Samráð fyrirhugað 02.07.2021—10.09.2021
Til umsagnar 02.07.2021—10.09.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 10.09.2021
Niðurstöður birtar 29.11.2022

Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða

Mál nr. 141/2021 Birt: 02.07.2021 Síðast uppfært: 29.11.2022
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Málefni aldraðra
  • Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta

Niðurstöður birtar

Búið er að vinna þingsályktunartillögu úr stefnudrögunum og hefur hún verið samþykkt á Alþingi.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 02.07.2021–10.09.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 29.11.2022.

Málsefni

Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, unnið fyrir heilbrigðisráðuneytið í júní 2021.

Verulegar breytingar hafa orðið og eru að verða á aldurssamsetningu þjóða. Bætt lífskjör og hækkandi lífaldur samhliða lækkandi fæðingartíðni þýðir að endurmeta þarf áherslur í velferðarþjónustu almennt – og sérstaklega í heilbrigðisþjónustu við eldra fólk. Þróunin setur vaxandi þrýsting á hina formlegu heilbrigðis- og félagsþjónustu við að mæta ört stækkandi hópi eldra fólks og samfara er áherslan á að efla fólk til að sjálfshjálpar, þrátt fyrir einhvern vanda, sjúkleika eða færnitap.

Nýir hópar, ný viðhorf, ný tækni og samfélagsþróun knýja á um að færa þurfi umræðuna úr vörn og yfir í sókn til að þróa og endurbæta heilbrigðisþjónustu við eldra fólk og velferðarkerfi samfélagsins almennt. Slíkt þróun þarf að byggja á trausti og vilja til að þróa það sem er og sækja fram með nýsköpun og endurnýjun.

Óhætt er að segja að umræðan í samfélaginu endurspegli ákall eftir framtíðarsýn um hvert skuli stefna í málefnum eldra fólks og heilbrigðisþjónustu fyrir þann hóp. Ýmislegt bendir til að vandinn liggi að miklu leyti í að við séum föst í hagsmunum vanans frekar en að leita að nýjum og fjölbreyttari lausnum. Til að hefja vinnuna við að móta stefnu til framtíðar, ákvað heilbrigðisráðherra að láta vinna drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða.

Í verkefnalýsingu heilbrigðisráðuneytisins varðandi vinnu við drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, var gert ráð fyrir að líta sérstaklega til eftirfarandi þátta:

• Heildarskipulags í þjónustu við aldraða og samþættingu hennar og þar með þörf fyrir breytingar.

• Þverfaglegs samstarfs innan heilbrigðisþjónustunnar og félagslegrar þjónustu.

• Nýrra áskorana og viðfangsefna til framtíðar litið.

• Breytinga á framkvæmd, skipulagi eða annarra breytinga sem felast í nýsköpun og þróun hérlendis og í nágrannalöndum.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Pálmi V Jónsson - 22.07.2021

Það er mikilvægt að huga að framförum í heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og gert vel í því að setja fram markvissa stefnu í þeim efnum, sem Halldór S. Guðmundsson hefur unnið drög að fyrir hönd

heilbrigðisráðherra. Drögin eru um marga hluti ágæt, ekki síst þar sem fjallað er um viðhorf til eldra fólks og mikilvægi þess að sýna eldra fólki virðingu og skapa enn betri aðstæður fyrir það að lifa með reisn.

Þá er hugmyndin um sérstakt ráðuneyti um málefni eldra fólks, bæði heilbrigðis- og félagslega þáttinn áhugaverð. Ég tel að það megi styrkja drögin að stefnumótun umtalsvert þegar kemur að sjálfri heilbrigðisþjónustunni. Með það í huga legg ég fram hugleiðingar mínar og ábendingar um það sem ég tel að geti horft til framfara og byggi það á menntun minni í öldrunarlækningum, starfi í aldarþriðjung á heilbrigðissviði öldrunarþjónustunnar og þátttöku í viðamiklum þróunarverkefnum á alþjóðlega vísu svo og margvíslegum rannsóknum með alþjóðlega skírskotun.

Ábendingar varðandi „stutta samantekt“:

Viðbótarhugmyndir að málsgreinum í þennan texta sem allar myndu vera til þess fallnar að bæta stefnu í heilbrigðisþjónustu aldraðra, sjá nánari texta sem tengjast ábendingum um megintexta.

• Að heilsugæslan komi sér upp greiningar móttöku fyrir öll helstu viðfangsefni ellinnar með Heildrænu Öldrunarmati og meðferðaráætlunum (HÖM), Sbr. að heilsugæslan á að vera vagga öldrunarþjónustunnar

• Að settir verði upp sannreyndir og hlutlægir þjónustupakkar til að mæta greindum þörfum á HÖM

• Að heimilislæknir sjái alla sem eru í heimahjúkrun á 6-8 vikna fresti annað hvort á stofu eða með vitjun

• Gjörheilsugæsla eldra fólks með miklar þarfir

• Að hver einstaklingur í heimahjúkrun hafi hjúkrunarfræðing sem málsstjóra sem leiði teymisvinnu lækna, hjúkrunarfræðinga og fleiri gagnvart þeim einstaklingi

• Að fundnar verði leiðir til að meta álag nákominna einstaklinga skjólstæðinga heimahjúkrunar og fundnar leiðir til að mæta þörfum þeirra.

• Skammtímainnlagnir með virkni og endurhæfingu sem rekin yrðu sem sjálfstæð úrræði, óháð og ekki blandað við langtímadvöl á hjúkrunarheimili – í stað hvíldarinnlagna

• Koma á laggirnar Lífsskrá á vegum Embættis Landlæknis, með tilheyrandi samfélagslegri umræðu, sjá að ofan.

• Greiður og tímanlegur aðgangur að liðskiptiaðgerðum á mjöðmum og hnjám; skýr skilmerki ábendinga og stigun einkenna

• Að stofnuð verði öldrunarbæklunarlækningadeild á LSH og SAK

• Fjarlækningar fyrir hinar dreifðu byggðir landsins frá LSH og SAK

• Að stofnuð verði öldrunargeðdeild innan geðsviðs LSH

• Innleiða interRAI matstækin á landsvísu innan allra stiga heilbrigðis- og félagsþjónustu, frá samfélagi til sjúkrahúss og hjúkrunarheimila og sett verði upp miðstöð fyrir stuðning við skráningu, gangavinnslu og gæðaþróun byggt á þeirri tækni.

Ábendingar í efnisröð:

síða 8: málsgreinin Einstaklingur…… í stað krankleika, tala um sjúkdóma

síða 8: málsgrein Persónumiðuð þjónusta…….legg til að segja: Þá er átt við persónumiðuð greining, meðferð og umönnun……

Horft er á einstaklinginn sem heild og margbreytileiki einstaklinganna viðurkenndur þegar kemur að sjúkdómum og færni. Skilgreining Kitwood frá 1998 er of þröng og lítur fram hjá heilsufarsþættinum.

síða 8: heils og heilbrigði og Heilbrigð öldrun.

Hugtakið Heilbrigð öldrun: Hér er sneitt fram hjá því heilsufarsþættinum í því að eldast.

síða 9: Heimaþjónusta: Sting upp á að skilgreina nýtt hugtak: Heimaþjónusta heilsugæslunnar sem næði yfir samþætta þjónustu hjúkrunarfræðinga og lækna í heimahúsum, sem væri útvíkkun á hugtakinu heimahjúkrun.

síða 9: Þjónustuíbúðir: eru skilgreindar eins og segir í lögum en spurning er hvort ekki ætti að skilgreina fleiri þætti:

dvalarrými: …… Mikilvægt að benda á með þessu úrræði greiðir fólk af lífeyri en heldur eftir lágri upphæð til eigin nota („vasapeningum“) en einnig að halda því til haga að fólk missir sjúkratryggingarrétt sinn. Daggjöld eru lág og því er tregða til þess að veita eðlilega heilbrigðisþjónustu í þessu úrræði, þar sem daggjöldin bera ekki rannsóknar- og meðferðarkostnað, en þeir sem fara í dvalarrými byrja þar oft af félagslegum ástæðum en hafa þokkalega líkamlega heilsu og færni og fólkið á því að jafnaði eftir að ganga í gegnum veikindi og hrumleika, sem getur verið kostnaðarsamt ferli þegar réttur fólks til heilbrigðisþjónustu er virtur.

hjúkrunarrými…….Vert að skilgreina m.t. t. þess sem á eftir að koma: m.a. aðgengi með Færni- og heilsumati, greiðsluform, sbr. og dvalarrými.

Vert væri að skilgreina hugtakið sambýli: sbr. hjúkrunarsambýli fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma. Einnig mætti hugsa sér að í stað dvalarrýmis, sem a.m.k. á höfuðborgarsvæði er deyjandi þjónustuform, að þar kæmi inn hugtakið Sambýli, sem millistig milli þjónustuíbúðar og hjúkrunarrýmis. Munurinn á sambýli og dvalarrými væri sá að þar leigði fólk íbúð, greiddi sérstaklega fyrir alla þjónustu ( mat, hár-, hand- og fótsnyrtingu o.s.frv. ) og héldi tryggingvarrétti sínum. Með þessu móti væri sjálfræði einstaklinganna virt, ólíkt því sem er í dvalarrými. Hér þyrfti þó að bæta við „staðarhaldara“ sambýlis, sem væri með heilbrigðismenntun og gæti sinnt fólki hvað öryggisþarfir varðar. Að öðru leiti væri þjónusta fengin utan frá. Hér mætti skilgreina nýtt úrræði: Sambýli fyrir fólk með einmanakennd, kvíða og depurð. Og aðgengi að úrræðinu væri skilyrt með hliðsjóna af þessum vanda. Með því að taka upp sambýlisformið mætti leggja niður hugtakið dvalarrými á öllu landinu og í þessu atriði auka á sjálfræði einstaklingsins.

Auk þess væri vert að skilgreina hugtakið Hvíldarinnlögn: um er að ræða tímabundna innlögn einstaklings sem glímir við langvinnan(a) sjúkdóm(a) oft með færnitapi. Orðið lýsir hins vegar fyrst og fremst því að það er verið að „hvíla“ aðstandendur. Auk þess sem nafnið er slæmt, þá kemur útfærslan illa niður á þeim sem búa úti í samfélaginu og koma inn í tímabundna dvöl og oftar en ekki er þeim dreift innan um aðra einstaklinga sem eru í varanlegri dvöl í hjúkrunarrými og falla inn í daglega rútínu deildarinnar, sem hentar ekki fólki og einkennist af óvirkni. Lagt er til að hugtakið verði endurskilgreint sem Skammtímadvöl með líkamlegri og andlegri virkni og úrræðið útbúið á sérstökum einingum þar sem ekki er blandað saman fólki í langtíma umönnun og fólki í skammtímadvöl. Þannig eru allir á viðkomandi einingu í virkni og öll þjónustan miðast við að fólk komi í betra formi út en það fór inn.

síða 10: varðarðandi inngang:

Hér vil ég leggja til umræðupunkta sem ég teldi vert geta í innganginum:

 Landspítalinn sprunginn

Bráðamóttakan er yfirfull og fólk á göngum

Oftar en ekki er bent á að vandinn sér orsakaður af eldra fólki sem leiti sér hjálpar á sjúkrahúsin

Legudeildar þétt setnar af fólki með Færni- og heilsumat

Oftast nefnd talan 70-100

Samt 45 á Vífilsstöðum sem er sérstakt úrræði fyrir fólk með FHM á leið á hjúkrunarheimili

Ekki eru sömu einstaklingar á bakvið tölurnar

Miklar tilfærslur

 Þáttur heilsugæslunnar brotakenndur

Samband eldra fólks og heilsugæslulækna of oft skert

Læknar og hjúkrunarfræðingar heimahjúkrunar ekki í eðlilegu sambandi

Vantar verkferla og teymisvinnu

 Aðaláherslan er á tvo þætti:

Heimahjúkrun í þeirri mynd sem við þekkjum

Styrkja hana með því að fjölga starfsfólki

Ekki talað um verkferla og verklag………

Rekstrarframlag 3.7 milljarðar á ári

Hjúkrunarheimili

Fjöldi 2020: 2858 rými

Rekstur 2021: 43,4 milljarðar

Byggja meira: 1 heimili á ári næstu 10 árin, sbr. mbl. 5. nóv, 2020

Bygging: 1 rými=40 milljónir; 100 rými 4 milljarðar

Rekstur: 1 rými= 14 milljónir; 38 þúsund/dag; 100 rými 1.4 milljarðar/ár

Gjaldþrota stefna: 10 ára útgjöld:

Byggingar 40 milljarðar

Rekstur per ár 14 milljarðar

Erfitt að skilja hvernig greiða megi fyrir slíka útþennslu af skattfé……

Er fólk tilbúið að greiða fyrir hjúkrunarheimilisdvöl með eigum sínum?

 Breytileiki fólks er aldrei meiri en á efri árum

 Núverandi nálgun líkist helst því að aðeins væri val um tvær skóstærðir

 Þessi takmarkaða útfærsla mætir ekki á besta hátt þörfum fjölmargra og getur verið bæði óskilvirk og óhagkvæm.

 Með takmörkuðum valkostum er öllum þrýst í sama farveg

 Viðfangsefnum Landspítalans

er að jafnaði lýst sem útskriftarvanda, þegar vandinn er fremur aðkoma fjölda fólks

Eru tækifæri til að útfæra öldrunarþjónustuna með öðrum hætti sem mætti betur fólki, væri skilvirkur og hagkvæmur?

Eldra fólk er í grundvallar atriðum ólíkt miðaldra fólki, þar sem það er með

 Aldurstengdar breytingar í öllum líffærum sem eru ígildi sjúkdóma

bein þynnast, vöðvar rýrna, æðar stífna…..

 Margir langvinnir sjúkdómar, stigvaxandi með hækkandi aldri

Tvöfaldast í algengi á hverjum 5 árum eftir 65ára aldri

Ef hægt væri að fresta framkomu sjúkdóms um 5 ár við 65 ára aldur (1% í stað 2%) mætti fækka þeim sem hafa sjúkdóminn um helming við 85 ára aldur (16% í stað 32%)

Lífsstíll skiptir máli og getur stuðlað að versnandi sjúkdómsmynd. Forvarnir á þessum sviðum geta aftur dregið úr sjúkdómsálagi.

hreyfingarleysi, þvingaður eftirlaunaaldur,

offita ( sykursýki ), fíkn, reykingar, áfengi

 Fjöllyfjameðferð

Tæplega 10% innlagna á lyflækningadeild 75+ vegna aukaverkana lyfja

 Líkamlegt og vitrænt færnitap algengt

Stóru málin: vitræn skerðing, hreyfiskerðing, depurð, kvíði og einmanakennd

 Sjúkdómsmyndir óvenjulegar

Aldurstengdar breytingar og fjöldi sjúkdóma blandast saman

 Félagslegar breytingar

 Flokka má fólk eftir heilsufari og færni: Nýta má til þess heildrænt rafrænt öldrunarmat að hætti interRAI

þeir sem eru hraustir og í lítilli áhættu á færnitapi og andláti. U.þ.b. 60%

þeir sem eru viðkvæmir og eru í miðlungs áhættu á færnitapi og andláti. U.þ.b. 40%

þeir sem eru hrumir og í mikilli áhættu á færnitapi og andláti. U.þ.b. 10%

 10% einstaklinganna með flóknustu viðfangsefnin standa á bakvið 60% af útgjöldum heilbrigðisþjónustunnar.

 60% einstaklinganna með einföldustu viðfangsefnin standa á bakvið 6% af útgjöldum heilbrigðisþjónustunnar.

Ofangreind staðreynd ýtir undir þá hugmynd að einbeita sér með sérstökum hætti að þeim sem eru hrumir eða viðkvæmir.

Hinn mikli breytileiki fólks hvað varðar heilsufar og færni kallar á fjölmörg úrræði og þau verða að vera tilbúin fyrir rétta fólkið á réttum tíma og stað.

síða 12: kaflinn um Öldrun í alþjóðlegu samhengi.

Hér vantar að lýsa því að grundvallar atriði í útfærslu þjónustu við eldra fólk liggur í því að þarfir einstaklinganna séu greindar með því sem kallað hefur verið Heildrænt öldrunarmat og þeim þörfumer síðan mætt með margvíslegri meðferð og þjónustu.

síða 13:

um viðhorf, væntingar og hegðun; „Áberandi er í umræðunni er tal um veikleika, sjúkleika og kostnað“…. Á sama tíma og vert er að tala um styrkleika og heilbrigði, þá verður ekki undan því vikist að tala um veikindi og færnitap og mikilvægi greiningar á undirliggjandi sjúkdómum og viðfangsefnum. Þetta er jú heilbrigðisáætlun fyrir eldra fólk. Ég bendi á að stór hluti vandans er að það er ekki viðurkennt að eldra fólk er frábrugðið miðaldra fólki og fjölþættar heilbrigðisþarfir greindar með heildrænu mati til að hindra það að fólk veikist og hrörni í kyrrþey og gefi sig fyrst til kynna á bráðamóttöku sjúkrahúss, þegar hægt hefði verið að finna og greina fólk heildrænt og setja inn lausnir fyrr og fyrirbyggja að stóru leiti krísur sem ævinlega gera málin aðeins erfiðari og lengra gengin.

síða 13: mannfjöldaþróun; ekki aðeins fjölgar fólki yfir 65 ára aldri, heldur lifir hver og einn lengur. Ævilíkur vaxa um 1 ár á hverjum fjórum árum. Vísbendingar eru um að fólk lifi samt lengur og betur, en kemur ekki í veg fyrir ákveðið tímabil hrörnunar í lokin ( að jafnaði ). Ákveðið markmið er að reyna að stytta tíma hrörnunar, hrumleika og færnitaps í ævi hvers og eins einstaklings eins og kostur er.

síða 13: Forysta…… Textinn sem hefst með setningunni „Sem dæmi“…… er óskýr og mætti endurrita. Halda má fram að fagaðilar mættu koma betur að skipulagi og stjórnun þjónustunnar auk þess sem virk teymisvinna er mikilvæg, en vanrækt í samfélagsþjónustunni.

síða 13: neðsta málsgreinin….. „saman þarf að fara …… hér legg ég til að bætt verði við „vel skilgreind“ þörf…

síða 14: auk þess að leggja áherslu á menntun ófaglærðs starfsfólks, þá er einnig nauðsynlegt að efla menntun alls fagfólks, lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkra-, iðju-, félags- og næringarfræðinga og fleiri, sérstaklega með tilliti til sérstakra eiginleika og þarfa eldra fólks.

Þetta þarf að koma inn í grunnmenntun allra fagstétta en einnig sem viðhaldsmenntun þeirra sem þegar hafa fengið stafsréttindi á sínu sviði.

síða 14: fjármögnun og rekstrarkostnaður hjúkrunarheimila. Tel ekki þurfa að fjölyrða um rekstrarvanda eða úrlausnir á þeim í þessu stefnumótunarskjali. Hér mætti hins vegar ítreka að kostnaður við “heimahjúkrun“ er innan við 10% af því sem rekstur hjúkrunarheimila kostar.

Stefna ætti að því að aukið fjármagn fari í samþætta heimaþjónustu og önnur stuðningsatriði í samfélaginu í víðum skilningi, til að fólk geti dvalið lengur heima og með draga úr hlutfallslegu vægi hjúkrunarheimilisreksturs.

síða 16: ekki er samræmi í texta mynda og fyrirsagna hvað mynd 6 og 7 varðar.

síða 17: málsgrein tvö….Hjá Reykjavíkurborg……Tel ekki að tekist hafi jafn vel til og sagt er í þessari málsgrein um áherslu á samstarf….og svo framvegis. Munur er á Reykjavík og „kragasvæðinu“ í kringum Reykjavík. Fyrst og fremst er um að ræða samþættingu

á félags- og hjúkrunarþjónustu í Reykjavík, en læknar eru ekki samþættir inn í þann hóp. Þá eru hvorki læknar né félags- samþætt við heimahjúkrun í kraganum. Hér skortir verulega á teymisvinnu. Einnig er lítil bein samvinna milli LSH, heilsugæslu og heimahjúkrunar.

Það eru verulegir vankantar á heildarsamþættingu fagaðila á höfuðborgarsvæðinu.

síða 17: málsgrein þrjú. Raunverulegar þjónustuíbúðir á vegum sveitarfélags eru í Reykjavík, en ekki í „kragasveitarfélgöum“ Reykjavíkur. Vísa fram í texta um það sem kalla mætti sambýli fyrir eldra fólk með sérstakar þarfir. Hörgull á slíku sambýlisúrræði leiðir til þrýstings á það að senda fólk á hjúkrunarheimili sem gæti nýtt sér sambýlisformið, sem er mun mannlegra úrræði og auk þess hagkvæmara fyrir fólk með góða vitræna getu og líkamlega færni en glímir samt við einmanakennd og andlega vanlíðan.

síða 18: málsgrein þrjú. ….. leggja áherslu á ítarlega þarfagreiningu hver og eins einstaklings m.t.t. undirliggjandi heilbrigðisviðfangsefna, teymisvinnu….. o.s.frv.

síða 18: mynd 8: hér mætti einnig leggja áherslu á eitt allsherjar upplýsingakerfi, þar sem upplýsingar ferðast með einstaklingi milli þjónustustiga og þjónustuaðila, hvort heldur er á heilbrigðissviði eða félagssviði.

síða 19: um samhæfingu og sjálfbærni: „Mat á þörf fyrir þjónustu“…… Hér er lykil atriði að byrja á byrjuninni eða grunninum. Grunnur að heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk liggur í Heildrænu öldrunarmati með meðferðaráætlunum (HÖM). Enda er eldra fólk með fjölveikindi sem vaxa með aldri, og oft færnitap, líkamlegt og vitrænt. Hver og einn sjúkdómur þarf að vera vandlega greindur og meðhöndlaður. Lyf þarf að yfirfara og skoða þarf hvaða viðfangsefni greinast við HÖM og hvernig megi bregðast við þeim; hér er átt við viðfangsefni eins og vitærna skerðingu, vannæringu, styrktartap, jafnvægisleysi, heldni vandamál, andlega vanlíðan og fleira. Ein besta leiðin til að ná utan um þessi mál í samfélaginu er að nýta interRAI matstækin. Eftir skoðun KPMG, bentu þeir á að ekkert annað væri betra og hér vantar aðeins að fara í öfluga innleiðingu á tækninni og styðja við framvinduna, eins og getið verður um að neðan. Með þessari tækni má finna sérstaka áhættuhópa, sem þyrftu umfangsmikla heimaþjónustu, sem mætti kalla gjörheilsugæslu. Í gjörheilsugæslu vinna allir saman, hjúkrunarfræðingar, læknar og aðrir fagaðilar og sérstök læknavakt bregst við ef skyndileg breyting verður á högum þess sem þjónustu nýtur, jafnt á nótt sem nýtum degi.

síða 19-20: Heimaþjónusta; Hér þarf að fullkomna samhæfingu og teymisvinnu…. hjúkrunarfræðinga, lækna, félagsráðgjafa og annarra fagaðila gagnvart öllum skjólstæðingum heimahjúkrunar. Einnig er mikilvægt að stiga þjónustuna eftir greindum þörfum með HÖM. Þannig þurfa sumir lítið, aðrir allnokkuð og lítill en mikilvægur hópur mjög mikla og samhæfða heimaþjónustu. Til að betrumbæta heimaþjónustu heilsugæslunnar enn frekar, má mæla með því að hver og einn einstaklingur hafi málsvara; hjúkrunarfræðing sem væri ítarlega inni í öllum þörfum einstaklingsins og hefði heildarmyndina í huga ( í gegnum HÖM ) og talaði máli einstaklingsins gagnvart öðrum fagaðilum, heildstæð hjúkrun ( e: primary care nursing ). Þetta er ólíkt því sem nú er þegar komið er inn til að sinna einstökum þörfum ( t.d. klæða, gefa lyf, skipta á sári ). Fjölskylda (maki/börn/systkini) og vinir skjólstæðinga í heimahjúkrun leggja oft mikið af mörkum í umönnun hans eða hennar og getur verið undir miklu álagi í því hlutverki. Það er því mikilvægt að taka upp reglulegt mat á umönnunarálagi þeirra. Það er stundum svo að aðstandendur keyra sig í þrot og með því að greina í tíma hvert stefnir má koma aðstandendum til hjálpar og með viðeigandi úrræðum koma því þannig að fólk gefist ekki upp og geti annast sinn nánasta lengur en ella.

síða 20: Dagdvalir og dagþjálfun; Meta á fólk einstaklingsbundið fyrir þessa þjónustu. Það er nú þegar gert með tilliti til dagþjálfana fyrir fólk með heilabilun en EKKI gert á sama hátt fyrir almenna dagdvöl eða svo kallaða endurhæfingardagdvöl. Það VERÐUR að meta fólk með HÖM fyrir „endurhæfingu“. Öldrunarendurhæfing er ólík endurhæfingu fyrir fólk á miðjum aldri með því að eldra fólkið er með fjölþættan vanda og ef „sjúkraþjálfun“ er eingöngu beitt, þá er er ekki verið að hámarka þann ávinning sem hafa má af innslaginu.

síða 22: fyrsta málsgrein; „ fjölgun dagdvala/dagþjálfana er fljótvirkasta leiðin“….. Hér þarf nauðsynlega að lyfta því fram að HEILSUGÆSLAN Á AÐ VERA VAGGA ÖLDRUNARÞJÓNUSTUNNAR. Fólk gæti farið í gegnum „sjálfsmat“ reglulega skv. mati sem einstaklingurinn sjálfur framkvæmir og deildir með heimilislækni. Heilsugæslan þarf að vera í stakk búin til þess að annast fullkomna fyrstu greiningu á öllum heilkennum ellinnar og koma þeim í farveg. Allir sjúkdómar þurfa á greiningu að halda og meðferð þarf að vera viðeigandi. Þetta er ítrekað því að færni og líðan og framvinda er keyrð áfram af undirliggjandi sjúkdómum. Þegar sjúkdómar eru fullgreindir og meðhöndlaðir og færni eins góð og kostur er (t.d. með sjúkraþjálfun eða notkun hjálpartækja) þá er dagdvöl/þjálfun mjög gott viðbótarúrræði. Það er EKKI gott að bregðast við óskilgreindum og vanmeðhöndluðum vanda með dagvist eða dagþjálfun án þess að vinna eðlilega grunnvinnu. Stefnumótunin er varðandi heilbrigðisþjónustu á efri árum, og því verður að hamra á mikilvægi HÖM og meðferðar við hæfi.

síða 22: Hjúkrunarrými…..; Sjálfsagt er að hafa metnað til þess að vinna eins og best verður á kosið og taka upp viðmið Eksote um að fjöldi rými væri ekki meira en sem nemur fyrir 10% 80ára+. Og tryggja þá þjónustu sem þarf í samfélaginu og lögð hefur verið áhersla á hér að ofan. Á Íslandi eru ein 8 heilbrigðisumdæmi. Vert væri að kortleggja fjölda eldra fólks eftir aldurshópum í hverju umdæmi fyrir sig. Það ætti að hafa sama viðmið í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Þörf fyrir hjúkrunarrými er háð undirliggjandi sjúkdómsstöðu og færni þess sem þarf á því að halda. Þetta er „lífeðlisfræðileg“ staða og ekki háð búsetu. Þannig ætti búseta ekki að skapa aukna þörf á einu svæði umfram annað. En því er stundum haldið fram, þar sem erfiðara sé að veita öfluga heimahjúkrun í hinum dreifðu byggðum landsins. Það á ekki að vera drifkraftur fyrir dvöl í hjúkrunarrými utan þéttbýlis. Hins vegar getur verið aukin þörf fyrir þjónustuíbúðir í þéttbýliskjörnum landsbyggðar, þannig að fólk úr sveit geti flutt þangað og notið heimaþjónustu í þéttbýliskjarnanaum. Þannig gæti verið aukin þörf fyrir þjónustuíbúðir en ekki hjúkrunarheimili í dreifðum byggðum.

síða 23: síðasta setningin…..“ Það er því……“ stórátak í uppbyggingu heimahjúkrunar, dagþjálfunar…….. Hér þarf stórátak í því að gera heilsugæsluna að vöggu öldrunarþjónustunnar með greiningarvinnu að hætti HÖM, síðan að styrkja þverfaglega heimaþjónustu heilsugæslu og félagsþjónustu ( þannig samþætta hjúkrunarfræðinga, lækna, félagsráðgjafa og fleiri ) í þeirri þjónustu og útfæra gjörheilsugæslu fyrir veikasta og hrumasta hópinn sem nýtur heimaþjónustu heilsugæslunnar.

síða 24… varðandi meðaldvalartíma í hjúkrunarrými: hér væri gott að sýna meðaldvalartíma eftir heilbrigðisumdæmum. Sbr. að líklegt er að hann sé lengri utan höfuðborgarsvæðis sbr. umræðuna að ofan um dreifbýli vs. þéttbýli.

síða 25; varðandi mynd 12, sem er úr skýrslu KPMG; Hér tel ég mikilvægt að ítreka að Dvalarrými eru í raun aflögð á höfuðborgarsvæði, þó að formlega yfirlýsing hafi ekki verið gefin um það, þá er engin stofnun á höfuðborgarsvæði sem tekur við fólki í Dvalarrými. Hér mætti leggja til að leggja dvalarrými niður á landsvísu, sbr. umræðu að ofan. Þetta er gamaldags stofnanaform, þar sem fólk fær aðeins brot af lífeyri í vasann til persónulegra nota. Þannig missir það sjálfræði sitt. Einnig missir það tryggingarrétt sinn hjá TR m.t.t. allrar heilbrigðisþjónustu, þar með talið rannsókna, en „daggjöld“ fyrir dvalarrými rísa ekki undir rannsóknum. Þetta fólk sem þar gæti verið er þó á þeim stað að stærsti hluti veikinda og hrörnunar er ekki kominn fram, en það sýnir sig að á því stigi getur þurft að beita viðamiklum rannsóknum og meðferð. Í staðinn væri vert að taka upp „sambýli“, sbr. að ofan, einkum fyrir þá sem eru vitrænt skýrir og með góða færni í athöfnum daglegs lífs, en með kvíðaröskun og eða þunglyndi og einmanakennd. Það ætti einnig að eyða út því sem nefnt er „hjúkrunarrými á heilbrigðisstofnunum, les: sjúkrahúsum“. EF fólk þarf á varanlegri dvöl að halda og kemst ekki heim og hefur miklar hjúkrunarþarfir, þá ætti hjúkrunarheimili við. Þetta á auðvitað einnig við um Vífilsstaði, sem þörf er fyrir nú, því að það er umframeftirspurn eftir hjúkrunarrými eins mál þróast, þar sem sjúkrahúsið verður aðal vettvangur öldrunarþjónustu á síðustu stundu, nokkuð sem hindra mætti með öflugri öldrunarþjónustu heilsugæslu og gjörheilsugæslu fyrir veikasta fólkið. Varðandi textann frá KPMG, þá minni ég enn og aftur á grundvallarhlutverk HÖM með viðeigandi meðferðarúrræðum.

síða 26: málsgrein tvö; Framtíðarmynd um þjónustu við aldraða er að þjónustan byggi á heildarsýn á heilsufari og færni einstaklinga, þarfir þeirra ( bæta þessu inn ) og samhæfingu…..

síða 27: málsgrein þrjú: WHO hefur gefið út ítarlegar leiðbeiningar; ….. hér myndi ég bæta aftan við síðustu setningu málsgreinarinnar. InterRAI matstæki eru til fyrir alla þætti heilbrigðis- og félagsþjónstu og taka á samhæfðan þátt á þeim öllum þeim atriðum sem WHO leggur áherslu á. Þetta eru rafræn kerfi fyrir félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu (heilsugæslu og heimahjúkrun), sjúkrahúsþjónstu, bæði somatíska ( bráðamóttöku og legudeildir ) og geðþjónustu. Kerfin mynda gagnagrunn og upplýsingar fylgja einstaklingi frá einu þjónustustigi til annars og skapa langtímamynd af viðfangsefnum ellinnar og hvernig þau þróast, bæði fyrir einstaklinginn og fyrir heildarhóp eldra fólks á Íslandi. Afnot af hugviti og kerfum interRAI er gjaldfrjáls fyrir íslenska ríkið, skv. sérstökum samningi heilbrigðisráðuneytis við interRAI, og kostnaðurinn af því tengist því að íslenska kerfið og koma því á rafrænt form. Flestir þættir þess liggja nú þegar fyrir á íslensku og í tölvutæku formi. Það sem þarf að vinna að er heildræn innleiðing, samtenging upplýsinganna og stuðningur til fagfólks í útfyllingu mata og úrlestur. Setja þyrfti upp sérstakan aðgerðarhóp sem annaðist þetta og einnig gagnavinnslu og þróun gæðavísa, svo nokkuð sé nefnt. Lyfta þarf þessu verklagi og möguleika upp og sammælst um að nýta kosti þessa heildstæða kerfis, því að miðaða við það sem á undan er gengið þá vantar tiltölulega lítið til að kerfið geti opnað alla kosti sína og stuðlað í upplýsingabyltingu í þjónustu við eldra fólk.

síða 28: tafla tvö, efst á síðunni: hér vantar heildrænt rafrænt mat; HÖM með meðferðaráætlunum ( sem má útfæra með interRAI HC tækinu ). Geri athugasemd við orðið hvíldardvöl, sjá að ofan. Frekar að huga nota „skammtímadvöl með líkamlegri og andlegri virkni“. Hér þarf að bæta inn teymisvinnu lækna og hjúkrunarfræðinga heilsugæslunnar og gjörheilsugæslu…. Legg til að þessi tafla verði endurunnin…. annars vegar með því sem er til en bæta við því sem gæti verið góð viðbót eða framfaraskeref og stjörnumerkja það.

varðandi málsgrein þrjú: ….. hér mætti lyfta fram möguleikanum á því að í Reykjavík og á Akureyri væru miðstöðvar fjarlækninga- og hjúkrun, þar sem þekking öldrunarlækninga stæði heilsugæslu og sjúkrastofnunum á landsbyggðinni til boða. Nýta ætti einnig tæknina til þess að sá hluti eldra fólks ( sem er meirihlutinn ) sem er hraustur gæti sjálfur metið heilsufar og líðan á „rafrænum matstækjum“ sem gengju til heilsugæslulækna, en einnig að nýta tæknina fyrir veikast og hrumasta hóp eldra fólks sem hluta af gjörheilsugæsluhugtakinu.

síða 29: málsgrein þrjú. Á vettvangi…… Hér legg ég til að bætt verði við setningu. Embætti Landlæknis beitti sér fyrir því að komið yrði á Lífsskrá en með því er átt við að fólk tilnefnt talsmann sinn í alvarlegum veikindum en einnig lýst því hvað og hvað fólk vill ekki þiggja ef það yrði alvarlega veikt. Vísa má í heimildir hér að lútandi. Verkefnið var tekið af dagskrá um áratug eftir að það var skilgreint og kynnt, en það hafði aldrei verið gengið alla leið með verkefnið og gagnagrunnur þess gerður aðgengilegur til þess bærum aðilum í heilbrigðisþjónustunni allan sólarhringinn árið um kring. Einnig vantaði opið samfélagslegt samtal. Í stað þess að leggja það niður hefði átt að gagna alla leið með verkefnið og klára það. Mjög mikilvægt er að setja það aftur á dagskrá.

síða 29: Upplýsingar, rannsóknir, þróun; aftan við fyrstu málsgrein þessa kafla má útvíkka textann og segja: Sérstaklega má benda á ítarlegan gagnagrunn sem fengist með heildstæðri samfélagsnotkun á öllum þjónustustigum á interRAI matstækninni. Þá fást ítarlegar upplýsingar um atriðin sem segja til um þarfir og knýja áfram notkun á bæði heilbrigðis og félagsþjónustu og nýta þessa tækni til að skilgreina aðgengi að mismunandi þjónustuþáttum. Setja þyrfti á laggirnar verkefnahóp sem sæi um innleiðslu og kennslu á tækin, tölfræðigreiningu á göngunum í rauntíma, útfærslu gæðavísa, öryggisviðmiðana, auk samtengingar við fjármögnun opinberrar þjónustu á þessu sviði.

síða 30: tafla yfir þróunarverkefni. Það sem einkennir flest verkefnin er að þau hafa verið reynd um skeið en síðan ekkert framhald orðið. Það hefur vantað hingað til allan kraft og stuðning til nýsköpunar og að aðilar samfélagsþjónustu og sjúkrahúsþjónustu ynnu náið saman, svo og að stjórnendur heilsugæslu, félagsþjónustu og sjúkrahúss legðust á eitt að gera átak í forvirkri greiningu á viðfangsefnum eldra fólks og úrvinnslu þeirra.

síða 31: Fjármögnun og hvatar; …. óheppilegt að blanda saman…… hvetji til ofmats. Hér má benda á að áður en 44 flokka kerfi til greiðslu kom til framkvæmda var aðeins „eitt hjúkrunargjald“….. Vandinn við ofmat ( sem einnig getur sést hjá DRG kerfinu, sem á að innleiða á sjúkrahús) er sá að það vantar allt virkt eftirlit og viðurlög við fölsun gagna. Fremur en að henda þessari nálgun fyrir róða, því að ekkert betra er í augsýn, þá mætti herða eftirlit og viðurlög og einnig að skoða gæði í samhengi við mælda umönnunarþyngd. Einnig mæti einfalda kerfið og taka út endurhæfingaflokkana, þar sem þeir eiga sára sjaldan við á íslenskum hjúkrunarheimilum, nema rétt í kjölfar tilfallandi bráðaveikinda, svo sem mjaðmabrota. Ágalli varðandi hegðunarvandkvæði…. hér má benda á að á bakvið matið liggja tímamælingar á þeirri þjónustu sem þetta fólk fær og bæði á Íslandi og erlendis og sú umbun sem lögð er til byggir á rauntímamælingum. Og það er samræmi milli þeirra á Íslandi og erlendis. Hér væri fróðlegt að skoða útfærslu á þjónustu hjúkrunarheimila við hegðunarvanda og bæta þá þjónustu með þjálfun og persónutengdri athygli fyrir þetta fólk og mæla tíma sem fer í umönnun á ný og leiðrétta stuðla ef aukin þjónusta væri veitt.

síða 31: varðandi hvata í heimaþjónustu og heimahjúkrun. Hér ætti að endurskoða fyrst útfærslu þjónustunnar og sveigja hana yfir samþætta þjónustu, ekki aðeins hjúkrunarfræðinga og félagsráðgjafa, heldur einnig lækna. Auk þess þarf að byggja þjónustuna á Heildrænu öldrunarmati með meðferðarúrræðum, sem eru bæði tímanleg og aðgengileg. Þetta kerfi ætti að þróa og þá mætti skoða hvort nýta mætti hvata til þess að fólk héldist lengur í þjónustu heima.

síða 32: Endurskoða og uppfæra RAI mat er löngu tímabært…..Ég vísa í það sem áður hefur verið sagt að hluta að ofan. Setja þarf á laggirnar stuðningshóp við innleiðslu og útfærslu interRAI tækninnar á öllum þjónustustigum. Það þarf að koma þjálfun matsaðila í fast horf, það þarf að ákveða að styðja við innleiðslu á öllum stigum, í samfélagi, á sjúkrahúsi og endurinnleiða nýja útgáfu að mati fyrir hjúkrunarheimili. Það þarf síðan að vinna úr gögnum í rauntíma, til að upplýsingarnar nýtist við útfærslu og stefnumótun þjónustunnar. Þetta er kerfi sem gefur af sér gæðavísa, árangursmælingar, má nýta við fjármögnun ( en eftirlit má ekki vera í hlutlausum gír ), og skilgreina þjónustu fyrir ákveðna hópa fólks. Ef kosið er að nýta ekki þann þátt interRAI kerfisins sem varpar ljósi á umönnunarþyngd, þá eru samt allir aðrir þættir kerfisins mjög svo hjálplegir, við að greina þarfir einstaklinga, gæðamatið, árangursmatið og til að gefa heildarskilning á verkefnum öldrunarþjónustunnar á hverju stigi og með því móti skapa möguleika á samtali um það hvort betra væri að veita þjónustuna úti í samfélagi eða á stofnun/hjúkrunarheimili. Þetta er gert mögulegt með því að allar breytur tækisins eru eins og byggja á einstaklingnum, óháð því hvar hann er í þjónustukeðjunni.

síða 32: Lokaorð. Bæta mætti við málsgrein tvö framan við síðustu setninguna; …….öflugt samræmt upplýsingakerfi sem lýsir raunverulegum þörfum eldra fólks á öllum þjónustustigum er lykill að útfærslu á þjónustu sem er grundvölluð á þörfum einstaklinganna. Slíkt upplýsingakerfi er einnig lykill að frekari þróun kerfisins, sem ætti að taka mið af því að stórefla samfélagsþjónustuna.

Málsgreinin „ viðvarandi rekstrarandi….hjúkrunarheimila. „…… tel ekki að þetta sé lykiláhersluatriði í stefnumótunarvinnunni. Þessi þáttur er hins vegar úrlausnaratriði þegar stefnan er klár. Mætti sleppa þessari setningu.

síða 33: framan við setninguna Aukin og samhæfð heimaþjónusta….. .Hér mætti segja Heildrænt öldrunarmat með meðferðaráætlunum, sem mætt er með þjónustuframboði á réttum stað og réttum tíma er lykill að umbótum í öldrunarþjónustunni. Samhæfð heimaþjónusta…..

Varðandi tillögur að markmiðum og aðgerðum í stefnu um heilbrigðisþjónustu við eldra fólk.

síða 35; aukin áhersla á að vinna gegn einmanaleika: Koma á laggirnar millistigsúrræði milli heimila og hjúkrunarheimila, sem kalla mætti sambýli fyrir fólk með einmanakennd, kvíða eða þunglyndi ( sjá texta að ofan ).

síða 36; frá 1. janúar 2022….. Tel að það þurfi að útfæra vandlega hugmyndir um greiðslufyrirkomulag og draga má í efa að búið verði að útfæra slíkt fyrirkomulag á tæplega hálfu ári.

síða 36: innleiða reglubundið framvindumat og endurmat……. Skýra þarf textann. Slíkt endurmat verður að byggja á skoðun á undirliggjandi heilbrigðisþáttum og félagslegum aðstæðum.

Blaðsíða 37, samþætt persónumiðuð þjónusta: Með tilvísun í ofangreindan texta legg ég til eftirtalin verkefni, sem vert væri að hrinda í framkvæmd og myndu öll horfa til framfara:

• Að heilsugæslan komi sér upp greiningar móttöku fyrir öll helstu viðfangsefni ellinnar með Heildrænu Öldrunarmati og meðferðaráætlunum (HÖM), Sbr. að heilsugæslan á að vera vagga öldrunarþjónustunnar

• Að settir verði upp sannreyndir og hlutlægir þjónustupakkar til að mæta greindum þörfum á HÖM

• Að heimilislæknir sjái alla sem eru í heimahjúkrun á 6-8 vikna fresti annað hvort á stofu eða með vitjun

• Gjörheilsugæsla eldra fólks með miklar þarfir

• Að hver einstaklingur í heimahjúkrun hafi hjúkrunarfræðing sem málsstjóra sem leiði teymisvinnu lækna, hjúkrunarfræðinga og fleiri gagnvart þeim einstaklingi

• Að fundnar verði leiðir til að meta álag nákominna einstaklinga skjólstæðinga heimahjúkrunar og fundnar leiðir til að mæta þörfum þeirra.

• Skammtímainnlagnir með virkni og endurhæfingu sem rekin yrðu sem sjálfstæð úrræði, óháð og ekki blandað við langtímadvöl á hjúkrunarheimili – í stað hvíldarinnlagna

• Koma á laggirnar Lífsskrá á vegum Embættis Landlæknis, með tilheyrandi samfélagslegri umræðu, sjá að ofan.

• Greiður og tímanlegur aðgangur að liðskiptiaðgerðum á mjöðmum og hnjám; skýr skilmerki ábendinga og stigun einkenna

• Að stofnuð verði öldrunarbæklunarlækningadeild á LSH og SAK

• Efla menntun í öldrunarfræðum meðal lækna, hjúkrunar- fræðinga, og félagsráðgjafa

• Fjarlækningar fyrir hinar dreifðu byggðir landsins frá LSH og SAK

Blaðsíða 41-42; Forysta, skipulag og samæfing:

Undir fyrir sögninni Fjölbreytt úrræði í geðþjónustu:

• Að stofnuð verði öldrunargeðdeild innan geðsviðs LSH

Undir fyrirsögninni Nýtt samræmt mat (endurskoða texta, tillaga hér að neðan )…… og tengt því rannsóknar og þekkingarsetur:

• Innleiða interRAI matstækin á landsvísu innan allra stiga heilbrigðis- og félagsþjónustu, frá samfélagi til sjúkrahúss og hjúkrunarheimila

• Setja upp miðstöð fyrir stuðning við skráningu, gangavinnslu og gæðaþróun. Byrja með 4 fagaðila og nauðsynlega innviði, sbr. Canadian Institute for Health Informatics

Pálmi V. Jónsson, FACP, FRCP L, yfirlæknir, öldrunarlækningadeild Landspítala,

prófessor í öldrunarlækningum, Læknadeild Háskóla Íslands, palmivj@landspitali.is

p.s. í viðhengi hef ég sett inn fáeinar skýringarmyndir sem eru tilþess fallnar að varpa betra ljósi á mikilvæg atriði í völdum efnum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Kristín Björnsdóttir - 09.08.2021

Umsögn um

Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða

Unnið fyrir heilbrigðisráðuneytið

Í byrjun júlí 2021 voru birt drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk á Íslandi sem unnin var fyrir Heilbrigðisráðuneytið. Stjórn Rannsóknastofu HÍ og LSH í öldrunarfræðum (RHLÖ) hefur kynnt sér þessi drög og fagnar þeim áherslum sem settar eru fram um að styrkja rannsóknir og nýsköpun í tengslum við eldra fólk. Þar segir:

Stofna þarf til rannsóknar, þróunar og nýsköpunarmiðstöðvar um þjónustu og málefni eldra fólks. Miðstöðin þarf að vera þverfagleg og þverstofnanaleg og vera leiðandi í miðlun upplýsinga og nýrrar þekkingar.

Stjórnin tekur undir þau sjónarmið að slík miðstöð geti orðið til að styrkja uppbyggingu öldrunarþjónustu á Íslandi og bendir jafnframt á að sú reynsla og þekking sem hefur myndast hjá rannsóknastofunni getur orðið mikilvægt framlag til þróunar slíkrar miðstöðvar.

Rannsóknarstofa Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum var stofnuð á ári aldraðra 1999 og er í stofnskrá skilgreind sem miðstöð rannsókna á sviði öldrunarfræða. Við hana hafa verið stundaðar fjölbreyttar rannsóknir sem tengjast eldra fólki. Rannsóknarstofunni er ætlað að stuðla að samvinnu fræðimanna Háskóla Íslands og sambærilegra stofnanna og hefur sú áætlun tekist vel. Vísindamenn tengdir henni hafa haft forgöngu um að afla styrkja eða fjárveitinga til öldrunarrannsókna og alþjóðleg verkefni við RHLÖ hafa verið styrkt af Evrópusambandinu (ADHOC, IBEN C og SPRINT). Fjölmörg alþjóðleg InterRAI verkefni hafa verið unnin þar, þar sem niðurstöður frá Íslandi hafa verið skoðaðar í samanburði við ýmis önnur lönd. Þá hafa mörg verkefni úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar verið unnin undir merkjum RHLÖ, auk fjölmargra doktorsverkefna. Sú rannsókn var að stofni til fjármögnuð frá Rannsóknarstofnun Bandaríkjanna í öldrunarfræðum. Loks hafa rannsakendur af RHLÖ verið í klínísku forsvari fyrir rannsóknir með Íslenskri Erfðagreiningu. Eitt af markmiðum stofunnar er að standa fyrir námskeiðum fyrir fagfólk í öldrunarþjónustu og hafa samvinnu við aðrar rannsóknarstofur, félög, einstaklinga og opinberra aðila, sem starfa á sviði öldrunar innanlands og utan.

Rannsóknarstofunni er stýrt af þverfaglegri stjórn sem kemur reglulega saman og leggur drög að starfseminni, en daglegur rekstur er í höndum verkefnastjóra. Við stofuna hefur þverfaglegt teymi doktorsnema og nýdoktora haft aðsetur og myndað þannig mikilvægt samfélag þar sem fjölbreytt rannsóknarverkefni eru tekin fyrir og leidd sjálfstætt áfram af prófessorum og sérfræðingum innan Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Í mörgum tilvikum hafa þessar rannsóknir verið styrktar af Sjálfseignarstofnun St. Jósefsspítala. Verkefnin eiga það öll sameiginlegt að flokkast sem rannsóknir sem snúa að málefnum eldra fólks þar með talið bættri þjónustu, heilbrigðri öldrun og heilsu og vellíðan á efri árum. Þessi öfluga starfsemi kom fram á norrænu öldrunarfræðiráðstefnunni sem að þessu sinni var haldin á Íslandi (https://www.25nkg.is/) þar sem fólk sem tengist stofunni hélt fjölmörg erindi.

Stjórn RHLÖ bendir á að það mætti nýta þá reynslu og þekkingu sem hefur skapast við Rannsóknastofuna við uppbyggingu þeirrar miðstöðvar sem rætt er um í fyrirliggjandi tillögum. Augljóslega væri mikilvægt að útvíkka hlutverk hennar og samstarfsaðila, m.a. við Háskólann á Akureyri og Þekkingarmiðstöð Heilsugæslunnar. Við bendum á að þeir vísindamenn stofunnar sem tengjast Háskóla Íslands hafa notið mikilvægs stuðnings frá Heilbrigðisvísindastofnun Heilbrigðisvísindasviðs m.a. við undirbúning umsókna til RANNÍS og nemendur stofunnar hafa nýtt sér tölfræðiráðgjöf sviðsins.

Fyrir hönd stjórnar Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum,

Kristín Björnsdóttir, prófessor

Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslanda

Formaður stjórnar Rannsóknastofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarmálum (RHLÖ)

Afrita slóð á umsögn

#3 Ólafur Helgi Samúelsson - 11.08.2021

Athugasemdir við skýrsluna:

Virðing og Reisn: samþætt heilbrigðis og félagsþjónusta fyrir eldra fólk

Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraða

Undirritaðir ödrunarlækna fagna mikilvægri og tímabærri skýrslu um framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu eldra fólks.

Í skýrslunni eru reifaðar mikilvægar áherslur sem brýnt er að koma í samfélagslega umræðu. Þar má m.a. nefna aldursfordóma, jafnan rétt, mikilvægi þátttöku og fleira. Hugmyndir sem m.a. eru byggðar á víðtækri alþjóðlegri vinnu WHO við undirbúning Áratugs heilbrigðrar öldrunar (Decade of healthy ageing). Óskandi -er að íslenskri stjórnsýslu og löggjafarvaldi beri gæfa til að veita þessu brýna verkefni brautargengi jafnt hugmyndafræðilega sem og og í verki og nýti sér samvinnu við stórar alþjóðlegar stofnanir eins og WHO.

Mikilvægt er að aðgerðir sem farið er í auki ekki á flækjustig við umsóknir eða veitingu heilbrigðisþjónustu.

Tryggja þarf eldri einstaklingum aðgengi og valfrelsi í heilbrigðisþjónustu til jafns við aðra eftir þeirra þörfum.

Við tökum undir mikilvægi þess að stofnað verði til sérstaks ráðuneytis eldra fólks – fyrir samþætt heilbrigðis- og félagsmálefni eldra fólks. Að stjórnsýsluleg ábyrgð sé skýr og að unnið sé markvisst að því að eyða kerfisbundnum múrum, óskýrleika, tvítekningu og flækjustigi við umsókn, mat, þróun og veitingu þjónustu. Horfa má til þeirrar fyrirmyndar sem ráðuneyti málefna barna hefur reynst vera en sá málaflokkur hefur hlotið vaxandi athygli stjórnsýslunnar eftir að skipaður var Félags- og barnamálaráðherra.

Við tökum undir áskorun um að setja á stofn verkefnastjórnun um endurskoðun stjórnsýslu og framkvæmd verkefna í anda verkefnis WHO um Decade of Healthy ageing. Hins vegar teljum við mikilvægt að slík verkefnastjórnun sé á einni hendi og ekki með dreifðri ábyrgð en það er skilyrði þess að svona víðtæk verkefni klárist farsællega. Stjórnsýslustig sem ber ábyrgð á svona stórum samfélagsverkefnum þarf að vera nægilega sterkt til að takast á við þau heildrænt.

Forvarnir þarf að efla en rannsóknir, m.a. íslenskar, hafa sýnt fram á ýmsar aðgerðir sem eru áhrifaríkar. Skoða þarf reynslu Reykjavíkurborgar af verkefninu “Aldursvæn samfélög” og breiða þá hugmyndafræði til allra annarra sveitarfélaga.

Eins og bent er á í skýrslunni eru innbyggðir hvatar í núverandi fyrirkomulagi sem ýta undir óhagkvæmni og sóun. Dæmi um slíkt er innbyggður kerfisgalli þar sem hvati er til að þrýsta fólki í efsta þjónustustig en í dag er það sparnaður fyrir sveitarfélög ef einstaklingar sem þurfa mikla þjónustu heim flytjast á hjúkrunarheimili sem er í fjárhagslegri ábyrgð ríkisins. Annað nátengt dæmi er svokallaður „fráflæðivandi“ Landspítalans sem stöðugt er í umræðu og ætti að vera forgangsverkefni að leysa enda óásættanlegt ástand fyrir þiggjendur þjónustunnar og stórkostleg sóun á fjármunum og mannauði. Að hluta til er hér án efa um að kenna þjónustu spítalans við inniliggjandi eldri sjúklinga og skort á t.d. heildrænni nálgun, reglubundinni hreyfingu og hvatningu til sjálfsbjargar á meðan á sjúkrahúsdvöl stendur. Innra umhverfi og starf spítala þarf því að taka breytingum í samræmi við breytingu á samsetningu skjólstæðinga. Taka þarf þetta föstum tökum strax með verkefnum sem hefði heildarsýn og styrk til að koma á laggir nauðsynlegum breytingum. Áherslur í þjónustu við sjúklinga innan nýs Landspítala sem nú rís eru enn á teikniborðinu og mikilvægt að þar verði hagsmuna eldra fólks gætt í hvívetna, enda er sá hópur í mestri þörf fyrir þjónustu spítalans. Innan aldursvæns samfélags má ekki gleymast að huga sérstaklega að aldursvænum sjúkrahúsum.

Á bls 19-26 í drögunum eru kaflar um hin ýmsu stig öldrunarþjónustu en þar er þó enginn kafli um sjúkrahúsþjónustu. Ekkert er þannig minnst á öldrunarlækningar og þjónustu Landspítala eða Sjúkrahússins á Akureyri sem er margþætt og beinist að ýmsum heilsufarsvandamálum aldraðra sérhæft. Nútímavæða þarf vinnulag, umhverfi og þjónustu að þessu leyti, annars er fyrirsjáanleg áframhaldandi neyðaróp um að eldri einstaklingar trufli starfsemina. Efling sérhæfðrar öldrunarlæknaþjónustu og sérhæfðra öldrunalækningadeilda væri liður í þessu. Sem dæmi um slíkar deildir eru öldrunarbæklunardeildir og öldrunargeðdeild. Öflug greiningarþjónusta öldrunargöngudeilda er samfélagslega mikilvæg og þarf að vera í náinni samvinnu við heilsugæslu og félagsþjónustu.

Eitt höfuðatriði í framtíðar heilbrigðisþjónustu við eldri einstaklinga er menntun og uppbygging mannauðs. Þar gegna stofnanir eins og Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri og Háskólarnir lykilhlutverki. Eins þarf að gera störf innan öldrunarþjónustunnar meira aðlaðandi, en hluti af því er að vinna gegn öldrunarfordómum. Eins og fram kemur í drögunum er hlutfall faglærðs starfsfólks á hjúkrunarheimilum landsins allt of lágt en úr því verður að bæta á kerfisbundinn hátt.

Við erum sammála tillögum um stórauknar áherslur í uppbyggingu heimaþjónustu, dagþjálfunar og endurhæfingarúrræða. Heilsugæsla ætti að gegna hér lykilhlutverki í samstarfi við sérhæfðari læknisþjónustu og göngudeildir. Við mælum með að komið verði á fót reglubundnu heilsufarseftirliti eldra fólks í heilsugæslu líkt og gildir um ungbarnaeftirlit. Þar er hægt að taka á ýmsum forvarnarþáttum og eins er þetta leið til að styrkja samband eldra fólks við heilsugæsluna og fagaðila hennar. Æskilegt væri að notendur þeirrar þjónustu fengju persónulegan tengilið (hjúkrunarfræðing) innan heilsugæslunnar í tengslum við heilsufarseftirlitið, en það myndi auka aðgengileika og einfalda boðleiðir fyrir notandann ef eitthvað bjátar á. Það þarf að stórefla og einfalda samskipti mismunandi þjónustuaðila sem koma að þjónustu við aldraðan einstakling. Þannig geti þjónustuaðilar verið sveigjanlegri og aðstandendur séu ekki settir í það hlutverk að hringja í marga mismunandi aðila til að samþætta þjónustu við líf hins aldraða. Þetta ætti að vera hægt með rafrænum forritum.

Að auki verði áhersla á teymisvinnu í heimaþjónustu með skýrari aðkomu lækna. Unnið sé samkvæmt hugmyndafræði um heildrænt öldrunamat og komið á kerfi sem getur fylgst með og brugðist við breytingum á ástandi einstaklinga. Sérstök áhersla verði á góða greiningarvinnu, eftirlit og vitjanir til þeirra einstaklinga sem á hverjum tíma glíma við tímabundin eða langvinn öldrunartengd vandamál. Slíkt kerfi dregur úr álagi á bráðaþjónustu og seinkar þörf á hjúkrunarheimilisþjónustu, en ekki síst bætt lífgæði hins aldraða einstaklings. SELMA verkefni heimahjúkrunar er til fyrirmyndar og mögulega er þörf á fleiri slíkum teymum fyrir fjölveika, hruma aldraða sem búa heima. Öldrunarþjónusta Landspítala þarf að tengjast þessum teymum til að gera þessa þjónustu skilvirkari og jafnvel taka þátt og veita s.k. sjúkrahússtengda þjónustu í heimahúsi. Þá er mjög mikilvægt að slík heimateymi geti virkjað nauðsynleg úrræði án tafar, ss. fleiri vitjanir fagaðila, viðveru fagaðila og hvíldar – eða endurhæfingarinnlagnir fyrir þann aldraða. Ófá dæmi eru um það að hraustari einstaklingurinn í hjónabandi sé að styðja við maka sinn heima, veikist sá hraustari er iðulega eina úrræði fyrr þann veikari að koma á bráðamóttöku Landspítala til innlagnar.

Mikilvægt er að huga að fjölbreyttari þjónustumöguleikum til að auka möguleika fólks á að dvelja heima. Efling öldrunarendurhæfingarúrræða og fjölbreyttari þjónusta heim við einstaklinga í þörf væri liður í þessu. Landspítali sinnir endurhæfingarþjónustu við aldraða á Landakoti og hjúkrunarheimilið Eir gerir það einnig. Þörf er á að stórefla þessi úrræði utan Landspítala, t.d. innan hjúkrunarheimila með þjónustusamningi við SÍ. Mikilvægt er auðvitað að fagleg gæði þjónustunnar séu til staðar með aðkomu sjúkra- og iðjuþjálfara, hjúkrunarfræðinga og lækna. Eins þarf að fjölga plássum í almennum og sérhæfðum dagvistunum auk þess sem sveigjanleiki í tímasetningum þessarar þjónustu mætti vera meiri.

Í drögunum er lagt á mat á fjölda hjúkrunarrýma sem er dýrasta þjónustuúrræðið. Lagt er til að fjöldinn miðist við 15% allra sem eru 80 ára og eldri en í dag er þetta hlutfall liðlega 21%. Þetta er skýrasta merki þess að þjónusta við einstaklinga í heimahúsi er alls ekki næg því þótt hlutfallið sé þetta hátt er mikið ákall um enn fleiri rými. Mikilvægt er þjónusta á öðrum þjónustustigum verði stórefld ef markmiðið um að fjöldi hjúkrunarrýma miðist við 15% þeirra sem eru 80 ára og eldri á að vera raunhæft.

Hjúkrunarheimili sinna nú samkvæmt inntökuskilyrðum fjölveikasta og hrumasta hópi samfélagsins. Tímalengd dvalar og ástand íbúa gera það að verkum að í raun má kalla hjúkrunarheimili stærstu líknarstofnanir landsins. Þannig eru þessar stofnanir ekki eingöngu eða fyrst og fremst búsetuúrræði. Þarfir íbúa eru fjölþættar og sérhæfðar. Nauðsynlegt er að hafa í huga þetta hlutverk í huga við fjármögnun, viðmið og kröfur um fagmennsku. Slíkt bætir lífsgæði íbúanna og dregur úr notkun óviðeigandi bráðaþjónustu. (sjá til dæmis tillögur Evrópusamtaka öldrunalækna EuGMS: Covid-19 highlights the need for universal adotoption of standards of medical care for physicians in nursing homes in Europe: Eur Geriatr Med. 2020 Aug;11(4):645-650.). Þátttaka hjúkrunarheimila í fjölþættari þjónustu eins og endurhæfingu, dagþjálfun og við stigvaxandi þjónustu í heimahúsi t.d. í tengslum við þjónustukjarna hefur margfeldisáhrif í að auka fagmennsku innan þeirra. Mikilvægt er að fjármögnun sé í samræmi við kröfur um veitta þjónustu. Það er vöntun í kerfinu á búsetuúrræði fyrir eldra fólk sem glímir við kvíða, óöryggi og einsemd, ss. sambýlisform og/eða íbúðir nálægt þjónustukjarna þar sem vaktþjónusta fagaðila er til staðar og stuðningur heim.

Við myndum þannig vilja hvetja til að viðmið í fjölþættri heilbrigðis- og ekki síst læknisþjónustu á hjúkrunarheimilum, dagþjálfunum og heimahúsum sé endurskilgreind með þarfir íbúanna og samfélagsins í huga. Eins þarf að fylgja því reglulega eftir að viðmiðin séu uppfyllt.

Lykilatriði eru samþætting þjónustu og að sú þjónusta sem er veitt á hverjum tíma sé sem mest viðeigandi miðað við þarfir notenda og hámarki góða nýtingu þess fjármagn sem úr er að spila.Til þess að það megi verða hjá fólki með mörg samverkandi vandamál þarf að beita matstækjum sem meta ástand heildrænt. Athyglisvert er að lítið er í skýrslunni minnst á svokölluð RAI möt sem þó hefur verið eytt verulegum fjármunum í að þróa og halda við á Íslandi í áratugi. Slík möt eiga við í heimaþjónustu, hjúkrunarheimilisþjónustu, endurhæfingu og sjúkrahúsþjónustu en innleiða þarf slík vinnubrögð yfir alla þjónustukeðjuna með samþættum hætti og samræmanlegum. Þessi matstæki er hægt að nota þjónustuþeganum til hagsbóta, en kerfin draga fram heilsufarsleg viðfangsefni sem fagaðilar þurfa að sinna og fylgja eftir. Kerfin hafa einnig innbyggðar ráðleggingar til fagaðila um hvernig skuli bregðast við viðfangsefnum/vandamálum. Þetta getur gert þjónustu skilvirkari og meira viðeigandi fyrir einstaklinga og gerir stjórnendum auðveldara að meta árangur veittrar þjónustu. Slík skráning getur líka skipt sköpum við að grípa tímanlega inn í versnandi ástand séu þau rétt notuð af viðkomandi teymum.

Tekið skal undir að efla þurfi rannsóknir og að sérstök rannsóknarstofa/-stofnun sjái um skipulag og framkvæmd. Það er hins vegar sérkennilegt að ekkert skuli minnst á Rannsóknastofu Háskóla Íslands og Landspítalans (RHLÖ) en líklega er farsælla (og ódýrara) að byggja á því sem fyrir er fremur en að stofna nýtt.

Í aðgerðarhluta skýrslunnar virðist mega setja saman í einn lið sem héti t.d „Nýsköpunar-,rannókna- og þróunarsetur“ þá þrjá liði sem eru næstsíðastir í „Samþætt og persónumiðuð þjónusta“. Einnig liði 4 og 5 í „Forysta , skipulag og þjónusta“ sem fjalla um þekkingarsetur. Samlegðaráhrif eru greinileg og ekki vert að dreifa fjármunum og mannafla í of margar einingar.

Tillögur og áhersluatriði:

Endurskoða löggjöf um málefni eldra fólks og heilbrigðs- og félagsþjónustu við eldra fólk:

Ákveða hvort byggt verði á núgildandi lögum um málefni aldraðra eða hvort um alveg nýja löggjöf verði að ræða

Hefja markvissa baráttu gegn aldursfordómum:

Semja við landshluta og eða sveitarfélög um að gerast aldursvæn og berjast gegn fordómum gagnvart aldri og öldrun. Tekið verði mið af reynslu Reykjavíkurborgar af verkefninu “Aldursvæn borg”

Styrkja réttarstöðu íbúa og notenda:

Lög um lögræði og lög um réttindagæslu og um reglur um nauðung og þvingun verði endurskoðuð og aðlöguð til að eiga við um alla notendur heilbrigðis- og félagsþjónustu (fatlað fólk, aldraðir og um þá sem búa við heilabilun).

Að verklag um ökuleyfi eða sviptingu þess verði skýrari. Mat heimilislæknis og vottorð um ökuleyfi þarf að vera ítarlegra og óháður embættislæknir á vegum Sýslumanns eða Umferðarstofu vísar svo einstaklingum áfram í ökumat með iðjuþjálfa og ökukennara eftir þörf. Eytt sé tilhneigingu til aldursfordóma og alhæfinga vegna sjúkdómsgreininga í þessu samhengi.

Efling Nýsköpunar-, rannsókna- og þróunarseturs:

Samið verði við Rannsóknastofu Háskóla Íslands og Landspítalans (RHLÖ) um að hún taki að sér verkefni á sviði nýsköðunar og þróunar á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu við eldra fólk og að skipulag stofnunarinnar taki mið af víðari verkefnum. Mikilvægt að slíkt setur hafi góða heimasíðu með upplýsingum um verkefni og ráðleggingar.

Öldrunarlækningar og geðlækningar á sjúkrahúsum:

Við uppbyggingu nýs Landspítala sé hagsmunum eldra fólks gætt í hvívetna, enda er sá hópur í mestri þörf fyrir þjónustu spítalans.

Efla starsemi sérhæfðra öldrunalækningadeilda á Lsp og SAK. Stofnuð verði öldrunarbæklunardeild. Brýnt er að huga að stofnun öldrunargeðdeildar í samstarfi öldrunardeilda og geðdeilda. Tenging öldrunarlækninga á sjúkrahúsum við sérhæfð þverfagleg heimaþjónustuteymi. Huga að stofnun teymis er veitir sjúkrahússþjónustu heim.

Sjúklingar sem lokið hafa meðferð á sjúkrahúsi og geta útskrifast heim með heimastuðningi séu settir í forgang á að fá þá þjónustu sem þörf er á.

Útrýma þarf biðrýmum sem Landspítali rekur fyrir einstaklinga sem bíða varanlegrar vistunar. Þetta óheppilegt úrræði og hefði einungis átt að vera tímabundin lausn. Rekstur biðrýma ætti ekki að vera hlutverk Landspítala.

Reglubundið heilsufarseftirlit eldri borgara

Að við heilsugæsluna verði komið á reglubundnu heilsufarseftirliti eldri borgara skv vinnulagi heildræns öldrunarmats:

Tíðni slíks eftirlits metist í samræmi við útkomu úr slíku mati eða breytinga á ástandi. Þarna er hægt að fara yfir ýmsa heilsufarsþætti, ss. bólusetningar, beinvernd, áhættuþætti hjarta og æðasjúkdóma, næringu, þjálfun, félagslega virkni, andlega líðan, lyfjayfirferð og kanna þjónustuþörf og aðstoða. Hér er hægt að taka samtal um meðferðarmarkmið, s.k. advance directives og einnig er þetta góð leið til að tengja eldra fólk betur við sinn heimilislækni og hjúkrunarfræðing.

Teymisvinna í heimaþjónustu:

Fyrirbyggjandi vinnubrögð þar sem brugðist er við breytingum á ástandi/færni áður en i óefni er komið. Hágæsla og reglubundnar vitjanir læknis til þeirra sem tímabundið eða langvinnt eru með mestu færniskerðingu eða hraðar breytingar á færni/ástandi. Teymisstjóri stjórni slíkum teymum í hverfum. Notast verði við rafræna skráningu með samræmdum heilsufars- og færniupplýsingum. Slík kerfi verði samþætt milli ólíkra þjónustustiga til að auka samfellu í meðferð og upplýsingum. Mikilvægt er einnig að einfalda samskipti þjónustuaðila á rafrænan hátt þannig að mismunandi þjónustuaðilar séu sveigjanlegri til handa þjónustuþega. Aðstandandi þurfi ekki að hringja á marga mismunandi staði til að segja frá breytingum í högum þjónustuþega.

Teymi sem aðstoða einstakling við að búa sjálfstætt í heimahúsi verða að geta tímabundið óskað eftir fleiri innlitum. Einnig að hafa kost á að fá hvíldarinnlögn án tafar komi þannig aðstæður upp, án þess að bíða eftir samþykki færni- og heilsumatsnefndar.

Öldrunarendurhæfing:

Mikilvægt er að byggja upp fleiri þverfaglegar endurhæfingardeildir utan Landspítala fyrir eldra fólk sem þarf heildræna nálgun og endurhæfingu eftir bráð veikindi á sjúkrahúsi. Slíkar deildir gætu átt heima á hjúkrunarheimilum eða með uppbyggingu sérhæfðs endurhæfingarseturs fyrir eldra fólk.

Pláss í dagþjálfanir þurfa að vera enn fleiri, bæði almennar og sérhæfðar fyrir einstaklinga með heilabilun. Mikilvægt er að þau pláss sem skilgreind eru sem sérhæfð fyrir einstaklinga með heilabilun séu mönnuð með hjúkrunarfræðingi og aðkomu læknis.

Eins og kom fram í upphafi þá fögnum við skýrslunni og þeirri umræðu sem hún vekur upp. Öldrunarlæknar og félag þeirra eru tilbúnir til að taka þátt í þeirri vinnu sem þarf til að við getum búið í aldursvænu samfélagi, fyrir alla aldurshópa.

Undirrituð eru öll sérfræðingar í öldrunarlækningum

Anna Björg Jóndsdóttir

Arna Rún Óskarsdóttir

Jón Snædal

Ólafur H. Samúelsson

Steinunn Þórðardóttir

Þórhildur Kristinsdóttir

Afrita slóð á umsögn

#4 Margrét Guðnadóttir - 22.08.2021

Umsögn og ábendingar Margrétar Guðnadóttur varðandi skýrsluna

Virðing og Reisn: Samþætt heilbrigðis og félagsþjónusta fyrir eldra fólk

Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraða

Það er sannarlega fagnaðarefni að heilbrigðisyfirvöld á Íslandi vinni að heildrænni stefnumótun í heilbrigðisþjónustu við aldraða einstaklinga þjóðfélagsins. Drögin að stefnunni eru yfirgripsmikil og vönduð í marga staði. Þar er lögð áhersla á að nálgast hvern einstakling út frá hans forsendum og bakgrunni með áherslu á þverfaglega samvinnu sem hlúir að mannréttindum og mannvirðingu eldra fólks. Við lestur minn á skýrslunni sé ég tvö lykilorð standa upp úr; heimaþjónusta og samþætting. Þessi lykilorð eru að mínu mati vegvísir heilbrigðiskerfis okkar um hvað helst geti aukið við og styrkt farsæla búsetu aldraðra einstaklinga í heimahúsi. Í skýrslunni nefnir Halldór S. Guðmundsson réttilega mikilvægi þess og tækifærin sem felast í því að auka þjónustu í heimahúsi og efla samvinnu milli þjónustustiga, brjóta niður múra. En hvorugt er þó dregið upp úr hatti án fyrirhafnar. Ég bendi því á þörf á dýpri nálgun í skýrslunni um markmið og fyrirkomulag heimaþjónustu og samþættingar á landsvísu. Legg hér fram nokkra punkta þess efnis.

Hafandi starfað lengi hjá Reykjavíkurborg við klíníska þjónustu heimahjúkrunar sem teymisstjóri og sem verkefnastjóri við innleiðingu SELMU, samvinnu um aukna læknisþjónustu í heimahúsi, get ég fullyrt það að efling og innleiðing nýrrar nálgunar krefst mikillar yfirlegu, þolinmæði og þrautsegju. Samþætting þjónustu og aukin samvinna kallar á breytta starfshætti og menningu meðal fagfólks. Slík menningarbreyting krefst kraftmikillar leiðtogastjórnunar og rými til að skapa samvinnugrundvöll. Gera þarf ráð fyrir tíma og rými til samtals. Það er nokkuð víst að vilji til samvinnu milli kerfa og fagfólks er til staðar en svigrúm og aðstöðu til að móta og slípa samvinnuna skortir. Þar liggja áherslur SELMU meðal annars, að skapa grundvöll til samvinnu og auka flæði á milli þjónustustiga heimahjúkrunar, heilsugæslu og sjúkrahúsþjónustu, með hag hins hruma aldraða í heimahúsi að leiðarljósi. Forgangur í mat hjá öldrunarsérfræðingi og tímabundnar innlagnir beint úr heimahúsi eru þar meðal lykilatriða.

SELMA er teymi hjúkrunarfræðinga og lækna og hugsuð sem styrking á þeirri þjónustu sem fyrir er í heimahjúkrun. Þar sé hægt að fá álit og vitjun læknis til mats og meðferðar þeirra einstaklinga sem ekki komast á heilsugæslu eða göngudeild. Einnig stuðning við heimahjúkrun í flóknum heilsufarsmálum sem mögulega hafa litast af bágbornum félagslegum aðstæðum. SELMA aðstoðar þannig við að finna leiðir til að styðja starfsfólk heimahjúkrunar í að sinna skjólstæðingum þjónustunnar lengur og betur heimavið.

Að sinna hrumum einstaklingi í hans eigin umhverfi er ólíkt því að sinna einstaklingi inni á stofnun. Á heimili sínu er einstaklingur oft öruggari með sig, með sterkari sjálfsmynd, sjálfstæðari í hugsun og sýnir aukna sjálfsbjargarviðleitni í athöfnum daglegs lífs. Starfsmenn sem koma til aðstoðar á heimili veita ráðgjöf, stuðning og aðstoð við daglegar athafnir en eru alltaf háðir vilja og samvinnu þeirra sem þjónustuna þiggja.

Grunnurinn liggur í sterkri heimaþjónustu. Í Reykjavík hefur markvisst verið unnið síðustu 10 árin að samþættri heimaþjónustu hjúkrunar og félagsþjónustu sem er mikilvægt að líta til þegar hugað er að slíkri útfærslu í öðrum sveitarfélögum. Með aukinni samvinnu þessara kerfa hefur átt sér stað tilfærsla á verkefnum í þeim tilgangi að geta þjónustað fleiri einstaklinga og betur. Árangurinn hefur sýnilega verið góður. Félagsleg heimaþjónusta með heimahjúkrun sem bakland, sinnir umfangsmeiri umönnun en áður var og hægt hefur verið að auka við þjónustu einstaklinga í heimahúsi. Það er vissulega gott að geta dreift verkefnum en starfshópurinn verður að standa undir þeim væntingum. Hlúa þarf sérstaklega að aðlögun og stuðningi við almennt starfsfólk félagslegrar heimaþjónustu. Í dag eru nær engar kröfur gerðar um námskeið eða undirbúning í umönnun aldraðra til þess starfsfólks.

Það er gríðarlega mikilvægt að starfsfólk heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu hafi færni og þekkingu til að lesa í aðstæður, meta í sífellu stöðu og breytingu á ástandi sinna skjólstæðinga og hafi úrræði að leita í til stuðnings við mat og meðferð þeirra. Stuðla þarf markvisst að (gera kröfu um) og efla þátttöku starfsfólks; hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, félagsliða og almenns starfsfólks, í símenntun og framhaldsmenntun á sviði heimaþjónustu til að byggja upp sterkan hóp starfsmanna þjónustunnar.

Mikilvægt er að skapa rými, aðstæður og umboð heimahjúkrunar til að vinna einstaklinga betur upp í heimahúsi, sinna þeim betur og lengur heimavið. Við höfum mjög gott fordæmi um slíka valdeflingu heimahjúkrunar með þátttöku í hjartabilunarverkefni í samvinnu við göngudeild hjartabilunar á Landspítala. Þar var markvisst unnið að eflingu heimahjúkrunar til að meta og bregðast við auknum einkennum skjólstæðinga með hjartabilun. Lykilstuðningurinn felst í opinni beinni símalínu til sérfræðings á vakt göngudeildarinnar sem leiðbeinir og setur upp plan um viðbótarmeðferð en einnig að unnið er með verklag sem heimahjúkrun notar sjálfstætt í mati sínu og meðhöndlun aukinna einkenna hjartabilunar. Tilvalið væri að útfæra slíka nálgun á fleiri sjúklingahópa í samvinnu við sérfræðideildir spítalans.

Ef við ætlum heimahjúkrun að vera lykillinn að því að fólk búi lengur heima þurfum við að setjast yfir markmið og kröfur sem eðlilegt sé að gera til heimahjúkrunar. Þó gráusvæðin séu mörg og flæði þurfi að vera greitt milli þjónustukerfa heimahjúkrunar, heilsugæslu og sjúkrahúsa þá þarf að vera skýrt hvers við ætlumst til af heimaþjónustunni og hvar ábyrgðin liggi. Ef auka á meðferðarúrræði í heimahúsi og draga markvisst úr varanlegri vistun á hjúkrunarheimili þarf að stilla betur upp kostnaði og stefnu í mönnunar- og þjónustmódeli í heimahjúkrun út frá því. Líkt og gert er gagnvart rekstri og rúmanýtingu hjúkrunarheimila í þessari skýrslu.

Tölur um þörf á hlutfallslegri aukningu heimaþjónustu segja ekki alla söguna. Á bls. 20 er t.d. stuttlega farið yfir mögulegan ávinning af því að efla heimaþjónustu um 5% til viðbótar við núverandi þjónustustig og draga þannig úr þörf fyrir vistun á hjúkrunarheimili í takt við íbúaþróun. Þar er einnig rakið að meðalkostnaður vegna einstaklings í heimaþjónustu sé einn tíundi af því sem kosti að reka hjúkrunarrými. Sá tíundi hluti er reiknaður út frá þeirri þjónustu sem veitt er í dag.

Þegar til framtíðar er litið á aukinn fjölda aldraðra sem býr við mikinn hrumleika á sínu heimili þá sjáum við breytta þjónustumynd heimaþjónustunnar. Þjónustan snýr í grunninn að forvarnarstarfi, fyrirbyggja algeng vandamál eins og föll, vannæringu, sýkingar og einmanaleika. Með áherslu á að viðhalda og efla getu einstaklings til sjálfshjálpar og mæta honum þar sem þörfin er. En umönnun fleiri mikið hrumra í heimahúsi kallar á aukið umfang þjónustunnar og aukið fjármagn til reksturs hennar. Hún kallar einnig á aukna sérhæfingu í störfum, fleiri vitjanir, flóknari meðferðir, aukna þörf á læknisþjónustu og samvinnu við fleiri faghópa eins og sjúkraþjálfa, næringarfræðinga, iðjuþjálfa og sálfræðinga. Umönnunin krefst svo mögulega aukinnar viðveru, aukinnar næturþjónustu og aukins stuðnings við aðstandendur.

Ljóst er að umönnun hrumra aldraðra í heimahúsi er háð aðkomu aðstandenda. Því er afar mikilvægt að við hugsum málið til enda á þann hátt. Hver er staða fjölskyldunnar og hvað er raunhæft að leggja á aðstandendur í hverju tilviki? Hvernig ætlum við sem formlegt heilbrigðiskerfi að meta, styðja við og styrkja aðstandendur í sínu umönnunarhlutverki? Þar þarf meira en fjárhagslegan stuðning.

Bendi hér í lokin á nokkrar nýlegar heimildir úr íslensku umhverfi um stöðu og gagnsemi aukinnar styrkingar í heimaþjónustu:

Bjornsdottir, K., Ketilsdottir, A., Gudnadottir, M., Kristinsdottir, I. V., & Ingadottir, B. (2021). Integration of nursing services provided to patients with heart failure living at home: A longitudinal ethnographic study. Journal of Clinical Nursing, 30(7-8), 1120-1131.

Gudnadottir, M., Ceci, C., Kirkevold, M., & Björnsdóttir, K. (2021). Community‐based dementia care re‐defined: Lessons from Iceland. Health & Social Care in the Community, 29(4), 1091-1099.

Gudnadottir, M., Bjornsdottir, K., & Jonsdottir, S. (2019). Perception of integrated practice in home care services. Journal of Integrated Care, 27(1), 73-82.

Bjornsdottir, K. (2018). ‘I try to make a net around each patient’: home care nursing as relational practice. Scandinavian Journal of Caring Sciences, 32(1), 177-185.

Takk fyrir mikilvæga vinnu. Hlakka til frekara samtals.

Virðingarfyllst,

Margrét Guðnadóttir, hjúkrunarfræðingur.

Verkefnastjóri hjá heimahjúkrun í Reykjavík.

Doktorsnemi í hjúkrunarfræði við HÍ

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Landssamtökin Þroskahjálp - 27.08.2021

sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Inga Valgerður Kristinsdóttir - 28.08.2021

Sjá fylgiskjal

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Ingibjörg Hjaltadóttir - 30.08.2021

Umsögn um:

Drög að heilbrigðisstefnu um framtíðarsýn heilbrigðisþjónustu við aldraða

Það var ánæglulegt að lesa drögin að stefnu um framtíðarsýn heilbrigðisþjónustu við aldraða sem nú er til umsagnar. Drögin eru vel unnin og fjallað er um alla helstu þætti sem skipta máli varðandi þennan málaflokk. Ennfremur vara ánægjulegt að taka þátt í Heilbrigðisþingi þar sem fjallað var um þessa vinnu.

Í drögunum koma fram tilllögur að ýmsum verkefnum og breytingum á vinnulagi í heilbrigðis- og félagsþjónustukerfum. Í kerfinu eins og það er í dag er margt vel gert og mikið af hæfu fagfólki sem starfar í kerfinu. Þó er það þannig að í áratugi hefur verið rætt um mikilvægar breytingar svo sem samþættingu heimahjúkrunar og félaglegra heimaþjónustu með takmörkuðum árangri nema á örfáum stöðum. Það að við höfum ekki komist lengra með þetta verkefni sýnir að við þurfum að beita öðrum leiðum núna til að þetta mikilvæga verkefni nái brautargengi. Það er því mikilvægt að einhver einn samhæfingaraðili fylgi eftir framkvæmd þessarar heilbrigðisstefnu og hafi til þessa framkvæmdavald og fjármagn. Hvaða titil sú manneskja hefur skiptir kannski ekki máli mætti vera skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneyti, umboðsmaður aldraðra eða ráðherra aldraðra. Það sem mestu varðar er að viðkomandi hafi fullt umboð ráðherra og ríkisstjónar til að stuðla að breytingum. Það að koma á varanlegum breytingum á svo margþættu og rótgrónu kerfi sem öldrunarþjónustan er krefst fjármagns, styrkrar stjórnar, hæfileika til að leiða saman ólík sjónarmið og þrautsegju til að fylgja eftir framgangi verkefna til lengri tíma.

Í drögunum er fjallað um rafræn samskipti, fjarþjónustu og skráningu. Þetta er verkefni sem mikilvægt er að vinna meira í. Þó má benda á að íslenskt heilbrigðiskerfi er að mörgu leyti betur búið rafrænum lausnum en víða í Evrópu eða Norður Ameríku. Þennan þátt verður þó að þróa betur, samþætta og tryggja að kerfi tali saman. Það hlýtur að teljast lykil atriði í samþættingu og samvinnu þeirra fagstétta og heilbrigðisstofnan sem veita öldruðum þjónustu. Upplýsingar í sjúkraskrá þurfa að vera aðgengilegar fagfólki sem vinnur með einstaklingnum sama undir hvaða kerfi eða stofnun upplýsingarnar eru skráðar. Þetta er afar mikilvægt til að tryggja öryggi einstaklingsins og er vinnusparandi fyrir fagfólk og stuðlar að því að hægt er að veita samfelldari og betri þjónustu. Samhliða þessu þarf einnig að þróa fjarþjónustu með öruggum hætti við einstaklinga og fjölskyldur. Það sem hægt er að gera með fjarþjónustu sparar bæði einstaklingnum ferðalög og tíma, sparar vinnutíma fagaðila og kostnað við þjónustu. Fjarþjónusta tryggir líka betri þjónustu til þeirra sem búa afskekkt eða úti á landsbyggðunum. Þetta er verkefni sem brýnt er að hefja sem fyrst.

Í drögunum er fjallað um teymi en rannsóknir sýna einmitt að með teymisvinnu er hægt að veita betri þjónustu til aldraðra. Á undanförnum áratugum hefur nokkrum sinnum verið reynt að setja á stofn teymi til að þjónusta veika aldraða heima en eftir að tilraunaverkefni hafa staðið yfir í mislangan tíma þá hefur ekki verið hægt að koma slíkri þjónustu á laggirnar. Því er sérstaklega ánægjulegt að SELMA-teymi Heimaþjónustu Reykjavíkur gengur vel og væri æskilegt að byggja á þeirri reynslu og koma fleiri svona teymum á laggirnar.

Í drögunum er fjallað um sameiningu félagslegara heimaþjónustu og heimahjúkrunar og er það mjög brýnt verkefni sem þarf að hrinda í framkvæmd. Vel hefur tekist til með slíka samvinnu í Heimaþjónustu Reykjavíkur en þetta móde þarf að taka upp á öllu landinu. Þetta er sömuleiðis verkefni sem fjallað hefur verið um sem afar brýnt í yfir 30 ár. Það sýnir hversu vandasamt það getur verið að samþætta þjónustu og brjóta upp viðtekin vinnubrögð í öldrunarþjónustu. Þetta er verkefni sem þarf að leysa og fylgja eftir á efstu stigum stjórnsýslunnar til að það leysist farsællega og til frambúðar. Það eru til margar frásagnir um hversu erfitt það getur reynst einstaklingum sem eru í þjónustu að vera í samskiptum við tvo aðskylda þjónustuveitendur.

Enfremur ef fjallað um nýsköpun í öldrunarþjónustu í drögunum og vil ég leggja ríka áherslu á þennan þátt. Við sjáum það fyrir að samfélagið mun ekki ráða við að þjónusta aldraða með sama hætti og nú á næstu áratugum. Því er mikilvægt að starfsfólk í heilbrigðis- og félagsþjónustu vinni í samvinnu við hönnuði, verkfræðinga, arkitekta, tölvufólk og aðra fagstéttir að því að búa til nýja þjónustu. Einnig er mikilvægt að læra af því sem best er gert hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við og koma á laggir slíkri þjónustu eða tækni. Á þessu sviði væri æskilegt að samhæfingaraðilinn sem nefndur var hér á undan hefði frumkvæði að því að koma saman svona hópum fagfólks og að auglýsa styrki til nýsköpunarverkefna í öldrunarþjónustu. Samhliða svona nýsköpun er mikilvægt að verkefnum sé fylgt eftir, að þau séu fjármögnuð á eðlilegan hátt og að árangur sé rannsakaður.

Fjallað er um rannsóknar, þróunar og nýsköpunarmiðstöð í drögunum og vil ég taka undir mikilvægi slíkrar starfsemi. Eitt af því mikilvægasta sem gert er til að styðja við jákvæða þróun öflugrar heilbrigðisþjónustu eru rannsóknir á árangri. Vil ég benda á kosti þess að Rannsóknastofa Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarmálum (RHLÖ) verði lykil aðili í þessari samvinnu enda er þar til staðar mikil þekking og reynsla af rannsóknum í öldrunarfræðum. Vísa ég til sérstakra greinargerðar sem við í stjórn RHLÖ sendum inn.

Einnig vil ég benda á mikilvægi þess að styðja við samvinnu Landspítala við ýmsa aðila innan öldrunarþjónustunnar. Undanfarna áratugi hefur verið farið af stað með ýmis samvinnuverkefni á milli Landspítala og heimaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Mörg verkefni hafa lognast út af eftir stutta samvinnu en nefna má að hjartabilunarverkefni í samvinnu Landspítala og heimahjúkrunar í Reykjavík hefur gegnið vel til margar ára og er enn í fullri starfsemi. Nýjasta samvinnuverkefnið eru námskeið á vegum Landspítala fyrir hjúkrunarfræðinga í Heimahjúkrun Reykjavikur og hjúkrunarfræðinga sem starfa í heilsugæslu um allt land. Veturinn 2020 -2021 voru haldin 6 námskeið sem sótt voru af tæplega 100 hjúkrunarfræðingum. Forsaga þessara námskeiða var sú að haustið 2016 var farið af stað með sérstakt þjónustumódel á Bráðamóttöku Landspítala þar sem ráðgefandi hjúkrunarfræðingar fyrir aldraða voru í lykilstöðu, svokallaðir BÖR hjúkrunarfræðingar (Bráða Öldrunar Ráðgjöf). Líkan að slíkri þjónustu kemur frá Bandaríkjunum og Kanada og byggir á því að reyndir bráðahjúkrunarfræðingar fá sérstakt námskeið til að taka að sér hlutverk „Geriatric Emergency Management Nurse“ (GEM). Markmið þjónustunnar á Landspítala er að tryggja öruggar útskriftir af bráðamóttökunni, koma í veg fyrir ótímabærar endurkomur og innlagnir og að síðustu að gera öldruðum kleift að dvelja heima sem lengst. Þetta var þáttur í Kandísku rannsóknarverkefni ACE sem unnið var undir stjórn Dr. Samir Sinha.

Námskeiðið sem er 30 stundir, var sett upp sl. vetur fyrir heilsugæslu og heimahjúkrun byggði á þessari fyrirmynd en var aðlagað að hjúkrunarfræðingum sem starfa í heilsugæslu og heimahjúkrun. Hjúkrunarfræðingar sem lokið hafa þessu námskeiði hafa því undirbúning til að geta veitt ráðgjöf um þjónustu við aldraða. Annars vegar „Heilsugæslu Öldrunar Ráðgjöf“ og hins vegar „Heimahjúkrunar Öldrunar Ráðgjöf“ eða svokallaðir „HÖR hjúkrunarfræðingar“. Markmið námskeiðsins var að veita reyndum hjúkrunarfræðingum viðbótarþekkingu í öldrunarhjúkrun, þekkingu á öldrunarbreytingum, hrumum öldruðum, öldrunarheilkennum og samslætti sjúkdóma sem eru algengir hjá öldruðum. Enn fremur þekkingu á sértækri meðferð fyrir hruma aldraða og úrræði til að viðhalda vellíðan og sjálfstæði aldraðra. Þetta var því mikilvægur þáttur í að styðja við áform heilsugæslu á landsvísu um að setja á stofn sérstaka hjúkrunarráðgjöf á heilsugæslustöðvum fyrir aldraða. Sú þjónusta mun stuðla að heilsueflingu aldraðra, lengri búsetu á eigin heimili, auka gæði þjónustunnar til aldraðra og gefa þeim öldruðum sem eru veikastir kost á að njóta utanumhalds frá málastjóra sem er hjúkrunarfræðingur.

Annar þáttur sem ég vil leggja áherslu á er að auka framboð á dagþjálfun og skammtíma endurhæfingarplássum í stað dagvistar og hvíldarinnlagna. Með því að leggja á herslu á endurhæfingu í þessum úrræðum er stutt við heilsueflingu aldraðra og lengri búsetu á eigin heimili. Langir biðlistar hafa verið í þessi úrræði og því hafa einstaklingar neyðst til að dvelja í mun dýrari úrræðum svo sem á bráðadeildum Landspítala eða farið í varanlega dvöl á hjúkrunarheimili. Þessi úrræði stuðla að legri búsetu einstaklingsins á eigin heimili, fresta dvöl á hjúkrunarheimil og minnka álag á umönnunaraðila í fjölskyldu viðkomandi. Stefna ætti að að ekki væri lengri en viku biðtími til að komast í slíkt úrræði. Slíkt skammtímaúrræði gæti þá tekið strax á vanda sem t.d. tengist færniskerðingu sem án meðhöndlunar getur leitt til alvarlegri afleiðinga svo sem beinbrota og varanlegrar dvalar á hjúkrunarheimili. Þetta er því úrræði sem bæði eykur lífsgæði eldra fólks og er fjárhagslega hagkvæt fyrir samfélagið.

Að lokum vil ég þakka fyrir þá góðu vinnu sem þegar hefur verið lögð í þetta skjal „heilbrigðisstefna um framtíðarsýn heilbrigðisþjónustu við aldraða“ og nefna að ég hlakka til að vinna með ráðuneytinu og öðru fagfólki þessu mikilvæga málefni til heilla.

30. ágúst 2020

Dr. Ingibjörg Hjaltadóttir,

prófessor við Hjúkrunarfræðideild, Heilbrigðisvísindasviðs, Háskóli Íslands og

sérfræðingur í öldrunarhjúkrun á Meðferðarsviði Landspítala

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Reynir Arngrímsson - 30.08.2021

Meðfylgjandi í viðhengi er umsögn um drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, unnin fyrir heilbrigðisráðuneytið. Virðing og reisn. Samþætt heilbrigðis- og félagsþjónusta fyrir eldra fólk.

f.h. stjórnar Læknafélags Íslands

Reynir Arngrímsson, formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Anna L. E. Ipsen - 30.08.2021

Umsögn um ,,Virðing og reisn“, drög Halldórs Guðmundssonar.

Fundur haldinn í Öldungaráði Hrunamannahrepps 30. ágúst 2021, fagnar drögum að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, eftir Halldór S. Guðmundsson.

Sérstaklega fögnum við tillögum er lúta að möguleikum fólks til vera lengur heima með aukinni aðstoð.

Að fjárhagslegt sjálfstæði fólks sé virt með tillögum að leigu á hentugu húsnæði þar sem það er ekki fyrir hendi heima.

Að eiga þar með rétt á húsleigubótum ef þarf.

Afrita slóð á umsögn

#10 Samband íslenskra sveitarfélaga - 31.08.2021

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, ásamt fylgiskjali.

F.h. sambandsins,

Guðjón Bragason

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Eyjafjarðarsveit - 31.08.2021

Eyjafjarðarsveit fagnar því að unnið sé að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir eldri borgara. Mikill munur er á aðstöðu íbúa í hinum dreifðu byggðum og sérstaklega sé það borið saman við þéttbýli. Bendir sveitarfélagið á að í áframhaldandi vinnu um málefnið sé mjög mikilvægt að horfa til þeirrar gríðarlegu fjölbreytni sem er í búsetu á landinu öllu. Vonast er eftir því að gott samráð verði haft við sveitarfélögin þegar kemur að útfærslu þeirrar þjónustu sem þeim er ætlað að veita.

Fyrir hönd sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar

Finnur Yngvi Kristinsson

Sveitarstjóri

Afrita slóð á umsögn

#12 Ragnheiður S Einarsdóttir - 31.08.2021

Þessi skýrsla er áhugaverð og umræðan þörf.

Við yfirsjúkraþjálfarar á Landspítala fögnum umræðunni um bætta þjónusta við aldraða, heilbrigða öldrun og aldursvænt samfélag.

Það sem við viljum vekja athygli á:

Mikilvægt er að auka framboð á endurhæfingarplássum fyrir aldraða

Mikilvægt er að auka fjölbreytta dagþjónustu með þjálfun

Huga að næturvist fyrir þá sem eiga erfitt með að vera heima á nóttunni

Tryggja að ekki sé bið eftir nauðsynlegri þjónustu eins og t.d. heimasjúkraþjálfun og sjúkraþjálfun á stofu. Oft er erfitt að benda á úrræði þegar mikil bið er eftir því.

Endurhæfingarteymi hafa gefið góða raun og það gæti verið gagnlegt að fjölga þeim

Ragnheiður S Einarsdóttir yfirsjúkraþjálfari Landspítala

Helga Auður Jónsdóttir yfirsjúkraþjálfari Landakoti

Ingibjörg Magnúsdóttir yfirsjúkraþjálfari Hringbraut

Ída Braga Ómarsdóttir yfirsjúkraþjálfari Grensási

Þóra Björg Sigurþórsdóttir yfirsjúkraþjálfari Fossvogi

Afrita slóð á umsögn

#13 Reykjavíkurborg - 31.08.2021

Meðfylgjandi er umsögn Reykjavíkurborgar um drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Sálfræðingafélag Íslands - 31.08.2021

Umsögn Sálfræðingafélags Íslands um „Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða“ – Mál nr. 141/2021

Í skjalinu er bent á fjóra þætti sem ætlunin er að líta sérstaklega til við að móta stefnu fyrir heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða. Þessir þættir eru:

• Heildarskipulag í þjónustu við aldraða og samþættingu hennar og þörf fyrir breytingar

• Þverfaglegt samstarf innan heilbrigðisþjónustunnar og félagslegar þjónustu

• Nýrra áskorana og viðfangsefna til framtíðar litið

• Breytingar á framkvæmd, skipulegi eða annarra breytinga sem felast í nýsköpun og þróun hérlendis og í nágrannalöndum.

Heildarskipulag þjónustu.

Það er ljóst og kom skýrt fram á Heilbrigðisþingi 2021, sem haldið var nýverið, mikil þörf er á að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustu eldra fólks. Skýra þarf verkferla og tryggja fullnægjandi framboð á þjónustu á öllum þremur stigum heilbrigðiskerfisins. Gæta þarf þess að fyrsta og annað stig hafi burði til að draga úr þörf á þjónustu á þriðja stigi og að annað og fyrsta stig ráði við að taka á móti þeim sem koma til baka eftir þjónustu á hætta stigi. Þá verður að samþætta þjónustu ríkis og sveitarfélaga.

Heildarskipulagið varðar ekki síður verkaskiptingu fagstétta og eins og fram kom á þinginu að verulega þarf að auka faglega þekkingu þeirra sem sinna öldruðu fólki.

Sálfræðingafélag Íslands leggur áherslu á að aukin fagleg þekking sé mikilvæg til hagsbóta fyrir aldraða skjólstæðinga til að viðhalda og auka hæfni og auka lífsgæði þeirra. Sálfræðilegar greiningar og sálfræðilegt mat veita mikilvægar upplýsingar um vanda eða skerðingar en einnig um styrkleika einstaklingsins. Ráðgjöf sem byggð er á slíkum niðurstöðum er því ekki síður nauðsynleg til að auka færni sjálfstraust starfsfólks Aukin fagleg þekking á einnig að koma aðstandendum til góða með því að þeir fái sem bestar upplýsingar um ástand aldraðra ættingja og auðvelda þannig umgengi og samveru. Í þessu sambandi leggur Sálfræðingafélag Íslands sérstaka áherslu á mikilvægi þess að sálfræðiþjónusta sé aðgengileg á öllum stigum heilbrigðiskerfisins.

Þverfaglegt samstarf innan heilbrigðisþjónustunnar og félagslegar þjónustu.

Sálfræðingafélag Íslands bendir á að til þess nútíma heilbrigðisþjónusta krefst þverfaglegs samstarfs. Sú þekking sem vísindin hafa fært okkur á þessari og síðustu öld er það yfirgripsmikil til að nýta hana þarf samstarf allra fagstétta. Félagið vill benda á að til þessa hefur sálfræðileg þekking ekki verið nýtt sem skyldi í þjónustu við aldrað fólk.

Félagið vill benda á umsögn Pálma V. Jónssonar yfirlæknis, öldrunarlækningadeild Landspítala við skjalið „Virðing og reisn - drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraða“ en umsögnin var birt á vef ráðuneytisins þegar boðað var til þingsins.

Pálmi bendi á að tæpleg 10% innlagna á 75 ára fólks og eldra sé vegna aukaverkana lyfja. Vitað er að hægt er að draga úr lyfjanotkun með sálfræðilegum aðferðum til að mynda er hægt draga úr óróleika og erfiðri hegðun með aðferðum sem sálfræðingar hafa beitt og þjálfað aðra til nota við meðferð annarra hópa.

Þá nefnir Pálmi að líkamlegt og vitrænt færnitap væri algengt. Það þarf ekki að nefna að þegar vitsmunaleg færni er metin hjá öðrum aldurshópum eru sálfræðileg próf grundvallar tæki til að meta vitsmunalega færni. Það sama ætti að eiga við um alla aldurshópa.

Hér ber ekki síst að nefna að taugasálfræðilegar greiningar sem ættu að vera aðgengilegri bæði á fyrsta og öðru stigi heilbrigðisþjónustu. Tap á vitsmunalegri færni veldur einstaklingum sjálfum og aðstandendum miklum kvíða og vanlíðan. Það er því mikilvægt að greina á sem nákvæmastan hátt hvaða færni hefur tapast en ekki síður að kortleggja færni sem er minna sködduð eða ósködduð og hægt að efla.

Depurð, kvíði og einmanaleiki eru mjög algengar hjá eldra fólki og sálfræðilegar aðferðir við greiningu og meðferð þessara kvilla byggja á niðurstöðum rannsókna í áratugi og hafa skilað mjög góðum árangri. Það hefur verið margsýnt fram á að hægt er að draga úr eða hætta notkun kvíðastillandi lyfja og þunglyndislyfja með sálfræðilegri meðferð. Með því að draga úr lyfjanotkun er hægt að bæta lífsgæði og draga úr aukaverkunum og neikvæðum milli verkunum við önnur lyf.

Nýjar áskoranir.

Með aukum lífslíkum er óhjákvæmilegt að ný viðhorf og nýjar kröfur eldra fólk verða til. Gera verður kröfu um að vísindalega þekking sé nýtt með það fyrir augum að eldra fólk geti haldið svipuðum lífsstíl og það hefur haft eins lengi og hægt er. Snemmtæk ígrip geta seinkað alvarlegum veikindum og dregið úr skerðingu lífsgæða og kostnaðar bæði fyrir einstaklingana sjálfa og samfélagið. Í þessu samhengi vill félagið leggja áherslu á sálfræðilega þekkingu á sviði greininga, meðferðaleiða og síðast en ekki síst benda á mikilvægi rannsókna á sviði t.d. taugasálfræði.

Fjöldi fólks yfir 65 ára aldur mun aukast á komandi árum og þekking á þeim sjúkdómum sem fylgja elli, greiningu þeirra og meðferðarleiða, hefur aukist og á eftir að aukast á komandi árum. Til þess mæta þessum nýju áskorunum þarf samstarf allra heilbrigðisstétta.

Breytingar á framkvæmd, skipulegi eða annarra breytinga sem felast í nýsköpun og þróun hérlendis og í nágrannalöndum.

Efla þarf rannsóknir sviði öldrunarsálfræði og til þess að það geti orðið er nauðsynlegt að styðja stöðlun og aðlögun greiningartækja til notkunar hér á landi. Þetta þarf að gera í samvinnu við sálfræðideildir við íslenska háskóla.

Þá vill félagið benda á að eins og sakir standa er sálfræðiþjónusta fyrir eldra fólk nánast eingöngu á finna í sjúkrahúsum og á einkastofum þar sem þjónustan er ekki niðurgreidd. Engin slík þjónusta er á hjúkrunarheimilum og mjög takmörkuð þjónusta hjá heilsugæslu.

Sálfræðingafélag Íslands lýsir sig reiðubúið til að koma að frekari vinnu að þessum málum í samvinnu við ráðuneytið.

Fh. Sálfræðingafélags Íslands 31. ágúst 2021

Sólveig Ásgrímsdóttir Tryggvi Guðjón Ingason

Sálfræðingur Formaður Sálfræðingafélags Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Ólöf Guðný Geirsdóttir - 31.08.2021

Umsögn Matvæla- og næringarfræðideildar um stefnu um heilbrigðisþjónustu til eldrafólks

Heilbrigðisráðherra

Svandís Svavarsdóttir

www.samradsgatt.is

31. 08. 2021

Efni: Drög af stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraða – Virðing og reisn: samþætt heilbrigðis og félagsþjónusta fyrir eldra fólk.

Undirrituð fagna mikilvægri skýrslu Halldórs S Gumundssonar og tímabærri framtíðarsýn í þjónustu eldra fólks

Birt hafa verið í www.samradsgatt.is drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða með umsagnarfresti til 1. september nk. Hér á eftir fer umsögn Matvæla- og næringarfræðideildar við Heilbrigðisvísindasviðs, Háskóla Íslands.

Drög að stefnunni leggja ríka áherslu á að vinna gegn aldursfordómum, ásamt samþættingu og styrkingu á heimahjúkrun sem er vel.

Grunnþættir eins og fæðuöryggi í merkingu Matvælastofnunar Sameinuðuþjóðanna (FAO http://www.fao.org/publications/sofi/2021/en/ ) að allir hafi aðgang að nægilegum, öruggum og næringarríkum matvælum sem er grunnforsenda mannréttinda hafa ekki verið nefndir í skýrslunni. Rannsóknir síðustu áratuga hafa sýnt að vannæring aldraðra er alþjóðlegt vandamál og hafa rannsóknir á Íslandi sýnt að algengi vannæringar meðal inniliggjandi aldraðra er um 50%, tími innlagnar fram að útskrift gefur lítið svigrúm til að leiðrétta næringarástand. Auk þess sem aldraðir eru útskrifaðir heim í lélegu næringarástandi með lítil sem engin úrræði til að bæta næringarástand sitt. Enda hafa rannsóknir í heimahúsi hér á landi sýnt að ef fæðuöryggi og næringarmeðferð er tryggð hefur hinn gamli einstaklingur möguleika á að byggja sig upp eftir útskrift heim af öldrunardeild. Þetta hafa niðurstöður HOMEfood rannsókar Berglindar S Blöndal sýnt, en verkefnið hlaut verðlaun heilbrigðisráðuneytisins til efnilegs vísindamanns fyrir verkefni á sviði forvarna eða heilsueflingar fyrir verkefnið „A Randomized Controlled Trial: Nutrition Therapy and Support After Hospital Discharge in Older Adult“ (https://clinicaltrials.gov/ct2/show/NCT03995303 ) en fyrstu niðurstöður voru kynntar á Norrænu öldrunarráðstefnunni sem haldin var hér á landi í ár (https://www.25nkg.is/program-overview ) sýna að einstaklingar útskrifaðir af öldrunardeildum LSH án næringarmeðferðar og ekki tryggt fæðuöryggi missa andlega- og líkamlega færni, lífsgæði eru minni og eru frekar daprir og kvíðnir. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að vannæring aldraðra er einn helsti áhættuþáttur sýkinga, byltna og endurkoma á sjúkrahús og ekki megi horfa á vannæringu út frá líkamsþyngd einstaklingsins. , Endurhæfing eftir brot eða alvarleg veikindi án þess að tryggja gott næringarástand skilar litlum sem engum árangri hjá öldruðum. ,

Rannsóknir á hvernig hægt er að koma í vegfyrir vannæringu og reyndar að ná árangri í allri umönnun aldraðra hafa sýnt fram á mikilvægi þverfræðilegrar samvinnu allra sem koma að umönnun og þjónustu við aldraða.

Áhugavert er að þegar skoðuð er skýrsla WHO um Áratug heilbrigðrar öldrunar https://www.who.int/initiatives/decade-of-healthy-ageing er mikil áhersla lögð á að unnið sé með rannsóknir og gögn til að styrkja allar aðgerðir á hverju svæði á þessu tæpir skýrslan afar létt á. Sjálfbærni verkefna byggjast á að greina, aðlaga hugmyndafræði að aðstæðum og innleiðing aðgerða með „copy-paste“ aðferðafræði hafa yfirleitt lifað stutt og kostað ekki aðeins fjármagn heldur líka trú fagfólks og annarra á að hægt sé að breyta aðstæðum. Þegar nýtt verklag er tekið upp þarf að byggja íhlutandi aðgerðir á þekkingu á þeirri stöðu sem er til staðar, forgangsatriðum sem þarf að gera og vera með aðgerðarplan sem byggist á raunþekkingu á aðstæðum.

Matvæla- og næringarfræðideild tekur undir athugasemdir Heilbrigðisvísindasviðs og hvetur til þess að við stefnumótun um betri heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða verði horft til þeirrar raunþekkingar á aðstæðum sem við höfum nú þegar, byggjum allar aðgerðir á ígrunduðum aðgerðum þar sem þverfræðilegt samstarf allra og gagnvirkt endurmat á íhlutandi aðgerðum, tryggir bestu mögulegu þjónustu við hinn aldraða á hverjum tíma.

Fh Matvæla- og næringarfræðideildar

Ólöf Guðný Geirsdóttir

Varadeildarforseti M&N deildar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Anna Guðbjörg Gunnarsdóttir - 31.08.2021

Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða

Samráðsgátt ágúst 2021

Mál nr 141/2021

Umsögn stjórnar fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga hjá Fíh

Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða eftir Halldór S. Guðmundsson er umfangsmikil og vel unnin stöðugreining og framtíðarstefna í málefnum hrumra og veikra aldraðra. Kveður hér við nýjan tón sem er áhugaverður og mikilvægur til að árangur náist, þar sem áhersla er á virðingu, breytingar á viðhorfum til aldraðra og þjónustu til þeirra og ýtt undir aldursvænt samfélag. Ennfremur er hér hvatt til að nú þegar verði hafinn undirbúningur að útfærslu á nýju greiðslufyrirkomulagi til hjúkrunarheimila og heimaþjónustu sem leggi grunn að réttmætri þjónustu við aldraða þar sem virkni, þátttaka, styrkleikar og gæði verði í öndvegi.

Fagdeildin tekur undir þær áherslur stefnunnar sem lagðar eru á að stórefla heimaþjónustu, dag- og endurhæfingarþjónustu, einföldun á skipulagi þjónustunnar og stofnun réttindagæslumanns / umsjónarmanns fyrir aldraða einstaklinga og jafnvel ráðuneyti öldrunarmála. Ekki verður hér í smáatriðum farið yfir drögin heldur frekar lögð áhersla á að draga frama þau atriði sem fagdeildin telur að standi uppúr þegar drögin eru metin og samræmast hugmyndum sem komið hafa fram síðustu misseri og þróast í umræðum og reynsluheimi fagaðila og jafnvel hefur verið sýnt fram á að ýti undir árangur í heilbrigðisþjónustu til aldraðra. Mikilvægast er að sýna raunsæi í allri þjónustu við aldraða; þjónustustig og sérhæfing þjónustu, fjöldi þeirra einstaklinga sem þurfa þjónustu og aðgengi að þjónustu og upplýsingum. Því má ekki efla einn þjónustuþátt á kostnað annars, heldur verður samþætting að taka mið af raunverulegri þörf hverju sinni. Með því að styðja með réttmætum hætti við alla þjónustuþætti eru mun meiri líkur á að vel takist til.

Fagdeild öldrunarhjúkrunarfræðinga mun sannarlega taka boltann og leggja sitt af mörkum í því stóra samtali og samvinnu sem er framundan við að efla og byggja enn frekar gæðaþjónstu öllum í hag.

Áhersla fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga er einkum á:

Samþættingu þjónustu – fella niður hindranir í flæði milli þjónustustiga

Eflingu heimaþjónustu – fjölbreytt og samþætt þjónusta; umönnun, næring, hreyfing, félagsleg

Aukna fagþjónustu í heimahús – læknis-, hjúkrunar,- endurhæfingarþjónusta,

Þjálfun almennra starfsmanna í heimaþjónustu og á hjúkrunarheimilum er geysilega mikilvæg – fagmenntuðu starfsfólki verður að fjölga

Gott aðgengi starfsmanna öldrunarþjónustu að ráðgjafaþjónustu öldrunarlækna og sérfræðinga í öldrunarhjúkrun

Réttindagæsluaðila / umsjónaraðila / e. “nurse navigator” t.d. í tengslum við HÖR hjúkrunarfræðinga í heilsugæslu

Stórbætt aðgengi að almennri og sérhæfðri dagþjálfun og markvissri dagdvöl þar sem áhersla er á virkni og forvarnir.

Þjónustukjörnum með fjölbreyttri þjónustu á ýmsum þjónustustigum verði fjölgað og hrumir aldraðir studdir til búsetu í viðeigandi húsnæði í þjónustuíbúðum eða sambýlum til að auka möguleika á búsetu heima.

Aðgerðaáætlun um þjónustu við einstaklinga með heilabilun verði markvisst fylgt eftir

Til að mæta þeirri umfram þjónustuþörf sem er uppi og mikil umræða hefur verið um síðustu misseri telur fagdeild öldrunarhjúkrunarfræðinga mikilvægt að ráðast sem fyrst í þau verkefni sem aðgengilegust eru til að auka við / bæta þjónustu. Efla þarf þá þjónustu sem nú þegar er til staðar og hefur sannað gildi sitt, s.s. almenn og sérhæfð dagþjálfun, sérstök endurhæfing í dagþjálfun sem og skammtímainnlagnir í endurhæfingu fyrir mjög hruma aldraða, BÖR hjúkrunarfræðinga, HÖR hjúkrunarfræðinga, SELMA í heimahjúkrun Reykjavíkur, búseta í þjónustuíbúðakjörnum.

Fagdeild öldrunarhjúkrunarfræðinga leggur til að ganga sem fyrst í að:

Samþætta þjónustu – heimahjúkrun / félagsleg heimaþjónusta / heimsendur matur / endurhæfing í heimahúsum / dagþjálfun / heilsugæsla / sjúkrahús / félagsþjónusta o.fl. - góð yfirsýn á einum stað fyrir hvern einstakling hjá umsjónaraðila / HÖR hjúkrunarfræðingum. Virk samtöl og flæði upplýsinga milli þjónustuaðila og sameiginleg ákvarðanataka. Efla þarf vitund okkar allra um sameiginlega ábyrgð allra aðila á þjónustuveitingu, ráðgjöf og stuðningi milli aðila og kerfa.

Fjölga viðeigandi vitjunum í heimaþjónustu til hrumra aldraðra sem eiga kost á að vera lengur heima með auknum stuðningi. Sérstök áhersla á þá allra hrumustu og seinka eða koma í veg fyrir innskrift á sjúkrahús eða hjúkrunarheimili. Hér er um að ræða sérhæfða hjúkrun, endurhæfingu og almenna heimaþjónustu.

Efla enn frekar stuðning heima með skjávitjunum og símtölum. Markviss þjónusta getur leitt til aukins öryggis og létt á öðrum þáttum þjónustunnar.

Tryggja aðgang heimaþjónustu / heimahjúkrunar / dagþjónustu að heilsugæslulæknum viðkomandi skjólstæðinga til ráðgjafar, upplýsinga og vegna læknismeðferðar. Mikilvægt vegna t.d. bráðra breytinga á heilsufari s.s. sýkinga, verkja, sérhæfðra lyfjagjafa o.fl.

Fjölga plássum í dagdvöl og dagþjálfun strax og minnka biðtíma verulega. Líklega ein besta breyting til árangurs sem hægt er að ganga í strax.

Auka sveigjanleika í opnunartíma dagdvala og dagþjálfana. Margir aldraðir eru árrisulir en ansi margir eru líka mjög morgunsvæfir og myndi t.d. henta mun betur að mæta eftir hádegið og fá kvöldmat fyrir heimferð síðdegis.

Auka heilbrigðisþjónustu og – eftirlit í dagdvöl og dagþjálfunum með aukinni aðkomu hjúkrunarfræðinga / sjúkraliða. Slíkt getur létt á heimaþjónustunni sem getur þá nýtt betur tíma fyrir þá sem ekki geta nýtt sér dagdvöl /-þjálfun. Góð reynsla er af því að hafa hjúkrunarfræðinga við störf í dagþjálfun. Hægt að veita heildrænni þjónustu og bregðast fyrr við einkennum heilsufarsbreytinga eða breytinga á líðan, fylgja eftir lyfjagjöfum, hafa eftirlit með virkni meðferðar o.fl. Dagþjálfun með virkri hjúkrunarþjónustu er framlenging á heilsugæslu og hefur ríkt forvarna- og eftirfylgdargildi. Sérstaklega mikilvægt í sérhæfðri dagþjálfun fyrir einstaklinga með heilabilun.

Styrkja heilsueflandi móttökur fyrir aldraða sem byrjað er að innleiða í heilsugæslu sem og heilsueflandi heimsóknir.

Bæta umsjón með heilsufarsmálum og upplýsingagjöf til aldraðra og aðstandenda, HÖR hjúkrunarfræðingar heilsugæslu hafi svigrúm til heildrænnar nálgunar og upplýsingagjafar og verði eins konar réttargæsluaðili / umsjónaraðili aldraðra á þeirri heilsugæslustöð. Nálgun svipuð og í ungbarnaeftirliti / skólahjúkrun. Mikið og virkt samband við heimaþjónustu og dagþjónustu. Stuðningur og hvatning væri hér á báða bóga og myndi stórefla utanumhald á þörfum og þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Fjölskyldufundir þurfa að verða markviss þáttur í þjónustunni.

Auka þarf stuðning við fjölskyldur og umönnunaraðila hrumra aldraðra með ýmiss konar færniskerðingu. Mikilvægt er að meta umönnunarbyrði og veita viðeigandi upplýsingar um ráðgjöf og stuðning.

Fagdeild öldrunarhjúkrunarfræðinga leggur ennfremur til að sem fyrst verði hafin vinna við að:

Stofna miðlægt ráðgjafateymi sérfræðinga í öldrunarlækningum og öldrunarhjúkrun fyrir þjónustuveitendur utan sjúkrahúsa; s.s. heimaþjónustu, hjúkrunarheimili, dagþjálfun líkt og þekkist með hjartabilunargöngudeild, sáramiðstöð o.fl. sérgreinar á sjúkrahúsum. Heimaþjónusta vinnur nú þegar í góðu samstarfi með sérhæfðum göngudeildum og hefur sú vinna skilað sér í bættri og öruggari meðferð, skilvirkum snemmbærum inngripum og þar með betri líðan þar sem mun ólíklegra er að einstaklingar þurfi að leita til bráðaþjónustu sjúkrahúsanna eftir meðferð þegar í óefni er komið.

Koma á fót miðlægri þjónustumiðstöð um öldrunarmál, sem aldraðir og fjölskyldur þeirra geta leitað til. Rafrænar aðgengilegar upplýsingar um heilsu og líðan eldri borgara og þjónustuúrræði gætu t.d. verið sem fræðslusíða á Heilsuveru. Með því yrði stuðlað að því að aldraðir og fjölskyldur þeirra ættu auðveldara með að nálgast réttmæta þjónustu sem gæti dregið úr vanmáttarkennd og óöryggi og ýtt undir sjálfsbjörg og eflingu.

Koma á fót miðlægri, formlegri grunnfræðslu til starfsmanna í umönnunarþjónustu í samstarfi opinberra aðila og annarra rekstraraðila. Efla þarf þekkingu á ýmsum þáttum öldrunar og færniskerðingar, sérstaklega heilabilunarsjúkdómum. Með samstarfi í fræðslumálum væri hægt að vinna að bættum skilningi á sérstöðu þjónustu við hruma aldraða, auka hæfni og færni starfsmanna til lengri tíma og ýta undir starfsánægju. Bónus ef vel tekst til væri minni starfsmannavelta í geiranum, bætt þjónusta og betri nýting mannafla.

Samræma skráningar- og matskerfi að fullu þ.a. samræmdar upplýsingar liggi fyrir hjá öllum þjónustuveitendum. Tengja upplýsingasöfnun milli kerfa; s.s. í RAI og Sögu sjúkraskrá.

Endurskipuleggja greiðslukerfi og greiðsluþátttökukerfi hjúkrunarheimila. Aðgreina heilbrigðisþjónustu frá búsetuþjónustu og heimilisrekstri.

Innleiða InterRAI og safna markvisst mælanlegum upplýsingum á öllum þjónustustigum og -vettvangi til að mæta þjónustuþörf með réttmætum og samræmdum hætti.

Leggja áherslu á persónumiðað mat. Meta og skrá með markvissum hætti mat fólks á eigin heilsu og aðstæðum sem og væntingar þess til þjónustu. Ef stefna á að persónumiðaðri þjónustu er mikilvægt að leiðin sé vörðuð óskum og væntingum þjónustuþegans eins lengi og þær falla innan ramma mögulegrar þjónustu. Þjónustan má aldrei stjórnast af kerfinu, kerfið verður að stjórnast af þjónustuþörfum einstaklinganna. Einstaklingar með sams konar heilsufar og félagslegar aðstæður geta tekist með gjörólíkum hætti á við aðstæður sínar. Með persónumiðuðu mati eru líkur á betri árangri af þjónustunni og minni sóun.

Persónumiðuð nálgun

Þar sem persónumiðuð nálgun og þjónusta er grundvallaratriði í stefnumótun þjónustu við aldraða þarf að skilgreina kjarnaþætti slíkrar nálgunar og koma skýrar inn á heilbrigðis og félagsþjónustu en gert er. Vitnað er í skilgreiningu Kitson frá 1998 í stefnudrögunum sem fagdeild öldrunarhjúkrunarfræðinga telur of almenna.

Koma þarf fram að í persónumiðaðri nálgun felst virða og nálgast fólk sem persónur sem eru einstakar á sinn hátt og út frá heildrænni sýn þar sem heilsufarsástand og aðstæður eru metnar bæði út frá sálfélagslegu og líkamlegu sjónarhorni. Leitast er við að skilja gildismat, reynslu og sýn fólks á heilbrigðisástand og aðstæður, óskir, ákvarðanir og væntingar til þjónustunnar. Aðrir mikilvægir þættir persónumiðaðrar nálgunar eru að mynda tengsl við einstaklinga, sem hefur meðferðargildi, líta á þá sem sérfræðinga í sínu ástandi, horfa á styrkleika þeirra, deila með þeim valdi og ábyrgð og leggja áherslu á þátttöku þeirra og hjálpa þeim að takast á við erfiðleika i daglegu lífi í stað þess að horfa aðeins á sjúkdóminn eða fötlunina. Samþætt og heildræn þjónusta sem mjög vel er komið inn á í stefnudrögunum er mikilvægur þáttur persónumiðaðrar nálgunar en kjarnaþættir persónumiðrar nálgunar þurfa að koma skýrar fram. Hér má ennfremur ekki binda sig við ákveðnar þjónustustefnur sem settar hafa verið fram og hafa skírskotun til ákveðinna samfélagsbundinna aðstæðna t.d. Mikilvægt er einmitt að aðlaga persónumiðaða nálgun að aðstæðum á hverjum stað og tíma óháð ákveðinni þjónustustefnu.

Heimildir um persónumiðaða nálgun:

Kogan, A. C., Wilber, K. Og Mosqueda, L. (2016). Person‐centered care for older adults with chronic conditions

and functional impairment: A systematic literature review. Journal of the American Geriatrics Society, 64(1)

Leplege, A., Gzil, F., Cammelli, M., Lefeve, C., Pachoud, B. og Ville, I. (2007).

Person-centredness: Conceptual and historical perspectives. Disability and Rehabilitation, 29(20-21), 1555-1565.

McCormack, B. og McCance, T. (2016). The person-centred practice framework. In B. McCormack, & T. McCance (Eds.), Person-centred practice in nursing and health care (pp. 36–66). West Sussex, UK: John Wiley & Sons Ltd.

Thórarinsdóttir, K. og Kristjánsson, K. (2014). Patients’ perspectives on person-centred participation in healthcare: a framework analysis. Nursing Ethics,21(2), 129-147.

Líknandi nálgun

Fagdeild öldrunarhjúkrunarfræðinga bendir sérstaklega á mikilvægi þess að beina sjónum markvisst að hrumasta hópnum sem þarf á mestri þjónustu að halda, skipuleggja þétt og áreiðanlegt utanumhald í samstarfi allra þjónustuveitenda til að fækka bráðainnlögnum og seinka þörf fyrir hjúkrunarrými og um leið auka gæði fyrir þjónustuþegana.

Sammælast þarf um þá staðreynd að líknarþjónusta er mjög stór hluti heilbrigðisþjónustu við aldraða, sérstaklega á hjúkrunarheimilum en einnig í heimahjúkrun og heilsugæslu. Bæta þarf verulega við þekkingu og þjálfun í líknarþjónustu við hruma aldraða sem vilja dvelja og jafnvel deyja heima. Ennfremur þarf að efla líknarhjúkrun og -umönnun á hjúkrunarheimilum til að veita fjölveikum íbúum þar réttmæta meðferð allt til lífsloka. Hér þarf að koma til grundvallarbreyting í mönnunarviðmiðum og tryggja þjálfun og færni til að hægt sé að mæta þessum þörfum nú þegar og í framtíðinni.

Með góðum kveðjum og þökkum fyrir ágæt stefnudrög og framlag til öldrunarþjónustunnar.

Stjórn fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga hjá Fíh í ágúst 2021.

Anna Guðbjörg Gunnarsdóttir

Elínborg Jóna Ólafsdóttir

Eva Björg Guðmundsdóttir

Hlíf Guðmundsdóttir

Íris Dögg Guðjónsdóttir

Kristín Þórarinsdóttir

Kristín María Þórðardóttir

Afrita slóð á umsögn

#17 Sólveig Ása Árnadóttir - 31.08.2021

Efni: Umsögn um drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða til ársins 2030 sem var unnin fyrir heilbrigðisráðuneytið. Yfirskrift draganna er „Virðing og reisn: Samþætt heilbrigðis- og félagsþjónusta fyrir eldra fólk.“

Höfundar: Undirritaðir höfundar eru sjúkraþjálfarar með framhaldsmenntun á sviði öldrunarsjúkraþjálfunar og öldrunarfræða. Við tengjumst öldrunarþjónustu í gegnum störf okkar við háskólakennslu, rannsóknir og heimasjúkraþjálfun.

Umsögn og efni í sarpinn – fyrir næstu skref (sjá viðhengi)

Dr. Sólveig Ása Árnadóttir, prófessor í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands og sérfræðingur í öldrunarsjúkraþjálfun

Dr. Steinunn A. Ólafsdóttir, lektor í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands, öldrunarfræðingur

Guðfinna Björnsdóttir, MSc sérfræðingur í öldrunarsjúkraþjálfun og verkefnisstjóri klínísks náms í sjúkraþjálfun við HÍ.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Berglind Indriðadóttir - 31.08.2021

Í viðhengi umsögn frá Farsælli öldrun - Þekkingarmiðstöð:

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#19 Unnur Pétursdóttir - 31.08.2021

Meðfylgjandi er umsögn Félags sjúkraþjálfara.

Fh. stjórnar Félags sjúkraþjálfara

Unnur Pétursdóttir

Formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#20 Fríða Rún Þórðardóttir - 01.09.2021

Efni: Umsögn um drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða til ársins 2030 sem var unnin fyrir heilbrigðisráðuneytið. Yfirskrift draganna er „Virðing og reisn: Samþætt heilbrigðis- og félagsþjónusta fyrir eldra fólk.“

Höfundur er næringarráðgjafi

Fríða Rún Þórðardóttir

Afrita slóð á umsögn

#21 Nanna Guðný Sigurðardóttir - 01.09.2021

Hér í viðhengi er umsögn Hrafnistu vegna stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Sveitarfélagið Hornafjörður - 01.09.2021

Meðfylgjandi er umsögn Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#23 Edda Dröfn Daníelsdóttir - 01.09.2021

Meðfylgjandi er umsögn um drög að stefnu í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 Sæunn Gísladóttir - 01.09.2021

Frá Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands

Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands (HVS, HÍ) vekur athygli á umsögnum frá fræðafólki og samtökum og þá sérlega frá fagfólki deilda sviðsins m.a. Pálma V Jónssyni lækni, Kristínu Björnsdóttir og Ingibjörgu Hjaltadóttur o.fl. hjúkrunarfræðingum, Ólöfu Guðnýju Geirsdóttur næringarfræðingi, Sólveigu Ásu Árnadóttur o.fl. sjúkraþjálfurum, Ellenu Flosadóttur tannlækni og fleirum. HVS, HÍ hvetur til þess að við áætlanir um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða verði horft til þeirrar raunþekkingar á aðstæðum sem við höfum nú þegar, byggjum allar aðgerðir á ígrunduðum aðgerðum þar sem þverfræðilegt samstarf allra og gagnvirkt endurmat á íhlutandi aðgerðum tryggir bestu mögulegu þjónustu við hinn aldraða á hverjum tíma. Nauðsynlegt er að undirstrika mikilvægi þverfaglegs samstarfs að málefnum aldraðra og þess að fresta og hindra lífsstílssjúkdóma með virkum forvörnum, en hvorutveggja sparar almannafé sem unnt væri að nota til hágæða rannsókna, ásamt betri aðhlynningu og þjónustu við þá sem þurfa. Ástæða er til að nefna þann vanda sem margir eldri einstaklingar búa við vegna fjöllyfjanotkunar, en HVS, HÍ, benti einnig á þetta í athugasemdum við Lýðheilsustefnu. Vannýtt þekking í þágu heilsu aldraðra liggur meðal lyfjafræðinga, sjúkraþjálfara, næringarfræðinga, tannlækna eða tannfræðinga, og sálfræðinga, sem stutt geta læknisfræðilega meðferð og hjúkrun. HVS HÍ telur því nauðsynlegt að efla aðkomu þessara fagstétta og þverfræðilegt samstarf í rannsóknum og í þjónustu við aldraða.

Virðingarfyllst

Inga Þórsdóttir sviðsforseti HVS, HÍ

Afrita slóð á umsögn

#25 Árni Guðmundsson - 01.09.2021

Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða

Mál nr. 141/2021

Því miður fór það fram hjá mér að þessi drög væru komin í samráðsgátt. Umsögn af þeim sökum mun styttri en ella hefði verið.

Félagsleg virkni, áhugamál og tómstundir hafa í för með sér mikil lífsgæði jafnvel þó þau séu orðin takmörkuð að öðru leyti. Í óbirtri grein „36 tómstundaævisögur“, sem byggir á viðtölum sem nemendur úr námskeiðinu Tómstundir og aldraðir í Háskóla Íslands (MVS) tóku við einstaklinga sem allir eru yfir 70 ára, kom í ljós að virkar tómstundir, áhugamál hafa í för með sér verulega mikil lífsgæði. Tómstundir og áhugamál þróast og taka breytingum í gegnum árin og í raun er aldur enginn hindrun. Það er hægt að aðlaga iðkun einstaklinga eftir getu hvers og því hægt leggja stund á tómstundir út allt lífið þó svo að hjúkrun og umönnun verði veigameiri með hækkandi aldri eða heilsufari viðkomandi.

Aldraðir er ekki einn hópur og því er mikilvægt að beina ekki stefnunni að mestu leyti að elsta þriðjung þessa hóps. Í heilbrigðsstefnu, m.a. út frá lýðheilsusjónarmiðum, þurfa því að koma fram tillögur um aðgerðir til að auka virkni alls þessa hóps ekki síst þeirra sem sökum mikillar vinnu í gegnum árin hafa ekki sinnt þessum hluta tilverunnar sem og að auka virkni þeirra sem hafa ekki að neinu að hverfa þegar að hið svokallaða þriðja skeið ævinnar tekur við. Innan tómstundafræðinnar eru fjölmörg verkfæri og aðferðir til þess að takast á við þennan vanda. Hér í þessari stuttu umsögn er ekki ráðrúm til þess að fara dýpra í þau mál en nauðsynlegt er að gera þeim viðunandi skil og marka stefnu á því sviði í því plaggi sem hér er til umfjöllunar.

Virðingarfyllst

Árni Guðmundsson

Tómstunda- og félagsmálafræðingur

Afrita slóð á umsögn

#26 Ellen Flosadóttir - 01.09.2021

Umsögn Tannlæknadeildar HÍ um “Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða”.

Þegar hugað er að heilbrigðisstefnu fyrir aldraða er mikilvægt að tekið sé tillit til tannheilsu þessara einstaklinga.

Vegna aukinnar vitundarvakningar um tannheilsu seinustu áratugi hafa sífellt fleiri aldraðir einstaklingar haldið eigin tönnum. Einnig er stór hópur aldraðra með tannplanta þar sem ein eða fleiri tennur hafa tapast og bera þessir tannplantar misflókin tanngervi, ýmist föst eða laus.

Með hækkandi aldri eiga margir hverjir erfiðara með að halda tönnum og tanngervum hreinum og þurfa aðstoð við það eins og aðrar athafnir daglegs lífs. Mikilvægt er að viðhalda tannheilsu aldraðra einstaklinga til að auðvelda þeim að nærast og viðhalda lífsgæðum sínum og reisn.

Tannfræðingar (dental hygienists) er starfsstétt sem er sérhæfð varðandi hreinsun tanna og tanngerva og viðhalda þannig tannheilsu einstaklinga. Fáir tannfræðingar eru starfandi á Íslandi. Þeir eru allir menntaðir erlendis þar sem námið er ekki í boði hérlendis.

Til að hægt sé að sinna þessari þjónustu þurfa tannfræðingar að vera starfandi inni á heimilum/stofnunum þar sem aldraðir vistast. Á þessum stofnunum þarf að vera til staðar tannlæknastóll sem tannfræðingur getur notað til að sinna þessum einstaklingum reglulega.

Ef tannlæknir þarf að koma að meðferð þessara einstaklinga þá væri hægt að sinna þeirri meðferð innan stofnunarinnar sé tannlæknastóll til staðar í stað þess að þurfa að flytja sjúklinga frá stofnuninni til meðferðar.

Til þess að af þessu getur orðið þarf að hefja nám fyrir tannfræðinga á Íslandi.

F.h. Tannlæknadeildar Háskóla Íslands

Ellen Flosadóttir deildarforseti Tannlæknadeildar

Afrita slóð á umsögn

#27 Steinunn Jóhanna Bergmann - 01.09.2021

Meðfylgjandi er umsögn Félagsráðgjafafélags Íslands við Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir

aldraða.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#28 Reykjavíkurborg - 01.09.2021

Meðfylgjandi er umsögn velferðarráðs Reykjavíkurborgar um drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#29 Alþýðusamband Íslands - 01.09.2021

Viðhengd er umsögn Alþýðusambandsins.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#30 Sigurjón Norberg Kjærnested - 01.09.2021

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu um málið.

Fyrir hönd samtakanna,

Sigurjón Norberg Kjærnested, framkvæmdastjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#31 Rannveig Ernudóttir - 01.09.2021

Undirrituð voru ekki vör við að þau drög sem hér um ræðir væru komin inn á samráðsgátt fyrr en stuttu áður en umsóknarfresti lauk og því ber umsögn okkar merki þess að vera unnin á skömmum tíma.

Í drögum að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða er margt afar gott að finna og ekki annað hægt en að gleðjast yfir þeirri vinnu sem þar liggur að baki sem og að fyllast tilhlökkun yfir þeirri sýn sem gæti orðið.

Þar sem margt gott og mikilvægt hefur þegar komið fram í drögunum, sem bæði fær mikið vægi, sem og jákvæðar undirtektir, og á sama tíma uppbyggilega gagnrýni, þá teljum við best að vinda okkur beint að því sem við viljum bæta við.

Hér á eftir munum við því beina sjónum að faglegu félagsstarfi, en það er mat okkar sem þessa umsögn ritum að ekki sé nóg um það fjallað í drögunum og vonum við að með umsögn okkar fái félagsstarf meira vægi í lokavinnunni.

Ekki fór s.s. mikið fyrir umræðum um félagsstarf yfir höfuð á heilbrigðisþinginu né höfum við rekist á það í drögunum að neinu viti, og þykir okkur það miður. Það loðir því miður við félagsstarf fullorðinna að það sé talið vera afgangsstærð sem skipti ekki eins miklu máli í hinu daglega lífi eins og annað. Enda, hvað er þetta allt saman? Eru þetta ekki bara kellingar að sitja og prjóna og kallar að tálga? Þarf starfsfólk með því?

Við töldum þó að það væri meiri skilningur á mikilvægi þess eftir alla reynsluna síðustu 18 mánuðina, þar sem félagsstarfið var oft mjög skert eða hreinlega lokað vegna heimsfaraldurs. Allt í einu rataði mikilvægi félagsstarfs inn á öll heimili í gegnum fréttatímann, þegar miklar áhyggjur voru af einmanna eldri borgurum víða um land. Það skal tekið fram að starfsfólk á mörgum félagsmiðstöðvum lagði sig þó fram eins og unnt var, að bjóða upp á þó ekki nema örlitla starfsemi. Allt í einu dúkkuðu upp rafrænir viðburðir á borð við stólaleikfimi, rafrænan upplestur og samsöngu, jafnvel bingó, svo dæmi séu tekin. En það dugði ekki til, því nú finnum við okkur knúin til að árétta þetta hér enn frekar.

Þó kom Dr. Samir Sinha inn á mikilvægi félagsstarfs í sínu erindi, þegar hann fjallaði um Older Adult Center, sem við teljum að best sé að þýða sem félagsmiðstöðvar. Slíkar stöðvar þurfi að vera aðgengilegar útfrá m.a. samgönguháttum og eru hentugar sem verkfæri til þess að styrkja félagslegt net fólks, og til að takast á við einmanaleika og einangrun. Þar geti fólk komið saman og sótt ókeypis námskeið (t.d.í byltuvörnum, tannheilsu, næringu, hreyfingu o.s.frv.) og sótt heilsurækt (t.d. dansleikfimi, kínversk leikfimi, æfingatæki o.s.frv.) sem hentar þeim sérstaklega, sem og verið á námskeiðum sem stuðla að og viðhalda vitsmunalegum þroska og getu, eins og hinar ýmsu hannyrðir og listir, bókaklúbbar, videoklúbbar, söguhópar, ljósmyndahópar, galdranámskeið (sem einnig felur í sér kynslóðablöndun), folf, o.s.frv.

Hvers vegna er faglegt félagsstarf mikilvægt og hvað er faglegt félagsstarf?

Faglegt félagsstarf felur í sér að það sem er í boði feli í sér ákveðinn tilgang og jafnvel markmið, það stuðlar að því að þátttakendur bæti og/eða viðhaldi ákveðinni getu sem og að veita þeim hversdagslega lífshamingju. Faglegt félagsstarf stuðlar að auknum lífsgæðum, það valdeflir einstaklinginn og ýtir undir sjálfstæði hans. Því öflugra sem starfið er því líklegra er að það sé líka sett saman af góðum hópi sjálfboðaliða. Þó skal hafa í huga að sjálfbært félagsstarf sem eigi að vera rekið af sjálfboðaliðum er ekki góður grunnur. Sjálfboðaliðastarf er mikilvægt, fyrir starfsemina sem og einstaklinginn, en það þarf alltaf að vera sterkt og faglegt utanumhald um það. Það er ákveðin ábyrgð fólgin í því að bjóða upp á félagsstarf og hún verður að byggja á faglegum grunni.

Fyrir marga er það skref að hætta vinna erfið tilhugsun og því er mikilvægt að fólk undirbúi þau tímamóti vel og íhugi hvað skuli taka við þegar þátttöku þeirra á vinnumarkaði lýkur. Flestir vilja hafa ákveðinn tilgang í lífinu, hafa hlutverk og eitthvað að gera. Þegar við höfum ekkert að gera ýtir það undir hrörnun, bæði líkamlega, sem og andlega eða vitsmunalega. Eitt af því sem gott er að gera á þessum tímamótum er að annað hvort taka núverandi áhugamál upp á annað stig, eða hreinlega tileinka sér ný áhugamál. Við lærum alla ævi og þroskumst alla ævi, eins og Cícero bendir á í riti sínu Um ellina. Því er margt sem hægt er að öðlast og sækja sér, ef gott aðgengi er að góðu félagsstarfi.

Meðal þess sem einkennir gott félagsstarf er t.d. kynslóðablöndun. Kynslóðablöndun er fyrir mörgum ekki sérlega þekkt hugtak en hún gengur útá það að tengja saman kynslóðirnar og reynslu þeirra og lífsævi, því lærdómur gengur þar á milli, séu samskiptin heilbrigð og eðlileg. Samvera ungra barna við eldra fólk, ömmur og afa, langömmur og langafa, hefur jákvæð áhrif á þroska þeirra. Á sama tíma hefur samvera eldra fólks með börnum jákvæð áhrif á líðan þeirra. Hér hafa báðar kynslóðirnar ekki bara gaman af því að vera saman, heldur er félagslegur og andlegur ávinningur af slíkri samveru fyrir þau. Annað gott dæmi um jákvæð áhrif af kynslóðablöndun er reynsla undirritaðra af verkefni sem hefur verið í gangi síðustu tvö sumur, (2020 og 2021), hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Tæknilæsi fyrir fullorðna. Það verkefni gengur út á að ungmenni kenni fullorðnum að nota snjalltæki á borð við spjaldtölvur og snjallsíma auk þess sem þátttakendur fá að kynnast öðrum sniðugum möguleikum sem tæknin hefur upp á að bjóða, eins og sýndarveruleikagleraugu, eða VR tæki. Ekki bara lærði fólkið að nota þessi verkfæri og tæki, heldur urðu oft til dásamleg samtöl á milli þessara kynslóða, enda er heilmikil reynsla af lífinu, sem og sögu, til staðar hjá eldri kynslóðum, reynsla sem nauðsynlegt er að varðveita en á það til að gleymast.

Þátttaka í félagsstarfi á öllum aldursskeiðum er jafn mikilvæg og næring og hreyfing, og veitir orku og vellíðan. Því vonum við að umsögn okkar verði tekin til greina þegar stefnan verður fullunnin og félagsstarf fái þar raunverulegt vægi.

Höfundar eru tómstunda- og félagsmálafræðingar með góða reynslu af félagsstarfi fullorðinna.

Gísli Felix Ragnarsson

Rannveig Ernudóttir

Afrita slóð á umsögn

#32 Katrín Guðmundsdóttir - 01.09.2021

Umsögn: Drög af stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraða – Virðing og reisn: samþætt heilbrigðis og félagsþjónusta fyrir eldra fólk.

Tannlæknafélag Íslands fagnar skýrslu Halldórs S. Guðmundssonar og framtíðarsýn um þjónustu við aldraðra. Ekki er fjallað sérstaklega um tannheilsu og tannlæknaþjónustu í skýrslunni en mikilvægt er að gera þeim málaflokki hærra undir höfði í umræðu um samþættingu og heildarskipulag í þjónustu við aldraða.

Við teljum nauðsynlegt að efla þverfaglegt samstarf innan heilbrigðisstéttarinnar og að upplýsingar séu aðgengilegar milli fagaðila. Slæm tannheilsa getur verið rótin að öðrum vandamálum.

Vorið 2018 skilaði vinnuhópur sem skipaður var af heilbrigðisráðherra niðurstöðum um tannheilsu elli- og örorkulífeyrisþega. Í framhaldi af skýrslunni var unninn mikill áfangasigur þegar samið var um greiðsluþátttöku SÍ í tannlækningum aldraðra og öryrkja. Samningurinn tók gildi í ágúst 2018 og var greiðsluþátttaka SÍ 50% en verður 75% innan fárra ára.

Hinsvegar hefur lítið verið unnið í lið 3. í forgangsröðun þ.e. Veita þeim þjónustu sem búa heima, hjúkrunarheimilum og sambýlum.

Við vísum í meðfylgjandi skýrslu vinnuhópsins og óskum eftir að litið verði til liða j-q við áframhaldandi vinnu við stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraða.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#33 Þóra Leósdóttir - 02.09.2021

Meðfylgjandi er umsögn Iðjuþjálfafélags Íslands um drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#34 Reykjavíkurborg - 10.09.2021

Meðfylgjandi er umsögn öldungaráðs Reykjavíkurborgar um drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, mál nr. 141/2021.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#35 Öryrkjabandalag Íslands - 10.09.2021

Meðfylgjandi er umsögn ÖBÍ

Viðhengi