Samráð fyrirhugað 21.09.2021—05.10.2021
Til umsagnar 21.09.2021—05.10.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 05.10.2021
Niðurstöður birtar 31.01.2022

Drög að myndlistarstefnu

Mál nr. 181/2021 Birt: 21.09.2021 Síðast uppfært: 31.01.2022
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður birtar

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 21.09.2021–05.10.2021. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 31.01.2022.

Málsefni

Mennta og menningarmálaráðuneytið kynnir til samráðs drög að myndlistarstefnu. Með fyrstu heildstæðu myndlistarstefnunni er vörðuð metnaðarfull braut til næsta áratugar. Sett er fram framtíðarsýn ásamt fjórum meginmarkmiðum.

Í október 2020 var verkefnahópi með fulltrúum stjórnvalda og myndlistarlífs, stofnana- og stuðningskerfis, félagasamtaka og atvinnulífs myndlistar falið að móta heildstæða stefnu um málefni myndlistar á Íslandi til ársins 2030.

Stefnan kallar á fjölbreyttan stuðning við listsköpun, menntun og myndlæsi sem styðji við kraftmikla myndlistarmenningu. Öflug myndlistarmenning getur þannig aukið þekkingu og áhuga almennings á myndlist og bætt lífsgæði og ánægju. Í stefnunni eru lögð til markviss skref til þess að einfalda en styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa markvissar en áður að innviðum atvinnulífs myndlistar. Með því má bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist. Við vinnu stefnunnar sendi verkefnahópurinn samráðskönnun á helstu þátttakendur í íslensku myndlistarumhverfi þar sem óskað var eftir viðbrögðum við hugmyndum og umræðum hópsins. Tekið var tillit til þeirra athugasemda og eru þær hluti af drögunum.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Valgerður Jónsdóttir - 28.09.2021

Í drögum að myndlistarstefnu er lögð áhersla á að styrkja myndlist sem atvinnugrein og að íslensk myndlist skipi sér alþjóðlegan sess, meðal annars með því að laða erlent fagfólk á sviði myndlistar til landsins. Mig langar að benda á að í þessum meginmarkmiðum er ekki minnst á það hvernig eigi að hlúa að starfsferli þeirra listamanna eða annars fagfólks á sviði myndlistar sem starfar á Íslandi en er af erlendum uppruna. Á Íslandi er til dæmis enn ekki hægt að sækja um listamanna-visa (eins og tíðkast m.a. í Hollandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum) sem þýðir að listafólk sem starfar hér en kemur frá löndum utan evrópu á ekki sama möguleika á að starfa á þann sveigjanlega máta sem flestir listamenn gera. Einnig hefur verið bent á að fáir listamenn af erlendum uppruna fái listamannalaun og aðra styrki. Að mínu mati er ekki nóg að laða fólk til landsins, það verður að móta kerfið þannig að hér geti myndast alþjóðleg sena af allskonar listafólki sem fær að dafna vel og opinber myndlistarstefna þarf að leggja leiðarstefið í þeim efnum.

Afrita slóð á umsögn

#2 Wioleta Anna Ujazdowska - 28.09.2021

While creating a new art policy it is important to support artists in terms of financial support. Creating or number of workplaces or a system of scholarships. Other issue is the equality and more visibility of artists outside Western European or Nordic geo-political area. State run institutions need to create an equal opportunity for artists and audiences that aren't born here but are members of Icelandic society. Art is a common good and creation is a right not a privilege. Therefore I highly suggest to stop as soon as possible monopoly of local art academy as a significant factor of existence or non existence in the professional field. Nepotism in art field is unacceptable as well in other significant parts of public life in community.

I suggest to create an public service - a commissioner that will be guiding public institution around the country to following rules of equality and accessibility and to transform exclusive art museums or galleries into public places where creative thinking, art and democracy meet.

I suggest that makers of museum politics would get to know ideas of critical museum and museum as agora.

I recommend book From Museum Critique to the Critical Museum By Katarzyna Murawska-Muthesius, Piotr Piotrowski.

Afrita slóð á umsögn

#3 Hulda Margrét Hákonardóttir - 04.10.2021

Hér koma ábendingar sem vonandi nýtast.

Bkv. Hulda Hákon

Þetta varðar útflutning á myndlist.

1.

Hjá Íslandsstofu þurfa að liggja fyrir greinagóðar upplýsingar um útflutning á myndlist sem eru stöðugt uppfærðar. Þar þarf að vera aðili sem veit allt um þetta og getur ráðlagt fólki. Í gegnum tíðina hef ég reynt að hafa samband við Útflutningsráð/Íslandsstofu. Er hætt því.

Tollasamningar milli Íslands og annara ríkja vegna útflutnings á myndlist þurfa að vera aðgengilegir. Þegar verk eru send úr landi eru mismunandi reglur í móttökulöndunum.

T.d. setur Sviss toll á innflutta myndlist, Bandaríkin ekki.

Hvernig er þetta t.d. með Kína? Við gerðum fríverslunarsamning við þá. Er myndlist eitthvað inni í því dæmi? Hvað með Indland, taka þeir innflutningstoll? Rússland? Evrópulöndin?

2.

Það þarf að setja strangari reglur á útflutningsfyrirtæki sem auglýsa að þau séu "fine art" flutningsaðilar, þau þurfa að hafa einhverja gæðavottun. Lenti nýlega í því að slíkt fyrirtæki hér á Íslandi (sem ég hef notað í góðri trú lengi) sendi verk eftir mig út og flutningsaðilinni úti innanlands var UPS, þar sem kössum er bara hent til á færibandi. Kaupandinn var mjög ósáttur við þetta. Verkið laskaðist og það stórsá á flutningskassanum. Flest lönd hafa sérstök fyrirtæki sem flytja listaverk.

Afrita slóð á umsögn

#4 Megan Auður Grímsdóttir - 04.10.2021

Mér þykir mikilvægt að benda á í byrjun einsleitni þess hóps sem skapað hefur þessi drög að myndlistarstefnu. Ef aðgengi og fjölbreytileiki er eitt megin markmið stefnunnar, eins og kemur framm í fyrstu grein, þarf hópurinn sem skapar stefnuna að endurspegla það.

Auk þess vill ég benda á að til þess að skipa alþjóðlegan sess í myndlistinni þarf að stuðla að alþjóðlegu samstarfi hér á landi og gera fagfólki kleift að starfa við svið sitt og búa. Eins og staðan er í dag er nánast ómögulegt að fá landvistarleyfi á Íslandi sem listamanneskja sem kemur utan frá Evrópu.

Að lokum myndi ég leggja til að ríkisreknar stofnanir þurfi að fara í gegnum reglulega þjálfun um aðgengi frá sjónarhóli skörunar femínisma.

Afrita slóð á umsögn

#5 Bryndís H Snæbjörnsdóttir - 04.10.2021

Síðan 2016 hef ég verið fagstjóri meistaranáms í myndlist og séð námið dafna og skila uppbyggingu inn í listasenuna hér á landi. Þetta eigum við m.a. mikið að þakka þeim mörgu erlendu nemendum sem hingað hafa komið í námið. Margir þeirra hafa síðan haldið áfram tengingu við landið annaðhvort strax eftir mastersnámið eða komið til baka eftir að hafa verið í burtu í stuttan tíma. Þessir aðilar hafa skilað miklum krafti og orku inn í íslenskt myndlistarlíf og sumir verið tilnefndir eða unnið til viðurkenninga í því samhengi. En það verður að segja að þetta er ekki jafn auðvelt fyrir alla erlenda listamenn það fer eftir því frá hvaða landi þeir koma. Þeim sem koma frá löndum utan Evrópu er gert sérstaklega erfitt með landvistarleyfi. Ég vil því leggja til að komið verði á sérstöku landvistarleyfi fyrir þetta listafólk sérstaklega þá sem hér hafa stundað nám. Einnig vildi ég gjarnan sjá að þeir sjóðir sem hér eru til styrktar upprennandi listafólki veiti listafólki af hvaða þjóðerni sem er en búa í landinu sama rétt til styrkja. Ennfremur þarf að huga að fjölmenningu við samsetningu nefnda er vinna að og gera tillögur um myndlistarmálefni og stefnur hér á landi. Einnig þarf að athuga orðalag eins og íslensk myndlist - hvað er átt við? Er nóg að myndlistin sé búin til á Íslandi eða þarf vegabréfið að vera íslenskt til að tilheyra og finna sig á meðal þeirra sem búa til íslenska myndlist? Getur orðalagið “íslensk myndlist” náð yfir bæði þá sem búa til list á Íslandi og/eða dvelja hér og/eða hafa íslenskt vegabréf…

Afrita slóð á umsögn

#6 Myndhöfundasjóður Íslands - 05.10.2021

Umsögn Myndstefs - Myndhöfundasjóðs Íslands má finna í meðfylgjandi skjali.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Erling Þór Valsson - 05.10.2021

Ég vil byrja á því að ég fagna sérstaklega lið 12 um tollalög því þau hafa ætíð verið í miklum ólestri er kemur að inn- og útflutningi á myndlist. Þarna er margt gott annað en það vantar alla áherslu og skilning á það er ekki hægt að gera bissness úr myndlist án þess að hlúa að frumsköpun lista. Það er lítið sem ekkert talað um að virkja "einyrkjann", listamanninn sjálfan per se og grasrótina og þá að efla og styrkja fyrstu skref myndlistarmannsins. Einnig er ekkert talað um listamannarekin fyrirbæri en einmitt þar ná listamennirnir að dafna og þroskast og mögulega ná upp í það þrep að söludrifin gallerí og söfnin hleypi þeim inn. Án þess að þetta grunn-umhverfi sé til staðar (grasrótin og umhverfi drifið af listamönnum), sé sterkt og lifandi verður til tómarúm og myrkur í kringum hin fjármagnsdrifnu batterí sem hafa þá lítið sem ekkert "af viti" til að hleypa inn um sínar dyr.

Einnig vil ég benda á varðandi lið 15 þar sem talað er um alþjóðlegt samstarf. Á Íslandi er mikil áhersla lögð að styrkja íslenska myndlistarmenn til að sýna verk sín og kynna á erlendri grundu (og er það afar nauðsynlegt og hið besta mál) en þegar kemur að því að fá styrk til að kynna og sýna erlendan listamann á íslenskri grundu er komið að tómum kofanum. Það er nefnilega þannig að oft, ekki alltaf, en oft, fá íslenskir myndlistarmenn er sýna erlendis einnig styrk úr þarlendum sjóðum (og þá oft í gegnum sýningarstaðinn sem viðkomandi sýnir á). Það væri mjög gott að skoða þetta aðeins betur.

Annað sem ég vil líka benda á, bæði söfn og myndlistarmenn eru í miklum geymsluvandamálum, alltaf - ég veit t.d. um marga myndlistarmenn sem neyðast til að farga verkum sínum vegna skorts á plássi til að geyma þau. Sum mega eflast fara, það er smekksatriði, en ég er einnig viss um að mörg menningarleg verðmæti munu glatast og aldrei verða fyrir augum komandi kynslóða, á safni eða annars staðar. Ég veit ekki hvernig hægt væri að leysa þetta en tel að það væri þess mikils virði að skoða hvort eitthvað væri hægt að gera.

Einnig hefur mér verið bent á hvort ekki væri hægt að stofna einhverskonar sjóð til að viðhalda verkum sem eru tilkomin með aðkomu myndskreytingasjóðs. Það er t.d ferlegt að sjá ásigkomulag sumra listaverka á Borgarspítalanum.

Afrita slóð á umsögn

#8 Hulda Rós Guðnadóttir - 05.10.2021

Sæl veriði kæra nefnd.,

Ég vil þakka fyrir gott og metnaðarfullt starf. Ég er sérstaklega ánægð með hugsun sem skín í gegn að byrja frá grunni í grunnskólakerfinu. Vil ég þakka fyrir mig með að að leggja mitt á vogarskálarnar. Ég á bráðum 20 ára starfsafmæli sem myndlistarmaður og þar af hef ég starfað eingöngu við myndlist síðan árið 2009. Það sem kemur hér á eftir er byggt á þeirri reynslu. Ég renndi fljótt yfir þetta og hér eru athugasemdir mínar. Ég geri ekki endilega ráð fyrir að þetta sé efni í myndlistarstefnu en vonandi í þá vinnu sem nú er að hefjast og fylgir henni eftir. Þetta er hraðunnið eins og ég hafði bolmagn til.

Meginmarkmið 1 - Kraftmikil myndlistarmenning

Mælikvarði c er að fjölmiðlaumfjöllun aukist. Nú geri ég athugasemd sem fagmanneskja sem skrifað hefur í íslenska fjölmiðla, til dæmis sérhæfða myndlistarfjölmiðilinn Artzine og einnig var ég myndlitargagnrýnandi Morgunblaðsins 2020. Helsta ástæða fyrir að ég gat ekki skrifað lengur er að þetta er svo illa greitt að það er langt undir lægstu lágmarkstöxtum. Bendi ég á sem íbúi í Þýskalandi að blaðamenn á sviði menningar geta sótt um styrki til hins opinbera til að skrifa um menningu. Sjálf er ég myndlistarkona og bendi á að þýskur blaðamaður gerði eitt sinn klukkutíma langan útvarpsþátt um mig fyrir þýska ríkisútvarpið. Þátturinn fékk síðan verðlaun sem besti þáttur í sínum flokki næsta ár. Starf blaðakonunnar var mögulegt vegna styrks, annars hefði hún ekki getað lagt í þá vinnu sem þurfti til að gera þáttinn. Bendi ég á þessa styrktarleið sem gæti verið starfslaun fyrir listablaðamenn sem leið sem gefur góða raun og mun leiða til betri og fjölbreyttari og 'aukinnar' (markmið 1) fjölmiðlaumfjöllunar um myndlist.

Jafnframt vil ég benda á að grundvöllur kraftmikillar myndlistarmenningar er nýsköpun, þ.e. sköpun nýrrar myndlistar og að næra feril myndlistarmanna sem felst í því að gera þeim kleift að stunda myndlist í fullu ævistarfi svipað og rithöfundar á Íslandi. Til þess að það sé hægt þurfa myndlistar starfslaun og önnur listamannalaun reyndar að vera í takt við launaþróun í landinu og ekki byggt á lokapunktin langs ferils sem er sýning. Myndlist er svo margt annað en sýningarhald.

Jafnframt vil ég benda á nauðsyn þess að sýningarstjórar geti sótt um laun.

Mikilvægt er að efla starf Sambands íslenskra myndlistarmanna með reglulegri óháðri fjárveitingu úr ríkissjóð og gera SÍM sjálfstæða frá Reykjavíkurborg. Eins og staðan er í dag leigir SÍM ódýrar vinnustofur af borginni og þessir hagsmunir skerða að mínu mati mjög sjálfstæði SÍM gagnvart borginni.

Meginmarkmið 2 - Einfalt og skilvirkt kerfi

Mælikvarði b er að auka opinber innkaup um 3-5% á ári. Það er alltof lítið. Mikið af samtímalistasögunni er að tapast þar sem allt of lítið er keypt. Myndlistarmenn geta ekki verið gerið ábyrgir sjálfir fyrir geymslu og varðveislukostnaði verka. Það vantar hentugt geymsluhúsnæði fyrir myndlistarmenn að hafa aðgang að.

Meginmarkið 3 - Sýnileg og vaxandi atvinnugrein.

Geri ráð fyrir að falið í textanum sé meginatriðið að gefa skattaívilnanir til myndlistarkaupa að erlendri fyrirmynd. Það hefur sýnt sig að er stór hvati til að auka veltu í myndlistarkaupum og að kaup og sala verði sýnileg í efnahagskerfinu.

Geri einnig ráð fyrir að búin verði til skattaflokkur fyrir myndlistarmenn sem fyrirtæki með öllum þeim hagbótum sem því fylgja, að erlendri fyrirmynd.

KVIK / MYND / LIST

Að lokum sendi ég sem viðhengi bréf skrifað af óformlegum (ekki lögaðili með kennitölu) hóp myndlistarmanna sem skapa regluglega Kvik (mynd) list hefur sent á undanförnum árum til aðila sem komu að gerð þessara myndlistarstefnu. Þetta eru aðeins nokkrir aðilar sem tóku beinan þátt í bréfaskrifunum en mun fleiri hafa fylgst með á lýðræðislegum hópvettvangi á facebook. Stuðningur við kvik (mynd) list hefur verið mjög ábótavant hér á landi þrátt fyrir ótrúleg sóknarfæri byggt á sjálfsprottnum sigrum íslenskra myndlistarmanna á þessu sviði. Bréfið ar búið til í tilefni af endurskoðun á úthlutunarramma Kvikmyndasjóðs en á vel við núna þegar verið er að endurskoða ramma og hlutverk Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og tal um að myndlistarráð muni taka meira frumvkæði við Stefnumótun fyrir myndlistarsjóð.

Kær kveðja, Hulda Rós Guðnadóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Kling og Bang Gallerí ehf. - 05.10.2021

Myndlistarstefna

Kling & Bang fagnar því að gerð sé opinber myndlistarstefna og þannig mörkuð stefna til framtíðar varðandi framgang myndlistar fyrir fagið og almenning.

Nokkur atriði sem við viljum koma að í mótun myndlistarstefnu.

Frumsköpun þarf skjól og stuðning til að listaverk geti orðið til, það er frumforsenda áður en farið er að setja listaverk inn í hagrænt samhengi.

Mikilvægt er að skapa starfsumhverfi sem gerir listamönnun kleift að vinna að sinni list án þess vera með fyrirfram ákveðinn farveg inn í markaðskerfi listheimsins og/eða íslensks hagkerfis. Lítið er talað um í myndlistarstefnunni hvernig beinum stuðningi við þá sem sinna frumsköpun verður sinnt.

Styðja þarf markvisst við einyrkjann, listamanninn sjálfan og grasrótina. Efla og styrkja fyrstu skref myndlistarmannsins og listamannarekinna fyrirbæra (non-profit). Listamannarekin rými eru sögulega mjög mikilvægur hluti af íslenskri myndlistarsenu en einmitt þar ná listamenn að spreyta sig og þroskast. Án þess að þetta mikilvæga umhverfi sé til staðar og sé sterkur og lifandi vettvangur frjálsrar sköpunar, verður til tómarúm og þannig tapast mikilvægur farvegur lista(manna) inn á svið safna og (sölu)gallería.

Í drögum að myndlistarstefnu er mikil áhersla lögð á útflutning og kynningu íslenskrar myndlistar á erlendum vettvangi, sem er gott og verðugt markmið. En það er einnig mjög mikilvægur hluti af öflugri myndlistarsenu að geta sýnt erlenda list hér. Efla þarf skilgreint stuðningskerfi til að bjóða listamönnum og öðru fagfólki að koma til landsins erlendis frá til að sýna eða til að mynda mikilvægt tengslanet við listamenn, sýningarstaði og menntastofnannir. Slíkt stuðningskerfi er til staðar í flestum þeim löndum sem við miðum okkur við.

Virðingarfyllst

Kling & Bang

Afrita slóð á umsögn

#10 Bryndís Björnsdóttir - 05.10.2021

Með “fyrstu heildstæðu myndlistarstefnunni” til næstu áratuga er furðulegt hvað stefnan var illa kynnt og ekki myndaður heilstæðari vettvangur af stéttarfélögum eða miðstöðum til að ræða málin til hlítar. Slíkt segir til mikið til um starfsvettvang sem þyrfti að hlúa að til muna áður en gengist eftir því að gera innviði þess og afurð að útflutningsvöru. Einnig að hafa lokadaginn til að senda inn athugasemdir daginn eftir listamannalauna umsókn gefur ekki nægan gaum að starfsumhverfinu.

Hvað myndlistarstefnuna varðar tel ég of mikil áhersla á markaðssetningu lista og hlutverk sem hún eigi að þjóna í ímyndarsköpun þjóðar. Slík tenging og vensl gefur ekki grunn að gagrýnni nálgun eða samtal innan myndlistar líkt og einnig er lögð áhersla í stefnunni.

Nefnt er hér að ofan að komið sé að tómum kofa þegar kemur að erlendum listamönnum að sýna á Ísland og einnig erfitt aðgengi fyrir nýútskrifaða listamenn úr Listaháskólanum sem er aðfluttir að starfa á Íslandi. Báðar athugasemdir draga fram vandasama en sameiginlega spurningu/útgangspunkt sem er hvenær er list orðin íslensk myndlist? Hvað með að aftengja listina frá þjóðerni og líta fremur á samfélag listamanna. Kalla fremur list á Íslandi og starfa eftir því. Því ef byggja á myndlistarstefnu á íslenskri myndlist sem eigið að skapa réttu ímynd út á við erum við tala um þjóðar ímyndarsköpun og myndlistastefna sem byggir á slíku mun aldrei byggja upp fjölbreytt listalíf byggt á gagrýnni hugsun. Það er eftirtektarvert hversu einsleit listasenan á Íslandi er en jákvætt að sjá að það er að verða til hugafarsbreyting. Hugafarsbreyting er þó ekki nóg því að einsleitnin er afurð stofnanvæddra útilokunnar sem hefur byggt upp þetta umhverfi í áratugi. Landvistarleyfi er óaðgengilegt og einnig sú einfalda gjörð að skrifa reikning fyrir listamenn sem eru aðfluttir hér. Listamenn þekkja allir viðkvæman (e. percarious) lífsstíl en það að vera utan kerfis og eiga ekki aðgang inn, er viðkvæmleiki sem er tvívaldur og er það ábyrgð okkar í listasamfélagi að mæta því.

Það eitt að þurfa vera með rafræn einkenni til að skrifa umsögn segir líka til um útilokun í ferli og óaðgengi radda. 

Afrita slóð á umsögn

#11 SÍM,samband ísl myndlistarmanna - 05.10.2021

Umsögn frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna - SÍM er í meðfylgjandi skjali.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Bjarki Bragason - 05.10.2021

Umsögn um drög að myndlistarstefnu 

Starfsfólk myndlistardeildar Listaháskóla Íslands 

Starfsfólk myndlistardeildar Listaháskóla Íslands fagnar heilshugar að unnið sé að stefnu í málefnum myndlistar á Íslandi.  

Við deildina starfa 10 háskólakennarar á BA og MA stigum, starfandi sérfræðingar í myndlist, listfræðum og sýningargerð sem í störfum sinum vinna við að skilgreina og rannsaka framþróun myndlistar á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi. Deildin er viljug til að koma í auknum mæli að stefnumótandi samtali um málefnið og er starfsfólk hennar viljugt til að hafa hlutdeild í mótun myndlistarstefnu.

Starfsvettvangur myndlistar 

Í drögum að myndlistarstefnu er mikil áhersla lögð á markaðsdrifna starfssemi þegar rætt er um myndlist sem atvinnugrein. Það er ástæða til að benda á að starfsvettvangur myndlistar á Íslandi er drifinn áfram af aðkomu fjölmargra ólíkra aðila, þar sem framtaki og frumkvæði myndlistarmanna leikur stórt hlutverk. Vettvangur myndlistar er ekki  eingöngu háður markaðslögmálum um sölu á myndlistarverkum, og því kemur á óvart hversu mikil áhersla er lögð á þennan þátt í stefnunni. Mikilvægt er að breiðari hópur af vettvangi myndlistar sé gerður sýnilegur í stefnunni og að aðgerðir til að renna stoðum undir myndlist horfi til þess hvernig hægt sé að efla þann kraft sem er til staðar nú þegar í myndlist hér á landi með því að taka tillit til virkni myndlistarmanna sjálfra.

Bent er á að verið er að vinna að stofnun samtaka listamannarekinna sýningarrýma en sá vettvangur er sögulega og í samtíma mjög mikilvægur hluti af starfsvettvangi myndlistar á Íslandi, ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur á landsbyggðinni. Mikilvægt er að myndlistarstefna endurspegli þennan raunveruleika og styrki stoðir hans enn frekar. 

Listasafn Íslands 

Við fögnum því vægi sem Listasafni Íslands er gefið í drögum að myndlistarstefnu, en viljum benda er á að huga þarf sérstaklega að fjármögnun safnsins og að hún sé sett í samhengi við fjármögnun annara höfuðsafna og stofnana á sviði lista og menningar. Aukin fjármögnun myndi leiða af sér aukna getu safnsins til þess að sinna lögbundnu hlutverki sínu og þeirri metnaðarfullu framtíðarsýnar sem sett er fram í drögunum.Þá er bent á að listasöfn í samtímanum gegna ekki aðeins því hlutverki að safna, miðla og rannsaka myndlist. Taka þarf tillit til þessa í mótun sýnar fyrir Listasafn Íslands og horfa á safnið sem virkan þátttakanda í gerð og framleiðslu verka sem sett eru upp í safninu.

Sjóðir, fjármögnun, alþjóðlegt samstarf 

Í stefnunni er lögð áhersla á alþjóðlegan sýnileika íslenskrar myndlistar og alþjóðlegt samstarf. Vakin er athygli á að það vantar sjóði sem einbeita sér að því að flytja alþjóðlega myndlist inn til landsins en það er ekki síður mikilvægur þáttur í alþjóðlegu samstarfi en að gera myndlist frá Íslandi sýnilega í alþjóðlegu samhengi. Stefna þarf að því að gera mögulega fjármögnun fyrir sjálfstætt starfandi myndlistarmenn, sýningarverkefni, fræðafólk og marghliða samstarfsverkefni. 

Myndlistardeild Listaháskóla Íslands á sinn þátt í því að stuðla að alþjóðlegu samstarfi og sýnileika myndlistar með því að taka á móti nemendum með bakgrunn og uppruna erlendis frá, þ.á.m. frá löndum utan Schengen svæðisins. Það er deildinni kappsmál að þessir nemendur okkar geti eftir útskrift fengið landvistarleyfi á Íslandi og þannig nýtt menntun sína við skólann til að auðga myndlistarlíf í landinu: þörf er á aðgerðaráætlun til að halda í þennan mannauð, skapa fjölbreytni á starfsvettvangi myndlistar og í menningarlífi landsins og stækka tengslanet myndlistarvettvangsins.

Athugasemdir við meginmarkmið 3 

Rétt er að óska eftir því að tekið verði tillit til þess við mótun stefnunnar, að menning og myndlist er ekki eingöngu mæld í þeim fjárhagslegum verðmætum sem hún skilar til þjóðarbúsins .heldur jafnframt í auknum lífsgæðum og lýðheilsu sem hún skilar íbúum og gestum landsins. Það er ekki gert lítið úr þörfinni fyrir að hlúa að fyrirtækjum sem hafa sérhæft sig í að vinna með myndlist og gera hana arðbæra en það má ekki vera á kostnað grasrótarsterfsemi og framtaks myndlistarmanna sem starfa sjálfstætt. Varað er við því að líta eingöngu á myndlist sem söluvöru.

Við söknum þess að sjá ekki nógu skýrt orðað í stefnunni atriði sem snúa að því að bæta starfsumhverfi myndlistarmanna sjálfra, og sem gæti birst í  áformum um að bæta sjóðaumhverfi myndlistar á þann hátt að sjálfstætt starfandi myndlistarmenn og listamannarekin rými þurfi ekki að keppa við stofnanir sem reknar eru fyrir opinbert fé um styrki úr opinberum sjóðum.

Athugasemd við upphafspunkt meginmarkmiðs 3:  

Æskilegt væri að breyta orðalagi varðandi samkeppnishæfni og sjálfbærni atvinnugreinarinnar. 

Tillaga að nýju orðalagi:

“Myndlist er samkeppnishæf og fjölbreytt atvinnugrein sem leggur sitt af mörkum til verðmæta- atvinnusköpunar um allt land. Byggja þarf enn frekar undir stoðir þeirra fjölbreyttu aðila á starfsvettvanginum” 

Þetta væri m.a. fengið með auknum framlögum til starfslaunasjóðs listamanna og annara sjóða sem fjármagna vettvang starfandi lista- og fræðimanna i myndlist. Leggja þarf áherslu á að sjálfstætt starfandi listamenn og listamannarekin rými njóti sömu aukningu fríðinda og fyrirtæki og gallerí hvað varðar skattamál. 

Virðingarfyllst,

Bjarki Bragason, dósent og starfandi deildarforseti myndlistardeildar

Margrét Elísabet Ólafsdóttir, prófessor

Jóhannes Dagsson, dósent

Hekla Dögg Jónsdóttir, prófessor

Hanna Styrmisdóttir, prófessor

Bryndís Snæbjörnsdóttir, prófessor

Sirra Sigrún Sigurðardóttir, aðjúnkt

Björg Stefánsdóttir, deildarfulltrúi

Hildur Bjarnadóttir, prófessor

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Gunndís Ýr Finnbogadóttir - 05.10.2021

Í drögum er að finna nokkrar áherslur og markmið sem snúa að því að efla listkennslu og einnig að möguleikar þess að myndlist og listasöfn gætu verið farvegur til þess að efla skapandi og gagnrýna hugsun í tengslum við nám almennt.

Undir meginmarkmið 1 er talað um að kennsla og kennslufræðileg nálgun verði efld og framboð af námsefni í myndlist endurskoðað. Í þessu samhengi viljum við benda á mikilvægi markvissrar símenntunnar kennara; bæði myndlistar og sögukennara en einnig almennra kennara. Með góðum og faglegum símenntunar tækifærum þá er hægt að leggja áherslu á tengsl við listasöfn og kennslunálganir þar sem möguleikar myndlistar eru nýttir þvert á námsgreinar.

Á listasöfnum eru að byggjast upp mjög öflug fræðsluteymi sem þyrfti að auka vægi enn meira til þess að hægt sé að styrkja tengsl við skólakerfið enn frekar.

Í aðgerðaráætlun er talað um, undir 2 lið, að lagt sé til að gerð verði úttekt á myndlistar- og listasögukennslu sem grunn fyrir tillögur. Þarna viljum við benda á mikilvægi þess að auka rannsóknir á listkennslu á öllum skólastigum en því miður hefur vantað stuðning í þeim efnum. Rannsóknir á vettvangi, unnar af starfandi kennurum, kennaranemum, og listkennslufræðingum sem kynntar eru vel og unnar í samstarfi við vettvang gætu haft mikil áhrif á gæði og eflingu innan skólana. Eitt af því sem gæti verið áhugavert að rannsaka er námsmat í grunnskólum og tengsl þess við hæfniviðmið, bæði þau sértæku og þau sem varða list- og verkgreinar sameiginlega.

Við fögnum því að opinber myndlistarstefna sé í vinnslu og að myndlistarkennsla og áhersla á læsi og aðferðir lista í öllu námi séu þar veigamikill þáttur í eflingu myndlistar og vonumst til þess að þessar ábendingar verði teknar til athugunnar.

Gunndís Ýr Finnbogadóttir, lektor við listkennsludeild Listaháskóla Íslands

Ingimar Waage, lektor við listkennsludeild Listaháskóla Íslands