Samráð fyrirhugað 10.12.2021—10.01.2022
Til umsagnar 10.12.2021—10.01.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 10.01.2022
Niðurstöður birtar 30.03.2022

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og fleiri lögum (innleiðing EES-gerða o.fl.)

Mál nr. 229/2021 Birt: 10.12.2021 Síðast uppfært: 30.03.2022
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála

Niðurstöður birtar

Ráðherra lagði frumvarp fyrir Alþingi í mars 2022 (533. þingmál á 152. löggjafarþingi). Í 5. kafla í greinargerð með frumvarpinu er greint frá umsögnum í samráðsgáttinni og viðbrögðum við þeim.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 10.12.2021–10.01.2022. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 30.03.2022.

Málsefni

Lagðar eru til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og fleiri lögum til að innleiða Evrópugerðir um starfsemi fjármálafyrirtækja og annarra fyrirtækja á fjármálamarkaði.

Tilskipun 2013/36/ESB um aðgang að starfsemi lánastofnana og varfærniseftirlit með lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum (CRD) og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki (CRR) mynda saman hryggjarstykkið í löggjöf Evrópusambandsins um varfærniskröfur til banka og annarra lánastofnana. Íslensk lög hafa verið löguð að gerðunum í áföngum frá 2015. Þær efnisreglur gerðanna sem mest áhrif hafa á Íslandi hafa þegar verið teknar upp í lög eða stjórnvaldsfyrirmæli hér a landi, þótt margvísleg veigaminni atriði standi út af.

Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í október 2020 starfshóp með fulltrúum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands til að ljúka við innleiðingu CRD og CRR, með síðari breytingum. Starfshópurinn hefur nú tekið saman drög að frumvarpi. Með lögfestingu þess verður lokið við innleiðingu CRD og CRR með þeim breytingum sem hafa verið teknar upp í EES-samninginn auk breytinga sem á að taka upp í samninginn um áramót.

Eftirfarandi er meðal helstu efnislegu breytinga:

• Fjármálaeftirlitið fær nokkrar nýjar eftirlitsheimildir, þeirra á meðal til að afturkalla starfsheimild fjármálafyrirtækis sem brýtur alvarlega eða ítrekað gegn peningaþvættisreglum, til að krefjast sölu á virkum eignarhlut í lánastofnun fari eigandi hans þannig með hlutinn að það sé líklegt til að skaða heilbrigðan og traustan rekstur stofnunarinnar, til að víkja framkvæmdastjóra og stjórnarmanni í fjármálafyrirtæki frá uppfylli hann ekki hæfisskilyrði og til að leggja stjórnvaldssekt á þann sem hefur staðið að því að fyrirtæki fái starfsleyfi á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt, og kveðið er á um nánara samstarf þess við yfirvöld í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins.

• Kveðið er nánar á um stjórnarhætti fjármálafyrirtækja, þar á meðal skyldu kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja til að starfrækja tilnefningarnefnd og starfskjaranefnd. Ákvæði um kaupauka í CRD IV, sem hafa verið tekin upp í reglur Seðlabanka Íslands, eru tekin upp í lögin. Fjármalafyrirtækjum er gert að halda skrá um öll viðskipti sín og skjalfesta stefnur, kerfi og ferla og birta upplýsingar um starfsemi sína í einstökum ríkjum þar sem þau hafa starfsstöð.

• Kveðið er á um á hvaða sjónarmiðum ákvörðun hlutfalls sveiflujöfnunarauka skuli byggjast, það er einkum fráviki hlutfalls skulda af vergri landsframleiðslu frá langtímaleitni og áhættu sem stafar af óhóflegum vexti skulda á Íslandi. Almennt hámark eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki á landsvísu hækkar úr 2% í 3%.

• Ráðherra og Seðlabanka Íslands verður heimilað að innleiða með stjórnvaldsfyrirmælum allar undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í CRD og CRR.

• CRR er lögfest, en meginefni hennar hefur hingað til verið innleitt með reglugerð.

Einnig eru lagðar til fáeinar efnislegar breytingar sem ekki byggjast beint á Evrópugerðum:

• Eignaleiga verður ekki leyfisskyld, en af lögunum leiðir nú að fyrirtæki þurfa strangt til tekið starfsleyfi sem bankar eða aðrar lánastofnanir til að hafa útleigu fasteigna eða lausafjár að meginstarfsemi.

• Stuðst verður við skilgreiningu löggjafar um peningaþvætti og skráningu raunverulegra eigenda á hugtakinu raunverulegur eigandi í stað þess að setja fram sérskilgreiningu í lögum um fjármálafyrirtæki.

• Felld eru brott sérákvæði um óhæði endurskoðenda gagnvart fyrirtækjum á fjármálamarkaði með tilliti til nýlegrar lögfestingar Evrópugerðar sem tekur á sama efni.

Þá eru lagðar til nokkrar breytingar sem er ætlað að skýra eða einfalda lögin eða lagfæra tæknilega annmarka.

Loks er lagt til að lokið verði við innleiðingu starfskjaraákvæða í Evrópugerðum um rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðila sérhæfðra sjóða.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Samkeppniseftirlitið - 07.01.2022

Meðfylgjandi er umsögn Samkeppniseftirlitsins

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Yngvi Örn Kristinsson - 10.01.2022

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja um málið.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Bankasýsla ríkisins - 19.01.2022

Viðhengi