Samráð fyrirhugað 07.09.2021—05.10.2021
Til umsagnar 07.09.2021—05.10.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 05.10.2021
Niðurstöður birtar 14.08.2023

Verðmætamat kvennastarfa, tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa

Mál nr. 173/2021 Birt: 07.09.2021 Síðast uppfært: 14.08.2023
  • Forsætisráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Verkefni hópsins fluttist yfir til aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði sem var skipaður í ársbyrjun 2022 og er áætlað að aðgerðarhópurinn skili tillögum fyrir árslok 2023.
Markmið aðgerðahóps er að vinna að framkvæmd tillagna að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Tillögurnar sem unnið er með byggja meðal annars á niðurstöðum starfshóps um endurmat kvennastarfa sem skipaður var af forsætisráðherra 1. desember 2020 og voru lagðar til í skýrslu um verðmætamat kvennastarfa.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 07.09.2021–05.10.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 14.08.2023.

Málsefni

Starfshópur forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa leggur fram til opins samráðs skýrslu með tillögum að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði.

Verkefni starfshóps um endurmat kvennastarfa samkvæmt skipunarbréfi og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 13. mars 2020 var að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Rannsóknir hafa sýnt fram á að kynskiptur vinnumarkaður er meginorsök kynbundins launamunar.

Árið 1958 fullgilti Ísland samþykkt Alþjóðavinnumálstofnunarinnar (ILO) sem kveður m.a. á um að greiða skuli konum og körlum jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Árið 1973 voru sett lög um jafnlaunaráð sem tiltaka að konum og körlum skulu greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og að öðru leyti sambærileg störf. Jafnlaunaákvæði núgildandi jafnréttislaga kveður á um að: Konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Alþjóðleg þróun og dómaframkvæmd hvað þetta ákvæði varðar eru á þann veg að telja verður nokkra kerfislæga áhættu fyrir ríkissjóði að framfylgja því ekki.

Dregið hefur úr launamun á undangengnum árum m.a. fyrir tilstuðlan aðgerða á borð við innleiðingu á starfsmati hjá sveitarfélögum og kröfum um jafnlaunavottun. Þessi tæki eru hins vegar ekki fullnægjandi til þess að leiðrétta launamun sem stafar af kynbundinni skiptingu vinnumarkaðar sem skýrir að miklu leyti þann launamun sem enn er til staðar. Til að mynda einskorðast jafnlaunastaðall við kennitölu atvinnurekanda sem takmarkar möguleika á að draga úr launamun sem er tilkominn vegna kynskipts vinnumarkaðar þar sem konur og karlar starfa í mismunandi störfum í mismunandi atvinnugreinum. Forsenda þess að unnt sé að leiðrétta þennan mun er að hægt sé að meta heildstætt virði ólíkra starfa.

Lagðar eru fram til umsagnar eftirfarandi tillögur að aðgerðum sem miða að því að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði með það að markmiði að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta.

Tillögur:

Stofnaður verði aðgerðahópur stjórnvalda um launajafnrétti með aðild aðila vinnumarkaðarins sem hafi m.a. eftirfarandi hlutverk:

• Greina vandann. Koma á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa til að greina hvaða þættir það eru sem einkenna kvennastörf og kunna að vera vanmetnir.

• Þróa verkfæri. Samhliða greiningu verði þróuð verkfæri sem fangi jafnvirðisnálgun laganna og styðji við þau verkfæri sem þegar eru til staðar. Er þeim ætlað að aðstoða atvinnurekendur við að uppfylla lagaskilyrði um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf.

• Þróa samningaleið um jafnlaunakröfur með aðilum vinnumarkaðarins. Þar verði m.a. horft til þess hvaða áhrif breytingar á ráðningasamböndum og útvistun starfa hafa á launamun kynjanna.

• Auka þekkingu og vitund um jafnvirðisnálgun jafnréttislaga m.a. með fræðslu, ráðgjöf og auknu samtali.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Katrín Ólafsdóttir - 30.09.2021

Alþingi samþykkti árið 1961 lög um launajöfnuð kvenna og karla. Laun kvenna skyldu hækka í áföngum til jafns við laun karla fyrir sömu störf í almennri verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu og verslunar- og skrifstofuvinnu, fyrst með hækkun um 1/6 launamismunarins og síðan árlega þar til fullum launajöfnuði væri náð árið 1967. Ríflega hálfri öld síðar hefur launajafnrétti ekki enn náðst.

Launamunur kynjanna hefur vissulega farið minnkandi. Frá 2008-2019 lækkaði óleiðréttur launamunur úr 20,5% í 13,9% og leiðréttur launamunur fór úr 6,4% í 4,3% samkvæmt nýútgefinni launarannsókn Hagstofunnar.

Stórt skref í átt að launajafnrétti var stigið þegar jafnlaunavottun var innleidd. Helsti kostur vottunarinnar er að ábyrgð er lögð á vinnuveitendur að greiða starfsfólki sínu eftir því sem það raunverulega leggur fram á sínum vinnustað. En á sama tíma tekur jafnlaunavottunin eingöngu til sama vinnustaðar og tryggir því ekki jöfn laun á milli fyrirtækja eða á milli atvinnugreina. Í rannsókn Hagstofunnar kemur fram að stærsta ástæða launamunar kynjanna er að konur og karlar starfa í mismunandi atvinnugreinum og gegna mismunandi störfum innan þeirra. Með öðrum orðum er kynbundinn vinnumarkaður meginorsök kynbundins launamunar.

Af framangreindu virðist nokkuð ljóst að launajafnrétti næst seint eða aldrei ef ekkert er að gert. Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að eitt af því sem heldur aftur af þróuninni er ómeðvitaður bjagi (e. unconcious bias). Ósjálfrátt metum við karla og konur á mismunandi máta þótt upplýsingarnar sem við höfum í höndunum gefi okkur ekkert tilefni til þess. Ósjálfrátt teljum við karlinn betri en konuna, þótt upplýsingarnar sem við höfum séu nákvæmlega þær sömu. Ástæðan fyrir þessum mun liggur djúpt í hefðum, venjum og menningu okkar.

Til að þess að útrýma launamisrétti þarf því annað tveggja að útrýma ómeðvituðum bjaga, eða leita leiða til að meta störf á hlutlausan hátt. Einmitt sú aðferð er lögð til í skýrslunni Verðmætamat kvennastarfa sem inniheldur tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.

Í skýrslunni Verðmætamat kvennastarfa er lagt til að komið verði á fót aðgerðahópi stjórnvalda um launajafnrétti sem hafi það hlutverk meðal annars að greina vandann með því að koma á fót tilraunaverkefni um mat á virði starfa til að greina hvaða þættir það eru sem einkenna kvennastörf og og kunna að vera vanmetnir. Samhliða þessari greiningu yrðu þróuð verkfæri til að aðstoða atvinnurekendur við að uppfylla lagaskilyrði um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf.

Þá verði þróuð samningaleið að Nýsjálenskri fyrirmynd um jafnlaunakröfur. Samningaleiðin verði þróuð með aðilum vinnumarkaðarins og horft til áhrifa breytinga á ráðningasamböndum og útvistun starfa á launamun kynjanna. Jafnframt verði aukin þekking og vitund um jafnvirðisnálgun jafnréttislaga með fræðslu og ráðgjöf.

Með því að framfylgja tillögum starfshópsins getur Ísland enn einu sinni sest á fremsta bekk þeirra ríkja sem fremst standa í jafnréttismálum. Ég styð því tillögur nefndarinnar og mæli eindregið með því að þær nái fram að ganga.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Reykjavíkurborg - 04.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn Reykjavíkurborgar um skýrslu og tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa nr. 173/2021

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Finnborg Salome Steinþórsdóttir - 04.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn félagsins Femínísk fjármál um skýrslu starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa og tillögum að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Þóra Leósdóttir - 04.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn Iðjuþjálfafélags Íslands um skýrslu starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Steinunn Jóhanna Bergmann - 04.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn Félagsráðgjafafélags Íslands vegna máls nr. 173/2021 Verðmætamat kvennastarfa, tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Þroskaþjálfafélag Íslands - 04.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn Þroskaþjálfafélags Íslands vegna máls nr. 173/2021 Verðmætamat kvennastarfa, tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu - 04.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu vegna máls nr. 173/2021 Verðmætamat kvennastarfa, tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa og tillögum að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Guðbjörn Arngrímsson - 04.10.2021

Frá Starfsmannafélagi Fjallabyggðar

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Lúðvík Júlíusson - 04.10.2021

Samantekt:

Núgildandi kerfi, lagasetningar og framkvæmd, byggir á tærum hugmyndum feðraveldisins um skyldur foreldra, að mæður séu umönnunaraðilar en feður séu fyrirvinnur. Þetta er andstætt jafnréttislögum. Þess vegna er nauðsynlegt að breyta kerfunum án tafar og skipuleggja kerfi sem byggir á hugmyndum um jafnrétti og jafna stöðu kynjanna. Kerfi sem byggir á úreltum og neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kynjanna hefur ekki tilverurétt.

Fyrirvinnur(sem felstir eru karlar) þurfa hærra kaup en umönnunaraðilar(sem flestir eru konur). Þannig er kerfið byggt upp. Fólk sem styður óbreytt fyrirkomulag stuðnings vegna barna er einfaldlega að segja að konur séu minna virði en karlar og viðhalda þar með neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kynjanna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Félag Lífeindafræðinga-FL - 04.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn Félags lífeindafræðinga vegna máls nr. 173/2021 Verðmætamat kvennastarfa, tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Marta Ólöf Jónsdóttir - 05.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn Starfsmannafélag Kópavogs vegna máls nr. 173/2021 Verðmætamat kvennastarfa, tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa og tillögum að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Þorgerður Jennýjardóttir Einarsdóttir - 05.10.2021

Námsbraut í kynjafræði fagnar skýrslu um verðmætamat kvennastarfa sem nú er til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Launajafnrétti hefur verið eitt helsta áherslumál kvenfrelsisbaráttunnar allt frá því að konur hófu að stunda launaða vinnu utan heimilis. Þrátt fyrir lagasetningar og aðgerðir er jafnrétti á vinnumarkaði hvergi nærri náð. Lagalegar umbætur á þessu sviði ná að minnsta kosti aftur til ársins 1919 þegar kveðið var á um launajafnrétti meðal barnakennara. Áratugum síðar, eða 1945, var launajafnrétti meðal ríkisstarfsmanna lögfest, og 1961 voru fyrstu heildstæðu lögin um launajöfnuð sett. Frá upphafi árið 1975 hafa jafnréttislögin innihaldið ákvæði um bann við mismunun í launum. Þá hefur verið gripið verið til margvíslegra aðgerða sem þokað hafa málum í rétta átt. Má þar nefna kynhlutlaust starfsmat sem hefur átt talsverðu fylgi að fagna síðan um miðjan 10. áratuginn. Það hefur þó þann ókost að taka bara til grunnlauna en kynbundinn launamunur verður síst til þar og miklu frekar í yfirborgunum, viðbótargreiðslum og bónusum. Kæruleiðin sem innleidd var með kærunefnd jafnréttismála 1991 var framfaraskref en er þungt og erfitt ferli sem einstaklingsgerir það flókna kerfislæga vandamálið sem launamunurinn er. Sama gildir um feðrakvóta í fæðingarorlofstöku sem margir töldu að myndi útrýma aðstöðu- og launamun kynjanna á vinnumarkaði. Þær umbætur hafa skilað mjög miklu í jafnréttisátt og ekki síst varðandi foreldrajafnrétti, en ekki þeirri kynjajöfnun á vinnumarkaði sem margir vonuðu. Enn má nefna að með jafnréttislögunum 2008 var leitast við að aflétta launaleynd en það úrræði var á einstaklingsgrundvelli og skilaði sem slíkt ekki því sem vonast var til. Nýjasta úrræði stjórnvalda er lögbinding jafnlaunavottunar. Jafnlaunavottunin eykur tvímælalaust meðvitund og þekkingu atvinnurekenda á launamyndun en hefur takmarkanir, svo sem að miðast eingöngu við laun innan hvers vinnustaðar, og horfa þar með fram hjá kynjaskiptingu vinnumarkaðarins. Þetta stutta yfirlit sýnir að engin ein töfralausn er til því launamunurinn er flókið viðfangsefni sem nálgast þarf úr mörgum áttum. Heilmikið er þó vitað um tilurð kynbundins launamunar og rannsóknir sýna að stærsti áhrifavaldurinn þar er kynjaskipting vinnumarkaðarins. Karlar og konur vinna einfaldlega ekki sömu störf, og þau störf þar sem karlar eru í meirihluta eru talin meira virði en hefðbundin kvennastörf. Sú breyting varð á jafnréttislögum 2021 að ákvæðið um jöfn laun og jöfn kjör kynjanna takmarkast ekki lengur við „sama atvinnurekanda“ eins og áður var. Í því ljósi er skýrsla starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa sérlega mikilvæg og tímabær. Hún gefur möguleika á að taka stórt skref fram á við með því að ráðast í aðgerðir sem snerta kynjaskiptingu vinnumarkaðarins. Námsbraut í kynjafræði fagnar skýrslunni og styður tillögu starfshópsins um aðgerðahóp og þær leiðir til aðgerða sem þar eru lagðar til.

Fyrir hönd námsbrautar í kynjafræði, Þorgerður J. Einarsdóttir, prófessor

Afrita slóð á umsögn

#13 BSRB - 05.10.2021

Sjá umsögn í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Kennarasamband Íslands - 05.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn Kennarasambands Íslands um tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.

Kærar kveðjur

Anna María Gunnarsdóttir

Varaformaður KÍ

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Ragnhildur Berta Bolladóttir - 05.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn Sjúkraliðafélags Íslands vegna máls nr. 173/2021: Verðmætamat kvennastarfa, tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa og tillögur að aðgerðum sem miða að því að ýtrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Alþýðusamband Íslands - 05.10.2021

Umsögn í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Starfsmannafélag Hafnarfjarðar - 05.10.2021

Forsætisráðuneytið

Skrifstofa jafnréttismála

Hafnarfirði, 5. október 2021.

Efni: Umsögn Starfsmannafélags Hafnarfjarðar (STH) um drög að skýrslu og tillögum starfshóps um verðmætamat kvennastarfa og endurmat á virði kvennastarfa

Starfshópur um endurmat á störfum kvenna var skipaður í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem undirrituð var við gerð kjarasamninga milli ríkis og sveitarfélaga og aðildarfélaga BSRB vorið 2020. Starfshópurinn skilaði drögum að skýrslu í samráðsgátt stjórnvalda þann 7. september sl.

Starfsmannafélag Hafnarfjarðar fagnar útgáfu skýrslunnar. Launamunur kynjanna hefur verið til umræðu á Íslandi og í öðrum löndum áratugum saman og gripið hefur verið til ýmissa aðgerða í því skyni að ná fram launajafnrétti. Síðustu ár hafa rannsóknir um launajafnrétti ítrekað bent á að kynskiptur vinnumarkaður er meginorsök kynbundins launamunar. Í nýjustu rannsókn Hagstofunnar, sem tekur til áranna 2008-2020, er þetta staðfest og fjallað um mikilvægi þess að horfa ekki bara á eina tölu þegar fjallað er um launajafnrétti, heldur heildarmyndina. Skýrsla starfshópsins sem hér er til umfjöllunar er afar mikilvægt innlegg í umræðu og vinnu um launajafnrétti sem fara þarf fram á næstu árum. Í skýrslunni er saga lagaákvæða um launajafnrétti og dómaframkvæmd rakin, en sjónum er einkum beint að því aðalatriði sem ólíkt virðismat starfa kvenna og karla er.

Í skýrslunni er fjallað um hættuna af því að virðismatskerfi starfa viðhaldi vanmati á störfum kvenna og vísað í fjölmargar rannsóknir því til stuðnings. Mikilvægi gagnsæis og trausts, m.a. með aðkomu starfsfólks og stéttarfélaga að virðismatskerfinu, er einnig áréttað. Í skýrslunni er litið til annarra landa, einkum Kanda og Nýja-Sjálands sem fyrirmyndir. Þar hafa stjórnvöld gripið til forvirkra aðgerða til að tryggja efnislegt jafnrétti, en ekki bara lögbundið jafnrétti. Skýrslan byggir þannig á nýjustu og bestu þekkingu hvað varðar jafnlaunamál og leggur hópurinn til nokkrar tillögur til aðgerða sem fari fram undir yfirstjórn aðgerðarhóps um launajafnrétti. Starfsmannafélag Hafnarfjarðar vill árétta nokkur atriði varðandi tillögur hópsins.

• Framkvæmd verkefnisins verði í forgangi hjá forsætisráðuneytinu og skrifstofu jafnréttismála. Konur hafa árum saman búið við vanmat á störfum sínum og sjálfsögð mannréttindi þeirra þannig brotin. Áríðandi er að halda áfram, vinna hratt og varða leiðina að jafnrétti og leiðréttingum fyrir konur.

• Þróunarverkefni um virðismat starfa. Starfsmannafélag Hafnarfjarðar telur mikilvægt að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi og farið verði í þetta þróunarverkefni strax. Mikilvægt er að tryggja aðkomu stéttarfélaga og starfsmanna, bæði í þróunarverkefninu, en ekki síður til framtíðar hvað varðar virðismatskerfi starfa. Án gagnsæis og aðkomu starfsfólks og félaga þeirra skapast ekki traust á því að kerfið sé sanngjarnt og er þetta á meðal þess sem hefur verið gagnrýnt varðandi jafnlaunastaðalinn. Það er á ábyrgð atvinnurekanda að laun séu jöfn fyrir jafnverðmæt störf en mikilvægt er að starfsfólk treysti því að vel sé að málum staðið.

• Samningaleið að launajafnrétti og útfærslur. Starfsmannafélag Hafnarfjarðar styður þessa tillögu og jafnframt að horft verði sérstaklega til þess hvort útvistun starfa leiði til aukins kynbundins launamunar. Sterkar vísbendingar eru um slíkt, t.d. í umönnunargeiranum og ræstingum.

Að lokum vill Starfsmannafélag Hafnarfjarðar undirstrika mikilvægi þessarar skýrslu og hvetja til þess að unnið verði hratt og vel að tillögum starfshópsins.

Karl Rúnar Þórsson, formaður STH

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Sameyki - stéttarfélag í almannaþjónustu - 05.10.2021

63 prósent félagsmanna Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu eru konur og fjölmargar starfa innan starfsstétta þar sem konur eru í meirihluta, svonefndum kvennastéttum, t.d. í heilbrigðis- og félagsþjónustu, menntakerfinu og opinberum stofnunum. Dæmi þar um eru skrifstofufólk stofnana, stuðningsfulltrúar, félagsliðar, skólaliðar, leiðbeinendur á leikskólum, heilbrigðisgagnafræðingar, heilbrigðisritarar, starfsfólk við störf við matseld og umönnun á hjúkrunarheimilum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#19 Fræðagarður - 05.10.2021

Forsætisráðuneytið

Mál nr. 173/2021

EFNI: Umsögn Fræðagarðs, stéttarfélags háskólamenntaðra, vegna máls nr. 173/2021: Verðmætamat kvennastarfa, tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.

Fræðagarður er félag þeirrar gerðar sem umfaðmar fjölbreytileikann, bæði í formi fjölbreytilegrar menntunar á háskólastigi og fjölbreytni í störfum. Við erum með félagsfólk sem telur nú á 4. þúsund. Meirihlutinn er skipaður konum sem vinna fjölbreytt störf hjá ríki, sveitarfélögum og á einkamarkaði. Launasetning okkar fólks er ekki alltaf byggð á málefnalegum rökum, ekki einu sinni þótt félagsfólk starfi hjá sömu stofnun ríkisins. Við vinnum störf sérfræðinga. Sérfræðingar (generalistar) sinna mjög fjölbreyttum störfum sem einstök launakerfi ná misjafnlega vel utan um. Ekkert þó síður en starfsmat sveitarfélaga (SAMSTARF), sem grunnraðar starfsfólki í okkar röðum lágt og mismunar eftir kyni í yfirlaunasetningu. Okkar fólk sinnir hefðbundum kvennastörfum en fyrst og fremst störfum þar sem þau þurfa að sýna frumkvæði, skapandi hugsun og búa yfir þekkingu sem er verðmæt fyrir samfélagið í heild.

Við þökkum fyrir skýrsluna en teljum mikið starf enn óunnið í því að vinna að launajafnrétti.

Bragi Skúlason

formaður Fræðagarðs

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#20 Edda Dröfn Daníelsdóttir - 05.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Hólmsteinn Gauti Sigurðsson - 05.10.2021

Umsögn Landssambands lögreglumanna fylgir sem viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Bandalag háskólamanna - 05.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn BHM um skýrslu starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#23 Árný Erla Bjarnadóttir - 05.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn FOSS stéttarfélags í almannaþjónustu vegna máls nr. 173/2021 Verðmætamat kvennastarfa, tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa og tillögum að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 UN Women Ísland - 05.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn UN Women á Íslandi um skýrslu og tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa nr. 173/2021.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#25 Samtök atvinnulífsins - 05.10.2021

Góðan dag,

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um málið.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#26 Unnur Berglind Friðriksdóttir - 05.10.2021

Umsögn frá Ljósmæðrafélagi Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#27 Kvenréttindafélag Íslands - 05.10.2021

Í viðhengi er umsögn Kvenréttindafélags Íslands um tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.

Bestu kveðjur,

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir,

framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#28 Unnur Pétursdóttir - 05.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn Félags sjúkraþjálfara

Virðingarfyllst,

Unnur Pétursdóttir

Formaður Félags sjúkraþjálfara

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#29 Ragna Kemp Haraldsdóttir - 05.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn frá Guðbjörgu Andreu Jónsdóttur, forstöðukonu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, prófessor í félagsfræði og aðstoðarrektor vísinda við Háskóla Íslands og Rögnu Kemp Haraldsdóttur, lektor í upplýsingafræði við Háskóla Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#30 Efling stéttarfélag - 06.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn frá Eflingu - stéttarfélagi um skýrsluna Verðmætamat kvennastarfa: Tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#31 Stúdentaráð Háskóla Íslands - 07.10.2021

Meðfylgjandi er umsögn Stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna skýrslu starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.

Viðhengi