Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 28.1.–11.2.2022

2

Í vinnslu

  • 12.2.–11.4.2022

3

Samráði lokið

  • 12.4.2022

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-20/2022

Birt: 28.1.2022

Fjöldi umsagna: 26

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Útlendingalög (alþjóðleg vernd)

Niðurstöður

Ráðuneytinu bárust 26 umsagnir vegna frumvarpsins sem unnið hefur verið úr. Í samræmi við þær athugasemdir sem bárust voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu, sbr. meðfylgjandi niðurstöðuskjal.

Málsefni

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd) og lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 (atvinnuleyfi). Endurflutt að hluta.

Nánari upplýsingar

Frumvarp þetta, sem samið er í dómsmálaráðuneytinu, kveður á um breytingar á lögum um útlendinga nr. 80/2016, hvað varðar ákvæði þeirra um alþjóðlega vernd, og lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002, varðandi útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa vegna sérstakra ástæðna. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga var lagt fram á 149. löggjafarþingi (þskj. 1334, 838. mál) en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið var endurflutt á 150. löggjafarþingi (þskj. 1228, 171. mál) með nokkrum viðbótum en það frumvarp náði ekki heldur fram að ganga. Frumvarpið var endurflutt þriðja sinni á 151. löggjafarþingi (þskj. 1029, 602. mál) með enn frekari viðbótum, m.a. í ljósi þeirrar þróunar sem hafði átt sér stað í málaflokknum frá því frumvarpið var samið upphaflega og í kjölfar Covid-19 heimsfaraldursins. Fól það frumvarp m.a. í sér breytingar á tilteknum ákvæðum laganna varðandi alþjóðlega vernd, brottvísanir, dvalarleyfi og kærunefnd útlendingamála. Í samráði við félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra lagði frumvarpið jafnframt til breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, varðandi útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa vegna sérstakra ástæðna. Frumvarpið náði ekki heldur fram að ganga og er nú endurflutt að nýju en í breyttri mynd þar sem það nær nú eingöngu til breytinga á ákvæðum laga um útlendinga varðandi alþjóðlega vernd. Auk þess er lögð til breyting á lögreglulögum nr. 90/1996 sem felur í sér að verkefni stoðdeildar ríkislögreglustjóra verði lögbundin, enda gegnir stoðdeild mikilvægu hlutverki við framkvæmd ákvarðana Útlendingastofnunar. Þá eru, í samráði við félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, að nýju lagðar til breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, varðandi útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa vegna sérstakra ástæðna.

Við framkvæmd laga um útlendinga hefur komið í ljós að lagfæra, endurskoða og breyta þarf allmörgum ákvæðum þeirra um alþjóðlega vernd svo að framkvæmd og meðferð mála sem undir þau falla sé skýr og gagnsæ. Núgildandi lög um útlendinga, sem tóku gildi 1. janúar 2017, voru samin á árunum 2014 til 2016 en síðan þá hafa málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd þróast töluvert, bæði alþjóðlega og hérlendis. Mikilvægt er í síbreytilegum og lifandi málaflokki að löggjöfin aðlagi sig að þeirri þróun sem á sér stað í alþjóðasamfélaginu og þeim áskorunum sem verndarkerfið stendur frammi fyrir á hverjum tíma. Þurfa stjórnvöld sem fara með þessi málefni að geta brugðist við breyttum aðstæðum til að tryggja að verndarkerfið ráði við að afgreiða þær umsóknir sem berast á mannúðlegan og skilvirkan hátt, að fullnægjandi þjónusta sé veitt og að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru séu nýttir sem best.

Á meðal álitaefna sem fram hafa komið undanfarin ár eru atriði sem snerta fjölgun umsókna þeirra einstaklinga sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki, málsmeðferðartími umsókna barna um alþjóðlega vernd, vinnsla persónuupplýsinga útlendinga við framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun, hlutverk Barnaverndarstofu við veitingu alþjóðlegrar verndar í málum fylgdarlausra barna, málsmeðferð umsókna um ríkisfangsleysi, réttindi og skyldur flóttafólks sem kemur til landsins í boði stjórnvalda, fjölskyldusameiningu flóttafólks og skerðing og niðurfelling réttinda skv. lögunum.

Frá gildistöku núgildandi laga um útlendinga hafa verið gerðar breytingar á lögunum nokkrum sinnum, þó ekki veigamiklar, og er frumvarp þetta liður í nauðsynlegri endurskoðun laganna og felur í sér efnismeiri lagabreytingar varðandi alþjóðlega vernd en gerðar hafa verið til þessa.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Þátttakendum í þessu samráðsferli var þó heimilt að óska eftir því að efni umsagnar og nafn sendanda birtist ekki í gáttinni.

Umsjónaraðili

Skrifstofa réttinda einstaklinga

dmr@dmr.is