Samráð fyrirhugað 09.09.2021—23.09.2021
Til umsagnar 09.09.2021—23.09.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 23.09.2021
Niðurstöður birtar

Breyting á reglugerð um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og viðauka IV

Mál nr. 174/2021 Birt: 09.09.2021
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Sjúkrahúsþjónusta
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
  • Lyf og lækningavörur

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (09.09.2021–23.09.2021). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Breyting á reglugerð nr. 441/2006 um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og viðauka IV við sömu reglugerð, sem skilgreinir frávísanir gjafa blóðeingina sem gefa á öðrum.

Í viðauka IV við reglugerð nr. 441/2006 um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs er kveðið á um að kynhegðun sé varanleg frávísun gjafa blóðeininga sem gefa á öðrum.

Drög að breytingum á umræddri reglugerð og viðauka IV við hana hefur það að markmiði að fella á brott áðurnefnda frávísun. Í staðinn er í drögunum lagt til að það verði fjögurra mánaða tímabundna frávísun gjafa blóðeininga sem gefa á öðrum ef stundað hefur verið áhættusamt kynlíf

Í drögunum er staflið bætt við markmiðsákvæði 1. gr. reglugerðarinnar um að óheimilt sé að mismuna blóðgjöfum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, s.s. kyns, kynhneigðar, uppruna eða stöðu að öðru leyti og bætt við nýrri hugtakaskilgreiningu í 3. gr. um hvað telst áhættusamt kynlíf.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Unnar Geir Unnarsson - 09.09.2021

Þessum breytingum ber að fagna.

Loksins!

Afrita slóð á umsögn

#2 Anna Pratichi Gísladóttir - 09.09.2021

Góð breyting. Miðað við önnur lönd erum við mjög svipuð. 4 mánuðir án kynlífs með öðrum manni.

Afrita slóð á umsögn

#3 Friðrik Elvar Yngvason - 09.09.2021

1) Hagsmunir væntanlegs blóðþega eiga að stýra því hverjir fá að gefa blóð, miðað við áhættu af því að þiggja blóð.

2) Nokkur fjóldi fólks fær ekki að gefa blóð ,fólk á lyfjum fólk með óvissa brenglun lifrarprófa etc. Fólk með blóðleysi. Fólk með illkynja sjúkdóma og nokkurn fjölda smitsjúkdóma.

Það eru ekki réttindi að fá að gefa blóð. Ekki heilbrigðisvottorð. Ef áhætta er skilgreind þó ekki sé nema í litlu á að hafna blóði . Tæmandi prófanir á blóði að ekki reynist i þeim smit eru ekki til. Vafinn skal verar blóðþeganum i hag. Þeginn er stundum nýfætt barn og blóðborin smit aldrei léttvæg.

3) Blóð er líffæri , blóðgjafi er að þessu leiti líffæragjafi,eða með jafna stöðu.

4) Egodrifinn ásetningur um blóðgjóf - sem krefst þess að blóðþeganum er sett að taka áhættu sem kann fyrstu virðist mjög lítil , verður að spegla af sögunni þar sem hepatítar og HIV veirur hafa grasserað i jaðarhópum og þar sem lífstíll hefur skilgreint áhættu sem endurmeta þarf með áratuga bilum til að fá trúverðuga niðurstöðu. Enn kunna að leynast veirusjukdómar sem enn eru óskilgreindir í þessum sömu hópum

Afrita slóð á umsögn

#4 Gísli Þór Ingólfsson - 10.09.2021

Þetta er afar þörf og góð breyting sem mun koma blóðþegum til mikils góðs. Oft auglýsir blóðbankinn að þar vanti nauðsynlega blóð, en með því að hleypa inn stórum hópi nýrra blóðgjafa sem lengi hafa sóst eftir því að fá að gefa má minnka skortinn.

Sem tvíkynhneigður maður sem er trúlofaður öðrum karlmanni veit eg fyrir 100% víst að ég er ekki með HIV né neina aðra kynsjúkdóma, sem er meira en margir gagnkynhneigðir blóðgjafar geta fullyrt.

Nýja reglan um áhættusamt kynlíf mun því gera meira til að vernda öryggi blóðþega heldur en bannið á samkynhneigða karlmenn gerði nokkurn tímann.

Takk Svandís fyrir að koma fram með þessa tillögu, ég get ekki beðið eftir að fara að gefa blóð og bjarga mannslífum!

Afrita slóð á umsögn

#5 Hans Alexander Margrétarson Hansen - 12.09.2021

Það er mikilvægt að þau skilyrði sem sett eru fyrir blóðgjafa séu byggð á vísindum, en ekki fordómum eða mýtum. Ef ákveðnum samfélagshópum er meinað að gefa blóð án þess að raunveruleg vísindaleg þörf liggi á bak við slíkt bann getur það leitt til þess að Blóðbankinn líði skort að óþörfu. Kynlíf karla með öðrum körlum er ekki eðlisólíkt öðru kynlífi og er ekki hættulegra en annað kynlíf. Það er vissulega rétt að smitsjúkdómar á borð við HIV geta borist með kynlífi, en kyn bólfélaga ræður því ekki hvort að einstaklingur verði útsettur fyrir slíkum sjúkdómum. Aðrir þættir, svo sem notkun getnaðarvarna, spilar mun stærra hlutverk í útbreiðslu kynsjúkdóma. Þó að það sé rétt að á Íslandi séu karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum körlum nokkuð stór hluti af HIV smituðum, þá útskýrist það fyrst og fremst af því að nýgengni HIV smita hefur verið mjög lágt síðastliðna áratugi og HIV smitaðir á Íslandi eru að mestu leiti þeir sem smituðust fyrst. Sam-, tví- og pankynhneigðir karlmenn voru í miklum meirihluta þeirra fyrstu sem smituðust vegna þess að notkun getnaðarvarna var ekki útbreidd í hinsegin samfélaginu á þeim tíma. Þegar litið er til nýrra smita er kynlíf karlmanna með öðrum körlum mun minni áhættuþáttur og vímuefnanotkun orðin mun algengari smitleið.

Innan hinsegin samfélagsins er mikill vilji til að gefa blóð og hafa hagsmunasamtök hinsegin fólks, þar á meðal Samtökin '78, verið virk í að miðla fræðslu um öruggt kynlíf. Þar má til dæmis nefna að þegar HIV faraldurinn kom fyrst til Íslands voru Samtökin '78 á meðal þeirra fyrstu sem mæltu fyrir almennri fræðslu um notkun smokka. Það er því fjarstæðukennt að halda því fram að hinsegin karlmönnum sé ekki treystandi til þess að stunda öruggt kynlíf eins og öðrum samfélagshópum og lýðheilsuleg mistök að afskrifa þennan hóp sem gæti verið mjög öflugur í blóðgjöfum.

Við viljum líka vera almannavarnir.

Undirritaður er heimspekingur og tvíkynhneigður karlmaður

Afrita slóð á umsögn

#6 Pálmi Pálmason - 12.09.2021

Mótmæli harðlega áformum heilbrigðisráðherra um þessa lagasetningu. Heilsufarsleg réttindi mín og réttindi skv. stjórnarskrá ganga framar tilfinningalegum huglægum réttindum lítils hóps fólks.

Afrita slóð á umsögn

#7 Sveinn Guðmundsson - 17.09.2021

MEGINATRIÐI ÚR UMSÖGN BLÓÐBANKANS

Blóðbankinn gerir veigamiklar athugasemdir við tillögur heilbrigðisráðherra um breytingar á reglugerð sem varðar heilsufarsskilmerki blóðgjafa og frávísanir vegna áhættuþátta.

Orðalag og innihald í reglugerðardrögunum eru að mati Blóðbankans illa ígrundað og breytingar ekki tímabærar með þeim hætti sem þær eru settar fram. Að innleiða slíkar breytingar með skömmum fyrirvara getur haft afleiðingar fyrir blóðgjafa og blóðþega (sjúklinga). Þær geta á sama tíma grafið undan tiltrú almennings á blóðbankaþjónustunni með margvíslegum hætti, svo sem með orðalaginu „ómálefnalegar ástæður“ í umfjöllun ráðherra um heilsufarsskilmerki.

Blóðbankinn hefur það ávallt að leiðarljósi að fagleg sjónarmið séu grundvöllur heilsufarsskilmerkja blóðgjafa og mun svo verða áfram. Áhættugreiningar með þeim hætti sem önnur lönd hafa gert styrkja enn frekar þau faglegu sjónarmið. Dæmi um áhættugreiningar í Englandi og Kanada eru í heimildaskrá.

Blóðbankinn áréttar að það eru mannréttindi allra að þiggja örugga blóðhluta. Heilbrigðisyfirvöldum og Blóðbankanum ber að neyta allra mögulegra ráða til að tryggja öryggi blóðþega. Það eru á sama tíma mannréttindi blóðgjafa að heilsufarsskilmerki séu byggð á faglegum forsendum á grunni áhættugreiningar með svipuðum hætti og önnur lönd hafa gert.

Blóðbankinn telur mikilvægt að vinna markvisst eftir tímasettri áætlun í áföngum sem miðar að því að rýmka heilsufarsskilmerki blóðgjafa án þess að auka áhættu blóðþega. Áætlunin er byggð á tillögum ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu og Blóðbankans frá 2018 og 2019.

Þessi áætlun var kynnt ráðgjafanefnd um málefni blóðbankaþjónustu í júlí 2021. Helstu þættir áætlunarinnar eru þessir:

1) Innleiðing á nákvæmari aðferðum við greiningu blóðborinna smitsjúkdóma (nucleic acid testing, NAT skimun, kjarnsýrupróf) á árinu 2022.

2) Endurteknar áhættugreiningar á tímabilinu 2022-2026 til að meta áhrif breytinga og stýra breytingum á heilsufarsskilmerkjum.

3) Undirbúningur og innleiðing á smithreinsun rauðkorna 2022-2025.

Óbreytt reglugerðarbreyting ráðherra stefnir þjónustu Blóðbankans í tímabil óvissu sem ekki verður unað við. Breytingar á þessari reglugerð í takt við það sem Blóðbankinn leggur til gerir heilbrigðisráðuneytinu mögulegt að vinna nánar með ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu, Landspítala, Blóðbankanum og fjölmörgum öðrum aðilum á næstu árum.

Áfangaskipt innleiðing breytinga skilar árangri og er upplýsandi fyrir almenning og fagfólk. Slík vinna tryggir stöðugt mat og endurmat fagfólks á árangri eða neikvæðum afleiðingum ákvarðana með aðferðum áhættugreiningar. Slíkur ferill nær einnig að draga það fram í dagsljósið hvort stjórnmálamenn sem taka mikilvægar ákvarðanir á þessu sviði hafi hugað nægilega að faglegum sjónarmiðum til að tryggja í hvívetna velferð og öryggi sjúklinga (blóðþega) í takt við ráðherraskyldur sínar. Heilbrigðisyfirvöld geta þannig metið árangur ákvarðana með notkun árangursmælikvarða.

Það er von Blóðbankans að með framkomnum tillögum Blóðbankans til ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu sumarið 2021 og breytingum í kjölfar innleiðingar á þeim megi skapa sátt allra aðila í þessu ferli á næstu árum.

________________________________________________________________________________

17.09.21

Ábyrgðaraðili þessa skjals er Sveinn Guðmundsson yfirlæknir Blóðbankans

Eftirtaldir starfsmenn Blóðbankans komu að lokagerð þessa skjals:

Ína Björg Hjálmarsdóttir deildarstjóri Blóðbankans, Erna Knútsdóttir gæðastjóri Blóðbankans, Ólafur Eysteinn Sigurjónsson prófessor og einingastjóri stofnfrumuvinnslu og vísindarannsókna, Þorbjörn Jónsson sérfræðilæknir og Sveinn Guðmundsson yfirlæknir Blóðbankans og ábyrgðaraðili blóðbankaþjónustunnar

Viðhengi Viðhengi Viðhengi Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Sveinn Guðmundsson - 17.09.2021

Viðbótargögn frá Blóðbankanum.

Viðhengi Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Ingibjörg Grímsdóttir - 20.09.2021

Ég er algjörlega á móti því að samkynhneigðir gefi blóð. Blóð er ekki skimað nægjanlega vel á Íslandi svo að það sé hægt að gefa viðkvæmum hópum blóð, t.d. krabbameinssjúklingum.

Afrita slóð á umsögn

#10 Hlynur Hendriksson - 20.09.2021

Það ætti að skoða í einhverri alvöru að nota blóð úr þeim sem eru með járnofhleðslu (haemochromatosis). Umtalsverður fjöldi fólks þarf að mæta reglulega í aftöppun til að halda niðri járnbirgðum líkamans - en þessu blóði er öllu saman fargað. Nb Blóðbankinn vill alls ekki fá þetta fólk til sín - síðast þegar ég spurði hvort ekki væri hægt að nota þetta blóð, var svarið "að við gætum verið á einhverjum lyfjum".

Sem dæmi mætti taka, þá tek ég engin lyf að staðaldri, járnið er vel innan marka - og hefur verið það nánast frá upphafi - og læt farga úr mér blóði á 3ja mánaða fresti. Svona er þetta búið að vera í tæp 30 ár. Á þessum tíma er búið að farga um 40 lítrum - bara frá mér. Ekki er þetta smitandi og blóðið úr mér er nákvæmlega eins og blóð úr öðrum heilbrigðum einstaklingum

Ef Blóðbankinn virkilega vill losna við að senda neyðaróp reglulega vegna lágra birgða, þá væri þessi hópur albesta lausnin - við verðum að mæta reglulega hvort sem er. Einnig myndi þetta minnka vinnu hjá heilbrigðiskerfinu, því að á sama tíma erum við að teppa læknastöðvar, heilsugæslustöðvar og þar til nýlega dagdeild krabbameinslækninga.

Afrita slóð á umsögn

#11 Már Kristjánsson - 21.09.2021

Ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu sendir meðfylgjandi umsögn um reglugerð um breytingu á reglugerð 441/2006.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Samtökin '78,félag hinsegin fólks á Íslandi - 21.09.2021

Umsögn Samtakanna ‘78 vegna tillögu heilbrigðisráðherra til breytingar á reglugerð um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og viðauka IV

Samtökin ‘78 - félag hinsegin fólks á Íslandi fagna þessari tímabæru tillögu heilbrigðisráðherra af öllu hjarta og mæla eindregið með því að hún verði samþykkt óbreytt.

Samkvæmt núgildandi reglum Blóðbankans má ekki undir neinum kringumstæðum gefa blóð ef maður er karlmaður sem hefur haft samfarir við sama kyn, eða ef rekkjunautur er karlmaður sem hefur sofið hjá karlmanni. Ekki er á nokkurn hátt tekið tillit til kynhegðunar að öðru leyti. Í núgildandi reglum Blóðbankans felast því gamalgrónir fordómar, þar sem kynlíf hinsegin karla er flokkað sem áhættuhegðun algjörlega óháð öðrum þáttum, t.d. sambandsstöðu.

Með reglugerðarbreytingunni sem hér er til umsagnar verður mismunun í garð karla sem sofa hjá körlum, þ.e. homma, tvíkynhneigðra og pankynhneigðra karla auk annarra, loksins aflétt. Með breytingunni verður kynhegðun hinsegin karla ekki skilgreind sem áhættuhegðun í sjálfri sér, heldur verður litið til annarra þátta til þess að meta áhættu. Þetta er framfaraskref og í takt við þróun á alþjóðlegum vettvangi.

Með nýjustu þekkingu og þeirri framþróun sem átt hefur sér stað, t.d. í Bretlandi, Ísrael og Hollandi, væntum við að hægt verði að vinna að breytingum á verklagi Blóðbankans hratt og örugglega. Blóðbankinn getur þannig nýtt reynslu annarra þjóða sem hafa aflétt sambærilegu banni við undirbúning þessara breytinga.

Samtökin ‘78 gerðu könnun meðal hinsegin fólks haustið 2020 um viðhorf til blóðgjafa, gildandi reglna um þær og til hugmynda sem upp höfðu komið um mögulegar afléttingar á þeim í skrefum (þar sem skírlífistímabils væri krafist). Yfirgnæfandi meirihluti þeirra 140 einstaklingum sem svöruðu könnuninni töldu að hverfa ætti frá þessum úreltu reglum. Sömuleiðis taldi mikill meirihluti svarenda allar hugmyndir um að krefja hinsegin karla sérstaklega um ákveðinn skírlífistíma fyrir blóðgjöf niðurlægjandi. Eðlilegast væri að skima alla blóðgjafa fyrir áhættuhegðun í kynlífi. Þessi svör nýttu Samtökin ‘78 til þess að smíða ályktun um blóðgjafir sem aðalfundur samþykkti 7. mars sl.

Reglugerðarbreyting heilbrigðisráðherra er í fullu samræmi við þá ályktun, en þar var skorað á heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðisráðherra, Blóðbankann og ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu að tryggja að reglum um blóðgjafir yrði breytt í samræmi við stefnu stjórnvalda er varða bann við mismunun.

Það er sannarlega gleðiefni að nú sé fram komin reglugerðarbreyting sem leyfir öllu fullfrísku fólki sem stundar öruggt kynlíf að láta gott af sér leiða með blóðgjöf, öllu samfélaginu til heilla.

Fyrir hönd stjórnar Samtakanna '78,

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Ólafur Guðlaugsson - 22.09.2021

Umsögn sóttvarnaráðs um frumvarp til breytingar á reglugerð 441/2006, sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Maríanna Garðarsdóttir - 23.09.2021

Sjá umsögn og fylgiskjöl 1 og 2.

Viðhengi Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Signý Vala Sveinsdóttir - 23.09.2021

Yfirlýsing frá Samtökum yfirlækna á Landspítala (SYL):

Í samráðsgátt er til umsagnar reglugerð um breytingar á reglugerð 441/2006 um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs.

Þessi reglugerð fjallar um gæða- og öryggisstaðla fyrir blóð og blóðhluta úr mönnum við söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs.

Þar er meðal annars gerð grein fyrir heilsufarsskilmerkjum sem blóðgjafar þurfa að uppfylla til þess að mega gefa blóð.

Ábyrgðaraðilar í klínískri starfsemi heilbrigðisþjónustunnar verða að geta treyst því að heilbrigðisyfirvöld hafi samráð við fagaðila um mikilvægar ákvarðanir í heilbrigðisþjónustu og að tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra.

Blóðbankinn hefur rökstutt ítarlega í umsögn sinni að málefni þetta varði fyrst og fremst öryggi sjúklinga (blóðþega) og rétt sjúklinga til að þiggja örugga blóðhluta.

Blóðbankinn hefur gert vel grein fyrir tímaáætlun um mikilvæga áfanga á þeirri leið að auka öryggi blóðhluta, í takt við tillögur ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu frá 2019.

Samtök yfrlækna á Landspítala (SYL) taka undir þau sjónarmið Blóðbankans að breytingar á þessari reglugerð séu ekki enn tímabærar. SYL hvetur heilbrigðisyfirvöld til að vinna með ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu, Blóðbankanum, Landspítalanum og fleiri fagaðilum. Með tímasettri og áfangaskiptri umbótaáætlun sjá yfirlæknar á Landspítala, sem ábyrgir eru fyrir öryggi sjúklinga sem þiggja blóð, möguleika á því að auka enn frekar öryggi sjúklinga.

SYL treystir því að tillögur Blóðbankans, sóttvarnaráðs og ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu, sem fyrir liggja í Samráðsgátt stjórnvalda, verði lagðar til grundvallar við áframhald þessa máls.

Árangursríkasta leiðin að farsælli niðurstöðu í þessu máli er að heilbrigðisyfirvöld starfi með fagaðilum málsins á næstu árum.

Einungis með því móti verður tryggt að niðurstöðu sem tryggir öryggi sjúklinga verði náð.

F.h. SYL, Signý Vala Sveinsdóttir, yfirlæknir Blóðlækninga á Landspítala

Afrita slóð á umsögn

#16 Signý Vala Sveinsdóttir - 23.09.2021

Umsögn yfirlæknis blóðlækningadeildar Landspítala um breytingar á reglugerð 441/2006

Heilbrigðisráðherra hefur lagt til breytingar á reglugerð 441/2006 um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og eru þær nú til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Þessi reglugerð leggur línuna fyrir gæða- og öryggisstaðla fyrir blóð og blóðhluta úr mönnum við söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs.

Í fyrirliggjandi tillögum ráðherra eru lagðar til breytingar á þeim heilsufarsskilmerkjum sem blóðgjafar þurfa að uppfylla til þess að mega gefa blóð.

Fyrirliggjandi eru efnismiklar og ágætlega rökstuddar umsagnir Ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu, Sóttvarnaráðs og Blóðbankans.

Blóðlækningadeild Landspítala styður þau mikilvægu faglegu sjónarmið sem þar eru fram sett.

Blóðlækningadeild Landspítala er einn af meginnotendum blóðhluta á Íslandi. Skjólstæðingar hennar eru afar viðkvæmur hópur með fjölbreytta og alvarlega sjúkdóma.

Huga þarf að öryggi þessa sjúklingahóps í hvívetna.

Með því að leggja saman tillögur ofangreindra aðila fæst lausnamiðuð niðurstaða, sem mun auka öryggi okkar sjúklingahóps á næstu árum.

Tryggja þarf nægar fjárveitingar fyrir þessum aðgerðum næstu 5 árin (fyrir NAT-skimun, áhættugreiningum og smithreinsun rauðkorna) og nýta tækifæri til mikils samráðs og samvinnu í þessu starfi.

Þegar öllu er á botninn hvolft á reglugerð 441/2006 um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs að tryggja sjúklingum þau sjálfsögðu mannréttindi að eiga kost á því að þiggja eins örugga blóðhluta og mögulegt er. Í þessu samhengi er líka rétt að minna á lög um réttindi sjúklinga (lög nr. 74/1997 með síðari breytingum) en þar segir m.a. svo í 3. grein: "Sjúklingur á rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita". Undir þessa lagagrein fellur augljóslega réttur sjúklinga til þess að fá örugga blóðhluta.

Með samvinnu heilbrigðisyfirvalda á næstu árum við fjölmargt fagfólk í heilbrigðisþjónustu, Ráðgjafanefndina, Sóttvarnaráð, Blóðbankann, Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og aðra aðila má komast að niðurstöðu sem tryggir öryggi sjúklinga til framtíðar. Sem ábyrgðaraðili blóðlækninga á Landspítala hvet ég til slíkrar samvinnu sem hefði hag sjúklinga að leiðarljósi.

Afrita slóð á umsögn

#17 Ólafur Ágúst Guðlaugsson - 23.09.2021

Styð þessa breytingu mikið