Umsagnarfrestur er liðinn (05.01.2022–20.01.2022).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Fjármála- og efnahagsráðherra birtir til umsagnar áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020 (fjármögnun skilasjóðs og iðgjöld í TIF).
Áformuðu frumvarpi er ætlað að innleiða eftirstandandi ákvæði í tilskipun 2014/59/ESB (BRRD) og ákvarða hvernig staðið verður að fjármögnun skilasjóðs. Samhliða því að kveða á um og tryggja fjármögnun skilasjóðs þykir ástæða til að stöðva gjaldtöku í innstæðudeild TIF þar sem hlutverk TIF hefur breyst með lögum nr. 70/2020 og öðrum umbótum á fjármálamarkaði.
Með áformuðu frumvarpi er lagt upp með að flytja fjármuni úr innstæðudeild TIF í skilasjóð þannig að stærð sjóðanna tveggja eftir tilfærslu fjármuna verði hlutfallslega sú sama og milli lögbundinna lágmarka þeirra samkvæmt Evrópureglum, eða 0,8% og 1%. Með þessu er átt við að skilasjóður verði stærri en innstæðudeild TIF sem nemur 25%. Miðað við stöðu tryggðra innstæðna í september 2021 yrðu 24,9 ma.kr. fluttir úr TIF í skilasjóð. Eftir þessa breytingu yrðu heildareignir innstæðudeildar TIF 21,8 ma.kr. eða 2% af tryggðum innstæðum og heildareignir skilasjóðs 27,3 ma.kr. sem samsvarar 2,5% af tryggðum innstæðum.
Þrátt fyrir tilfærslu fjármuna úr TIF í skilasjóð yrði TIF meðal stöndugustu innstæðutryggingasjóða á EES svæðinu og eignir sjóðsins tæplega 48% af tryggðum innstæðum lánastofnana sem ekki teljast kerfislega mikilvægar. Sjóðirnir yrðu með þessu móti báðir ríflega tvöfalt stærri en áskilnaður er gerður um samkvæmt Evrópureglum. Líkt og framan greinir er í því ljósi áformað að hætta greiðslum í TIF að svo stöddu en að þær hefjist aftur ef tilefni reynist til.