Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 21.12.2021–7.1.2022

2

Í vinnslu

  • 8.1.2022–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-236/2021

Birt: 21.12.2021

Fjöldi umsagna: 1

Drög að reglugerð

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Drög að reglugerð um dagsektir Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála

Málsefni

Félagsmálaráðuneytið birtir til umsagnar drög að reglugerð um dagsektir Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, sem stofnunin hefur heimild til að leggja á stjórnvöld, sbr. 20. gr. laga nr. 88/2021.

Nánari upplýsingar

Um næstu áramót tekur ný stofnun, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála til starfa, sbr. lög nr. 88/2021, um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Stofnunin hefur eftirlit með þjónustu sem er veitt á grundvelli barnaverndarlaga, laga um Barna- og fjölskyldustofu, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, laga um málefni aldraðra, laga um Ráðgjafar- og greiningarstöð, laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Í 20. gr. laganna er stofnuninni veitt heimild til að leggja dagsektir á stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga ef þjónusta þeirra er í veigamiklum atriðum í ósamræmi við ákvæði laga, reglugerða og/eða reglna. Í ákvæðinu er þess jafnframt getið að ráðherra skuli í reglugerð ákveða lágmarks- og hámarksfjárhæð dagsekta.

Reglugerðin fjallar um álagningu dagsekta og upphæð þeirra. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála leggur dagsektirnar með sérstakri ákvörðun að undangenginni áminningu og gilda dagsektirnar frá þeim degi sem þær eru ákvarðaðar og fram að þeim degi sem viðkomandi stjórnvald hefur gert fullnægjandi úrbætur á þeirri þjónustu sem það veitir. Lagt er til í reglugerðinni að áður en ákvörðun um álagningu dagsekta sé tekin skuli gefa stjórnvaldinu, sem ákvörðunin beinist að, tækifæri til að tjá sig um fyrirhugaða fjárhæð dagsekta.

Eftirlit Gæða- og eftirlitsstofnunar nær til fjölbreyttrar þjónustu. Þau mál sem geta orðið tilefni áminningar og eftir atvikum dagsekta geta verið mismunandi af eðli og umfangi, allt frá því að varða einn einstakling sem lítil stofnun veitir þjónustu í að varða öll börn í stóru sveitarfélagi. Tekur reglugerðin því mið af því að við ákvörðun um álagningu dagsekta fari fram ítarlegt mat á aðstæðum. Lagt er til að ávallt sé litið í það minnsta til þriggja sjónarmiða við ákvörðun um fjárhæð dagsekta, það er:

1. Hagsmuna sem í húfi eru við veitingu þeirrar þjónustu sem er í ósamræmi við ákvæði laga, reglugerða og/eða reglna.

2. Fjölda einstaklinga sem verða fyrir áhrifum af þeirri þjónustu sem er í ósamræmi við ákvæði laga, reglugerða og/eða reglna.

3. Stærðar stjórnvaldsins sem ákvörðun um dagsektir beinist að.

Til að mæta þessari fjölbreytni er jafnframt lagt til að nokkur breidd sé milli lágmarks og hámarks dagsekta. Í reglugerðinni er lagt til að fjárhæð dagsekta verði að lágmarki kr. 10.000 og að hámarki kr. 300.000 á dag. Um er að ræða sama hámark og í reglugerð um fjárhæð dagsekta vegna vanrækslu sveitarfélaga nr. 706/2018 en ætla má að stærstu málin sem geta komið á borð Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála séu sambærileg að umfangi og mál sem geta leitt til dagsekta á grundvelli sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Lágmark dagsektanna er lægra en mælt er fyrir um í reglugerð nr. 706/2018 en í því sambandi er litið til þess, sem áður greinir, að þau mál sem geta leitt til álagningar dagsekta af hálfu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála geta verið smá í sniðum og varðað eingöngu einn einstakling.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa barna- og fjölskyldumála

frn@frn.is