Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 9.–19.3.2018

2

Í vinnslu

  • 20.3.–7.5.2018

3

Samráði lokið

  • 8.5.2018

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-31/2018

Birt: 9.3.2018

Fjöldi umsagna: 12

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Frumvarp til nýrra persónuverndarlaga

Niðurstöður

Hér er að finna lokadrög að frumvarpi til nýrra persónuverndarlaga eftir samráðsferli sem lauk 19. mars sl. Frumvarpið er lagt fram hér til kynningar. Stefnt er að því að leggja frumvarpið fram á Alþingi á næstu dögum.

Málsefni

Um er að ræða drög að frumvarpi til nýrra persónuverndarlaga til innleiðingar á nýrri reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2016/679 um persónuvernd, svo nefnd persónuverndarreglugerð.

Nánari upplýsingar

Starfshópur, sem dómsmálaráðherra skipaði 21. nóvember 2017 undir stjórn Bjargar Thorarensen prófessors um gerð frumvarps til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga, hefur unnið drög að frumvarpi til nýrra laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Rétt er að geta þess að persónuverndarreglugerð ESB hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn með formlegum hætti. Enn er unnið að upptöku reglugerðarinnar í samninginn og er stefnt að því að ljúka því ferli eins hratt og mögulegt er svo að reglugerðin komi til framkvæmda fyrir Ísland og hin EFTA ríkin innan EES frá sama tíma og fyrir aðildarríki ESB eða þann 25. maí nk.

Reglugerð 2016/679 mun leysa af hólmi tilskipun Evrópusambandsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Þótt flest kjarnaatriði tilskipunar ESB frá 1995, t.d. meginreglur um vinnslu persónuupplýsinga, réttindi hins skráða og skyldur ábyrgðaraðila standi áfram óbreytt í reglugerðinni eru þar ráðgerðar ýmsar grundvallarbreytingar og viðbætur við gildandi reglur. Einnig er ljóst að þar sem hinar nýju reglur eru settar með reglugerð ESB en ekki tilskipun, verður sú krafa leidd af 7. gr. EES-samningsins að leiða skal texta reglugerðarinnar sem slíkan inn í landsrétt, en íslensk stjórnvöld hafa ekki val um form eða aðferð við innleiðingu svo sem með umritun slíkra gerða. Engu að síður er ráðgert í reglugerðinni að í allmörgum atriðum geti aðildarríki útfært einstaka ákvæði og hafi svigrúm til að setja efnisreglur eða víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar. Í ljósi umfangs þeirra breytinga og sérreglna sem setja þarf á grundvelli reglugerðarinnar er sú leið farin hér að gera frumvarp til nýrra heildarlaga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem leysi af hólmi lög nr. 77/2000.

Heildardrög að frumvarpi til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eru birt á samráðsgáttinni til kynningar. Drögin fela í sér texta frumvarpsgreina ásamt almennum athugasemdum við frumvarpið. Drögin eru ekki fullbúin þar sem skýringar við einstök ákvæði eru enn í vinnslu. Ekki er útilokað að frumvarpið taki einhverjum breytingum samhliða þeirri vinnu.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar að loknum umsagnarfresti. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa réttinda einstaklinga

postur@dmr.is