Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 23.12.2021–10.1.2022

2

Í vinnslu

  • 11.1.–6.6.2022

3

Samráði lokið

  • 7.6.2022

Mál nr. S-243/2021

Birt: 23.12.2021

Fjöldi umsagna: 3

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Almanna- og réttaröryggi

Drög að frumvarpi til laga um lög um breytingu á lögum um meðferð einkmála, nr. 91/1991, lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og lögum um dómstóla, nr. 50/2016 (ýmsar breytingar)

Niðurstöður

Alls bárust fjórar umsagnir um frumvarpið, frá Lögmannafélagi Íslands, Reykjavíkurborg, dr. Hauki Loga Karlssyni og Leifi Runólfssyni lögmanni. Í tilefni ábendinga sem þar komu fram var fellt brott úr frumvarpinu ákvæði sem fjallaði um tilnefningu dómstólasýslunnar í dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara. Aðrar breytingar voru ekki gerðar. Ítarlega er fjallað um umsagnir og viðbrögð við þeim í frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi.

Málsefni

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og lögum um dómstóla.

Nánari upplýsingar

Veigamestu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi, en það athugist að ekki er um tæmandi talningu að ræða:

Fjöldi eintaka gagna sem leggja þarf fram við kæru. Samkvæmt gildandi lögum um meðferð einkamála ber þeim sem kærir úrskurð eða dómsathöfn héraðsdóms til Landsréttar að senda Landsrétti í fjórriti þau gögn málsins sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið. Á samsvarandi hátt er nú kveðið á um í lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála að sá sem kærir, ef við á með kæruleyfi, dómsathöfn Landsréttar til Hæstaréttar skuli senda Hæstarétti sömu gögn í sex eintökum. Lagt er til með frumvarpinu að Landsrétti annars vegar og Hæstarétti hins vegar verði látið eftir að ákveða með reglum þann fjölda eintaka gagna málsins sem leggja þarf fram í kærumálum í stað þess að binda það í lög.

Frestur til greinargerðaskila á sumarleyfistíma og við stórhátíðir. Með frumvarpinu er lagt til að Landsrétti og Hæstarétti verði heimilt að lengja fresti varnaraðila í kærumálum til að skila skriflegri greinargerð og málsgögnum á tímabilunum frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með annars dags páska. Þá er einnig lagt til að Landsrétti og Hæstarétti verði heimilt að lengja fresti stefnda við áfrýjun til að skila greinargerð og málsgögnum frá og með 15. júlí til og með 14. ágúst, frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með annars dags páska. Framangreindar breytingatillögur taka eingöngu til laga um meðferð einkamála.

Útgáfa gagnáfrýjunarstefnu í einkamáli. Lagt er til að heimild gagnáfrýjanda í áfrýjuðu einkamáli, bæði fyrir Landsrétti og Hæstarétti, til að fá gagnáfrýjunarstefnu gefna út að nýju sé bundin við það að áfrýjunarstefna í aðalsök hafi verið gefin út að nýju eða að gagnsök hafi verið vísað frá dómi.

Rýmkuð heimild til að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar í einkamálum. Samkvæmt gildandi lögum um meðferð einkamála sæta tiltekin atriði sem kveðið er á um í 1. mgr. 167. gr. laganna kæru til Hæstaréttar. Þá er heimilt samkvæmt 2. mgr. 167. gr. að sækja um leyfi til að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar þegar svo er mælt fyrir í öðrum lögum. Lagt er til að ákvæðið verðið rýmkað þannig að unnt verði að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar í fleiri tilvikum. Við mat á því hvort Hæstiréttur samþykki að taka kæruefni til meðferðar skal líta til þess hvort það hafi fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð viðkomandi máls. Þá geti Hæstiréttur tekið kæruefni til meðferðar ef ástæða er til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni.

Rýmkuð heimild til óska eftir leyfi til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar. Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að óska eftir leyfi til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar. Slíkt leyfi skal þó ekki veitt nema þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar með skjótum hætti og niðurstaða málsins geti verið fordæmisgefandi, haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða haft verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá skal ekki veita leyfi ef málsaðili telur þörf á leiða vitni í málinu eða enn er uppi ágreiningur um sönnunargildi munnlegs framburðar. Með frumvarpi þessu er lagt til að skilyrðið um þörf fyrir skjóta niðurstöðu Hæstaréttar verði fellt brott og heimildin þannig rýmkuð. Þá er lagt til að það viðbótarskilyrði verði sett fyrir veitingu slíks leyfis, að ekki sé enn deilt um staðreyndir sem sérkunnáttu þarf í dómi til að leysa úr.

Niðurfelling sakamáls að undangenginni sáttamiðlun. Lagt er til að skýrt verði kveðið á um úrræðið sáttamiðlun í lögum um meðferð sakamála auk þess sem það verði skilyrði fyrir niðurfellingu máls á grundvelli samkomulags að sáttamiðlun hafi áður farið fram.

Framlenging gæsluvarðhalds. Lagt er til skýrt verði tekið fram í lögum um meðferð sakamála að þegar svo háttar til að óskað er framlengingar á gæsluvarðahaldi og sú krafa er tekin fyrir áður en gæsluvarðhaldið rennur út, þá falli það ekki niður á meðan dómari ræður því lykta hvort fallist verður á kröfuna eður ei.

Setning héraðsdómara. Samkvæmt gildandi lögum um dómstóla er heimilt að setja héraðsdómara vegna leyfa skipaðra dómara en þó aldrei til skemmri tíma en tólf mánaða, nema um sé að ræða leyfi við héraðsdómstól þar sem þrír eða færri dómarar starfa. Lagt er til að þessari reglu verði breytt þannig að heimilt verði að setja dómara við héraðsdómstól, óháð því hversu margir dómarar starfa þar, ef brýn nauðsyn krefur og dómstólasýslan mælir með því.

Setning dómara við Landsrétt og Hæstarétt. Samkvæmt gildandi lögum um dómstóla skulu dómarar sem settir eru við Landsrétt og Hæstarétt, hvort heldur í einstök mál eða til lengri tíma, koma úr röðum fyrrverandi dómara en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í viðkomandi embætti. Lagt er til að þessi regla verði færð í sama horf og fyrir setningu gildandi laga þannig að settir dómarar við Landsrétt og Hæstarétt skuli einfaldlega fullnægja skilyrðum til að skipa megi þá í það embætti sem um ræðir.

Hæfisskilyrði héraðsdómara. Samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. 29. gr. gildandi laga um dómstóla má skipa þann einn í embætti héraðsdómara sem hefur í minnst þrjú ár verið alþingismaður eða stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu en leggja má saman starfstíma í hverri af þessum greinum. Með frumvarpi þessu er lagt til að áskilnaður um störf fyrir ríkið eða sveitarfélag verði felldur brott. Eftirleiðis verði því einungis gerð krafa um að viðkomandi hafi í þrjú ár verið alþingismaður eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Dómsmálaráðuneyti

dmr@dmr.is