Samráð fyrirhugað 28.01.2022—11.02.2022
Til umsagnar 28.01.2022—11.02.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 11.02.2022
Niðurstöður birtar 12.04.2022

Útlendingalög (alþjóðleg vernd)

Mál nr. 20/2022 Birt: 28.01.2022 Síðast uppfært: 12.04.2022
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Ráðuneytinu bárust 26 umsagnir vegna frumvarpsins sem unnið hefur verið úr. Í samræmi við þær athugasemdir sem bárust voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu, sbr. meðfylgjandi niðurstöðuskjal.

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 28.01.2022–11.02.2022. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 12.04.2022.

Málsefni

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd) og lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 (atvinnuleyfi). Endurflutt að hluta.

Frumvarp þetta, sem samið er í dómsmálaráðuneytinu, kveður á um breytingar á lögum um útlendinga nr. 80/2016, hvað varðar ákvæði þeirra um alþjóðlega vernd, og lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002, varðandi útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa vegna sérstakra ástæðna. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga var lagt fram á 149. löggjafarþingi (þskj. 1334, 838. mál) en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið var endurflutt á 150. löggjafarþingi (þskj. 1228, 171. mál) með nokkrum viðbótum en það frumvarp náði ekki heldur fram að ganga. Frumvarpið var endurflutt þriðja sinni á 151. löggjafarþingi (þskj. 1029, 602. mál) með enn frekari viðbótum, m.a. í ljósi þeirrar þróunar sem hafði átt sér stað í málaflokknum frá því frumvarpið var samið upphaflega og í kjölfar Covid-19 heimsfaraldursins. Fól það frumvarp m.a. í sér breytingar á tilteknum ákvæðum laganna varðandi alþjóðlega vernd, brottvísanir, dvalarleyfi og kærunefnd útlendingamála. Í samráði við félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra lagði frumvarpið jafnframt til breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, varðandi útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa vegna sérstakra ástæðna. Frumvarpið náði ekki heldur fram að ganga og er nú endurflutt að nýju en í breyttri mynd þar sem það nær nú eingöngu til breytinga á ákvæðum laga um útlendinga varðandi alþjóðlega vernd. Auk þess er lögð til breyting á lögreglulögum nr. 90/1996 sem felur í sér að verkefni stoðdeildar ríkislögreglustjóra verði lögbundin, enda gegnir stoðdeild mikilvægu hlutverki við framkvæmd ákvarðana Útlendingastofnunar. Þá eru, í samráði við félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, að nýju lagðar til breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, varðandi útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa vegna sérstakra ástæðna.

Við framkvæmd laga um útlendinga hefur komið í ljós að lagfæra, endurskoða og breyta þarf allmörgum ákvæðum þeirra um alþjóðlega vernd svo að framkvæmd og meðferð mála sem undir þau falla sé skýr og gagnsæ. Núgildandi lög um útlendinga, sem tóku gildi 1. janúar 2017, voru samin á árunum 2014 til 2016 en síðan þá hafa málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd þróast töluvert, bæði alþjóðlega og hérlendis. Mikilvægt er í síbreytilegum og lifandi málaflokki að löggjöfin aðlagi sig að þeirri þróun sem á sér stað í alþjóðasamfélaginu og þeim áskorunum sem verndarkerfið stendur frammi fyrir á hverjum tíma. Þurfa stjórnvöld sem fara með þessi málefni að geta brugðist við breyttum aðstæðum til að tryggja að verndarkerfið ráði við að afgreiða þær umsóknir sem berast á mannúðlegan og skilvirkan hátt, að fullnægjandi þjónusta sé veitt og að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru séu nýttir sem best.

Á meðal álitaefna sem fram hafa komið undanfarin ár eru atriði sem snerta fjölgun umsókna þeirra einstaklinga sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki, málsmeðferðartími umsókna barna um alþjóðlega vernd, vinnsla persónuupplýsinga útlendinga við framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun, hlutverk Barnaverndarstofu við veitingu alþjóðlegrar verndar í málum fylgdarlausra barna, málsmeðferð umsókna um ríkisfangsleysi, réttindi og skyldur flóttafólks sem kemur til landsins í boði stjórnvalda, fjölskyldusameiningu flóttafólks og skerðing og niðurfelling réttinda skv. lögunum.

Frá gildistöku núgildandi laga um útlendinga hafa verið gerðar breytingar á lögunum nokkrum sinnum, þó ekki veigamiklar, og er frumvarp þetta liður í nauðsynlegri endurskoðun laganna og felur í sér efnismeiri lagabreytingar varðandi alþjóðlega vernd en gerðar hafa verið til þessa.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Ragnar Árnason - 04.02.2022

Umsögn

Í heiminum eru hundruð milljóna fólks sem er til í að leggja mikið á sig til að ná búsetu í vestrænum velferðarríkjum eins og Íslandi. Á síðustu áratugum hafa tækifærin til að gera þetta aukist stórlega. Er það einkum vegna samgöngubóta, viðhorfsbreytinga, lagabreytinga og breyttrar framkvæmdar laga. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Milljónir manna frá fátækari hlutum heimsins hafa lagt á sig dýrt, erfitt og jafnvel hættulegt ferðlag til að setjast að í ríkari löndum þar sem þeir telja lífsskilyrði betri.

Afar mikilvægt er að átta sig á því að meginástæða þessara fólksflutninga eru ekki hörmungar á einstökum svæðum, styrjaldir, hungursneyðir eða ofsóknir. Meginástæðan fyrir fólksflutningum nútímans er sú sama og ráðið hefur fólksflutningum í heiminum í árþúsundir; innflytjendur eru einfaldlega að leita sér að betra og auðveldara lífi. Þetta er efnahagsleg ástæða. Þess vegna munu fólksflutningarnir ekki stöðvast fyrr en væntanlegur ábati af ferðinni verður lægri en væntanlegur kostnaður.

Miðað við þann mikla fjölda fólks sem vill gerast innflytjendur í vestrænum ríkjum er Ísland mjög mannfátt. Það er enginn vafi á því að ef dyr væru hér nægilega opnar myndu hundruð þúsunda, jafnvel milljónir taka því fegins hendi að fá búseturétt á Íslandi. Slíkt innflæði myndi ekki stöðvast fyrr en lífskjör hér á landi væru komin niður undir það nú er í fátækari hluta heimsins. Við slíkar aðstæður yrði lítið eftir af íslenskri menningu og þjóðargildum.

Um árabil hafa kjörnir fulltrúar þjóðarinnar annaðhvort ekki áttað sig á þessum staðreyndum málsins eða skellt skollaeyrum við þeim. Afleiðingin hefur verið innflæði útlends fólks af alls kyns toga og menningu sem nemur nú á tiltölulega fáum árum verulegum hlut þjóðarinnar. Ég hygg að fáar vesturlandaþjóðir hafi tekið við svo stóru hlutfalli innflytjenda á svo skömmum tíma. Samfélagslegar og efnahagslegar afleiðingar þessa mikla innflutnings eru þegar farnar að koma fram og munu gera það í enn ríkari mæli á komandi árum eins og reynsla annarra þjóða sýnir.

Frumvarp það sem hér er kynnt felur í sér vissa viðleitni til að hamla á móti þessari þróun. Því ber að fagna. Það gengur hina vegar að mínu viti allt of skammt í þessu efni. Hagmunir Íslendinga og þeirra innflytjenda sem þegar eru komnir til landsins og jafnvel þeirra sem eftir eiga að koma eru að skynsamlegri stjórn verði komið á flæði innflytjenda til landsins og tala innflytjenda verði takmörkuð við það sem samræmst getur sæmilegum félagslegum og efnahagslegum stöðugleika í landinu. Frumvarpið er skref í þessa átt. Vonandi koma stærri skef í framhaldinu.

Ragnar Árnason

Prófessor emeritus

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Jón Frímann Jónsson - 05.02.2022

Þetta frumvarp er rasískur fjandi sem á ekki heima á Íslandi á 21 öldinni. Eins og önnur lög um útlendinga þá er þetta frumvarp keyrt áfram af sturluðu útlendingahatri og þeir sem keyra þetta áfram ættu ekki að vera á Alþingi og alls ekki með ráðherravald.

Mannréttindi á að virða og svona fasísk útlendingalög á að stöðva og senda í tætarann og fólk sem leggur fram svona lög á Alþingi á að segja af sér embætti án tafar.

Afrita slóð á umsögn

#3 Einar Sveinn Hálfdánarson - 09.02.2022

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd)

Ég tel í frumvarpið vanti ákvæði þess efnis að flugrekendum og skipaútgerðum sé skylt að ganga úr skugga um að útlendir farþegar á leið til Íslands skuli framvísa gildu vegabréfi eða evrópsku nafnskírteini áður en gengið er um borð í flugvél eða skip. Þeir farþegar sem eru frá löndum þar sem Ísland gerir kröfu um vegabréfsáritun skuli jafnframt framvísa gildri vegabréfsáritun.

Jafnframt tel ég að setja þurfi ákvæði þess efnis að farþegar á leið til landsins skuli fylla út forskráningarform með helstu upplýsingum um sig (e. APIS). Nánar verði kveðið á um framkvæmd forskráningar í reglugerð.

Afrita slóð á umsögn

#4 Eyrún Ólöf Sigurðardóttir - 09.02.2022

Í frumvarpinu er stigið jákvætt skref í átt að því að greiða fyrir atvinnuþátttöku einstaklinga sem hlotið hafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi eða vegna sérstakra tengsla við landið. Fólk úr þessum hópum hefur sjálft kallað eftir að liðkað verði fyrir möguleika þess á að sjá sér farborða með sjálfstæðum hætti og er ánægjulegt að sjá brugðist við þeirri ósk. Eins og gefur að skilja mun aðgengi að vinnumarkaði alltaf styrkja bæði einstaklingana sem í hlut eiga sem og samfélagið í heild og því ber að fagna allri viðleitni til að liðka fyrir því.

Heilt á litið einkennist frumvarpið hins vegar af grimmilegri og útilokandi stefnu þar sem lagt er til að tilteknir einstaklingar eða heilu samfélagshóparnir séu sviptir ákveðnum grundvallarréttindum sem aðrir samfélagsþegnar njóta, svo sem réttinum til einkalífs og persónuverndar og möguleikanum á að búa sér líf sem byggir á öryggi, frelsi og mannhelgi.

Í frumvarpinu er stigið stórt og alvarlegt skref í átt að mannréttindabrotum, með því að leggja til formfestingu á þvinguðum læknisrannsóknum og heilbrigðisskoðunum. Að sama skapi er gengið nærri siðareglum heilbrigðisstarfsfólks með því að leggja til að upplýsingum úr þeim skoðunum eða rannsóknum verði deilt með þriðja aðila (þ.e. lögreglu).

Í frumvarpinu er jafnframt vegið að getu íslenska ríkisins um að rækja skyldu sínu um að senda ekki einstaklinga aftur í hættulegar aðstæður (non-refoulment), sem ítrekað hefur verið bent á að ekki er hægt að gera um án efnislegrar skoðun á hverju máli fyrir sig. Sú tillaga að svipta fólk húsnæði og framfærslu eftir synjun á umsókn er ávísun á heimilisleysi og fátækt, sem er líklegt til að leiða til fjölþættari og flóknari samfélagslegs vanda ef marka má reynsluna hérlendis og erlendis.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd, og flóttafólk almennt, er samfélagshópur í gríðarlega viðkvæmri stöðu. Fólk á flótta býr jafnan við margþætta mismunun þar sem kyn, kynþáttur, fötlun, þjóðernisuppruni og trú, svo eitthvað sé nefnt, fléttast saman við oft flókna áfallasögu og kerfislægar hindranir sem standa í vegi fyrir öryggi og velferð. Mikilvægt er að taka tillit til þessara þátta þegar opinber stefna í málaflokknum er mótuð.

Mikilvægt er að hafna þeirri nálgun sem hér er lögð til en tryggja í staðinn að íslenska ríkið bæði standi við alþjóðlegar skuldbindingar í málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd, á sama tíma og það nálgist málaflokkinn af virðingu fyrir mannslífum og mannréttindum, óháð uppruna og bakgrunni þeirra sem um ræðir.

Afrita slóð á umsögn

#5 Julius Pollux Rothlaender - 10.02.2022

Ef lög leiða til þess að manneskjur búa ekki yfir sama grundvallarmannréttindum og aðrar, kallast það ekki mismunun og rasismi?

Af hverju var mér veitt tækifæri að búa og starfa hér, á meðan það að er komið fram við aðrar manneskjur eins og þær séu að fremja glæp með því að vilja koma hingað og eignast nýtt líf?

Mig langar að búa í samfélagi þar sem manneskjur eru velkomnar óháð því hvaðan þær koma.

Af hverju er svo miklum tíma eytt í því að semja flókna lagatexta og finna mörg orð yfir því hvernig að halda sem flestum manneskjum frá landinu eða senda þær tilbaka - í staðinn fyrir að taka sér tíma til að hlusta á sögur og þarfir fólks, gefa þeim tækifæri og hjálpa þeim að byrja nýtt líf, og þar með gera þetta samfélag að betra stað þar sem mannréttindum er virt?

Afrita slóð á umsögn

#6 Anna Kristín B. Jóhannesdóttir - 10.02.2022

Það er ófrávíkjanleg staðreynd að flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd eru einn af þeim samfélagshópum sem er hvað viðkvæmastur. Því ætti hverskyns lagafrumvarp um þennan hóp að hverfast um að standa vörð um þeirra réttindi til mannsæmandi lífs. Þetta frumvarp vegur hinsvegar að friðhelgi þessa einstaklinga með því að svipta þeim ákveðnum grundvallarmannréttindum sem við, hin heppnu sem fæðumst í friðsælu og auðugu landi tökum sem gefnum. Í frumvarpinu er ný grein sem vegur að friðhelgi þessara einstaklinga að ráða yfir líkama sínum og hvaða heilbrigðisrannsóknir þau gangast undir. Með því að þvinga þau til að gangast undir heilbrigðisrannsóknir er einnig gefið til kynna að til eru heilbrigðisstarfsfólk sem getur hugsað sér að valdbeita einstakling í eins viðkvæmum hóp og raun ber vitni. Ef þetta gengur í gegn í þessu frumvarpi tel ég það mjög hættulegt fordæmi því með því væri íslenska ríkið að nota heilbrigðisstarfsfólk í pólitískum tilgangi til þess að brjóta mannréttindi jaðarsetts hóps. Einnig opnar frumvarpið á þann möguleika að heilbrigðisstarfsfólk eigi að framvísa trúnaðarupplýsingum um einstaklinganna til lögreglunnar. Það er gífurlega alvarlegt og brýtur ekki einungis á réttindum flóttafólks til óháðrar heilbrigðisþjónustu heldur brýtur það í bága við skyldur heilbrigðisstarfsfólks sem eiga að vera málsvarar sinna skjólstæðinga, líkna þá og lækna. Heilbrigðisstarfsfólk á ekki að vera sett í þá stöðu að framfylgja landamærastefnu íslenska ríkisins en ef þetta frumvarp gengur í gegn verður það sannarlega sorgleg og hættuleg þróun.

Anna Kristín B. Jóhannesdóttir – Hjúkrunarfræðingur og aðjúnkt.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Nanna Hlín Halldórsdóttir - 10.02.2022

Ég tek undir orð Eyrúnar Ólafar Sigurðardóttur (umsögn 4) og Önnu Kristínar B. Jóhannesdóttur (umsögn 6) hér að ofan. Hér er um virkilega viðkvæman samfélagshóp að ræða sem þarf á öllum stigum málsin tryggð frekari vernd og mannréttindi en hinn almenni borgar á Íslandi. Því er hins vegar öfugt farið í frumvarpinu og varhugavert að sjá að Alþingi vilji lögfesta slíkt.

Þetta tvennt er mjög alvarlegt (vísað í umsögn 4):

„Í frumvarpinu er stigið stórt og alvarlegt skref í átt að mannréttindabrotum, með því að leggja til formfestingu á þvinguðum læknisrannsóknum og heilbrigðisskoðunum. Að sama skapi er gengið nærri siðareglum heilbrigðisstarfsfólks með því að leggja til að upplýsingum úr þeim skoðunum eða rannsóknum verði deilt með þriðja aðila (þ.e. lögreglu).

Í frumvarpinu er jafnframt vegið að getu íslenska ríkisins um að rækja skyldu sínu um að senda ekki einstaklinga aftur í hættulegar aðstæður (non-refoulment), sem ítrekað hefur verið bent á að ekki er hægt að gera um án efnislegrar skoðun á hverju máli fyrir sig. Sú tillaga að svipta fólk húsnæði og framfærslu eftir synjun á umsókn er ávísun á heimilisleysi og fátækt, sem er líklegt til að leiða til fjölþættari og flóknari samfélagslegs vanda ef marka má reynsluna hérlendis og erlendis.“

Enn fremur vil ég benda á sem sérfræðingur í siðfræði að þetta frumvarp er siðfræðilega ámælisvert þar sem hér er ekki unnið eftir þeirri grundvallarhugsun siðfræðinnar að ávallt þurfi að leita eftir upplýstu samþykki þeirra sem skuli sæta lækn- og heilbrigðisrannsóknum. Það er varhugavert að sjá slíkt í frumvarpi að lögum á Íslandi og þá sérstaklega þegar því er beint að svo viðkvæmum hópi fólks.

Nanna Hlín Halldórsdóttir, nýdoktor í heimspeki við Háskóla Íslands

Afrita slóð á umsögn

#8 Alþýðusamband Íslands - 11.02.2022

Meðfylgjandi er umsögn ASÍ

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Rauði krossinn á Íslandi - 11.02.2022

Umsögn Rauða krossins á Íslandi um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd). 152. löggjafarþing 2021-2022

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Unicef Ísland - 11.02.2022

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Landssamtökin Þroskahjálp - 11.02.2022

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálp er hér í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Kvenréttindafélag Íslands - 11.02.2022

Hér í viðhengi er umsögn Kvenréttindafélags Íslands.

bestu kveðjur, Brynhildur

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Íslandsdeild Amnesty International - 11.02.2022

Meðfylgjandi er umsögn Íslandsdeildar Amnesty International:

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Elva Hrönn Hjartardóttir - 11.02.2022

Þetta frumvarp er stórt skref aftur á bak í útlendinga- og mannréttindamálum. Það er ekki fyrsta sinnar tegundar sem kemur úr smiðju Sjálfstæðisflokksins en þetta er óneitanlega það versta hingað til og rasískur tónn einkennir allt frumvarpið. Markmið þess virðist eingöngu vera að geta neitað fleirum um hæli hér og hraðar en nú og refsa þeim með ómannúðlegri og ómanneskjulegri meðferð sem ómögulega geta hugsað sér að fara aftur í löngu yfirfullar flóttamannabúðir eða til heimkynna sinna í óvissu og óöryggi. Vissulega skiptir máli að fólk bíði ekki niðurstöðu sinna mála í langan tíma en mannúðarsjónarmið og náungakærleikur ættu að vera ofar markmiðinu um skilvirkni.

Það leysir ekki vandann að færa hann annað líkt og D-liður í 7. grein gerir kleift í formi Dyflinarreglugerðar á alheimsvettvangi. Heilsuskoðanir og lífsýnatökur gegn vilja einstaklinga, líkt og talað er um í 17.-19. grein í frumvarpinu, standast varla mannréttindasáttmála og hið sama á við um að neita fólki um grunnþjónustu og að tryggja að grunnþörfum einstaklingsins sé fullnægt, sem 5. grein frumvarpsins myndi heimila.

Mörg koma hingað í leit að hæli vegna þess að það er ekki í boði að koma hingað á atvinnuleyfi þar sem fólk kemur frá ákveðnum löndum eða heimssvæðum. Þessu þarf auðvitað að breyta og gera fleirum sem leita að nýjum tækifærum kleift að setjast hér að og verða hluti af samfélaginu okkar. Við ættum að taka nýju fólki fagnandi.

Það flýr engin manneskja heimili sitt að gamni sínu. Fólk vill geta búið heima hjá sér við frið og öryggi en til að svo megi verða þarf margt að breytast í heiminum. Flóttamanna“vandinn“ er fjölþættur og flókinn og er að langmestu leyti tilkominn vegna lifnaðarhátta og hernaðarbrölts þróaðra ríkja. Vandamálið byrjar hjá okkur og það er okkar skylda að axla ábyrgð á því. Öll ríki þurfa að auka framlag sitt til þróunarsamvinnu og við þurfum að taka af alvöru og festu á hlýnun jarðar og þeirri hættu sem blasir við okkur vegna loftslagsbreytinga.

Við hér á Íslandi hreykjum okkur af því að standa framarlega í mörgum málum og vera leiðandi í öðrum. Af hverju getum við ekki haft sama viðhorf til þessa málaflokks? Hvers vegna er metnaðurinn ekki meiri og því leitumst við ekki eftir því að vera framúrskarandi í móttöku fólks á flótta, umsækjenda um alþjóðlega vernd og annarra útlendinga? Ég trúi því að hér í velferðarríkinu Íslandi sé nóg til handa okkur öllum, hvort sem við komum héðan eða annarsstaðar frá, og að við getum tekið utan um öll þau sem þurfa á stuðningi og hæli að halda. Til að svo megi verða þurfum við að einbeita okkur að því að stuðla að jafnari skiptingu fjármagns og tryggja innviði okkar og undirstöður samfélagsins svo við getum öll notið okkar í því. Fjölbreytileiki auðgar okkar samfélag og skilar okkur á endanum margfalt meira en við leggjum til. Það er mikilvægt að við tökum vel utan um þennan málaflokk en það gerum við ekki með því að gera þetta frumvarp að lögum.

Afrita slóð á umsögn

#15 Marta Jóns Hjördísardóttir - 11.02.2022

Umsögn frá hjúkrunarfræðingi

Fólk á flótta og umsækjendur um alþjóðlega vernd eru einn af okkar viðkvæmustu samfélagshópum. Í þessu frumvarpi er vegið harkalega að grundvallar rétti þeirra til öruggrar heilbrigðisþjónustu.

Sjúklingur á rétt á þjónustu sem miðast við ástand hans og horfur á hverjum tíma, byggt á bestu þekkingu sem völ er á. Virða skal rétt sjúklings til að ákveða sjálfur hvort hann þiggur meðferð… enga meðferð má framkvæma án samþykkist sjúklings (Úr lögum um réttindi sjúklinga 1997 nr. 74 28. Maí). Í fyrirliggjandi frumvarpi er lögreglu gefin heimild til að neyða sjúklinga til að gangast undir heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn. Það hlýtur að stangast á við rétt sjúklings um að ákveða sjálfur hvort hann þiggur meðferð.

I frumvarpinu er ætlunin að tryggja lögreglu heimild til að afla heilsufarsupplýsinga frá heilbrigðisyfirvöldum og það með réttinn til að neyða heilbrigðisstarfsfólk til að afhenda slíkar upplýsingar.

I siðareglum hjúkrunarfræðinga er hjúkrunarfræðingi gert skylt að hafa samráð við skjólstæðing sinn og virða rétt hans til að taka ákvarðanir um eigin meðferð auk þess sem hjúkrunarfræðingur stendur vörð um réttindi skjólstæðings til einkalífs og gætir trúnaðar og þagmælsku.

Verði þetta frumvarp að lögum vegur það harkalega að rétti fólks á flótta til grunn heilbrigðisþjónustu.

Ég tel það vera skyldu okkar að byggja lagaumhverfi okkar upp þannig að það þjóni okkar viðkvæmustu samfélagshópum á sem bestan hátt.

Við eigum öll skilið gott aðgengi að bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu

Marta Jóns Hjördísardóttir, hjúkrunarfræðingur.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Þóra Jónsdóttir - 11.02.2022

Umsögn Barnaheilla – Save the Children á Íslandi um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd)

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa fengið til umsagnar ofangreint frumvarp og þakka fyrir tækifærið.

Barnaheill leyfa sér að styðja við og taka undir umsögn Rauða krossins á Íslandi um frumvarpsdrögin og þakka fyrir afar vel unna umsögn nú sem áður um sama mál og þeirra framlag til réttarverndar flóttafólks og þá sérstaklega barna.

Jafnframt taka Barnaheill undir umsögn Þroskahjálpar sem og umsögn UNICEF á Íslandi um sama mál.

Að auki leggja Barnaheill áherslu á mikilvægi þess að allar ráðstafanir eða ákvarðanir yfirvalda er varða börn séu byggðar á því sem börnunum er fyrir bestu, sbr. 3. grein Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013. Af því leiðir að allar takmarkanir á réttindum barna sem festa á í lög þarf að rökstyðja og byggja á raunverulegu mati á áhrifum þeirra ákvarðana á líf barna sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd. Ákvarðanir sem teknar eru um takmarkanir réttinda skulu einnig vera byggðar á því sem börnum er fyrir bestu, ef þær eru yfirleitt mögulegar með því skilyrði, í því vel stæða ríki sem Ísland er. Í þeim frumvarpsdrögum sem nú liggja fyrir eru börn undanskilin frá réttindamissi þeim um þjónustu sem fullorðnum er gert að þola þegar synjun um vernd liggur fyrir, er það vel. Hins vegar verður að líta til þeirra áhrifa sem verða á börn ef foreldrar þeirra verða fyrir slíkum réttindamissi. Óbein áhrif á börn kæmu fram í almennt verri lífsskilyrðum fyrir börn af margvíslegum ástæðum.

Barnaheill telja að farin sé röng leið að því að bæta úr þyngslum í afgreiðslu flóttamannamála og of löngum málsmeðferðartíma með tillögum þeim sem fram koma í frumvarpinu. Það að skerða verulega rétt barna og fjölskyldna þeirra til að fá mál sín skoðuð nægilega vel eins og réttur allra stendur til, m.a. á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og jafnframt á rétti allra til réttlátrar málsmeðferðar, er brot á mannréttindum barna. Það að endursenda börn til ríkja sem vitað er að ekki séu örugg þó þau séu sögð vera það samkvæmt lista Utanríkisráðuneytisins, svo sem Grikklands og Ungverjalands, er brot á mannréttindum barna. Samtökin telja brýnt að endurskoða þau viðmið sem stuðst er við þegar meta á hvort ríki séu örugg til endurflutnings á börnum, m.a. með tilliti til hvort ákvæðum Barnasáttmálans sé fylgt.

Barnaheill hvetja íslensk stjórnvöld til að taka aukinn þátt í flóttamannavanda heimsins með því að rýmka frekar möguleika flóttafólks, sér í lagi barnafjölskyldna, til að öðlast hér alþjóðlega vernd og axla þannig ábyrgð sína á sameiginlegu verkefni alls heimsins, flóttamannavandanum, sem m.a. má rekja til loftslagsvandans sem vestræn ríki eiga stóran þátt í að hafa valdið. Til þess þarf að leggja fram aukið fjármagn og fjölga starfsfólki Útlendingastofnunar og gera betur fyrir hvern og einn einstakling í stað þess að draga úr einstaklingsréttindum flóttafólks.

Barnaheill vinna að bættum mannréttindum barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Samtökin leggja áherslu á bann við mismunun og að jafna tækifæri allra barna til að njóta bestu mögulegu lífsskilyrða.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Ragnar Þór Pétursson - 11.02.2022

Í viðhengi er umsögn Kennarasambands Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Elínborg Harpa Önundardóttir - 11.02.2022

Hópurinn No Borders Iceland er ekki með kennitölu og ekki formlega skráð félag, og því neyðumst við til þess að skrifa undir nafni eins einstaklings. Eftirfarandi umsögn er þó skrifuð af nokkrum í hópnum No Borders Iceland og snýr að drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd).

Við viljum byrja á því að gera athugasemd við að lagabreytingarfrumvarpið sé hvergi aðgengilegt á öðru tungumáli en íslensku. Enginn hópur samfélagsins á ríkari hagsmuna að gæta þegar kemur að þessu frumvarpi heldur en fólk sem sækir um eða hefur sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Þau eiga það fflest sameiginlegt að íslenska er ekki þeirra móðurmál (að undantöldum börnum sem fæðast hér en íslenska ríkið kemur samt fram við sem umsækjendur um alþjóðlega vernd). Væri samráðsgáttin raunverulega vettvangur fyrir lýðræðislega umræðu og þátttöku almennings um umræddar lagabreytingar myndu íslensk stjórnvöld reyna sitt besta til að gera þátttöku aðgengilega fyrir sem flesta. Varðandi þetta tiltekna lagafrumvarp ætti að taka sérstakt tillit til tungumáls, og hefðu íslensk stjórnvöld átt að útvega þýðingar á lagafrumvarpinu. Hefði það heimilað fleira fólki að koma umsögnum sínum varðandi frumvarpið á framfæri, sérstaklega fólki sem er með hvað besta innsýn og mestu þekkingu á stöðu umsækjanda um alþjóðlega vernd á Íslandi, hafandi tilheyrt þeim hópi sjálf.

Það gefur augaleið að nefndin sem sér um frumvarpið ætti að útvega þýðingu á frumvarpinu, í það minnsta á ensku, en best væri ef þýðing yrði einnig útveguð á persnesku, arabísku og spænsku.

Til að gæta jafnræðis ætti því að lengja umsagnarfrest þangað til að búið er að útvega þýðingu og gefa fólki tíma til að kynna sér efni frumvarpsins.

Fyrir utan að fordæma þessa tilraun til útilokunar og útskúfunar umsækjanda um alþjóðlega vernd úr samráðsferlinu sjálfu, leggjumst alfarið gegn lagafrumvarpinu. Við viljum við taka undir umsagnir Rauða Kross Íslands, Barnaheilla, Kvennréttindafélags Íslands, Amnesty International, Kennarasambands Íslands, Þroskahjálpar, Elvu Hrannar, Eyrúnar Ólöfar, UNICEF og hjúkrunarfræðinganna Önnu Kristínar og Mörtu.

Við viljum sérstaklega taka fram að 5. grein lagafrumvarpsins, þar sem ríkið leggur til að gera það löglegt að svipta fólk grundvallar mannréttindum á við húsnæði, framfærslu og heilbrigðisþjónustu er með öllu óásættanleg. Við vitum nú þegar hverjar afleiðingar slíkra laga yrðu, enda svipti Útlendingastofnun (ÚTL) tæplega 30 menn allri þjónustu, þ.m.t. húsnæði, heilbrigiðsþjónustu og framfærslu. Flestir mannanna bjuggu við þær aðstæður u.þ.b. 1 mánuð áður en Kærunefnd Útlendingamála (KNÚ) úrskurðaði aðgerðir ÚTL ólöglegar og að mennirnir ættu rétt á þeirri grundvallarþjónustu sem þeir hefðu verið sviptir. A.m.k. einn maður bjó við þessar aðstæður í tæpa 3 mánuði. Ef ekki hefði komið til gífurlegrar samstöðu almennings á Íslandi, sem tókst að finna gistipláss handa mönnunum, hefðu mennirnir neyðst til að sofa úti í ískulda, enda áttu þeir ekki rétt á að nýta sér gistisýlin þar sem til þess þarf kennitölu.

Afrita slóð á umsögn

#19 SOLARIS - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi - 11.02.2022

Meðfylgjandi er umsögn Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd) sem lagt hefur verið fram á 152. löggjafarþingi 2021-2022.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#20 Gunnar Hersveinn Sigursteinsson - 11.02.2022

Rauði krossinn á Íslandi sem stendur vörð um mannréttindi og virðingu einstaklinga og vinnur að málefnum flóttamanna og umsækjenda hefur gert alvarlegar athugasemdir við þetta frumvarp. Ég treysti Rauða krossinum algjörlega í þessum efnum, þar er fagþekkingin og ég hef fylgst með starfi þeirra. Ég get ekki treyst á að mildi sé að finna í þessu frumvarpi.

UNICEF hefur sérþekkingu á hvað er barni fyrir bestu. Í 7. gr. er þrengt að möguleikum barna og fjölskyldna sem eru með alþjóðlega vernd í öðru ríki innan Evrópu, til að hljóta vernd á Íslandi vegna sérstakra aðstæðna. Það er afleitt og af þeim sökum er þetta frumvarp einnig afleitt. Það er alls ekki börnum fyrir bestu.

Allar ráðstafanir eða ákvarðanir yfirvalda er varða börn eiga að vera byggðar á því sem börnunum er fyrir bestu, sbr. 3. grein Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013. Af því leiðir að allar takmarkanir á réttindum barna sem festa á í lög þarf að rökstyðja og byggja á raunverulegu mati á áhrifum þeirra ákvarðana á líf barna sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd.

Ég tek undir með Elvu Hrönn Hjartardóttur um markmið frumvarpsins: „Markmið þess virðist eingöngu vera að geta neitað fleirum um hæli hér og hraðar en nú og refsa þeim með ómannúðlegri og ómanneskjulegri meðferð sem ómögulega geta hugsað sér að fara aftur í löngu yfirfullar flóttamannabúðir eða til heimkynna sinna í óvissu og óöryggi.“ Það er sárt að horfa upp á þetta á Alþingi Íslendinga.

Ég segi: Góðvild á að vera þjóðgildi Íslendinga. Góðvild þarf á hjörtum að halda sem eru opin, það á að vera andinn í frumvarpinu.

Lokað hjarta tekur ekki við og er oft steinrunnið. Slík hjörtu hafna nýjum upplýsingum og vilja helst engu breyta. Þau vilja bíða og fresta og vona að allt lagist af sjálfu sér. Það virðist vera andinn í þessu frumvarpi.

Við getum auðveldlega bjargað saklausum börnum úr hættu, við þurfum ekki einu sinn að brjóta eða breyta reglum heldur aðeins að breyta sjónarhorni: „Rauði krossinn hefur ítrekað bent á að eðlilegast sé að líta til heildardvalartíma umsækjenda þegar tímafrestir málsmeðferðar eru skoðaðir.“

Viljum við sýna mildi eða bæta í hörkuna? Viljum við efla umburðarlyndi eða skeytingarleysi? Ætlum við að styrkja umhyggju í samfélaginu eða sjálfselsku? „Láttu núna reyna á mátt mildinnar,“ ráðlagi Livia Drusilla á sínum tíma þegar Ágústus (f. 63 f.Kr) keisari og maðurinn hennar, ætlaði að beita hörkunni enn á ný. Það reyndist mjög gott ráð hjá henni og bætti líðan allra. Fylgjum hennar ráðum.

Ég er sannfærður um að harka og miskunnarleysi í þessum málaflokki, skaði ekki aðeins þessar barnafjölskyldur sem bíða milli vonar og ótta heldur einnig þjóðina alla sem vísar saklausum frá sér að ósekju. Það er ekki góð aðferð til að efla hamingjuna í landinu.

Góðvild gagnvart flóttafólki og hælisleitendum ekki flókin aðgerð. Við þurfum aðeins að gera það sem okkur er innrætt og við viljum kenna börnum: að rétta öðrum hjálparhönd.

Það er ekki ólöglegt að hætta við að senda hælisleitendur á Íslandi til Grikklands eða Ítalíu, þótt þeir hafi vernd þar. Það er ekki heldur siðferðilega rangt að bjóða þeim efnislega meðferð og vernd á Íslandi.

Ætlum við áfram að láta stafkrókar segja okkur að það megi senda fjölskyldur á flótta í burtu jafnvel þótt það séu veruleg áhöld um það í ljósi Barnasáttmálans. En eitt er víst að það er ekki rangt að endursenda þau ekki.

Hjálpsemi er eitt af því sem vinsemd felur í sér. Hún er alls staðar mikils metin og hvarvetna eru gerðar tilraunir til að kenna hana og festa í sessi. Jafnt veraldleg siðfræði sem forn trúarbrögð brýna hjálpsemi fyrir öllum í samfélaginu.

Fátækir, landlausir, ríkisfangslausir, eignalausir, landaflótta og varnarlaus börn eru iðulega efst á blaði hjálpseminnar. Berskjölduð börn biðja ásjár og margir vilja hjálpa en við erum með stofnun, lög og reglur, sem kemur í veg fyrir alla vinsemd og hjálpsemi og sendir allslaus börn þangað sem þau vilja ekki fara.

Afrita slóð á umsögn

#21 Claudia Ashanie Wilson - 11.02.2022

Meðfylgjandi er umsögn lögmannsstofunnar Claudia & Partners um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd).

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Pétur Heimisson - 11.02.2022

Ég takmarka umsögn mína um þetta frumvarp við tiltekna grein þess, nefnilega nr. 19. Það geri ég þar sem mér finnst innihald hennar andstætt og misbjóða ýmsu því sem ég hef sem heilbrigðisstarfsmaður, læknir í áratugi átt að venjast. Umrædd grein ber yfirskriftina:

"Á eftir 114. gr. laganna kemur ný grein, 114. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn"

Í framngreindri 19. grein segir eftirfarandi:

"Lögreglu er heimilt að skylda útlending til að gangast undir heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn ef nauðsynlegt þykir til að tryggja framkvæmd þegar tekin hefur verið ákvörðun um að hann skuli yfirgefa landið. Með heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn er átt við mat á einstaklingi sem viðurkenndur heilbrigðisstarfsmaður framkvæmir eða annar aðili sem er til þess bær að ákvarða heilbrigðisástand viðkomandi, m.a. til að meta hvort hann sé nægilega hraustur til að geta ferðast eða skapi hugsanlega hættu fyrir heilbrigði annars fólks. Skoðunin getur náð yfir athugun heilbrigðisskjala sem og líkamsskoðun eftir því sem réttlætanlegt er miðað við aðstæður í hverju tilviki, s.s. með töku blóð- og þvagsýna og önnur lífsýni úr viðkomandi og rannsaka þau, svo og að framkvæma á honum aðra þá líkamsrannsókn sem þörf er á til að tryggja framkvæmd ákvörðunar og gerð verður

honum að meinalausu. Neiti útlendingur að undirgangast heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn er lögreglu heimilt að bera kröfu um skylduna fyrir dómara. Um slíka meðferð máls vísast til XV. kafla laga um meðferð

sakamála. Dómara er heimilt að ákveða að fyrirmæli skv. 1. mgr. gildi þar til ákvörðun hefur verið framkvæmd en þó ekki lengur en í fjórar vikur. Úrskurðir héraðsdóms sæta kæru til Landsréttar. Um málskotið fer samkvæmt almennum reglum um meðferð sakamála.Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar"

Hér tel ég allt of langt gengið í að þvinga fólk til að sæta skoðun/rannsókn og svo mjög að erfitt geti orðið fyrir heilbrigðisfagfólk að sinna verkbeiðnum samkvæmt þessu enda geti slíkt verið andstætt siðareglum viðkomandi. Engu er líkara en að í frumvarpinu sé einmitt fyrir því hugsað með eftirfarandi setningarhluta "Með heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn er átt við mat á einstaklingi sem viðurkenndur heilbrigðisstarfsmaður framkvæmir eða annar aðili sem er til þess bær að ákvarða heilbrigðisástand viðkomandi...." Þessi opnun á að annar en "viðurkenndur heilbrigðisstarfsmaður" annist skoðun/rannsókn er sérlega alvarleg í ljósi þess hvað um skoðunina sjálfa segir í frumvarpinu, nefnilega; "Skoðunin getur náð yfir athugun heilbrigðisskjala sem og líkamsskoðun eftir því sem réttlætanlegt er miðað við aðstæður í hverju tilviki, s.s. með töku blóð- og þvagsýna og önnur lífsýni úr viðkomandi og rannsaka þau, svo og að framkvæma á honum aðra þá líkamsrannsókn sem þörf er á til að tryggja framkvæmd ákvörðunar og gerð verður honum að meinalausu. "

Mér finnst andi þessarar greinar í andstöðu við mannvirðinu og mennskuna sjálfa og í raun vera skref í átt að lögregluríki.

Afrita slóð á umsögn

#23 Kærunefnd útlendingamála - 22.02.2022

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 Læknafélag Íslands - 22.02.2022

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#25 Dr. Reynir Arngrímsson - 22.02.2022

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#26 Persónuvernd - 22.02.2022

Viðhengi