Samráð fyrirhugað 16.08.2021—30.08.2021
Til umsagnar 16.08.2021—30.08.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 30.08.2021
Niðurstöður birtar 22.11.2021

Ferli umsókna um þáttöku Íslands í samtökum um evrópska rannsónarinnviði

Mál nr. 155/2021 Birt: 16.08.2021 Síðast uppfært: 22.11.2021
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar

Niðurstöður birtar

Niðurstöður í máli nr. 155/2021 í Samráðsgátt stjórnvalda
Reglugerðardrögin voru birt 16.08.2021 í samráðsgáttinni og kallað eftir umsóknum til 30.08.2021. Tvær umsagnir bárust um reglugerðardrögin, frá Háskóla Íslands og Hagstofu Íslands. Háskóli Íslands fagnar ferli umsókna um þátttöku Íslands í ERIC-samtökum um evrópska rannsóknarinnviði, og leggur áherslu á mikilvægi þess að aðgangur sé að öflugum alþjóðlegum rannsóknarinnviðum fyrir háskóla og rannsóknastofnanir. Hagstofa Íslands tekur undir mikilvægi samvinnu evrópskra rannsóknastofnana og miðlun þekkingar á milli alþjóðlegra stofnana.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 16.08.2021–30.08.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 22.11.2021.

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnir til umsagnar drög að reglugerð um feril umsókna um þátttöku Íslands í samtökum um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC). Reglugerðin er sett með stoð í 5. gr. laga nr. 66/2019 um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC).

Mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnir til umsagna drög að reglugerð um feril umsókna um þátttöku Íslands í samtökum um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC). Reglugerðin er sett með stoð í 5. gr. laga nr. 66/2019 um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC). Samtök um evrópska rannsóknarinnviði (e. European Research Infrastructure Consortium, ERIC) er samstarfsform um rekstur á umfangsmiklum og kostnaðarsömum rannsóknarinnviðum í Evrópu, en aðilar að ERIC-samtökum eru ríki ESB og EFTA. Samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) eru stofnuð um rannsóknarinnviði sem eru af þeirri stærðargráðu að ekkert eitt ríki hefur bolmagn til þess að reka þá. Þær kröfur eru gerðar til ERIC rannsóknarinnviða að þeir séu nauðsynlegir við framkvæmd evrópskra rannsóknaráætlana, styrki evrópska rannsóknasvæðið (e. European Research Area, ERA), styrki viðkomandi fræðasvið faglega og tæknilega á alþjóðlegan mælikvarða, séu opnir vísindamönnum frá ESB og tengdum ríkjum, hvetji til hreyfanleika vísindamanna og þekkingar innan evrópska rannsóknasvæðisins og stuðli að miðlun og nýtingu niðurstaðna og tækniframfara.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Hagstofa Íslands - 19.08.2021

Hagstofan Íslands telur að aðgengi rannsóknasamfélagsins að evrópskum rannsóknarinnviðum sé lykilatriði í að framfylgja stefnu Vísinda- og tækniráðs um uppbyggingu rannsóknarinnviða . Í stefnunni er talið nauðsynlegt að mæta áskorunum sem snerta heimsbyggðina með auknu alþjóðlegu samstarfi um nýsköpun. Einn liður í því er að efla samvinnu evrópskra rannsóknastofnana og miðlun þekkingar milli alþjóðlegra stofnanna. Þátttaka Íslands í uppbyggingu evrópskra rannsóknarinnviða og aðgengi íslenskra rannsóknarstofnanna að þeim þarf að byggjast á markvissri stefnu um alþjóðlegt samstarf sem styður við uppbyggingu íslenskra rannsóknarinnviða og íslenskar rannsóknir, beint og óbeint. Þátttaka Íslands í ESS ERIC er gott dæmi um slíkt. Þar fæst aðgengi að samevrópskum rannsóknarinnviðum, bæði að gögnum og notkun þeirra fyrir greiningu á íslensku samfélagi, auk þjálfunar íslenskra fræðimanna í notkun gagnanna. Einnig má benda á að þátttaka Íslands í alþjóðlegum rannsóknarinnviðum eykur þekkingu á innviðunum sjálfum, uppsetningu þeirra og rekstri. Slík þekking styður vel við uppbyggingu íslenskra rannsóknarinnviða. Þá er mikilvægt að fjármögunarleiðir til þátttöku í evrópskum rannsóknarinnviðum verði tryggðar til lengri tíma, enda mörg þeirra rannsóknarverkefna sem byggjast á evrópskum rannsóknarinnviðum gerðar til margra ára, ef ekki áratuga (eins og ESS ERIC). Til að viðhalda fjármögnun til lengri tíma er mikilvægt að árangur af þátttöku Íslands í evrópskum rannsóknarinnviðum sé metinn reglulega og niðurstöður gerðar opinberar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Háskóli Íslands - 30.08.2021

Ferill umsókna um þátttöku Íslands í samtökum um evrópska rannsóknarinnviði

Mál nr. 155/2021

Umsögn Háskóla Íslands

Háskóli Íslands fagnar reglugerð um feril umsókna um þátttöku í ERIC-samtökum. Aðgangur að öflugum alþjóðlegum rannsóknainnviðum er einstaklega mikilvægur fyrir Háskóla Íslands, aðra háskóla og rannsóknastofnanir á Íslandi og fyrir þátttöku þessara stofnana í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi. Aðild Íslands að ERIC-samtökum hefur verið mikilvægur þáttur í mjög mörgum rannsóknaverkefnum innan Háskólans. Það er því mikilvægt að ferli fyrir umsóknir um þátttöku í ERIC-samtökum sé gagnsætt og skilvirkt en rannsóknarstofnanir þurfa að geta brugðist hratt við breyttu rannsóknaumhverfi á alþjóðavísu og hafa tækifæri til að mæta nýjum áskorunum sem snerta heimsbyggðina. Það er því mikilvægt að við mat stjórnar Innviðasjóðs sé ekki eingöngu horft til rannsóknainnviða sem hafa fengið sess á vegvísi Vísinda- og tækniráðs um rannsóknainnviði sem er í gildi á hverjum tíma, heldur sé horft til þess að þátttaka í ERIC-samtökum sé leið til að skapa og viðhalda öflugu vistkerfi nýsköpunar og rannsókna á Íslandi. Þá er einnig mikilvægt að stofnanir sem hafa gert samning við ráðuneyti um þátttöku í ERIC-samtökum séu þátttakendur í að meta hvort aðild sé haldið áfram eftir að samningi um þátttöku lýkur þannig að ákvörðun um að slíta aðild að ERIC-samtökum sé tekin að undangengnu mati á árangri og í samráði við þátttökustofnun.

Rannsóknir Háskóla Íslands sem nýta rannsóknainnviði ERIC-samtaka eru langtímarannsóknir og því nauðsynlegt að fjármögnun við þátttöku í ERIC-samtökum auk uppbyggingar og reksturs nauðsynlegra innviða sé tryggð til langs tíma, hvort sem er með styrkveitingu Innviðasjóðs eða með öðrum leiðum. Í reglugerðinni er óljóst hvaða tenging er á milli styrkveitinga úr Innviðasjóði vegna þátttöku í ERIC-samtökum við mat á umsóknum og þátttöku í ERIC-samtökum.