingu innan þjónustustiga og skiptingu fjármuna. Einnig þarf verkaskipting þjónustueininga innan hvers þjónustustigs að vera skýr. Efling á mannauði er gríðarlega mikilvæg og viljum við leggja sérstaka áherslu á að auka hlut geðhjúkrunar alls staðar í þjónustukeðjunni. Þá eru húsnæðismál okkur mjög hugleikin og það að taka ákvörðun um að byggja nýtt geðsjúkrahús. Einnig er sérstaklega mikilvægt að efla notendur sem þátttakendur í stefnumótun en einnig sem virka starfsmenn í okkar kerfi.

Við teljum rétt að horfa til nágrannalanda okkar, sérstaklega Norðurlanda og sjá hvar við stöndum í samanburði við þau. Þar sem við þekkjum til eru þróun í geðheilbrigðsmálum komin töluvert á undan því sem hér er og margt sem við getum lært af okkar góðu nágrönnum.

Við höfum tekið saman nokkrar ábendingar sem við viljum koma á framfæri í áframhaldandi vinnu með Framtíðarsýnina.

1. Forysta til árangurs - Forgangsröðun næstu 2 árin.

Liður 2. Geðheilsuteymi fyrir börn – Hér þarf að vera skýrt fyrir hvaða hóp barna slíkt teymi á að vera og hvar í þjónustunni teymið verður staðsett.

Liður 4. Mjög mikilvægt að koma á fót slíkum teymum þar sem einstaklingar með samsettan vanda fá langtíma eftirfylgd. Slík teymi eru nú starfrækt í geðþjónustu Landspítala en einnig þyrfti 1. og 2. línu þjónustan að geta tekið við skjólstæðingum í þessum hópi þegar betur gengur og sinnt langtíma eftirfylgd.

2. Rétt þjónusta á réttum stað

Annars stigs þjónusta er ekki einungis þjónusta sérfræðilækna á stofum, heldur er vaxandi á vegum heilsugæslunnar, það eru nú 3 geðheilsuteymi á höfuðborgarsvæðinu og 5 á landsbyggðinni. Um er að ræða þverfagleg teymi. Sjúkrahúsin sinna einnig 2. stigs þjónustu á formi bráðaþjónustu.

Ógnanir:

Ísland er fámennt og það í sjálfu sér er ógnun þegar skipuleggja á þjónustu. Við munum ekki ráða við mjög uppskipta þjónustu með mörgun mismunandi teymum því við höfum einfaldlega ekki nægilega mikið af fagfólki til að sinna þjónustunni. Það hefur þegar orðið tilfærsla fagfólks í geðheilbrigðisþjónustu við uppbyggingu þjónustu í heilsugæslu. Fjöldi fólks hefur farið af sjúkrahúsum yfir í heilsugæslu og ekki fæst fagfólk í staðinn þar sem það er ekki til.

Fjallað er um ólíkt aðgengi að þjónustu og þar má benda á að þjónustuþörf skjólstæðinga innan geðheilbrigðisþjónustu er mjög mismunandi og að ekki allir tilheyra hópum með sterka rödd í samfélaginu. Mikið hefur verið fjallað um ákveðna hópa (fólk með ákveðnar greiningar) en minna eða ekkert um aðra hópa.

Bent er á sóun í kerfinu og óskilvirka ferla og við það má bæta að verkaskipting og hlutverk 1.,2. og 3. stigs þjónustu er óskýr.

Tækifæri:

Fram kemur að mikil tækifæri geti falist í því að efla getu Landspítala til að mennta nauðsynlegar fagstéttir. Hér verður að bæta við, það eru háskólar sem mennta fagfólk og því þarf að efla getu þeirra og samstarf við heilbrigðisstofnanir um sérhæfingu sama fagfólks.

Sýn til framtíðar:

Vantar: Einstaklingar með langvinnan vanda fái málastjóra sem heldur utan um og hefur yfirsýn yfir meðferð og þjónustu sem viðkomandi fær.

Forgangsröðun aðgerða næstu 2 árin:

Punktur 7. Styðja við menntun geðhjúkrunarfræðinga til að mæta skorti á þessum faghópi. - Þetta er gríðarlega mikilvægt og fagstétt sem skiptir miklu máli í stuðningi við einstaklinga með geðrænan vanda.

3. Fólkið í forgrunni

Helstu tækifæri og ógnanir:

Hér þarf að samræma textann við það sem á undan er komið. Of mikil áhersla á geðlækna og heimilislækna, mikilvægt að nefna hjúkrunarfræðinga. Hér er talað um félagsráðgjafa í heilsugæslu sem er mikilvægt, en þeir eru líka takmörkuð auðlind.

Sýn til framtíðar:

Hér þarf aftur að hafa í huga að fagfólk er takmörkuð auðlind í litlu landi.

Háskólasjúkrahúsið þarf að vera samkeppnishæft um kaup og kjör fagfólks.

Forgangsröðun aðgerða:

Liður 4: Miðað við stöðuna í dag hefur geðlæknum fjölgað í 2. stigs þjónustu heilsugæslu og fækkað á Landspítala og SAK. Mikilvægt er að í heilsugæslu séu starfandi geðhjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar, sálfræðingar og iðjuþjálfar. Með öflugum þverfaglegum geðheilsuteymum er þörf á geðlæknum minni.

4. Virkir notendur

Forgangsröðun aðgerða:

Liður 1: Óskýrt hvað átt er við hér en það er ljóst að geðheilbrigðisþjónustan verður að byggja á gagnreyndum meðferðarúrræðum.

7. Hugsað til framtíðar

Sýn til framtíðar:

Liður 2 - Mikilvægt að hér séu geðhjúkrunarfræðingar nefndir og einnig heimahjúkrun.

Liður 7. Fjölga atvinnutækifærum. Það þarf að vera áhersla á IPS (Individual Placement and Support) sem er gagnreynd starfsendurhæfing fyrir einstaklinga með langvinnan geðrænan vanda og skilar bestum árangri.

Liður 9: Innihald meðferðar þarf að vera í stöðugri endurskoðun, þannig að fylgst sé með nýjungum og þær innleiddar þegar öruggt er að um gagnreyndar meðferðir er að ræða. Það er hlutverk fagfólks þjónustunnar að fylgjast með nýjungum í meðferð og eftirfylgd og tryggja að notendur fái bestu mögulega þjónustu hverju sinni. Mikilvægt er að rödd notenda sé sterk í stefnumótun og umræðu um nýjungar í meðferð. (Það má benda á að meðferð með opnu samtali og lyfjalausar deildir eru dæmi um íhlutun sem ekki er gagnreynd fyrir einstaklinga með langvinna geðrofssjúkdóma. Í sögulegu samhengi hafa lyfjalausar deildir spilað stórt hlutverk og fyrr á tímum var veikastir hópurinn fastur á slíkum deildum, það er staðreynd sem ekki má gleymast í þessari umræðu. Það er mikilvægt að ekki sé rætt um einstaklinga með geðrænar áskoranir sem einn stóran hóp. Vandi notenda kerfisins er margvíslegur og skjólshús og lyfjalausar deildir eru íhlutanir sem vissulega geta nýst ákveðnum hópum notenda.

Liður 10.

Niðurstaða OPCAT skýrslu umboðsmanns Alþingis frá 2018 var að fullnægjandi lagaheimildir eru ekki til staðar í íslenskri löggjöf til að taka ákvarðanir gagnvart frelsissviptum einstaklingum á geðheilbrigðisstofnunum sem geta falið í sér inngrip í réttindi sem varin eru í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Þótt sjúklingur sé frelsissviptur á grundvelli lögræðislaga eða dóms veitir það starfsmönnum geðheilbrigðisstofnana ekki sjálfkrafa heimild til þess að skerða slík réttindi sjúklinga.

Taldi umboðsmaður að taka þurfi til skoðunar hvort og þá hvaða breytingar þarf á gera á núgildandi löggjöf til að tryggja að athafnir og ákvarðanir sem teknar eru gagnvart frelsissviptum einstaklingum á geðheilbrigðisstofnunum, og fela í sér hvers konar þvinganir, valdbeitingu og inngrip í friðhelgi einkalífs þeirra, eigi sér fullnægjandi lagastoð og séu að öðru leyti í samræmi við ákvæði stjórnarskrár, mannréttindasáttmála og fjölþjóðlegar skuldbindingar.

Það er tillaga okkar í Geðþjónustu Landspítala að hér verði texti um að mikilvægt sé að endurskoðun lögræðislaga verði flýtt og að gerð verði aðgerðaráætlun um að draga úr þvingunum í meðferð við geðsjúkdómum á Íslandi.

Forgangsröðun aðgerða:

Liður 8: Vinna aðgerðaráætlun til að draga úr nauðung og þvingun í meðferð við geðrænum áskorunum.

8. Framtíðarsýn:

Síðasti liður: Byggt verði nýtt geðsjúkrahús Landspítala.

Virðingarfyllst,

Halldóra Jónsdóttir,

yfirlæknir Meðferðareiningar geðrofssjúkdóma og staðgengill Nönnu Briem forstöðumanns Geðþjónustu, Landspítali-Háskólasjúkrahús

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Þóra Jónsdóttir - 06.07.2021

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um skýrslu geðheilbrigðisþings, Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030, á vegum Heilbrigðisráðuneytisins

Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir tækifærið til að gera umsögn um skýrslu geðheilbrigðisþings sem haldið var á vegum Heilbrigðisráðuneytisins 9. desember 2020. Skýrslan tekur saman niðurstöður þingsins og samráðsins sem þar fór fram. Innihald skýrslunnar er áhugavert og leggur fram tillögur að því hvernig bæta skuli geðheilbriðisþjónustu til framtíðar, sem er vel. Hins vegar er mikilvægt að halda því til haga að skýrslan sem slík er ekki stefnuskjal ráðuneytisins, heldur fyrst og fremst samantekt vinnuhópa geðheilbrigðisþings, skipuð fólki frá hinum ýmsu hagaðilum, um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030. Slíkt samráð er vissulega til fyrirmyndar og mikilvægt, en það mikilvægasta er að ráðuneytið og þingið geri efni skýrslunnar að sínu með því að gera eigin stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til 2030, byggða á skýrslu geðheilbrigðisþings, og koma henni í framkvæmd, fullfjármagnaðri og með skýrri ábyrgðarskiptingu.

Að þessu sögðu benda Barnaheill á mikilvægi þess að skilgreina forvarnir sem hluta af geðheilbrigðisþjónustu og að þær séu skilgreindar og skýrðar þannig að ljóst sé hvaða verkefni í þeim felast. Í hverju felast forvarnir? Hvaða aðgerðir og aðferðir leiða til þess að komið er í veg fyrir geðræna vanheilsu? Hvað eru sjálfsvígsforvarnir og hverjar eru aðrar forvarnir? Hvaða forvarnir þarf að nýta fyrir hverja og á hvaða aldursskeiðum. Hvernig nýtast forvarnir best til framtíðar, einstaklingum til heilla?

Barnaheill taka undir það sem fram kemur í skýrslunni að notandinn skuli hafður í forgrunni. Er þá afar mikilvægt að notandinn njóti hlustunar þeirra sem veita þjónustu, þ.e. að allir þjónustuveitendur séu þjálfaðir í virkri hlustun og virðingu gagnvart notandanum, hvort sem notandi er barn eða fullorðinn. Þjónustuveitendur þurfa að hafa og gefa sér nægan tíma til að notandinn fái rými til að vinna með þau verkefni sem hann tekst á við. Þarfir notenda eru misjafnar eins og gefur að skilja og því verður að vera hægt að hafa úrræðin fjölbreytt og sveigjanleg svo henti notendum hverju sinni. Í útfærslu þjónustu hvetja Barnaheill til nýsköpunar og að hugsað sé út fyrir boxið. Tímapressa t.a.m. getur aukið á streitu og dregur hugsanlega úr möguleikum notenda til að finna lausn sinna mála og til að öðlast færni í sjálfsumhyggju. Á sama hátt er bið eftir þjónustu streituvaldur og er þáttur sem þarf að eyða. Barnaheill leggja ríka áherslu á að veita þarf börnum og ungmennum greiða leið að sálfræðiþjónustu og hana þarf að veita skjótt og gjaldfrjálst eins og aðra heilbrigðisþjónustu til barna.

Barnaheill hvetja ráðuneytið til að setja sér nýja geðheilbrigðisstefnu til framtíðar ásamt aðgerðaáætlun sem fyrst og nýta þá góðu vinnu sem fram fór á geðheilbrigðisþingi í desember 2020 í samráðshópunum.

Barnaheill hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi og leggja ríka áherslu á rétt barna til verndar gegn ofbeldi og til bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Samband íslenskra sveitarfélaga - 09.07.2021

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

f.h. sambandsins

Valgerður Rún

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Guðlaug U Þorsteinsdóttir - 13.08.2021

Hér fylgir umsögn frá Heilsugæslu Höfuðborgarsvðisins, um afurð geðheilbrigðisþings 2020, og framtíðarsýn í geðheilbrigðisþjónustu til 2030.

kkv

Guðlaug Þorsteinsdóttir, geðlæknir

Framkvæmdastjóri geðheilbrigðisþjónustu HH

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Hugarafl - Notendastýrð starfsendurhæfing - 16.08.2021

Hugarafl 16.08.2021

Lágmúla 9

108 Reykjavík

Umsögn Hugarafls um Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030

Við í Hugarafli fögnum því að unnin sé heildræn framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum sem tekur mið af heilbrigðisstefnu almennt. Talað var um mikilvægi forvarna, lýðheilsu almennt og að við vinnslu þessa plaggs hafi áhersla verið lögð á sem víðtækast samráð fagfólks og haghafa. Í skjalinu sjálfu er nánast ekkert útlistað um forvarnir og aðgerðir sem stuðla að lýðheilsu almennings, og við höfum verulegar athugasemdir við hvernig meintu samráði fagfólks og haghafa var háttað.

Óánægja með framkvæmd „samráðsins“

Hugarafl eru fjölmennustu samtök fólks með persónulega reynslu af andlegum áskorunum á Íslandi. Við höfum látið til okkar taka í málaflokknum og höfum yfirlýst markmið um að nýta sérþekkingu okkar til að betrumbæta íslenska geðheilbrigðisþjónustu auk þess að starfa samkvæmt og miðla batahugmyndafræði og valdeflingu. Sé leitast eftir hópi „virkra notenda“ líkt og talað er um í skjalinu, þá er þá meðal annars að finna hér. Okkur bauðst einungis að senda þrjá fulltrúa til að taka þátt í rafrænu vinnustofunum þar sem unnið var með sjö yfirlýst þemu heilbrigðisstefnunnar. Við fengum ekki færi á að senda einstaklinga í umræðu sem stendur okkur nærri, á borð við „virkir notendur“ og „fólkið í forgrunni“. Það var afar takmarkaður tími fyrir vinnustofurnar sjálfar og ekkert rými til að deila heildrænum SVÓT-greiningum sem við höfðum verið beðin um að útbúa fyrir fundinn. Okkur var gert að hlaupa yfir ógnanir og tækifæri á hundavaði og tala sem skemmst. Það var ekki skapaður grundvöllur þar sem öll fyndu fyrir öryggi, að öll viðhorf væru velkomin né að hlustað væri á ólíkar skoðanir. Punktarnir okkar skiluðu sér í litlu magni í lokaafurðina og við könnumst varla við skjalið. Einnig bera að nefna að á opna hluta geðheilbrigðisþingsins voru sumum áleitnum spurningum áhorfenda ekki svarað. Þetta er sýndarsamráð sem ekki er til þess fallið að skapa raunverulegt samstarf heldur einungis haka við að fundur hafi átt sér stað. Rafræn útfærsla þingsins hefði átt að skapa fleiri tækifæri til að stuðla að þátttöku fólks í stað þess að vera notuð sem afsökun fyrir takmörkuðu samtali.

Sjúkdómsvæðing og áherslur alþjóðasamfélagsins

Í geðheilbrigðisþjónustu undanfarinna ára gætir mikillar stofnana- og sjúkdómsvæðingar. Hugmyndir geðheilbrigðiskerfisins um „geðsjúkdóma“ skilgreinir vanlíðan sem einstaklingsbundið vandamál sem skuli greina, meðhöndla og læra að lifa með í stað þess að um sé að ræða tímabundna þjáningu sem hægt sé að vinna bug á og ná bata. Af okkar reynslu að dæma eiga andlegar áskoranir fjölda orsaka, þar á meðal ofbeldi, áföll, skort á viðunandi félagslegum tengslum, jaðarsetningu, mismunun og fordómar. Sjúkdómsgreining getur tímabundið veitt sáluhjálp þar sem einstaklingurinn fær viðurkenningu á að vandinn sé raunverulegur, en útskýrir hinsvegar engan veginn af hverju hún stafar, hvernig hægt sé að ná bata eða hvernig framtíðin lítur út. Í stað þessa er gjarnan gripið snemma til lyfjagjafar sem byggir á því hvaða einkenni birtast en taka ekki á rót vandans og okkur er úthlutað vanvirkt hlutverk „sjúklings“, „þjónustuþega“ eða svokallaðs „notanda“. Íslendingar hafa rekið geðheilbrigðisþjónustu á forsendum læknisfræðilegs líkans um áratugabil. Við höfum átt heimsmetið í ávísun þunglyndislyfja meðal OECD ríkja til fjölda ára, ávísum langtum meira af geðlyfjum almennt en flest önnur lönd og sjáum engu að síður að vandinn hefur ekki minnkað. Þessi leið hefur ekki borið árangur sem skyldi. Við teljum tíma til kominn til að skipta um hugmyndafræði innan geðheilbrigðiskerfisins.

Alþjóðasamfélagið talar fyrir breyttri nálgun. Alþjóðlega heilbrigðismálastofnunin (World Health Organization: WHO) gaf nýlega út 300 blaðsíðna skjal um hvernig geðheilbrigðisþjónusta ætti að vera og nefndi dæmi um góð úrræði víðsvegar um heiminn. Við nefndum dæmi um slíkar nálganir í vinnustofunum sem við sátum, t.d. að koma á fót skjólshúsi, stofna lyfjalausa geðdeild og aðstoða fólk við niðurtröppun, innleiða aðferðir open dialogue og taka afdráttarlausa afstöðu gegn þvingunum. Enginn þessara punkta rataði í framtíðarsýnina sem nú er rædd hér í samráðsgáttinni. Skjal WHO, “Guidance on Community Mental Health Services: Promoting Person-Centred and Rights-Based Approaches.” fetar í fótspor Sameinuðu þjóðanna og byggir meðal annars á vinnu sérstaks skýrsluhöfundar SÞ 2014-2020, Dainius Pūras. Þar var kallað eftir “byltingu í geðheilbrigðisþjónustu” og ítrekað að núverandi starfshættir þyrftu að breytast hið snarasta. Í skjali WHO segir að gera þurfi gagngerar breytingar á geðheilbrigðisþjónustu og stöðva þá þróun sem hefur átt sér stað í áratugi. Það stuðningskerfi hafi einfaldlega brugðist. Hugsa þurfi þjónustuna upp á nýtt, innleiða mannréttindi í alla þjónustu og gera að lögum, stuðla þurfi að þvingunarlausum úrræðum sem valmöguleika og taka mið af forsendum og vilja manneskjunnar sjálfrar sem leitar sér hjálpar. Styðja þurfi við úrræði sem hafi persónumiðaða heildræna batanálgun, leggja skuli áherslu á samfélagslegan stuðning og draga úr stofnanavæðingu. Takið eftir að hvergi er talað um snemmbæra íhlutun, skimun eða greiningar sem hluti af þessum leiðum, þó umrædd Framtíðarsýn byggi á slíku.

„Virkur notandi“

Víða í Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030 er fjallað um virka notendur og notandann í forgrunni. Orðalagið endurspeglar það að virkir notendur samkvæmt skjalinu eigi einfaldlega að læra að hlýða kerfinu og fara eftir fyrirmælum fagfólks. Þetta er þvert á við það sem við teljum að vanti, stuðli að bata fólks eða felist í skilgreiningunni virkir notendur. Við ættum að ganga út frá þeirri forsendu að fólk sé sérfræðingar í eigin lífi og þurfi ekki að læra heilsulæsi heldur sé stutt til að vinna úr því sem það hefur upplifað og gengið í gegnum á lífsleiðinni, fylgja eigin sannfæringu og vinna að draumum sínum. Í skjalinu er ennfremur talað um að ein helsta ógnin fyrir raunverulegri virkni fólks með persónulega reynslu af andlegum áskorunum sé sú „að notendur hafi ekki sömu sýn og heilbrigðisstarfsmenn á geðheilbrigðismál og að misræmi er í tali og nálgun fagaðila.“ Okkur þykir afar sérkennilegt að þetta sé álitið ógn. Það er ein af forsendum í bataferli okkar að gleypa ekki hrátt við fullyrðingum heldur kynna okkur málin, viða að okkur upplýsingum og taka ákvarðanir byggt á eigin innsæi. Raunverulega ógnin er að heilbrigðisstarfsfólk sjái ekki og forgangsraði ekki atriðum í samræmi við það sem skiptir einstaklingana sjálfa máli. Þarfir fagfólks eru hér í fyrirrúmi og allur textinn er skrifaður út frá sjónarhóli fagfólks en ekki virkra notenda. Við myndum vilja sjá skilgreiningu á því hvað er talið virkur notandi og hvað það þýði að hafa notandann í forgrunni. Skýrslan hljómar líkt og fólk sem leitar sér hjálpar í geðheilbrigðiskerfinu sé sauðfé sem beri að stýra í réttir. Það virðist kveða þann tón að kerfið eigi að stýra hvenær virkni notenda sé viðeigandi og að hún snúist um að einstaklingurinn verði færari að taka ábyrgð á eigin heilsu. Við viljum sjá framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum þar sem stigið er fastar til jarðar varðandi virkni og þátttöku fólks með persónulega reynslu af andlegum áskorunum. Það ætti að vera á forsendum okkar, en ekki kerfisins.

1. Forysta til árangurs

• „Einnig þarf að sjá til þess að þörfin á nýrri tækni og lyfjum sé metin.“

Við sjáum ekki þörf á að meta þessa þörf. Íslendingum er ávísað gríðarlegt magn lyfja. Við viljum sjá stefnu um að minnka geðlyfjaávísun Íslendinga um helming. Þá værum við aðeins nær Norðurlandaþjóðunum sem okkur er tamt að bera okkur saman við, en þó með meiri ávísun! Það þarf að fjármagna og hafa kjark til að vinna öðrum óhefðbundnum leiðum brautargengi. Það væri forysta til árangurs.

• „Stjórnendur og heilbrigðisstarfsfólk þurfa oft að taka erfiðar ákvarðanir sem varða líf og heilsu fólks”

Af hverju gefum við okkur að þetta sé æskilegt og eðlilegt? Þessir starfshættir einkennast af forræðishyggju og úreltum hugmyndum um eðli vandans. Hér viljum við sjá afdráttalausa afstöðu gegn þvingunum, sjúkdómsvæðingu og upplýsingu um áhættuna sem getur falist í geðlyfjunum.

• Í þessum kafla öllum kemur notandinn hvergi við sögu, líkt og fagfólk og stjórnendur séu þau einu sem taka ákvarðanir um líf fólks. Það virðist ekki hafa verið ástæða að minnast einu sinni á fólkið sjálft!

• „Mikilvægt er að tryggja geðvernd inn í alla skóla“

Á hvaða forsendum verður geðvernd? Mun hún lúta að einskonar geðsjúkdómafrðslu eða miðla batahugmyndafræði og heilbrigðri umræðu um mannlegar tilfinningar líkt og geðfræðsla Hugarafls sem dæmi?

• “...lögbinda forvarnir og snemmbæra íhlutun”

Við myndum vilja sjá skilgreiningu á forvörnum í þessu plaggi. Við viljum ekki sjá snemmbæra íhlutun ef hún felst í því að setja geðsjúkdómastimpla á fólk og stuðla að enn frekari og óþarfri lyfjatöku. Við erum hinsvegar ánægð ef fólki er mætt þar sem það er statt, umhverfið aðlagað í samræmi við aðstæður, unnið með rót vandans og byggt á valdeflingu en ekki sjúkdómsvæðingu.

2. Rétt þjónusta á réttum stað

Við höfum áhyggjur af rödd og réttindum notenda innan LSH og geðheilsuteyma heilsugæslunnar. Það er búið að byggja upp tveggja stoða kerfi sem stýrir fólki fram og til baka en lítið heyrst um raunverulegar óskir þeirra sem þurfa á stuðningi að halda. Einstaklingarnir sjálfir eru þau sem hafa eitthvað um rétta þjónustu á réttum stað að segja.

• „Þjónustustýringu og flæði notenda milli þjónustustiga og hvernig stýra megi þjónustu til að tryggja öryggi, hagkvæmni og jafnræði“

Þetta orðalag endurspeglar ekki að verið sé að vinna með fólki heldur hugsunarlausum verum eða jafnvel sauðfé.

• Í ritinu er talað um heilsuvernd og forvarnir, en því tengt hvergi um starfsemi og framlag frjálsra félagasamtaka. Þau leika lykilhlutverk og veita þjónustu til þeirra sem falla á milli kerfa í ýmsum þjónustustigum.

• „Þörf er á meiri forvinnu í fyrsta stigs þjónustu þannig að notendum sé vísað í rétt úrræði. Flæðið í kerfinu höktir og biðlistar eru allt of langir.”

Hér er þörf á upplýsingagjöf og að allir valmöguleikar liggi skýrt fyrir einstaklingnum sem leitar sér hjálpar. Viðkomandi á svo að hafa frelsi og sjálfræði til að velja sér hvað þau telja sé hjálplegt sem næsta skref og fá stuðning við að sækja um það. Biðlistar eru allt of langir og eru afsprengi rangrar hugmyndafræði sem byggir á læknisfræðilega líkaninu. Biðlistarnir eru gjarnan notaðir til að sýna fram á að það sé mikið að gera og vanti fjármagn. Við þurfum ekki greiningar og bið eftir greiningu.

• „Öflugur stuðningur við menntun fagstétta til að mæta skorti á fagfólki. Samstarf háskóla, Landspítala og heilsugæslu.“

Hér mætti innleiða launaðan jafningjastuðning. Vandinn snýst ekki endilega um skort á fagfólki heldur skort á einstaklingum sem eru til staðar, hlusta, sýna samkennd og mæta fólki á jafningjagrunni. Við teljum að innleiðing launaðs jafningjastuðnings á jafningjagrundvelli hefði átt að rata inn í forgangsraðaðar aðgerðir.

• „Skoða fýsileika þess að leggja niður kröfu um geðsjúkdómagreiningu til að fá aðstoð í kerfinu.“

Við fögnum ofangreindum punkti og hefðum viljað sjá hann rata í inn í forgangsraðaðar aðgerðir.

• „Styðja við menntun geðhjúkrunarfræðinga til að mæta skorti á þessum faghópi.“

„Styðja við menntun fagstétta í geðheilbrigðisþjónustu.“

Þessir tveir punktar eru þeir hinu sömu og eru lýsandi fyrir skjalið sem virðist miða að hagi fagfólks umfram einstaklinganna sem leita í þjónustuna.

3. Fólkið í forgrunni

• „Hópurinn taldi helstu ógnanir úr umhverfinu vera að það ríkir vantraust á geðheilbrigðiskerfið, stefnan er óskýr og ýmis tækifæri vannýtt.“

Þessi fullyrðing er sett fram án þess að tillögurnar taki á ástæðum þess að vantraustið sé til staðar. Það hafa aldrei fleiri leitað sér hjálpar, umræðan opnari og fleiri fá lyf og hefðbundna þjónustu. Þetta hefur ekki skilað sér í að fleiri ná bata, heldur einungis fleira fólki á örorkubótum og langvarandi vanlíðan. Á sama tíma hefur OPCAT eftirlit staðfest illa meðferð á fólki í geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Við viljum að þvinganir og nauðung heyri sögunni til í svokallaðri meðferð.

• „Efla geðheilsuteymin, fjölga fagfólki í samræmi við þjónustuþörf.“

Efling geðheilsuteymanna snýst ekki um fleira starfsfólk með fagtitil heldur aðra hugmyndafræði og jafningjastuðning.

• Áherslur ættu ekki að vera á stóru og miklu bákni þar sem öll þjónusta væri í einu og sama húsnæðinu undir formerkjum geðdeildar. Það ætti að búta þjónustuna niður í minni einingar líkt og lagt var til í skýrslu SÞ.

• „Það er erfitt að komast inn í þjónustu VIRK, þjónustan þarf að vera fyrir breiðari hóp en er í dag.“

Þjónustan í VIRK er auglýst og kynnt sem svo að hún henti öllum en svo er fjarri lagi. Við þekkjum einnig fjöldamörg dæmi um að fólki sé vísað úr þjónustu, útskrifað eða komist aldrei inn þar sem þau passa ekki í fyrirfram þröng skilyrði útbúin af kerfinu. Hver getur tekið sér það bessaleyfi að segja að endurhæfing beri ekki árangur eða að manneskja muni ekki ná bata?

• „Efla heilsugæsluna með því að ráða fleiri fagstéttir og mynda öfluga teymisvinnu“. Hér þyrfti að tala um að ráða launaða jafningja til jafns við fagfólk, þ.e. í sama fjölda stöðugilda.

4. Virkir notendur

• „Notandinn er í öndvegi og hann á þess kost að velja þjónustu og meðferð.“

Við þurfum að geta valið án þess að vera refsað. Okkur ber að fá upplýsingar um alla valmöguleika, kosti og galla, ekki bara 1-2 eða það sem hentar kerfinu best.

• „Samfélagslegt viðhorf – svörin liggja ekki bara í einni nálgun“

Hér þarf að skilgreina frekar hvað við er átt. Af hverju er heilsugæslan alltaf fyrsti viðkomustaður? Það eru margir valmöguleikar til forvarna í grasrótinni, af hverju þarf það að fara inn í læknisfræðilega miðaða geðheilbrigðisþjónustu?

• „Í geðheilsuteymunum eru gerðar einstaklingsáætlanir og málastjórar halda utan um þjónustu við einstakling og tryggja samþætta þjónustu þegar við á, svo sem samþætta heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og þjónustu virkniúrræða. Málastjórar geta verið talsmenn notenda og fylgt fólki í gegnum þjónustukerfin og stutt við meðferðarheldni og bata.“

Við erum á móti hugmyndinni um málastjóra. Virkir notendur ættu að vera eigin málastjórar. Manneskjan sjálf á að hafa aðgang að öllum sínum upplýsingum og gögnum, upplýsingar um valmöguleika og taka ákvarðanir um eigið líf. Stuðningskerfið ætti að vera til þess falið að styðja notandann í þeirri leið sem hann velur, en ekki endilega leið fagfólksins. Þetta fyrirkomulag gefur okkur heldur ekki færi á að læra að standa á eigin fótum og finna að við ráðum við aðstæður og getum lifað og haldið utan um eigið líf. Þessi tillaga býr til fólk sem mun að eilífu þurfa á hjálp að halda. Við vitum að fagfólkið er allt af vilja gert og langar að aðstoða okkur en þetta er ekki hjálplegt til lengdar út lífið. Okkur líst afar illa á að forgangsraða aðgerðum sem miða enn frekar að fjölgun málastjóra.

• „Snemmtæk íhlutun“

Við erum smeyk við þessa útfærslu, sjá sömu gagnrýni við punkt 1 um forystu til árangurs.

• „VIRK er orðið kerfi í kerfinu. Erfitt að komast þar inn og þeir sem þyrftu helst á þjónustunni að halda komast ekki að. Nauðsynlegt er að skoða þetta hlutverk og það hvernig VIRK ákveður hverjum þeir þjóna og hverjum ekki.“

Við erum mjög sammála gagnrýni á VIRK.

• „Heilsa byggir ekki einvörðungu á læknisfræðilegri sýn. Val á milli mismunandi hugmyndafræði varðandi bata.“

Hvernig er fyrirséð að einstaklingar eigi raunverulega þetta val? Verður þá kynning á mismunandi sjónarhornum um geðheilsu?

5. Skilvirk þjónustukaup

• „Jafnframt felst tækifæri í því að nýta reynslu notenda með því að hafa þá að störfum innan heilbrigðisþjónustunnar“

Notendur eru aðgerðalausir í hvívetna, meira að segja í setningum skýrslunnar! Það er gegnumgangandi í skýrslunni að þeir eru beðnir um að vinsamlegast hlýða kerfinu, annars eru þeir ekki með.

6. Gæði í fyrirrúmi

• „Gæði og öryggi haldast í hendur því gæðaþjónusta er veitt þegar hennar er þörf, á öruggan, skilvirkan og árangursríkan hátt þannig að notandi á ekki á hættu að hljóta skaða af meðferð eða annarri þjónustu sem ætlað er að bæta heilsu hans eða lífsgæði.“

Hér teljum við brýna þörf um aðgerðarpunkta um upplýst samþykki varðandi ávísun og notkun geðlyfja, sem og upplýst samþykki um áhrif greininga.

• „Meðal ógnana sem fram komu í greiningu hópsins var að gæta þarf að því að vísa fólki ekki á marga staði og á milli kerfa“

Hér virðist notandinn ekki ráða neinu heldur er háður tilvísunum og virðist ekki hafa neitt val og enn síður upplýsingar um leiðir.

• „Réttindi notenda, samráð og samvinna við notendur.

Þetta virðist alltaf vera á forsendum kerfis og fagfólks.

7. Hugsað til framtíðar

• Þessum kafla yfirsést algjörlega sú gróska og nýsköpun sem fyrirfinnst innan starfsemi félagasamtaka sem fellur sannarlega til geðheilbrigðisþjónustu í víðum skilningi. Þar er einnig stundað rannsóknarstarf, fjöldi nemenda frá ýmsum fræðasviðum hefur kannað starfsemina og leitað í notendahópa. Við komum að menntun heilbrigðisstarfsfólks, tökum nema og höldum fyrirlestra. Við viðhöldum og ræktum einnig alþjóðlegu tengslaneti til að halda upplýsingaflæði og hugmyndafræði til landsins og út.

• „En vel menntað heilbrigðisstarfsfólk er hornsteinn árangursríkrar heilbrigðisþjónustu.“

Hér er staðhæfing án raka. Við teljum frekar að hornsteinn árangursríkrar heilbrigðisþjónustu væru vel upplýstir einstaklingar sem hafa aðgang að öllum upplýsingum, full mannréttindi og fullvissu um að vera ekki þvinguð, aðgang að jafningjastuðningi og ólíkum bataleiðum sem skaða ekki fólk.

• „Geðheilsuteymi heilsugæslunnar geta verið ákveðin fyrirmynd að þjónustu þar sem sjónarmið notenda hafa aukið vægi.

Við erum ekki sammála þessari fullyrðingu og teljum nær lagi að horfa til félagasamtaka sem rekin eru af fólki með persónulegu reynslu.

Að endingu

Skjalið Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030 skortir innsýn og framlag fólks með persónulega reynslu af andlegum áskorunum. Skrifin miðla sjónarhorni kerfis og óbreyttum starfsháttum að mörgu leyti. Reiknað er með að einstaklingarnir sem leiti sér hjálpar séu hjálparvana, vanvirkir og aðgerðalausir þiggjendur þjónustu. Orðalagið er loðið sem gerir það að verkum að hægt er að útfæra með nánast hvaða hætti sem er og segjast starfa í samræmi við skjalið. Við erum vonsvikin yfir þeim starfsháttum sem notast var við vinnslu þessa skjals og vonum að það gefi ekki tóninn yfir hvernig framkvæmdin verði.

Horfum til stefnumótandi skjala WHO og SÞ. Það er ljóst að það þarf gagngerar breytingar í kerfinu, byggja á annarri hugmyndafræði og bjóða upp á fleiri valmöguleika. Við erum tilbúin í breytingar þar sem fólkið sjálft – notendurnir – eru raunverulega í forgrunni.

Fyrir hönd Hugarafls;

Málfríður Hrund Einarsdóttir formaður

Ofangreind umsögn Hugarafls var samþykkt á Hugaraflsfundi 4.ágúst 2021 og af stjórn Hugarafls.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Kjartan Hreinn Njálsson - 17.08.2021

Sjá umsögn embættis landlæknis í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Guðbjörg Sveinsdóttir - 17.08.2021

Arndís Vilhjálmsdóttir, Guðbjörg Sveinsdóttir og Sigríður Bjarnadóttir geðhjúkrunarfræðingar:

Umsögn um drög að Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030.

1. Forysta til árangurs

Mikilvægt er að efla geðhjúkrun. Það snýst ekki bara um menntun geðhjúkrunarfræðinga heldur þarf að bæta starfsumhverfi þeirra og tækifæri í starfi og gera starfið aðlaðandi svo hjúkrunarfræðingar sækist í þessi störf. Geðhjúkrunarfræðingum hefur farið verulega fækkandi á á síðastliðnum árum. Meta þarf að verðleikum störf geðhjúkrunarfræðinga og framlag þeirra á öllum stigum þjónustunnar. Nauðsynlegt er að geðhjúkrunarfræðingar hafi tækifæri og rými til stöðugrar framþróunar og endurmenntunar. Það skilar sér ekki bara í starfsánægju heldur líka til skjólstæðinga og fjölskyldna þeirra.

Mikilvægt er að rými sé fyrir heildræna nálgun í meðferð þeirra sem glíma við geðrænan vanda. Hver skjólstæðingur og fjölskylda hans eru einstök og mikilvægt að heildrænni og fjölfaglegri meðferð sé beitt. Skoða þarf því fleiri gagnreyndar nálganir en verið er að nota í dag. Taka þarf tillit til áfalla, uppvaxtarsögu og aðstæðna einstaklinga og hvernig það hefur áhrif á líðan þeirra og bjargráð.

Í heildrænni og þverfaglegri nálgun skiptir geðhjúkrunarmeðferð, sem geðhjúkrunarfræðingar eru menntaðir til, miklu máli, eins og sérmenntun annarra fagstétta sem að meðferðinni koma.

2. Rétt þjónusta á réttum stað?

Þriðju línu geðheilbrigðisþjónusta er mjög sérhæfð þjónusta og þarf að efla og styrkja hana mun meira en nú er gert. Bæta þarf starfsaðstöðu starfsfólks

Við vörum við notkun hugtaksins „straumlínulögun“ í geðheilbrigðismálum, enda er það fyrst og fremst tæknilegt fyrirbæri sem á draga úr mótstöðu og auka hraða. Vissulega er nauðsynlegt að hafa ferla sem virka og góða samvinnu og flæði á milli þjónustukerfa og stiga, en velta má fyrir sér hvort straumlínulögun geðmeðferðar sé í raun skjólstæðingnum í hag? Er skjólstæðingurinn og fjölskylda hans í öndvegi í straumlínulaga umhverfi?

Efla þarf fjölfaglega nálgun í fyrstu línu þjónustu og skólum, sem þýðir það að fleiri fagstéttir komi að. Styrkja þarf skólahjúkrun á öllum skólastigum sem sannað hefur gildi sitt í gegnum árin.

3. Fólkið í forgrunni

Mikilvægt er að koma í veg fyrir mismunun í þjónustu við börn og ungmenni. Nauðsynlegt er að binda endi á biðlista enda er hver dagur í lífi barns verðmætur og bið á slíkum listum getur haft verulega skaðleg áhrif á börnin til framtíðar.

Hér má leita fyrirmynda í öðrum löndum, svo sem í Noregi. Þar geta fjölskyldur og starfsfólk skóla eða leikskóla sótt um að fá ráðgjöf og mat frá svokallaðri PP þjónustu (pedagogisk psykologisk tjeneste, fræðslu- og sálfræðiþjónusta) á vegum menntasviðs sveitarfélaganna án þess að fyrir liggi nein greining, aðeins þörf á stuðningi. Dugi það inngrip ekki er málinu vísað til barnageðþjónustu (BUP, samsvarar BUGL) í tengslum við geðsvið sjúkrahúsa á hverju svæði til greiningar og frekari meðferðar. Biðtími þangað er hámark 13 vikur og er fjölskyldunni sinnt þar af þverfaglegu teymi, m.a. með barnataugalæknum, geðhjúkrunarfræðingum, talmeinafræðingum, sálfræðingum og sérkennurum og fl. Í boði er m.a. greining, mat, áfallameðferð, viðtalsmeðferð, fræðsla og stuðningur við foreldra. Starfsfólk teymisins fer síðan inn í skóla og leikskóla til að styðja við fagfólk þar í samvinnu við foreldra. Þessi þjónusta er ókeypis, svo og einnig lyf ef þurfa þykir. Þannig skiptir fjárhagur eða staða ekki máli og fjölskyldunni er fylgt eftir til 18 ára aldurs sé þess þörf.

Geðþjónustu við aldraðra þarf að efla, m. a. með því að auka þátt geðhjúkrunar í heimahjúkrun og á heilsugæslustöðvum. Hefur það gefið góða raun víða erlendis, bæði með sérstökum geðhjúkrunarteymum og með geðhjúkrunarfræðingum sem starfa með heimahjúkrunarteymum í samvinnu við aðra þjónustuaðila. Flestir aldraðir búa við góða geðheilsu, en missir heilsu og fjölskyldumeðlima, félagsleg einangrun og/eða fyrri reynsla af geðvanda eða öðrum vandamálum getur komið niður á lífsgæðum og heilsufari. Einnig hafa rannsóknir sýnt að starfsfólk heimaþjónustu, þar sem þessi þjónusta er til staðar, upplifir aukið öryggi og færni við umönnun skjólstæðinga sinna. Hér hefur heimahjúkrun HH í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ haft geðhjúkrunarfræðing starfandi í tæpt ár til reynslu þannig að hægt er að byggja á þeirri reynslu áfram.

Engin sérhæfð heilsugæsla er fyrir einstaklinga með flókinn vímuefnavanda, tvígreiningar og þá sem glíma við heimilisleysi. Virkur vímuefnavandi veldur því of oft að viðkomandi er vísað frá þjónustunni. Þeir sem glíma við þennan vanda fá því oft á tíðum ekki þá þjónustu sem þeir þurfa. Vandi þeirra eykst því og eykst og því miður virðist lendingin í þeirra málum að leita á bráðamóttökur þar sem þeir fá ekki heldur þjónustu við hæfi. Þjónustan við þennan hóp þarf að byggja á gagnreyndum meðferðarnálgunum eins og skaðaminnkun, þar sem skjólstæðingur fær þjónustu alfarið á sínum forsendum og án fordóma.

Efla þarf og bæta samvinnu á milli þjónustukerfa og stiga. Mikilvægt er að skjólstæðingi sé fylgt eftir og hann sé ekki skilin eftir þegar einu þjónustustigi/kerfi lýkur og annað tekur við. Skilafundir og samvinna fagaðila skipta þar lykilmáli.

4. Virkir notendur

Virk batahugmyndafræði þarf að vera í forgrunni. Valdefla þarf notendur og fjölskyldur þeirra og að tryggja að þeir séu með á öllum stigum þjónustunnar. Við tökum heilshugar undir áherslu á notandasamráð. Það hafa verið gerðar metnaðarfullar áætlanir um slíkt en þær þurfa að komast í framkvæmd.

5. Skilvirk þjónustukaup

Tryggja þarf gæðaeftirlit á þeirri þjónustu sem er veitt, gæðauppgjör og gæðavísa. Gera þarf mat á þjónustu sem greitt er fyrir og þjónustuþörf þeirra sem nýta hana. Einnig þarf alltaf að meta hvort væri hægt og þá betra að veita þjónustuna annarsstaðar. Geðheilbrigðisþjónustan snýst ekki bara um rétta þjónustu á réttum stað, heldur líka í réttan tíma.

Afrita slóð á umsögn

#11 Liv Anna Gunnell - 17.08.2021

Í viðhengi fylgir umsögn f.h. sálfræðiþjónustu í heilsugæslu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Pétur Maack Þorsteinsson - 17.08.2021

Fram er komin skýrsla um framtíðarsýn geðheilbrigðismála til 2030. Þessari framtíðarsýn er ætlað að taka við af eldri stefnumótun um uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu 2016-2020 sem sett var fram í þingsályktun Nr. 28/145 – Þingsályktun um stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til til fjögurra ára. Þar var í fyrsta sinn á Íslandi sett fram skýr stefna í geðheilbrigðismálum og aðgerðaætlun um hvernig þeirri stefnu yrði fylgt eftir. Mikið hefur áunnist í geðheilbrigðismálum á undanförnum árum og þingsályktun nr. 28/145 hefur legið til grundvallar þeim framförum. Markmið áætlunarinnar hafa verið vel skilgreind og tímasett. Þannig hefur hún nýst jöfnum höndum sem stefnumótunarplagg og verkefnaáætlun um uppbyggingu faglegrar geðheilbrigðis- og félagsþjónustu. Þrátt fyrir góðan árangur á ýmsum sviðum verður þó ekki litið fram hjá að ýmis þeirra metnaðarfullu markmiða sem þar voru sett fram hafa ekki náðst. Það er slæmur galli á nýrri framtíðarsýn um geðheilbrigðismál til enda þessa áratugar að í henni kemur ekkert fram um eldri stefnu og framtíðarsýn og þannig er ekki hægt að sjá hver af eldri markmiðum hafa náðst og hver ekki.

Hér á eftir fer umsögn mín eða athugasemdir við Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030. Fyrst koma almennar athugasemdir og síðan koma athugasemdir við hverja þeirra sjö grunnstoða sem eru skilgreindar í skýrslunni.

Almennt:

Eins og áður segir er það galli á skýrslunni að hún kallast ekki á við eldri markmiðasetningu. Þannig er engin leið að átta sig á því hvaða markmið hafa verið sett fram áður, hver þeirra hafa náðst og hver ekki. Annar galli sem gengur í gegnum allt skjalið er að ekkert tillit virðist vera tekið til þess hvar ábyrgð verkefna liggur í dag. Þ.e. hvað verkefni liggja á ábyrgðarsviði stofnana ríkisins og hver hjá sveitarfélögum. Þannig er fjallað um ýmis brýn mál á þann hátt að þau verði helst leyst með því að bæta í þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Það er alls ekki augljóst að aukin heilbrigðisþjónusta sé ævinlega rétta lausnin. Það á til dæmis og e.t.v. sér í lagi við um ýmis verkefni sem falla undir þjónustu við fatlaða en sá málaflokkur er á hendi sveitarfélaga. Það er alls ekki sjálfgefið að þjónusta við fatlaða batni með því einu að fjölga úrræðum innan heilbrigðiskerfisins og stuðla þannig enn frekar að sjúkdómsvæðingu þessa hóps. Hér skortir mikið á að fjallað sé um ábyrgð sveitarfélaga og eflingu þeirra.

Forysta til árangurs:

Nær allir stjórnendur í geðheilbrigðiskerfinu sinna sínu stjórnunarhlutverki í hlutastarfi á móti miklu klínísku álagi. Þær stöður sem helgaðar eru stjórnun eru svo að mestu leiti setnar geðlæknum og hjúkrunarfræðingum. Þessi einsleitni á meðal stjórnenda er ekki til þess fallin að auka fjölbreytni í geðheilbrigðiskerfinu, hvorki þegar kemur að fjölgun fagstétta né framboði góðrar og gagnreyndrar meðferðar. Mikilvægt er að hugað verði sérstaklega að menntun og forystuþjálfun lykilstjórnenda.

Rétt þjónusta á réttum stað:

Það er hægt að skilja textann í þessum kafla á þann hátt að á geðdeildum LSH og SAk sé í dag aðeins veitt þriðju línu þjónusta og að í heilsugæslunni sé aðeins veitt fyrstu línu þjónusta en að þjónustu sem tilheyrir annarri línu sé að mestu leyti sinnt af sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Þetta er rangt, bæði sem lýsing á núverandi aðstæðum og sem framtíðarsýn. Fyrst er þar að nefna að það er langur vegur frá því að geðdeildirnar sinni þriðju línu þjónustu með fullnægjandi hætti. Mikið vantar upp á þjónustu við mjög veika hópa, nægir þar að nefna fólk sem glímir við átraskanir og/eða alvarlega persónuleikaraskanir. Varðandi hlutverk heilsugæslunnar er það að segja að sálfræðiþjónusta heilsugæslunnar sinnir í dag mjög fjölbreyttum hópi notenda með allt frá mjög vægum vanda og yfir í meðferð sem með réttu ætti að veita á sérhæfðum þriðju línu stofnunum. Sum þessara þungu verkefna situr heilsugæslan uppi með vegna þess að þeim er ekki sinnt annars staðar. Öðrum hefur heilsugæslunni verið falið að sinna með ákvörðun ráðherra líkt og þegar ákveðið var að veita meðferð við áfallastreituröskun á heilsugæslustöðvum. Þar er um að ræða sérhæfða og oft á tíðum mjög erfiða meðferð til mikið veiks sjúklingahóps. Að veita meðferð við áfallastreituröskun í heilsugæslunni er erfitt en afar þakklátt verkefni. Það verður þó ekki litið fram hjá því að jafn þung og tímafrek meðferð dregur resúrsa frá annarri meðferð sem heilsugæslunni er einnig ætlað að veita.

Nær ekkert er fjallað um geðheilsuteymi heilsugæslunnar í þessum kafla sem ber titilinn rétt þjónusta á réttum stað. Það er bagalegt. Töluverður munur er á milli heilbrigðisumdæma í því hvernig geðheilsuteymin hafa þróast og hvernig stjórnendur þeirra hafa skilgreint verksvið teymanna. Sums staðar virðast teymin hafa þróast sem litlar ambúlant geðdeildir með sína eigin biðlista. Þetta er bagalegt og ekki í samræmi við hugmyndir um miklu nánara samstarf við heilsugæsluna sem lágu til grundvallar þegar teymin voru stofnuð. Mikilvægt er að þjónusta geðheilsuteyma verði skilgreind miklu betur en nú er og flæði á milli geðheilsuteyma og heilsugæslu betur tryggt en sums staðar er raunin nú. Ef vel tekst til verða geðheilsuteymin mjög mikilvægur hlekkur í þverfaglegri heilbrigðisþjónustu í annarri línu. Þar er nú þegar í boði öflug teymismeðferð sem útilokað er að verði veitt af sérfræðingum sem starfa sjálfstætt sem einyrkjar á einkastofum.

Persónuleg reynsla fólks með geðraskanir er mikilvægt og nauðsynlegt leiðarljós í skipulagi geðheilbrigðisþjónustu. Því ber að fagna því markmiði sem sett er fram á bls. 15 að ráða notendafulltrúa til starfa. Reynsla þeirra er eins og áður segir mikilvæg en hún er annars eðlis en sú þekking og reynsla sem heilbrigðisstarfsfólk kemur með að borðinu og því er ekki rétt að tala um einstaklinga með persónulega reynslu af geðröskunum sem fagstétt líkt og þarna er gert.

Á bls 15 er einnig talað um að mikil tækifæri geti falist í því að efla getu Landspítala til að mennta nauðsynlegar fagstéttir. Hér þarf að staldra við. Geðsvið LSH skal aðeins sinna þjónustu við afmarkaðan hóp í þriðju línu. Þjónusta við þann hóp er að mörgu leiti ósambærileg við þá þjónustu sem veitt er í heilsugæslu. Af þessum sökum er óraunhæft að ætla LSH að vera leiðandi í menntun og þjálfun þess heilbrigðisstarfsfólks sem síðar fer til starfa í heilsugæslunni. Þvert á móti er mikilvægt að þjálfun fagfólks heilsugæslunnar fari fram á vettvangi hennar.

Fólkið í forgrunni:

Eitt af því sem var aðdáunarvert í framkvæmd eldri geðheilbrigðisáætlunar var að markmið um mönnun sálfræðiþjónustu í heilsugæslu voru skilgreind og tímasett. Á grundvelli þeirra markmiða fengu heilsugæslustofnanir svo fjárframlög til að fjölga stöðugildum sálfræðinga. Þarna er þó aðeins hálf sagan sögð því að stofnanasamningar á heilsugæslustofnunum eru svo lélegir að heilsugæslan keppir ekki við sveitarfélög eða einkamarkað um hæft starfsfólk. Sama máli gegnir um geðsvið sjúkrahúsanna LSH og SAk. Kjör sálfræðinga þar eru svo léleg að skömm er að. Fyrir vikið er starfsmannavelta sálfræðinga á spítölum og í heilsugæslu svo há að það hefur mikil áhrif á faglegt starf og samfellu í starfi. Allt tal um fólk í forgrunni og fjölgun stöðugilda er innantómt gjálfur ef kjarasamningar koma í veg fyrir að hægt sé að ráða og halda í hæft starfsfólk. Hér er dæmi tekið af sálfræðingum vegna þess að undirritaður er sjálfur sálfræðingur og hefur því mesta reynslu úr því umhverfi. Sama máli gegnir þó um aðrar fagstéttir, þ.e. heilsugæslan virðist ekki geta keppt við einkamarkað eða sveitarfélög um starfsfólk.

Virkir notendur:

Að virkja notendur betur en nú er er eitt stærsta, flóknasta og mikilvægasta verkefni geðheilbrigðiskerfisins. Það verður ekki gert nema með því að auka allar forvarnir mjög mikið samhliða því að heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstarfsfólk tileinki sér nýja og betri nálgun en nú er. Þar verður að horfa til þess að þjónusta verði notendamiðuð og stórefla valdeflingu allra notenda. Finna verður leiðir til að ná þessum markmiðum án þess að slá af kröfum um faglegt starf og klínísk viðmið.

Skilvirk þjónustukaup:

Helsta verkfæri sjúkratrygginga við skilvirk kaup á þjónustu er að setja skýr skilyrði til veitenda heilbrigðisþjónustu. Þar er mjög mikilvægt að ávallt verði gerð krafa um að aðeins verði keypt gagnreynd meðferðarúrræði sem veitt eru á grundvelli viðurkenndra klínískra leiðbeininga. Hér verður að gera kröfu til embættis landlæknis um að þýðingar og útgáfa klínískra leiðbeininga á íslensku verði stórefld. Í þeim tilfellum þar sem ekki er til að dreifa klínískum leiðbeiningum á íslensku þarf að vera skýrt við hvaða klínísku leiðbeiningar skal miða.

Gæði í fyrirrúmi:

Það segir e.t.v. sitt um viðhorf Íslendinga og íslensks heilbrigðisstarfsfólks til gæðavísa og viðmiða um gæði í klínísku starfi að þessi kafli er styttsti kafli skýrslunnar. Það er líka merkilegt að þrátt fyrir að íslenskir læknar skrifi út meira af geðlyfjum en nokkrir aðrir læknar er ekkert fjallað um leiðir til að sporna við ávísunum á slævandi ávanabindandi lyf í þessum kafla þar sem fjallað er um gæði.

Mikilvægt er að lyfjum sé aðeins ávísað í samræmi við ábendingar fyrir notkun lyfja.

Ávísanir á þolmyndandi lyf (svefnlyf og kvíðastillandi lyf) skulu heyra til undantekninga og læknir sem hefur meðferð með slíkum lyfjum skal vera ábyrgur fyrir því að ljúka meðferðinni í samráði við sjúkling.

Hugsað til framtíðar:

Íslenskt heilbrigðiskerfi er enn að slíta barnskónum. Þetta verður sérstaklega áberandi þegar við horfum til okkar nágrannaþjóða þar sem geðheilbrigðisþjónusta á sér lengri sögu en hér á landi og viðhorf til meðferðar eru önnur og þroskaðri en á Íslandi. Mikilvægasta verkefni stjórnenda og haghafa í íslensku geðheilbrigðiskerfi til næstu 10 ára er því að hlusta á nágranna okkar og læra af þeim um það sem betur má fara hér á landi. Þar er brýnast að auka stórkostlega aðgengi að góðri og gagnreyndri samtalsmeðferð. Það má gera með því annars vegar að fjölga því fagfólki í heilsugæslu sem ræður við slíka meðferð og hins vegar með því að koma á samningi við sálfræðinga um að veita gagnreynda meðferð á einkastofum. Mikilvægt er að slíkum samningi fylgi eftirlit með gæðum þjónustu og mikilvægt er að sambærilegt gæðaeftirlit verði einnig tekið upp með störfum sjálfstætt starfandi geðlækna sem starfa skv. samningi við SÍ.

Samantekt:

Þrátt fyrir að margt megi betur fara hefur náðst ágætur árangur á síðustu árum í að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Enn er þó mikið verk óunnið í þeim efnum. Biðlistar eru víða langir og ákveðnir hópar njóta ekki þjónustu. Í sumum tilfellum verður skortur á þjónustu beinlínis til þess að fólk missir starfsorku og fer á örorku og í öðrum tilfellum er hætta á að skortur á þjónustu dragi fólk beinlínis til dauða. Hér nægir að nefna fólk sem glímir við þungar átraskanir og/eða persónuleikaraskanir. Fólk með einhverfurófsraskanir er annar hópur sem ekki fær þjónustu við hæfi. Fullyrða má að hægt er að bæta lífsgæði þess hóps mikið og auka samfélagsþátttöku með tiltölulega litlum tilkostnaði ef aðeins er tekin ákvörðun um að efla og bæta þjónustu við hópinn. Mikið af þeirri þjónustu er þó á ábyrgð sveitarfélaga sem reka grunnskóla og hafa með höndum ábyrgð á þjónustu við fatlaða. Ég sakna þess mjög að nær ekkert er fjallað um hlutverk sveitarfélaga í þessari skýrslu. Fyrir vikið er ekki hægt að líta á hana sem heildstætt plagg eða framtíðarsýn um stefnumótun í geðheilbrigðismálum til næsta áratugar.

Hér að framan hef ég sett fram nokkrar athugasemdir mínar við framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030. Þó að hægt sé að finna að mörgu skal tekið fram að ýmislegt hefur líka áunnist og enn er unnið vel skv. eldri markmiðasetningu. Ég geri það því að tillögu minni að á grundvelli þessarar framtíðarsýnar verði sett fram aðgerðaætlun sambærileg við þá sem sett var fram í þingsályktun 28/145 um stefnumótun í geðheilbrigðismálum 2016-2020. Slík aðgerðaráætlun ætti í fyrstu að gilda frá 2021-2025. Þá verði hún endurskoðuð og sett fram ný markmiðaáætlun fyrir árin 2026-2030.

Virðingarfyllst,

Pétur Maack Þorsteinsson

Yfirsálfræðingur HSN

Afrita slóð á umsögn

#13 Landssamtökin Þroskahjálp - 18.08.2021

sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Steinunn Jóhanna Bergmann - 18.08.2021

Meðfylgjandi er umsögn Félagsráðgjafafélags Íslands við Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Edda Dröfn Daníelsdóttir - 18.08.2021

Sjá umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga í viðhengi

Viðhengi