Samráð fyrirhugað 22.12.2021—24.01.2022
Til umsagnar 22.12.2021—24.01.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 24.01.2022
Niðurstöður birtar

Drög að reglum um verklag við uppljóstrun starfsmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi

Mál nr. 237/2021 Birt: 22.12.2021 Síðast uppfært: 17.01.2022
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (22.12.2021–24.01.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðuneytið kynnir til umsagnar drög að reglum um verklag við uppljóstrun starfsmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið kynnir til umsagnar drög að reglum um verklag við uppljóstrun starfsmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi, með stoð í 2. mgr., sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 40/2020 um vernd uppljóstrara.

Lögin tóku gildi 1. janúar 2021 og hafa reglur á grundvelli þeirra ekki verið settar áður.

Markmið laganna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi og þannig dregið úr slíku hátterni. Lögin kveða á um heimild fyrir starfsmenn til að greina frá upplýsingum eða miðla gögnum í góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda síns til aðila innan fyrirtækisins eða til lögregluyfirvalda eða annarra opinberra eftirlitsaðila sem við eiga, til dæmis umboðsmanns Alþingis, ríkisendurskoðanda og Vinnueftirlitsins (innri uppljóstrun). Miðlun upplýsinga eða gagna að uppfylltum tilteknum skilyrðum telst ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu starfsmanns. Fyrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga eða fyrirtækja sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera er þetta þó ekki heimild heldur skylda.

Lögin kveða á um ákveðna vernd til handa starfsmönnum sem upplýsa um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda síns. Verndin er bundin því skilyrði að starfsmaðurinn fari að ákvæðum laganna og fylgi þeim málsmeðferðarreglum sem þar eru settar. Meginreglan er að ytri uppljóstrun, til dæmis til fjölmiðla, er ekki heimil nema innri uppljóstrun hafi fyrst verið reynd til þrautar.

Til þess að auðvelda starfsmönnum að nýta sér lögin og til að auðvelda vinnuveitendum að bregðast við miðlun samkvæmt lögunum, gera lögin ráð fyrir að í fyrirtækjum eða á öðrum vinnustöðum þar sem að jafnaði eru 50 starfsmenn á ársgrundvelli verði, í samráði við starfsmenn, settar reglur um verklagið. Reglurnar skulu vera skriflegar og þar skal kveðið á um móttöku, meðhöndlun og afgreiðslu tilkynninga um hugsanleg lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitandans. Þá skulu þær vera aðgengilegar öllum starfsmönnum og mega á engan hátt takmarka rétt þeirra samkvæmt lögunum. Vinnueftirlit ríkisins skal birta fyrirmynd að reglum á vef sínum og hefur jafnframt eftirlit með því að atvinnurekendur setji sér slíkar reglur.

Fjármála- og efnahagsráðherra setur framangreindar verklagsreglur fyrir opinberar stofnanir og lögaðila í opinberri eigu en sveitarstjórnir fyrir þá vinnustaði sem undir viðkomandi sveitarfélag heyra.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Samtök fjármálafyrirtækja - 17.01.2022

Góðan dag.

Viðfest er umsögn SFF.

Virðingarfyllst,

Fyrir hönd SFF,

Margrét A. Jónsdóttir

Viðhengi