Samráð fyrirhugað 07.09.2021—05.10.2021
Til umsagnar 07.09.2021—05.10.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 05.10.2021
Niðurstöður birtar

Verðmætamat kvennastarfa, tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa

Mál nr. 173/2021 Birt: 07.09.2021 Síðast uppfært: 16.09.2021
  • Forsætisráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 07.09.2021–05.10.2021. Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Starfshópur forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa leggur fram til opins samráðs skýrslu með tillögum að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði.

Verkefni starfshóps um endurmat kvennastarfa samkvæmt skipunarbréfi og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 13. mars 2020 var að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Rannsóknir hafa sýnt fram á að kynskiptur vinnumarkaður er meginorsök kynbundins launamunar.

Árið 1958 fullgilti Ísland samþykkt Alþjóðavinnumálstofnunarinnar (ILO) sem kveður m.a. á um að greiða skuli konum og körlum jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Árið 1973 voru sett lög um jafnlaunaráð sem tiltaka að konum og körlum skulu greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og að öðru leyti sambærileg störf. Jafnlaunaákvæði núgildandi jafnréttislaga kveður á um að: Konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Alþjóðleg þróun og dómaframkvæmd hvað þetta ákvæði varðar eru á þann veg að telja verður nokkra kerfislæga áhættu fyrir ríkissjóði að framfylgja því ekki.

Dregið hefur úr launamun á undangengnum árum m.a. fyrir tilstuðlan aðgerða á borð við innleiðingu á starfsmati hjá sveitarfélögum og kröfum um jafnlaunavottun. Þessi tæki eru hins vegar ekki fullnægjandi til þess að leiðrétta launamun sem stafar af kynbundinni skiptingu vinnumarkaðar sem skýrir að miklu leyti þann launamun sem enn er til staðar. Til að mynda einskorðast jafnlaunastaðall við kennitölu atvinnurekanda sem takmarkar möguleika á að draga úr launamun sem er tilkominn vegna kynskipts vinnumarkaðar þar sem konur og karlar starfa í mismunandi störfum í mismunandi atvinnugreinum. Forsenda þess að unnt sé að leiðrétta þennan mun er að hægt sé að meta heildstætt virði ólíkra starfa.

Lagðar eru fram til umsagnar eftirfarandi tillögur að aðgerðum sem miða að því að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði með það að markmiði að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta.

Tillögur:

Stofnaður verði aðgerðahópur stjórnvalda um launajafnrétti með aðild aðila vinnumarkaðarins sem hafi m.a. eftirfarandi hlutverk:

• Greina vandann. Koma á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa til að greina hvaða þættir það eru sem einkenna kvennastörf og kunna að vera vanmetnir.

• Þróa verkfæri. Samhliða greiningu verði þróuð verkfæri sem fangi jafnvirðisnálgun laganna og styðji við þau verkfæri sem þegar eru til staðar. Er þeim ætlað að aðstoða atvinnurekendur við að uppfylla lagaskilyrði um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf.

• Þróa samningaleið um jafnlaunakröfur með aðilum vinnumarkaðarins. Þar verði m.a. horft til þess hvaða áhrif breytingar á ráðningasamböndum og útvistun starfa hafa á launamun kynjanna.

• Auka þekkingu og vitund um jafnvirðisnálgun jafnréttislaga m.a. með fræðslu, ráðgjöf og auknu samtali.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.