Samráð fyrirhugað 27.08.2021—10.09.2021
Til umsagnar 27.08.2021—10.09.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 10.09.2021
Niðurstöður birtar 07.09.2022

Drög að reglugerð um (11.) breytingu á byggingarreglugerð nr. 112/2012

Mál nr. 163/2021 Birt: 27.08.2021 Síðast uppfært: 07.09.2022
  • Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Húsnæðis- og skipulagsmál
  • Sveitarfélög og byggðamál
  • Umhverfismál

Niðurstöður birtar

Reglugerðin var birt í B-deild Stjórnartíðinda og tók gildi 26. nóvember 2021. Hún er nr. 1321/2021.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 27.08.2021–10.09.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 07.09.2022.

Málsefni

Kynnt er til umsagnar drög að reglugerð um (11.) breytingu á byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Reglugerðardrög þessi eru byggð á tillögu starfshóps sem félags- og barnamálaráðherra skipaði í mars 2021 í kjölfar gildistöku laga nr. 134/2020 til breytinga á lögum um mannvirki nr. 160/2010, til að vinna drög að reglugerð um flokkun mannvirkja.

Starfshópurinn var skipaður fulltrúum frá félagsmálaráðuneytinu, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun auk helstu hagsmunaaðila á sviði mannvirkjagerðar og var breið samstaða innan hópsins um þær tillögur sem lagðar eru fram til ráðherra. Við vinnu starfshópsins var horft til framkvæmdar á Norðurlöndum auk þess sem ábendingar í skýrslu OECD um samkeppnismat á regluverki íslensks byggingariðnaðar voru hafðar til hliðsjónar. Starfshópnum var ætlað að hafa það markmið að leiðarljósi að skýra betur stjórnsýslu í mannvirkjamálum og gera umsóknarferlið skilvirkara með flokkun mannvirkja. Jafnframt að kröfur um efni og form umsókna verði aðlagað að hverjum flokki fyrir sig og leitast við að gera eftirlit með hönnun og framkvæmd markvissara.

Í reglugerðardrögunum er lagt til að mannvirki verði flokkuð í þrjá umfangsflokka byggða á meginreglu sem ákvarðast af flækjustigi hönnunar, samfélagslegu mikilvægi, hættu á manntjóni og fyrirhugaðri notkun mannvirkisins. Til frekari skýringar eru lagðar til frávíkjanlegar viðmiðunarreglur auk þess skal Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefa út leiðbeiningar um flokkun mannvirkja. Í umfangsflokk 1 falla m.a. geymsluhúsnæði, landbúnaðarbyggingar, frístundahús, sæluhús, stakstæðir bílskúrar, gestahús, skálar og viðbyggingar við þegar byggð mannvirki. Í umfangsflokk 2 falla m.a. íbúðarhúsnæði og gistiheimili, atvinnuhúsnæði, iðnaðarhúsnæði og bílastæðahús. Þá falla í umfangsflokk 3 m.a. verslunarmiðstöðvar, skólar, íþrótta- og menningarmannvirki, stærri veitur, virkjanir og lokaðar stofnanir svo sem sjúkrahús, dvalar- og hjúkrunarheimili, lögreglustöðvar og fangelsi.

Þá er lagt til það nýmæli að leyfisveitandi geti veitt byggingarheimild fyrir mannvirkjagerð sem fellur í umfangsflokk 1, í stað byggingarleyfis. Tillagan felur í sér einföldun þegar kemur að minniháttar mannvirkjagerð. Þá er lagt til að breyta uppsetningu, skýra betur og einfalda ákvæði um minniháttar mannvirkjagerð sem er undanþegin tilkynningarskyldu, byggingarheimild og -leyfi. Jafnframt er lagt til að tilkynningarskyld mannvirkjagerð sé í sérákvæði til að bæta úr þeim túlkunarörðugleikum sem hafa verið í framkvæmd. Að auki eru ýmis ákvæði reglugerðarinnar endurskoðuð og uppfærð m.t.t. fyrirhugaðra breytinga.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Samband íslenskra sveitarfélaga - 10.09.2021

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um reglugerðardrögin.

F.h. sambandsins,

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Árni Jón Sigfússon - 10.09.2021

Til að minnka opinbert eftirlit og leggja í þess stað meiri áherslu á innra eftirlit þeirra sem

ábyrgð bera á byggingarframkvæmdum telur undirritaður að mikilvægt skref í þá átt

væri að fella úr gildi kröfu um að leyfisveitandi fari yfir séruppdrætti af byggingum í

umfangsflokki 2. Réttast væri að kröfur væru sambærilegar við umfangsflokk 1, þ.e. að

skylt verði að skila séruppdráttum til leyfisveitanda áður en lokaúttekt fer fram.

Árni Jón SIgfússon

Afrita slóð á umsögn

#3 Davíð Sigurðsson - 10.09.2021

Meðfylgjandi er umsögn byggingarfulltrúa umhverfis og tæknisvið uppsvetia vegna reglugerðabreytingar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Bartosz Krzysztof Skrzypkowski - 10.09.2021

Umsögn byggingarfulltrúa sveitarfélagsins Hornafjarðar vegna reglugerðar um (11.) breytingu á byggingarreglugerð nr. 112-2012.pdf

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Haraldur Birgir Haraldsson - 10.09.2021

Í grein 1.3.2 í drögum að breytingu undir texta sem skilgreinir umfangsflokk1 eru mannvirki þar sem t.d. fólk hefur ekki fasta búsetu. Í þeim lista eru gestahús og frístundahús. Raunin er sú að fólk hefur oft á tíðum fasta búsetu í gesta- og frístundahúsum þó að viðkomandi eigi ekki skráð lögheimili í þeim. Það liggur fyrir að merking og tilgangur er ljós en orðalag er afar óskýrt sérstaklega ef átt er við frístundahús og einnig að talað er um viðbyggingar við þegar byggð mannvirki. Það er ljóst að íbúðarhús falla ekki undir umfangsflokk1 en í upptalningunni ætti að koma inn í sviga fyrir aftan viðbyggingar við þegar byggð mannvirki, (önnur en til íbúðarnota).

Í grein 9 í drögum að breytingu segir að umsókn um byggingarheimild skuli vera skrifleg. Þessi krafa er merkileg að því leyti að stefnt er að því að allt umsóknarferli framkvæmdaraðila, allar afgreiðslur og utanumhald leyfisveitenda, miðast að því að verða rafrænt á allan hátt. Þetta tel ég vera heilmikla afturför á þessum tímapunkti.

Í 20. grein í drögum að breytingu segir að leyfisveitandi skuli móttaka hönnunargögn vegna tilkynningaskyldra framvkæmda "ef þau sýna" á fullnægjandi hátt að skipulagsskilmálar séu uppfylltir. Á fjölmörgum stöðum, sem sérstaklega gætu átt við slíkar framkvæmdir, liggur ekki fyrir deiliskipulag og hefur aldrei legið fyrir. Hvernig á þá hönnuður að geta sýnt fram á að framkvæmdin sé í samræmi við skipulag? Er þá orðin til þvingun eða krafa á sveitarfélagið að ganga frá skipulagi fyrir viðkomandi svæði?

Í 23. grein í drögum að breytingu segir að byggingarstjóri skuli tilkynna um lok áfangaúttekta í gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hér er sem sagt búið að útiloka þann möguleika að leyfisveitendur fái beina tilvísun í lok úttektarskyldra verkþátta. Til að halda utan um skilmála leyfisins og halda utan um úttektir á framkvæmdum sem leyfisveitandi heldur utan um þurfa leyfisveitendur því að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum og sækja viðkomandi úttektir í hvert skipti í gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þetta verklag hefur aldrei gengið og mun aldrei ganga upp að mínu mati og í ljósi fyrri reynslu. Allar úttektir byggingarstjóra eiga fyrst og fremst að berast beint til leyfisveitanda sem síðan kemur þeim í gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hvaða leið verði notuð til slíkrar afhendingar á betur eftir að skilgreina. Það er fáránlegt að leyfisveitandi skuli einungis fá tilkynningu um áformaðar úttektir en sitja svo eftir án úttektarinnar sjálfrar.

Að auki vil ég benda á að úr því verið er að ráðast í breytingar á reglugerðinni er ámælisvert að ekki skuli tekið á leyfum og skilgreiningum á svokölluðum aðstöðuhúsum, kofum eða skálum sem óskað er eftir að nota á meðan byggingu sumarhúsa stendur svo dæmi sé tekið. Hvergi kemur fram í reglugerð að heimilt sé að veita tímabundið leyfi til slíkra mannvirkja, heldur er eingöngu tekið á smíði sumarhúsanna sjálfra og stöðuleyfi til slíks.

Jafnframt er það óskiljanlegt að ekki skuli vera beðið eftir að lagaramminn svari þvi sem breyta þarf til þess að þurfa ekki að tvítaka breytingar strax að lokinni breytingu á viðeigandi lagaramma.

Afrita slóð á umsögn

#6 Samtök iðnaðarins - 10.09.2021

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Minjastofnun Íslands - 20.09.2021

Meðfylgjandi er umsögn Minjastofnunar Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Skipulagsstofnun - 20.09.2021

[Meðfylgjandi umsögn birt á vef samráðsgáttar af hálfu ráðuneytisins þar sem umsögnin barst eftir lok umsagnarfrests.]

Heil og sæl

Þar sem umsagnarfrestur í samráðsgáttinni er liðinn er þessi tölvupóstur frá Skipulagsstofnun sendur.

 10. gr. draganna

 Í þessari grein er fjallað um skilyrði fyrir veitingu byggingarheimildar.  Eitt af skilyrðunum er að mannvirki og notkun þess eða breytingar á mannvirki samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Síðan segir svo:

 „eða fyrir liggur samþykkt sveitarstjórnar vegna leyfisumsóknar skv. ákvæðum skipulagslaga.“

 

 Skipulagsstofnun bendir á að hin tilvitnuðu orð koma  fram í núgildandi gr. 2.4.4 í byggingareglugerð en þá í tengslum við skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis.  Samkvæmt 1. gr. draganna er byggingarheimild skrifleg heimild leyfisveitanda til að byggja hús eða önnur mannvirki, breyta þeim eða notkun þeirra, útliti eða formi ef framkvæmd fellur undir umfangsflokk 1 ( minni mannvirkjagerð). Heimildin felur í sér staðfestingu aðaluppdrátta og heimild til að hefja framkvæmdina að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar og laga um mannvirki.  Með hliðsjón af þessari skilgreiningu virðist það ekki eiga við að hafa hin tilvitnuðu orð, enda taka þau til leyfisumsóknar.

Ef Skipulagsstofnun er að leggja rangan skilning í hin tilvitnuðu orð, er því beint til ráðuneytisins að skýra betur út hvað átt er við með hinum tilvitnuðu orðum.

 Með kærri kveðju,

Ottó.

Afrita slóð á umsögn

#9 Reykjavíkurborg - 20.09.2021

Meðfylgjandi er umsögn frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Viðhengi