Samráð fyrirhugað 23.12.2021—10.01.2022
Til umsagnar 23.12.2021—10.01.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 10.01.2022
Niðurstöður birtar 07.06.2022

Drög að frumvarpi til laga um lög um breytingu á lögum um meðferð einkmála, nr. 91/1991, lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og lögum um dómstóla, nr. 50/2016 (ýmsar breytingar)

Mál nr. 243/2021 Birt: 23.12.2021 Síðast uppfært: 07.06.2022
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Almanna- og réttaröryggi
  • Dómstólar

Niðurstöður birtar

Alls bárust fjórar umsagnir um frumvarpið, frá Lögmannafélagi Íslands, Reykjavíkurborg, dr. Hauki Loga Karlssyni og Leifi Runólfssyni lögmanni. Í tilefni ábendinga sem þar komu fram var fellt brott úr frumvarpinu ákvæði sem fjallaði um tilnefningu dómstólasýslunnar í dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara. Aðrar breytingar voru ekki gerðar. Ítarlega er fjallað um umsagnir og viðbrögð við þeim í frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 23.12.2021–10.01.2022. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 07.06.2022.

Málsefni

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og lögum um dómstóla.

Veigamestu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi, en það athugist að ekki er um tæmandi talningu að ræða:

Fjöldi eintaka gagna sem leggja þarf fram við kæru. Samkvæmt gildandi lögum um meðferð einkamála ber þeim sem kærir úrskurð eða dómsathöfn héraðsdóms til Landsréttar að senda Landsrétti í fjórriti þau gögn málsins sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið. Á samsvarandi hátt er nú kveðið á um í lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála að sá sem kærir, ef við á með kæruleyfi, dómsathöfn Landsréttar til Hæstaréttar skuli senda Hæstarétti sömu gögn í sex eintökum. Lagt er til með frumvarpinu að Landsrétti annars vegar og Hæstarétti hins vegar verði látið eftir að ákveða með reglum þann fjölda eintaka gagna málsins sem leggja þarf fram í kærumálum í stað þess að binda það í lög.

Frestur til greinargerðaskila á sumarleyfistíma og við stórhátíðir. Með frumvarpinu er lagt til að Landsrétti og Hæstarétti verði heimilt að lengja fresti varnaraðila í kærumálum til að skila skriflegri greinargerð og málsgögnum á tímabilunum frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með annars dags páska. Þá er einnig lagt til að Landsrétti og Hæstarétti verði heimilt að lengja fresti stefnda við áfrýjun til að skila greinargerð og málsgögnum frá og með 15. júlí til og með 14. ágúst, frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með annars dags páska. Framangreindar breytingatillögur taka eingöngu til laga um meðferð einkamála.

Útgáfa gagnáfrýjunarstefnu í einkamáli. Lagt er til að heimild gagnáfrýjanda í áfrýjuðu einkamáli, bæði fyrir Landsrétti og Hæstarétti, til að fá gagnáfrýjunarstefnu gefna út að nýju sé bundin við það að áfrýjunarstefna í aðalsök hafi verið gefin út að nýju eða að gagnsök hafi verið vísað frá dómi.

Rýmkuð heimild til að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar í einkamálum. Samkvæmt gildandi lögum um meðferð einkamála sæta tiltekin atriði sem kveðið er á um í 1. mgr. 167. gr. laganna kæru til Hæstaréttar. Þá er heimilt samkvæmt 2. mgr. 167. gr. að sækja um leyfi til að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar þegar svo er mælt fyrir í öðrum lögum. Lagt er til að ákvæðið verðið rýmkað þannig að unnt verði að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar í fleiri tilvikum. Við mat á því hvort Hæstiréttur samþykki að taka kæruefni til meðferðar skal líta til þess hvort það hafi fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð viðkomandi máls. Þá geti Hæstiréttur tekið kæruefni til meðferðar ef ástæða er til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni.

Rýmkuð heimild til óska eftir leyfi til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar. Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að óska eftir leyfi til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar. Slíkt leyfi skal þó ekki veitt nema þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar með skjótum hætti og niðurstaða málsins geti verið fordæmisgefandi, haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða haft verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá skal ekki veita leyfi ef málsaðili telur þörf á leiða vitni í málinu eða enn er uppi ágreiningur um sönnunargildi munnlegs framburðar. Með frumvarpi þessu er lagt til að skilyrðið um þörf fyrir skjóta niðurstöðu Hæstaréttar verði fellt brott og heimildin þannig rýmkuð. Þá er lagt til að það viðbótarskilyrði verði sett fyrir veitingu slíks leyfis, að ekki sé enn deilt um staðreyndir sem sérkunnáttu þarf í dómi til að leysa úr.

Niðurfelling sakamáls að undangenginni sáttamiðlun. Lagt er til að skýrt verði kveðið á um úrræðið sáttamiðlun í lögum um meðferð sakamála auk þess sem það verði skilyrði fyrir niðurfellingu máls á grundvelli samkomulags að sáttamiðlun hafi áður farið fram.

Framlenging gæsluvarðhalds. Lagt er til skýrt verði tekið fram í lögum um meðferð sakamála að þegar svo háttar til að óskað er framlengingar á gæsluvarðahaldi og sú krafa er tekin fyrir áður en gæsluvarðhaldið rennur út, þá falli það ekki niður á meðan dómari ræður því lykta hvort fallist verður á kröfuna eður ei.

Setning héraðsdómara. Samkvæmt gildandi lögum um dómstóla er heimilt að setja héraðsdómara vegna leyfa skipaðra dómara en þó aldrei til skemmri tíma en tólf mánaða, nema um sé að ræða leyfi við héraðsdómstól þar sem þrír eða færri dómarar starfa. Lagt er til að þessari reglu verði breytt þannig að heimilt verði að setja dómara við héraðsdómstól, óháð því hversu margir dómarar starfa þar, ef brýn nauðsyn krefur og dómstólasýslan mælir með því.

Setning dómara við Landsrétt og Hæstarétt. Samkvæmt gildandi lögum um dómstóla skulu dómarar sem settir eru við Landsrétt og Hæstarétt, hvort heldur í einstök mál eða til lengri tíma, koma úr röðum fyrrverandi dómara en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í viðkomandi embætti. Lagt er til að þessi regla verði færð í sama horf og fyrir setningu gildandi laga þannig að settir dómarar við Landsrétt og Hæstarétt skuli einfaldlega fullnægja skilyrðum til að skipa megi þá í það embætti sem um ræðir.

Hæfisskilyrði héraðsdómara. Samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. 29. gr. gildandi laga um dómstóla má skipa þann einn í embætti héraðsdómara sem hefur í minnst þrjú ár verið alþingismaður eða stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu en leggja má saman starfstíma í hverri af þessum greinum. Með frumvarpi þessu er lagt til að áskilnaður um störf fyrir ríkið eða sveitarfélag verði felldur brott. Eftirleiðis verði því einungis gerð krafa um að viðkomandi hafi í þrjú ár verið alþingismaður eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Haukur Logi Karlsson - 08.01.2022

Gerðar eru þrjár athugasemdir við fyrirliggjandi drög, dags. 23. desember 2021, og lúta þær allar að dómsstólalögum nr. 50/2016.

I. Skipan dómnefndar

Lagðar eru til breytingar á 11. gr. laganna á þann hátt að fellt verði út það skilyrði að sá nefndarmaður sem dómsstólasýslan tilnefnir í dómnefnd um hæfi umsækjenda um embætti dómara skuli ekki vera starfandi dómari. Tillagan er rökstudd með eftirfarandi hætti í greinargerð:

"Þeim áskilnaði var við setningu gildandi laga um dómstóla ætlað að tryggja fjölbreytileika nefndarmanna en reynslan hefur sýnt, þegar litið er til tilnefninga á aðal- og varamönnum síðustu ár, að ekki er nauðsynlegt að kveða á um þetta atriði í lögum. Þá er einnig litið til þess að aðrir tilnefningaraðilar eru ekki bundnir við skilyrði af nokkru tagi, ef frá eru talin skilyrði sem varða kynjasjónarmið, og þykir rétt að það sama eigi við um tilnefningu dómstólasýslunnar."

Þvert á það sem haldið er fram í ofangreindum rökstuðningi, þá skal því haldið fram hér að áskilnaður um vissan fjölbreytileika nefndarmann í téðri dómnefnd sé nauðsynlegur til þess að tryggja þá valddreifingu, sem löggjafinn hafði í huga þegar kemur að samsetningu nefndarinnar. Nefndin fer með veigamikið vald í stjórnskipuninni, en hún fer í reynd með stóran hluta valds til skipunar á dómurum. Það er því eðlilegt að löggjafinn hafi komið því þannig fyrir að ein fámenn starfsstétt geti ekki án lýðræðislegs umboðs komið sér í þá stöðu að hafa úrslitavald um hverjir veljist til þess að fara með dómsvald yfir allri þjóðinni.

Með því að setja dómsstólasýslunni mörk um hverja hún megi tilnefna var ætlunin að tryggja að sitjandi dómarar hefðu ekki meirihlutavald innan nefndarinnar. Meiri ástæða var til að ætla að dómsstólasýslan, sem stjórnað er af sitjandi dómurum, myndi skipa nefndarmann sem gætti sömu hagsmuna innan nefndarinnar og þeir sem tilnefndir eru af Hæstarétti og Landsrétti, heldur en þeir sem tilnefndir eru af Alþingi og Lögmannafélaginu. Ekki verður séð að þau rök sem voru fyrir þessari skipan í upphafi eigi ekki lengur við, nema síður sé. Jafnvel mætti hugsa sér að ganga lengra í áskilnaði um tilnefningu dómstólasýslunnar, t.d. þannig að hún skuli tilnefna sérfræðing í mannauðsmálum til þess að auka fagmennsku í málsmeðferð nefndarinnar. Það væru enda slíkir hagsmunir sem hægt væri að ætlast til þess að hún ynni að innan hennar, fremur en að stéttarhagsmunum sitjandi dómara, sem þegar er gætt af tveimur af fimm nefndarmönnum.

Nái sú tillaga sem er í drögunum fram að ganga leiðir það til röskunar á því valdajafnvægi sem löggjafinn ákvað upphaflega að skyldi ríkja innan dómnefndarinnar. Sú röskun er veigamikil sökum þeirra miklu valda sem nefndin fer með og hún hefði líklega ekki jákvæð áhrif á störf nefndarinnar og ásýndar hennar í augum almennings.

II. Varadómarar

Lagðar eru til breytingar á 17. gr., 18. gr., 25. gr. og 26. gr. dómstólalaga. Miða þær að því að færa til fyrra horfs skipun varadómara við Hæstarétt og Landsrétt, sem felur í sér að forsetar viðkomandi dómsstóla geti gert tillög til ráðherra um hverjir taki sæti í einstökum málum, eða að dómnefnd um hæfi umsækjenda um embætti dómara geri tillögu um hvern ráðherra setji í embætti dómara til skemmri tíma en 6 mánaða. Núverandi regla bindur forseta dómstólanna og nefndina við slíkar tilnefningar að því leyti að fyrst skuli leitað til dómara sem látið hafa af störfum. Taka má undir með að sú regla hafi ekki verið hugsuð til enda. Það má enda gera ráð fyrir að dómarar sem látið hafa af störfum hafi ekki endilega starfsþrek eða vilja til að halda áfram að sinna dómsstörfum í forföllum. Hitt er þó víst að rökin að baki því að binda hendur þessara aðila við vala á varadómurum eru enn þá til staðar. En þau voru að hætta þótti á að geðþótti réð því hverjir væru settir dómarar til skamms tíma og að þetta vald væri notað til þess að lyfta þóknanlegum framtíðar umsækjendum um dómaraembætti yfir aðra með því að veita þeim dómarareynslu. Óheppilegt væri að endurvekja þessa áru yfir störfum dómsstólanna með því að færa regluna til fyrra horfs og væri það til þess fallið að draga úr trausti á störfum þeirra.

Til þess að þjóna þörfum dómsstólanna á varadómurum og til þess að tryggja gagnsæi og sanngirni í vali á slíkum dómendum mætti hugsa sér fastan lista af varadómurum. Hægt væri að útbúa listann þannig að þeim umsækjendum um embætti dómara, sem teljast af dómnefnd hæfir til að taka sæti en hljóta ekki embætti, væri boðið að taka sæti á þessum lista. Jafnframt mætti bjóða dómurum sem látið hafa af störfum að vera á listanum og mögulega mætti auglýsa reglulega eftir fólki á listann, sem yrði þá hæfismetið líkt og dómaraefni af dómnefndinni. Listann ætti að birta opinberlega og skrá ætti hagsmunatengsl og lögfræðileg sérsvið þeirra sem á honum eru. Loks ætti að birta tölfræði í ársskýrslu dómstólasýslunnar um hverjir eru kallaðir til að taka sæti á hverju ári. Gagnsæi og formfesta um störf og val varadómara ætti að koma í veg fyrir þá gagnrýni sem varð tilefni þeirrar reglu sem frumvarpsdrögin leggja til að verði breytt til fyrra horfs.

III. Aukastörf dómara

Í ljósi þess að verið er að leggja til ýmsar breytingar á dómsstólalögum sakna ég þess að ekki sé horft til breytinga á 45. gr. um aukastörf dómara. Vísa má til þess að nefnd um dómarastörf hefur kallað eftir slíkum breytingum og nokkur umræða hefur verið í samfélagi lögfræðinga um hversu óheppilegir hagsmunaárekstrar geti skapast ef dómarar gegni slíkum störfum í miklu mæli eða fyrir aðila sem þeir ættu ekki að tengjast hagsmunaböndum. Fram hefur komið í opinberri umræðu að dómarar telji sér engu að síður heimilt að gegna umfangsmiklum aukastörfum, en ýmsum þykir sú túlkun ganga í berhögg við lagabókstafinn. Það er því full ástæða til þess að skerpa á því sem þar stendur í 45. gr. dómstólalaga um aukastörf dómara og tilvalið væri að nýta tækifærið núna þegar verið er að leggja til ýmsar breytingar lögunum.

Virðingarfyllst, Haukur Logi Karlsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Reykjavíkurborg - 10.01.2022

Sjá meðfylgjandi skjal.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Leifur Runólfsson - 10.01.2022

Sjá viðhengi.

Viðhengi