Samráð fyrirhugað 11.11.2021—25.11.2021
Til umsagnar 11.11.2021—25.11.2021
Niðurstöður í vinnslu frá 25.11.2021
Niðurstöður birtar

Drög að rannsóknaráætlun Ferðamálastofu 2022-2024

Mál nr. 216/2021 Birt: 11.11.2021
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Ferðaþjónusta

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (11.11.2021–25.11.2021). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Drög að rannsóknaráætlun 2022-2024 um rannsóknir og gagnaöflun í ferðaþjónustu. Fyrsta rannsóknaráætlun Ferðamálastofu var gefin út í ágúst 2020 á grunni laga um stofnunina og reglugerð 20/2020. Stofnunin skal safna gögnum sem nýtast við ákvarðanatöku og markmiðasetningu í ferðaþjónustu og birta þau og jafnframt stuðla að rannsóknum og greina þörf fyrir rannsóknir á sviði ferðamála og vinna rannsóknaáætlun.

Mikilvægi ferðaþjónustu sem atvinnugreinar hefur sannast á undanförnum misserum. Á komandi tímabili tekur við markaðssetning á áfangastaðnum Íslandi, skipulag eða endurskipulagning áfangastaða og uppsetning á áætlunum fyrirtækja sem eru mikilvæg verkefni fyrir þjóðarbúið í heild. Áætlun um rannsóknir og gagnaöflun í ferðaþjónustu fyrir árin 2022-2024 mun koma til með að leggja grunn að þessari vinnu og draga fram nauðsynlegar upplýsingar fyrir stjórnvöld og atvinnugreinina við stefnumótun, markmiðasetningu, áætlanagerð og eftirlit á komandi tímabili.

Rannsóknaráætlunin byggir á vinnu undanfarinna ára og hefur iðulega tekið smávægilegum breytingum eftir aðstæðum á hverju tímabili.

Á komandi rannsóknartímabili mun samningur milli framkvæmdaraðila að stærsta verkefni rannsóknaráætlunar, Landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu, renna út. Nauðsynlegt er að fara í gegnum útboð til að halda þessu mikilvæga verkefni til að tryggja áframhaldandi gagnasöfnun á þeim mikilvægu gildum sem hún skapar. Þá kemur til álita að samnýta þetta verkefni við eftirfarandi þrjú verkefni í rannsóknaráætluninni: verkefni 4 – Ferðahegðun Íslendinga, verkefni 5 – Ferðavenjur útlendinga á völdum þéttbýlisstöðum og verkefni 6 – dreifing ferðamanna á ferðamannastaði. Þessi vinna mun leiða af sér landshlutabundnar upplýsingar sem nýtast við skipulagningu og uppbyggingu áfangastaða innan landshlutanna.

Leitað verður eftir fremsta megni leiða til að auka tíðni gagnasöfnunar á Verkefni 3 - Könnun á viðhorfum Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu. Þessi könnun útvegar mælikvarða sem nýtast við uppfærsluJafnvægisáss ferðamála og er lögð áhersla á að uppfæra hann að minnsta kosti árlega. Sú vinna sem lagt verður í mun hafa það að leiðarljósi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Hagstofa Íslands - 25.11.2021

Umsögn Hagstofu Íslands um rannsóknaráætlun Ferðamálastofu 2022 – 2024

25. nóvember 2021

Hlutverk Ferðamálastofu samkvæmt lögum er að fara með stjórnsýslu ferðamála auk þess að fylgjast með og stuðla að þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar grunnstoðar í samfélaginu. Þar að auki að vinnað að samræmingu, greiningum og rannsóknum í ferðaþjónustu með hliðsjón að stefnu stjórvalda.

Í samráðsgátt stjórnvalda hefur verið birt þriðja þriggja ára rannsóknaráætlun Ferðamálastofu sem nær til áranna 2022-2024.

Þau verkefni sem fjallað er um í rannsóknaráætluninni liggja mörg hver mjög nálægt starfsvettvangi Hagstofunnar. Í því sambandi má nefna Verkefni 4: Könnun á ferðahegðun Íslendinga. Í umsögn Ráðgefandi nefndar um gagnaöflun og rannsóknir, sem birt er sem viðauki við Rannsóknaráætlunina, segir um þennan lið: „Nefndin bendir á að Hagstofan sé að gera svipaðar athuganir og æskilegt að samræma þessa vinnu með henni“. Hagstofa Íslands tekur undir þessa athugasemd og bendir jafnframt á að Hagstofan gerir ferðavenjurannsókn til að uppfylla skuldbindingar í EES samningnum og skilar niðurstöðum sem eru samræmdar fyrir Evrópu til EUROSTAT.

Annað atriði sem vert er að nefna snýr að gerð ferðaþjónustureikninga sem Hagstofan birtir reglulega á grundvelli samnings við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Í umsögn Ráðgefandi nefndar um gagnaöflun og rannsóknir segir: „Jafnframt telur nefndin mikilvægt að sú vinna verði varanlegur þáttur í þjóðhgasreikningagerðinni. Ef til vill væri eðlilegast að ferðaþjónustureikningar yrðu skýrgreindir sem eitt af lögbundnum hlutverkum Hagstofunnar“. Hagstofa Íslands bendir á að ferðajónustureikningar eru hliðarreikningar (Satelite Accounts) við alþjóðlegt kerfi þjóðhagsreikninga SNA 2008/ESA 2010 sem Hagstofan fylgir. Nú stendur yfir heildarendurskoðun á íslenska þjóðhagsreikningakerfinu þar sem aukin áhersla verður lögð á s.k. framleiðsluuppgjör sem mun auðvelda til mikilla muna vinnslu á efnahagstölfræði fyrir einstakar atvinnugreinar og atvinnugreinaflokka, þ.m.t. ferðaþjónustu. Lögbinding á vinnslu uppgjöra á grundvelli þjóðhagsreikninga fyrir einstakar atvinnugreinar er að mati Hagstofu Íslands óæskileg þar sem framleiðsluuppgjörið er bundið í alþjóðlegum stöðlum og reglugerð sem er hluti af ESS samningnum. Er þar gert ráð fyrir samstæðuuppgjöri fyrir alla greira atvinnulifsins, sem ferðaþjónustan er hluti af.

Að síðustu er rétt að árétta Hagstofan birtir upplýsingar um rekstarafkomu ferðaþjónustu eins tímalega og kostur er. Síðustu ár hefur tekist að stytta þennan tíma þannig að á haustmánuðum birtast upplýsingar um rekstur ársins á undan. Þá eru birtar upplýsingar um veltu í greininni innan ársins og mánaðarlegar upplýsingar um fjölda launþega í greininni. Einnig er gefin út skammtímatölfræði um ýmsa þætti greinarinnar s.s. gistinætur með mjög góðum tímaleika. Þannig er í fyrstu viku mánaðar birt tölfæði um gistinætur mánaðar á undan. Loks má nefna mánaðarlega útgáfu Hagstofunnar á skammtímahagvísum í ferðaþjónustu, með um 40 mælikvörðum.

Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök ferðaþjónustunnar - 25.11.2021

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að rannsóknaráætlun Ferðamálastofu 2022-2024.

Með góðum kveðjum

F.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi