Ráðherra mælti fyrir frumvarpi til nýrra sóttvarnalaga á 152. löggjafarþingi að teknu tilliti til nokkurra athugasemda sem bárust um samráðsgáttina. Frumvarpið náði aftur á móti ekki fram að ganga fyrir þinglok.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 01.02.2022–15.02.2022.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 15.07.2022.
Frumvarp til laga um sóttvarnir sem hér er til kynningar og samráðs er samið af starfshópi heilbrigðisráðherra sem skipaður var 18. júní 2021 og skilaði drögum að frumvarpi 1. febrúar 2022.
Heilbrigðisráðherra lagði fram frumvarp um breytingar á sóttvarnalögum á 151. löggjafarþingi sem miðaði einkum við að styrkja og skýra lagastoð fyrir opinberum sóttvarnaráðstöfnum. Frumvarpið varð að lögum í febrúar 2021 en við meðferð málsins hjá velferðarnefnd Alþingis kom m.a. fram að sú stjórnsýsla sem mælt væri fyrir um í núgildandi lögum væri að mörgu leyti ágæt en þarfnaðist úrbóta og skýringa. Þá sagði jafnframt að hlutverk sóttvarnalæknis og landlæknis með tilliti til stjórnsýslulegrar ábyrgðar og samspils við lög um landlækni og almannavarnir væri að nokkru leyti ábótavant. Nefndin sagði í áliti sínu að óheppilegt gæti reynst að ráðast í of víðtækar breytingar, m.a. á stjórnsýslu sóttvarnamála, í miðjum heimsfaraldri og gæti það valdið óvissu um hlutverk hvers stjórnvalds á viðkvæmum tíma, þegar hvað brýnast sé að verkefnaskipting væri skýr og boðleiðir vel þekktar. Nefndin tók samt fram að mikilvægt væri að vinna við endurskoðun laganna hefðist sem allra fyrst, óháð þeim faraldri sem nú geisaði, og að því sambandi væri mikilvægt að horfa til norrænnar löggjafar við endurskoðun sóttvarnalaga.
Þann 18. júní 2021 skipaði ráðherra nýjan starfshóp sem falið var að skrifa drög að heildarlögum um sóttvarnir m.a. í samræmi við áðurnefnda umræðu hjá velferðarnefnd Alþingis og í þingsal. Frumvarp þess starfshóps er nú til kynningar og samráðs. Í starfshópnum voru fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, landlæknis, sóttvarnalæknis, sóttvarnaráðs, Landspítala, og ríkislögreglustjóra auk starfsmanns úr heilbrigðisráðuneytinu.
Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu varða einna helst stjórnsýslu sóttvarna og opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna þeirrar reynslu sem fengist hefur hér á landi vegna heimsfaraldurs SARS-CoV-2 veirunnar. Má þar nefna tilkomu farsóttanefndar, skipuð níu einstaklingum, sem tekur að nokkru leyti við verkefnum sóttvarnalæknis samkvæmt gildandi lögum, þ.e. að koma með tillögur til ráðherra um beitingu veigamestu opinberu sóttvarnaráðstafanna. Markmiðið með tilkomu farsóttanefndar er að færa framangreint verkefni og ábyrgð sem því fylgir yfir á fleiri hendur með breiðari þekkingu og skírskotun. Ekki síður er markmiðið með skipun nefndarinnar að styrkja sóttvarnalækni og almannavarnir varðandi stefnu og ákvarðanir þegar farsótt geisar sem og að koma formlega á laggirnar virkum samráðsvettvangi helstu viðbragðsaðila.
Helstu nýmæli sem lagt er til með meðfylgjandi frumvarpinu eru eftirfarandi:
• Lagt er til að sérstakt markmiðsákvæði komi inn í sóttvarnalög.
• Lagt er til gildissviðsákvæði og sérstakt ákvæði um þá sjúkdóma sem lögin taka til. Í því ákvæði er lögð til tiltekin stigskipting sjúkdóma, þ.e. smitsjúkdómar, alvarlegir sjúkdómar og samfélagslega hættulegir sjúkdómar.
• Lagt er til að heimildir stjórnvalda til sóttvarnaráðstafana taki mið af framangreindri stigskiptingu sambærilegt því og gildir í Danmörku. Einungis megi grípa til veigamestu ráðstafananna þegar um samfélagslega hættulegan sjúkdóm er að ræða.
• Lagðar eru til breytingar á stjórnsýslu sóttvarna. Þannig er lagt til að sóttvarnalæknir verði skipaður af ráðherra líkt og landlæknir og aðrir forstöðumenn stofnana samhliða því að ábyrgð hans á framkvæmd sóttvarna heyri beint undir yfirstjórn ráðherra en ekki landlækni. Enn fremur að nýtt fjölskipað stjórnvald, farsóttanefnd, verði sett á laggirnar sem skilar inn tillögum til ráðherra um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna samfélagslega hættulegra sjúkdóma.
• Samhliða stofnun farsóttanefndar verður sóttvarnaráð í núverandi mynd lagt niður í nýjum heildarlögum um sóttvarnir. Þó er lagt til í frumvarpinu að sóttvarnalæknir hafi heimild til að kveða sér til ráðgjafar sérfræðinga vegna þeirra verkefna sem falla undir hlutverk sóttvarnalæknis.
• Lagt er til að kaflinn um opinberar sóttvarnaráðstafanir og einstaka ákvæði hans verði brotin upp og framsetning einfölduð frá sóttvarnalögum nr. 19/1997. Jafnframt eru settar tilteknar skorður við tímalengd opinberra sóttvarnaráðstafana.
• Lagt er til að aðkoma og eftirlitshlutverk Alþingis að opinberum sóttvarnaráðstöfunum verði styrkt.
• Lagt er til að viðurlagaákvæði laganna verði uppfært í samræmi við löggjafarþróun síðari ára.
Frestur til að skila inn umsögnum við frumvarpið er til og með 15. febrúar 2022. Af hálfu velferðarnefndar Alþingis hefur komið fram áskorun um að frumvarpinu yrði flýtt eins og kostur væri þannig að Alþingi fengi meiri tíma til að fjalla um málið. Í því ljósi er frumvarpið sett í samráðsgátt í tvær vikur en gera má ráð fyrir að velferðarnefnd Alþingis muni sjálf óska eftir umsögnum þegar málið kemur til nefndarinnar.
Geðlæknir á að vera í farsóttanefnd til þess að taka þátt í að skipuleggja sóttvarnir þannig að þær hafi sem minnst skaðleg áhrif á geð manna. Margir þjást af kvíða og þunglyndi í faraldrinum og sumir hafa jafnvel gefist upp á lífinu. Ástæður geta m.a. verið hringlandaháttur í sóttvörnum. Aðferðin að herða og slaka getur valdið því að margir verða stressaðir þegar ákveðið er að slaka á vörnum enn eitt skiptið. Vegna þess að sumir ráðherrar hafa sóst mikið eftir að slakað er á vörnum okkur er mjög hættulegt að sóttvarnalæknir verði skipaður af ráðherra og að ábyrgð hans á framkvæmd sóttvarna heyri beint undir yfirstjórnráðherra.
Bæta þarf frumvarpið hvað varðar gegnsæji og þverfaglega þekkingu. Slíkt er hægt að gera með ákvæðum um birtingu fundargerða, birtingu upplýsinga úr smitrakningagrunni og aðild hagfræðings í farsóttanefnd.
Forgangsraða þarf öllum sóttvarrnaraðgerðum m.t.t. skilvirkni og kostnaðs. Hagfræðileg greining myndi liggja til grundvallar slíkri forgangsröðun. Slík greining hefur ekki farið fram í núverandi Covid-19 faraldri. Opið aðgengi að gögnum myndi virkja ritrýni og tillögur frá fleiri aðilum ásamt því að upplýsa almenning og hagsmunaaðila um forsendur einstakra aðgerða.
Sjá nánar í meðfylgjandi skjali.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn embættis umboðsmanns barna um frumvarp til sóttvarnalaga.
ViðhengiFramkvæmdastjórn Sjúkrahússins veltir fyrir sér 8. grein frumvarpsins varðandi samsetningu farsóttarnefndar. Við teljum mikilvægt að horfa til þess að í farsóttarnefndinni verði einnig fulltrúi frá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.
Geislavarnir ríkisins telja mikilvægt að tekið verði á skörun laga um geislavarnir og laga um sóttvarnir þannig að ekki fari á milli mála um hlutverk, verksvið og ábyrgð aðila ef á reynir.
Geislavirkum efnum var bætt í lög um sóttvarnir árið 2007. Ekki er alltaf ljóst við hvað er átt og á það einnig við um það frumvarp sem nú er til umsagnar. Það getur valdið óvissu um túlkun laganna.
Sendi hér í eigin persónu umsögn og breytingartillögu í viðhengi dagsett 1402 2022
ViðhengiTil stuðnings efnisatriðum í umsögn Atla Árnasonar, sérfræðings í heimilis- og heilsugæslulækningum á frumvarpi til laga um ný sóttvarnalög 2022
https://samradsgatt.island.is/Skrar/$Cases/GetAdviceFile/?id=d9effe52-ed8d-ec11-9bae-005056bcce7e
Eins til stuðnings umsagnar Umboðsmanns barna á vöntun samráðs stjórnvalda við alla mikilvæga hlutaðeigandi fagaðila í heimsfaraldri Covid19.
https://samradsgatt.island.is/Skrar/$Cases/GetAdviceFile/?id=095e39fa-918d-ec11-9bae-005056bcce7e
Fylgiskjal með umsögn
https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2022/02/15/sottvarnarad-islands-ad-vera-eda-vera-ekki-med/
Sjá í viðhengi umsögn sem send er fyrir hönd Samtakanna frelsi og ábyrgð. Umboð stjórnar, þar sem ákveðið var að veita undirrituðum umboð til að senda umsögnina f.h. samtakanna, er einnig meðfylgjandi.
Viðhengi ViðhengiSjá í viðhengi umsögn mína um frumvarp til sóttvarnarlaga - mál nr. 26/2022.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Öryrkjabandalags Íslands, ÖBÍ.
ViðhengiHjálögð er umsögn Lyfjastofnunar um frumvarp til sóttvarnarlaga.
F.h. Lyfjastofnunar,
Sindri Kristjánsson
ViðhengiGóðan dag
Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
f.h. sambandsins,
Valgerður Rún
ViðhengiUmsögn mína um frumvarp um sóttvarnalög nr. 26/2022 er að finna í meðfylgjandi viðhengi.
ViðhengiGóðan dag,
Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarp til sóttvarnalaga.
f.h. Samtaka atvinnulífsins,
Heiðrún Björk Gísladóttir
ViðhengiHeilbrigðisráðuneytið
Skógarhlíð 6
105 Reykjavík
Hafnarfirði 15. Febrúar 2022
Varðar mál nr. 26/2022
Drög að frumvarpi til laga um sóttvarnir
Þegar þetta er ritað síðdegis 15. febrúar, hafa þegar komið fram umsagnir með athugasemdum við skilgreiningu á
„heilbrigðisstarfsmaður“,
„inngrip“,
við umfjöllun um viðbrögð vegna „gruns“ um sjúkdóm,
takmarkanir á athafnafrelsi,
höfnun/banni á árangursríkum lyfjameðferðum (grafalvarlegt og andstætt læknisfræðinni),
tengsl við alþjóðaheilbrigðisstofnunina WHO,
„PCR-faraldur“ og þau „drastísku“, pólítísku viðbrögð vegna skimana, sem segja ekki til um veikindi
og jafnræði og meðalhóf og fleira og fer ég ekki nánar inn á þau gríðarmikilvægu atriði.
7. gr Samstarfsnefnd um sóttvarnir
„Ráðherra skipar samstarfsnefnd um sóttvarnir til fjögurra ára í senn til að afla nauðsynlegra gagna og hafa yfirumsjón með nauðsynlegum aðgerðum til að meta og uppræta smithættu eða hættu sem stafar af dýrum, matvælum, starfsemi, vatni, skolplögnum, loftræstingu eða öðru í umhverfinu sem getur dreift smitnæmum sjúkdómsvöldum, eiturefnum eða geislavirkum efnum sem ógna heilsu manna.
Samstarfsnefndinni er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar einstaklinga, til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum þessum að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Í nefndinni sitja sóttvarnalæknir, sem jafnframt er formaður, tveir fulltrúar tilnefndir af Matvælastofnun og skal annar vera sérfróður um matvælaöryggi en hinn um smitsjúkdóma í dýrum, einn frá Geislavörnum ríkisins og tveir frá Umhverfisstofnun og skal annar vera sérfróður um matvælaöryggi en hinn um eiturefni. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Nefndin hefur aðsetur hjá embætti landlæknis.
Nefndinni er heimill aðgangur að nauðsynlegum gögnum og öllum stöðum sem hún telur nauðsynlegt að skoða og getur fengið til þess aðstoð lögreglu ef með þarf. Nefndin skal gefa öllum þeim sem hafa eftirlit með dýrum, matvælum og umhverfi fyrirmæli um að grípa án tafar til allra nauðsynlegra aðgerða til að uppræta hættu af völdum smits, eiturefna eða geislavirkra efna. Að öðru leyti skal framkvæmd vera í samræmi við lög þessi og, eftir því sem við á, sérlög um einstaka eftirlitsaðila. „
Aths: Nefndarmenn eru 6, formaður er sóttvarnalæknir. Aðrir eru ekki læknar.
Nefndarmenn (varamenn þ.m.t) þurfa að sverja eið um þagnarskyldu, svipað og læknar og hjúkrunarstéttir, vegna þeirra heimilda nefndarinnar m.a. um persónugreinanlegar upplýsingar, sem koma fram í greininni.
12. gr Skyldur einstaklinga og lögaðila
2. mgr „Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að halda að hann hafi smitast af alvarlegum eða samfélagslega hættulegum sjúkdómi er skylt að leita til læknis án tafar. Leiði heilbrigðisskoðun í ljós að um slíkan sjúkdóm sé að ræða er viðkomandi skyldur að fylgja fyrirmælum læknis um meðferð og ráðstafanir til að fyrirbyggja smit. Gruni lækni að einstaklingur geti verið haldinn smitsjúkdómi, eða ef smitrakning vekur upp slíkan grun, er viðkomandi skylt að fylgja fyrirmælum um ráðstafanir, þ.m.t. reglugerðum settum á grundvelli laga þessara, til að fyrirbyggja smit. „
Aths: Að leggja þetta fyrir allan almenning einstaklinga er að mínu mati ekki forsvaranlegt og allt of víðtækt til að almenningur kunni skilgreiningar á þessum hugtökum.
Í orðskýringum, atr. 13, er smitsjúkdómur skýrður svo:
„Smitsjúkdómur: Með smitsjúkdómi er átt við sjúkdóm eða ástand sem orsakast af sjúkdómsvöldum, svo sem smitefni, örveru eða sníkjudýri og sem smitast frá, til eða milli fólks. Með smitsjúkdómi er enn fremur átt við alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar eiturefna og geislavirkra efna.“
Þessi skýring er allvíðtæk og getur þess vegna átt við venjulegt kvef og „flensu“, með hita, beinverkjum og slappleika, sem margir myndu ekki leita til læknis með, annars vegar en ennfremur hermannaveiki, sem smitast ekki milli manna, hins vegar.
Í orðasafni Árnastofnunar er „smitsjúkdómur“ orðaður svo:
https://idord.arnastofnun.is/leit/smitsjúkdómur/ordabok/LAEKN/order/IS
P.s. Hvet ykkur til að lesa þó ekki væri nema kaflann „Lockstep“ í riti Rockefeller Foundation- „Scenarios for the Future of Technology and International Development“, sem gefið var út árið 2010. 8 blaðsíður , fljótlesið, kaflinn er ritaður í þátíð:
https://www.nommeraadio.ee/meedia/pdf/RRS/Rockefeller%20Foundation.pdf
Mörg ykkar hafa ekki tíma eða áhuga á hvað gerist í stjórnsýslunni.
Þar á sér stað ýmislegt, sem betur færi á að fylgjast með.
Eins og nú. Drög að frumvarpi að nýjum sóttvarnalögum…….
Of seint er í dag að lesa drögin, því umsagnafrestur er til miðnættis.
Hins vegar, með því að lesa umsögn Guðrúnar Bergmann, sem færð var á samráðsgáttina í dag, getið þið gert ykkur grein fyrir að verið er að gefa hinu opinbera “óútfylltan tékka” í sambandi við viðbrögð hins opinbera við “pest” eins og sars-cov 2, sem var … flensa eða flensulík pest.
Hvet ykkur eindregið að skoða umsögn Guðrúna
Leifur Árnason
Varamaður í stjórn Mannréttindasamtakanna Mín leið mitt val
leifur.arnason@gmail.com
Umsögn sóttvarnaráðs um frumvarpið, sjá viðhengi
ViðhengiUmsögn um frumvarp til sóttvarnalaga
Mál nr. 26/2022
15. febrúar 2022
Þann 1. febrúar sl. birti heilbrigðisráðuneytið í samráðsgátt drög að nýjum sóttvarnalögum og óskaði eftir umsögnum eigi síðar en 15. febrúar.
Undirritaðir telja ýmislegt í frumvarpinu til bóta en í þessari umsögn verða þó eingöngu tíundaðir þeir gallar sem eru verulegir og undirritaðir telja brýnt að ráðuneytið lagfæri áður en frumvarpið er lagt fyrir Alþingi.
1) Tryggja þarf aðkomu Alþingis að ákvörðunum um aðgerðir
Í frumvarpinu eru stjórnvöldum veittar víðtækar heimildir til að skerða grundvallarréttindi einstaklinga, hefta starfsemi fyrirtækja og gefa út tilskipanir sem geta valdið einstaklingum og fyrirtækjum miklu tjóni. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að allar slíkar ákvarðanir og aðgerðir verði lagðar fyrir Alþingi eins fljótt og verða má, svo löggjafinn geti rætt ákvarðanirnar og samþykkt þær eða hafnað líkt og virðist tíðkast í Danmörku og Noregi. Þótt þingmenn séu sjaldnast sjálfir sérfræðingar um sóttvarnir eru þeir færir um að kalla til sérfræðinga og leggja mat á rök þeirra, auk þess sem sjónarhorn þingsins hlýtur eðli máls samkvæmt að vera víðara en sjónarhorn sérfræðinga í sóttvörnum, sem skiptir miklu þegar ráðstafanir hafa hliðarverkanir. Það er sérstaklega mikilvægt að tryggja aðkomu lýðræðislega kjörinna þingmanna að ákvörðunum vísinda- og embættismanna þegar þær geta falið í sér skerðingar á réttindum og hagsmunum almennra borgara.
2) Viðfangsefni laganna er allt of víðfemt og mörkin allt of óskýr
Í ljósi þeirra víðtæku valdheimilda sem frumvarpinu er ætlað að veita stjórnvöldum er bráðnauðsynlegt að skilgreina betur við hvers konar aðstæður megi grípa til slíkra heimilda. Eins og frumvarpið hljóðar nú, nær það ekki bara til lífshættulegra smitsjúkdóma, heldur til allra smitsjúkdóma, "annarar vár" "óvæntra atburða" "geislavirkra efna", "atburða sem geta haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar" og "alvarlegra sjúkdóma sem valda eða geta valdið alvarlegri röskun á mikilvægum störfum, innviðum samfélagsins og/eða sem leitt getur til verulega aukins álags á heilbrigðiskerfið verði þeir útbreiddir í samfélaginu." Að auki er vísað til óbirtrar reglugerðar ráðherra um hvaða sjúkdómar teljist til "alvarlegra smitsjúkdóma".
Þetta er algerlega óviðunandi. Þrengja þarf viðfangsefni frumvarpsins og skilgreina svo það nái til alvarlegra smitsjúkdóma, og alls ekki einhverra annarra óljósra aðstæðna. Skilgreina þarf í frumvarpinu hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt (t.d. dánarhlutfall, innlagnarhlutfall, smitstuðull ofl.) svo smitsjúkdómur teljist vera alvarlegur í skilningi laganna svo virkja megi heimildir til aðgerða.
Það er mikill galli á lögunum að þeim sé ætlað að ná yfir alls kyns önnur óvenjuleg tilvik sem eiga betur heima í öðrum lögum t.d. lögum um almannavarnir. Hvað varðar álag á heilbrigðiskerfið verður einnig að skilgreina hvað þar er átt við enda er afkastageta heilbrigðiskerfisins ekki óbreytanlegur fasti, heldur að miklu leyti háð stjórnvaldsákvörðunum.
Af frumvarpinu má ráða að nægjanlegt sé að smitsjúkdómur sé til staðar í samfélaginu til að heimilt sé að grípa til margs konar alvarlegra og íþyngjandi ráðstafana. Smitsjúkdómar eru ávallt til staðar í samfélaginu og með þessu er því stjórnvöldum veitt heimild til íþyngjandi sóttvarnaráðstafana án þess að neins konar hættuástand sé til staðar. Sjá t.d. 12. gr.: “Gruni lækni að einstaklingur geti verið haldinn smitsjúkdómi…”. Þetta er aðeins eitt dæmi um óvönduð vinnubrögð við samningu frumvarpsins, þar sem hugtakanotkun er á reiki, hugtökin farsótt, smitsjúkdómur og alvarlegur smitsjúkdómur notuð á víxl, og auk þess hugtök sem hvergi eru skilgreind í frumvarpinu, t.d. hugtakið lýðheilsa (sjá 30. gr.)
3) Lega landsins
Ísland er eyja og í því felst tækifæri til að tefja komu hættulegra drepsótta og hægja á útbreiðslu þeirra hér þar til ráðrúm hefur gefist til að afla þekkingar á sjúkdómnum, greina smit, þróa læknismeðferðir sem duga eða koma upp sérstökum spítala til að taka við sýktu fólki. Frumvarp til sóttvarnalaga á Íslandi þarf að fjalla um afstöðu landsins, hvernig hún verði nýtt þrátt fyrir ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar og hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til að nýta þá aðstöðu.
Í upphafi kórónuveirufaraldursins var þessi aðstaða ekki nýtt á nokkurn hátt og því virðist enn brýnni þörf á að hafa ákvæði um þetta atriði í sóttvarnalögum.
4) Meðferð persónugagna án vitundar viðkomandi einstaklings
Í frumvarpinu eru stjórnvöldum veittar heimildir til að afla og miðla persónugögnum milli stofnana. Setja þarf frekari skilyrði fyrir slíkri meðhöndlun gagna, rökstuðning og rekjanleika slíkra ákvarðana og einnig þarf ákvæði um að þeir einstaklingar sem verða fyrir slíkri meðferð sinna gagna verði upplýstir um það án tafar.
5) Meðferð og lækning smitaðra
Í 37. grein frumvarpsins segir: "Starfrækja skal göngudeildir vegna tilkynningarskyldra smitsjúkdóma sem veita meðferð og rekja smit. Á heilbrigðisstofnunum, sem ráðherra ákveður, skal vera aðstaða til einangrunar þeirra sem eru til rannsóknar eða meðferðar vegna smitsjúkdóma eða gruns um smitsjúkdóm."
Þetta er eina greinin í frumvarpinu þar sem minnst er á "meðferð" smitaðra sem er veikleiki því slík meðferð hlýtur að vera afar mikilvæg sé ætlunin að verja heilsu smitaðra og draga úr hættu á innlögn þeirra og mögulega dauða.
Í núverandi faraldri hafa smitaðir (á göngudeildum) ekki fengið neina lyfjameðferð fyrr en innlögn er óhjákvæmileg. Þá er beitt lyfjameðferð sem ekki er ljóst á hvaða rannsóknum byggist enda hefur hún ekki verið kynnt eða rýnd opinberlega. Lögin þurfa að áskilja gagnsæi í meðferðum við hættulegum smitsjúkdómum og eðlilegt að meðferðir séu birtar og ræddar opinberlega svo sem flestir sérfræðingar geti komið með ábendingar.
Eftir tvö ár í faraldri var loks byrjað var að flokka smitaða á göngudeild eftir áhættu og veita þeim mótefni sem taldir voru í mestri hættu á alvarlegum sjúkdómi. Þetta hefði mátt gera löngu fyrr, því meðferðir og lyf höfðu verið þróaðar í mörgum löndum. Svo virðist sem sú þekking hafi borist hingað afar seint og illa eða enginn haft það hlutverk að fylgjast með og móta tillögur um meðferðir.
Í lögin vantar því mun ítarlegri umfjöllun um meðferðir smitaðra, hver beri ábyrgð á að draga saman niðurstöður rannsókna sem vísindamenn um allan heim gera, gera tillögur að meðferðum með rökstuðningi o.s.frv.
Í lögin vantar líka ákvæði um hvaða hlutverk heimilislæknar skuli hafa í meðferð smitaðra í heimahúsum. Aðkoma þeirra hefur verið engin í núverandi faraldri sem er einkennilegt því þeir eru sérfræðingar í að meðhöndla sjúkt fólk utan sjúkrahúsa.
Lyfjafyrirtæki hafa gríðarlega hagsmuni af því að þróa og selja lyf við hættulegum smitsjúkdómum. Þótt lyfjafyrirtækin keppi sín á milli hafa þau sameiginlega hag af því að tala niður eldri ódýr lyf sem kunna að koma að gagni gegn smitsjúkdómum. Fái lyf sem kostar aðeins 300 kr. (Ivermectin) að njóta sannmælis geta lyfjafyrirtækin síður selt lyf sem kostar 300.000 kr. (Remdesivir). Hagsmunir stóru lyfjafyrirtækjanna geta hlaupið á þúsundum milljarða í heimsfaraldri og sagan sýnir að þau hafa nær öll reynst tilbúin að brjóta lög til að koma sínum hagsmunum áfram. Frá aldamótum hefur Pfizer greitt meira en 10 milljarða USD í sektir vegna margvíslegra lögbrota.
Eigendur stóru lyfjafyrirtækjanna og þau sjálf, beita óspart áhrifum sínum í fjölmiðlum, hjá WHO, með hagsmunagæslu í mótun löggjafar ESB og BNA. Þessir hagsmunir miða að því að auka gróða lyfjafyrirtækjanna en ekki bæta heilsu almennings. Stjórnvöld og sóttvarnalæknir þurfa að vera mjög vakandi fyrir þeirri hættu sem almenningi stafar af gróðasæknum lyfjafyrirtækjum.
Til að vega upp á móti þessu þurfa sóttvarnalög að innifela sérstakt ákvæði um að sóttvarnalæknir skuli kanna hvort nýta megi eldri og ódýrari lyf til að meðhöndla hættulega smitsjúkdóma og fylgjast grannt með rannsóknum á notkun slíkra lyfja. Ekki megi einblína á ný og dýr lyf eins og gert hefur verið í þessum faraldri. Sóttvarnalæknir hefur á kynningarfundum viðurkennt að hann hafi ekki vitneskju um virkni neinna slíkra lyfja en þær upplýsingar hafa þó legið fyrir mánuðum saman t.d. hér. https://c19early.com/ og þar má finna tugi lyfja sem gagnast geta smituðum til að afstýra erfiðum veikindum, innlögn og dauða. Góður sóttvarnalæknir þarf að gera sér far um að fylgjast vel með slíkum rannsóknum og lögin þurfa greinilega að gera þá kröfu.
6) Undarlegt ákvæði um bóluefnavottorð
Í 33. grein frumvarpsins er ákvæði sem gengur þvert á markmið frumvarpsins því það skerðir möguleika stjórnvalda til að hindra komu smitaðra til landsins:
"Hafi ferðamaður undir höndum viðurkennt vottorð um ónæmisaðgerð er ekki hægt að synja honum um komu inn í landið eða beita öðrum ráðstöfunum á grundvelli þessa ákvæðis með skírskotun til sjúkdómsins sem vottorðið varðar, jafnvel þótt hann komi frá smitsvæði, nema sannanlegar ábendingar og/eða vísbendingar séu um að ónæmisaðgerðin hafi ekki borið árangur eða að vottorðið sé falsað."
Þarna er sönnunarbyrði óvænt snúið á hvolf, þannig að stjórnvöld mega ekki hindra för einstaklings sem veifar vottorði um bólusetningu þótt hann komi frá smitsvæði, nema sannanlegar ábendingar séu fyrir hendi um að bólusetningin hafi mistekist eða vottorðið sé falsað.
Orðalagið gerir engan áskilnað um að bóluefnið útiloki að viðkomandi geti borið smit, bara að "ónæmisaðgerðin hafi borið árangur". Nú orðið þykir slík aðgerð árangursrík ef bóluefnið minnkar líkur á að einstaklingur veikist illa ef hann smitast, þótt hann geti borið smit og smitað aðra.
Framleiðendur bóluefna hafa augljósan hag af því að framleiða vöru sem opnað getur fólki leið yfir landamæri sem annars væru lokuð af illri nauðsyn. Ákvæði um frjálsa för bólusettra vekur óhjákvæmilega spurningar um hvers vegna sé ekki einnig að finna í frumvarpinu sambærilegt ákvæði um að greiða för þeirra sem hafa vottorð um fyrra smit? Í núverandi faraldri virðast fyrri smit hafa veitt endingarbetri vörn en bólusetningar. Svo virðist sem 33. grein hafi að verið sniðin að hagsmunum bóluefnaframleiðenda sérstaklega. Þetta vekur upp spurningar hvort fleiri greinar frumvarpsins séu mögulega sama marki brenndar og verður það vonandi skoðað vandlega í næstu yfirferð.
7) Birgðahald og útvegun lyfja og búnaðar í upphafi faraldurs
Í upphafi núverandi faraldurs kom í ljós, hér eins og víðar að birgðir öryggisbúnaðar og tækja reyndust alls ekki nægar. Það var í raun heppni að í landinu var til þekking, tækni og búnaður til að taka sýni og greina smit. Stórþjóðir voru í kapphlaupi við hver aðra um að tryggja birgðir af varnarbúnaði, öndunarvélum, greiningartækjum, lyfjum og fleiru. Augljóst er að í slíku kapphlaupi stoðar lítt að fylgja venjum og reglum um opinber útboð. Í sóttvarnalögum þarf því að vera sérstök heimild til að falla frá hefðbundnum innkaupaferlum við viss skilyrði.
Í 38. grein frumvarpsins er einfalt ákvæði um að sóttvarnalæknir skuli hafa umsjón með birgðahaldi og að nóg sé til af búnaði, tækjum og lyfjum til að bregðast við heilbrigðisógnum. Frumvarpið setur í ekki nein viðmið um hvað teljist "nóg" í þessu efni. Þetta er mikill galli því án skýrra viðmiða er hætt við að ekki verði til nóg af réttum búnaði næst þegar á reynir. Til vara eiga lögin að mæla fyrir um að slíkt sé sett í reglugerð.
Jafnvel þótt reynt sé að hugsa fyrir birgðum og óvenjulegum aðstæðum, þarf samt að gera ráð fyrir að í næsta faraldri þurfi aftur að afla aukinna birgða með hraði. Í upphafi núverandi faraldurs voru fjölmargir sem lögðu stjórnvöldum lið. Innlend fyrirtæki og viðskiptamenn gáfu tæki og birgðir af lyfjum, greiddu fyrir viðskiptum, sáu um flutninga og opnuðu sambönd við birgja. Sóttvarnalæknir þyrfti helst að undirbúa formlegan farveg fyrir slíka aðstoð, stjórnstöð innkaupa, svo aðstoðin nýtist eins vel og kostur er ef slíkar aðstæður skapast á nýjan leik. Hægt væri þannig að beina aðstoð í réttan farveg og koma í veg fyrir að hún fari í öflun rangs búnaðar eða lyfja sem ekki gagnast. Því miður bar nokkuð á því síðast.
Stóru lyfjafyrirtækin hafa eins og áður hefur verið rakið gríðarlega hagsmuni af því að aðeins séu notuð lyf sem þau hafa einkaleyfi á og geta selt á háu verði. Innkaup og birgðahald verður að vera opið fyrir fleiri lyfjum en þeim sem eru varin einkaleyfum og dýr.
8) Mannúðarsjónarmið
Setja þarf ákvæði í frumvarpið sem tryggja að sjúklingar og aðrir sem sæta aðgerðum skuli njóta mannlegrar reisnar og mannúðar í hvívetna. Sjúklingar á spítölum eiga t.d. að geta fengið heimsóknir frá ættingjum og ástvinum sé þess nokkur kostur. Enginn skal sæta einangrun lengur en hægt er að sýna fram á að sé nauðsynleg með vísindalegum rökum. Sýnataka á ávallt að vera eins nærgætin og áhættulítil fyrir einstaklinga og framast er kostur, ekki síst börn. Lífsýni sem tekin eru í því skyni að kanna smit má ekki nýta í öðrum tilgangi.
Bólusetningar og lyfjameðferðir skulu vera val einstaklings og hvorki stjórnvöld, skólar né atvinnurekendur megi mismuna fólki á grundvelli bólusetningarstöðu.
9) Heiðarleg upplýsingagjöf til almennings
Eðli máls samkvæmt getur verið erfitt að fullprófa lyfjameðferðir snemma í faraldri. Þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld upplýsi eins ítarlega og heiðarlega um takmarkanir lyfja og þá áhættu eða óvissu sem þeim kann að fylgja. Í núverandi faraldri hefur verið mikill misbrestur á þessu og stjórnvöld á Vesturlöndum skapað óraunhæfar væntingar til bóluefna. Fyrst voru þau sögð skapa hjarðónæmi, en svo kom í ljós að þau stöðvuðu ekki smit. Þá voru þau sögð draga úr líkum á smiti, en svo kom í ljós að bólusettir voru jafnvel líklegri til að smita en óbólusettir. Þá var sagt að veirumagn væri minna í bólusettum en óbólusettum, svo kom í ljós að það var svipað. Svo var því haldið fram að bóluefnin væru örugg en svo kom í ljós að þau margfalda líkur á bólgum í hjartavöðva og gollurshúsi, sem og mörgum öðrum einkennum. Þá var sagt að þau væru ekki jafn hættuleg og sýking en það eru alls ekki allir sérfræðingar sammála um að sé rétt þegar kemur að börnum og heilsuhraustum ungmennum. Þessi óheiðarlega framsetning stjórnvalda á upplýsingum hefur verið til þess fallin að draga mjög úr trausti á ónæmisaðgerðum almennt. Þetta má ekki gerast aftur.
10) Bann við ómálefnalegri mismunun
Þótt vitað sé og löngu viðurkennt að bóluefni gegn Covid-19 komi ekki í veg fyrir smit, og ekki hafi verið að sýnt fram á með óyggjandi hætti að þau dragi úr líkum á smiti og smitburði, hefur sóttvarnalæknir látið óbólusetta sæta fimm daga sóttkví við komuna til landsins en bólusettir sleppa við þetta.
Þetta er skýrt dæmi um ómálefnalega mismunun af hálfu sóttvarnalæknis og í raun alvarleg misnotkun á þeim víðtæku heimildum sem sóttvarnalög veita stjórnvöldum.
Svo virðist sem lögin þurfi því að innihalda sérstakt ákvæði um að ekki megi grípa til ráðstafana sem mismuna fólki án þess að fyrir liggi skýr vísindaleg rök.
Þessi ómálefnalega mismunun er gott dæmi um hve mikilvægt er að ákvarðanir um aðgerðir séu ræddar af alþingi.
11) Geta til að mæta faröldrum - smitsjúkdómaspítalar
Ekki er að finna í frumvarpinu ákvæði um að í heilbrigðiskerfinu skuli vera til staðar ákveðin umframgeta til að taka tímabundið við auknu álagi á sjúkrahús, gjörgæslu, öndunarvélar etc. Séu engin ákvæði um slíka umfram getu verður hún væntanlega ekki til staðar næst þegar á þarf að halda.
Ekki er heldur að finna í frumvarpinu nein ákvæði um að undirbúa skuli áætlanir um opnun sérstakra smitsjúkdómasjúkrahúsa með skömmum fyrirvara svo unnt sé að koma í veg fyrir truflun á starfsemi hefðbundinna spítala.
12) Greiningar, upplýsingagjöf og spár
Í þessum faraldri hefur komið í ljós hve mikilvægt er að haldið sé skipulega utan um gögn um smit og afdrif sjúklinga. Mikilvægt er að slíkum gögnum sé miðlað til almennings, t.d. svo óháðir aðilar geti rýnt í þau og gefið álit. Ákvarðanir um sóttvarnaraðgerðir þurfa að byggja á vönduðum gögnum og spám um þróun faraldurs.
Eðlilegt er að bæta við ákvæðum um hver beri ábyrgð á þessum þætti mála.
Kynningarfundir þríeykisins hafa gefið góða raun og það vantar ákvæði í frumvarpið um að stjórnvöld skuli halda slíka fundi reglulega í faraldri og svara spurningum fjölmiðla.
13) Fagráð um sóttvarnir vantar, kröfur til sóttvarnalæknis ófullnægjandi
Það vekur athygli að farsóttanefnd sem gerir tillögur til ráðherra er aðallega skipuð fulltrúum stjórnsýslunnar. Sóttvarnalæknir er sjálfur eini sérfræðingurinn um smitsjúkdóma en nefndin getur kallað til tvo sérfræðinga í viðbót. Betur færi á því að farsóttanefnd gæti ráðfært sig við sérstakt fagráð um sóttvarnir og smitsjúkdóma. Það gæti til dæmis verið skipað sóttvarnalækni og sex öðrum sérfræðingum um smitsjúkdóma og meðferð sjúklinga. Þar fengi sóttvarnalæknir faglegan stuðning og mótvægi og farsóttanefnd gæti þá átt reglulega fundi með fagráðinu til að fá svör í álitamálum sem kunna að vera fjölmörg. Án slíks fagráðs er aukin hætta á því að sóttvarnalækni yfirsjáist atriði, hann geri mistök og ákvarðanir hans verði ekki rýndar af faglegum jafningjum fyrr en of seint.
Í 5. gr. er enginn áskilnaður um að sóttvarnalæknir hafi sérmenntun á því sviði sem hann starfar á, hvorki á sviði smitsjúkdóma né á sviði faraldsfræða. Almenna kröfu um “þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra” getur hver sem er uppfyllt. Það er lágmark að sóttvarnalæknir uppfylli skilyrði um framhaldsmenntun á þessu sviði.
Eðlilegt er að gerð séu mistök en þau þurfa að vera sem fæst og þau þarf að leiðrétta eins fljótt og hægt er. Listinn yfir mistök og rangfærslur sóttvarnalæknis í þessum faraldri er því miður efni í heila bók - líkt og í nágrannalöndum okkar. Sóttvarnalæknir hefur upplýst að hann hafi átt reglulega fundi með jafningjum sínum á Norðurlöndunum og í ESB. Þar hafa sömu mistökin einmitt verið gerð að miklu leyti. Slík hjarð- og hóphugsun getur verið varasöm í heimsfaraldri en með fagráði skipuðu innlendum sérfræðingum er mögulegt að skapa meira aðhald og fækka mistökum eitthvað.
14) Ritskoðun er hættulegri en ranghugmyndir
Það er eðlilegt að fólk hafi ólíkar skoðanir á aðgerðum yfirvalda og málefnaleg umræða er forsenda lýðræðis. Án frjálsrar umræðu er stutt í einræði sem aldrei hefur gefist vel. Í heimsfaraldri getur umræða og skoðanaskipti leitt til betri árangurs og meiri samstöðu um aðgerðir.
Það má nefna hér að sjálft RÚV hefur flutt mjög einhliða fréttir af gagnsemi bólusetninga, nánast eins og stofnunin sé orðin framlenging af markaðsdeild bóluefnaframleiðenda. Jafnvel bólusetning 5-11 ára barna var kynnt af RÚV sem sérstakt fagnaðarefni, þótt engar rannsóknir bentu til þess að bóluefnið gagnaðist börnum gegn omicron afbrigðinu og margir hefðu varað stjórnvöld við aðgerðinni með rökstuddum erindum. RÚV hunsaði allar aðvaranir, gætti þess að ræða eingöngu við lækna og sérfræðinga sem voru hlynntir bólusetningu barna. Þó var RÚV ljóst að samtök, læknar og sérfræðingar hér og erlendis höfðu fært vönduð rök gegn bólusetningu barna.
15) Úrræði vantar til að kæra ákvarðanir stjórnvalda í sóttvörnum
Þau erindi sem hafa verið vandlega rökstudd og send stjórnvöldum til að vara við bólusetningu barna hafa fengið frávísun vegna aðildarskorts eða annarra formgalla. Stjórnvöld hafa nýtt öll færi til að komast sér hjá því að fást efnislega við þær rökstuddu ábendingar sem komu fram í þessum erindum.
Sem dæmi um þetta má nefna kvörtun (https://frelsiogabyrgd.is/media/img/kvortun-11jan.pdf) sem Samtökin frelsi og ábyrgð sendu landlækni, heilbrigðisráðherra, sóttvarnalækni og fjölmiðla þann 11. janúar til að benda á alvarlegar villur í forsendum þeirrar ákvörðunar að bólusetja 5-11 ára börn. Málinu var vísað frá og ekkert gert með efni þess.
Svipuð afdrif hlaut kæra sömu samtaka til heilbrigðisráðherra vegna þeirrar ákvörðunar Lyfjastofnunar að afturkalla ekki skilyrt markaðsleyfi Comirnaty bóluefnisins fyrir 5-11 ára börn þegar forsendur markaðsleyfisins voru greinilega brostnar. Sjá https://frelsiogabyrgd.is/wp-content/uploads/2021/12/lyfjastofnun-kaera.pdf
Sóttvarnalög þurfa að tryggja að samtök eða einstaklingar geti komið á framfæri kærum og kvörtunum og fengið efnisleg viðbrögð við þeim, en þeim verði ekki vísað frá á grundvelli formsatriða.
16) Skilgreiningar óljósar og ófullnægjandi
Í kafla um skilgreiningar orða og hugtaka segir m.a.: “Smitsjúkdómur: Með smitsjúkdómi er átt við sjúkdóm eða ástand sem orsakast af sjúkdómsvöldum, svo sem smitefni, örveru eða sníkjudýri og sem smitast frá, til eða milli fólks. Með smitsjúkdómi er enn fremur átt við alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar eiturefna og geislavirkra efna.” Þessi skilgreining á hugtakinu smitsjúkdómur er mjög einkennileg. Afleiðingar [af notkun] eiturefna og geislavirkra eru ekki smitsjúkdómur.
Hugtakið lýðheilsa er notað á nokkrum stöðum í frumvarpstextanum, en enga skilgreiningu er að finna á þessu hugtaki.
17) Sóttvarnaráðstafanir verða að grundvallast á heildrænu mati.
Í 28. gr. er kveðið á um að ráðherra geti sett á mjög íþyngjandi takmarkanir að fengnum tillögum sóttvarnaráðs. Inn í þessa grein vantar algjörlega fyrirvara um að sýnt þyki að umræddar takmarkanir valdi ekki meira tjóni en ávinningi. Jafnframt verður að kveða á um að umræddar takmarkanir taki mið af eðli og og raunverulegri hættu af viðkomandi sjúkdómi. Nú þegar liggur fyrir að þær takmarkanir sem komið hefur verið á um allan heim vegna Covid-19 eru margfalt skaðlegri en ávinningur, og raunar benda nýjustu rannsóknir til að ávinningurinn sé enginn.
Virðingarfyllst,
Þorsteinn Siglaugsson,
Erling Óskar Kristjánsson,
Svala Magnea Ásdísardóttir,
Geir Ágústsson
HEILBRIGÐISRÁÐUNEYTIÐ
Skógarhlíð 6
105 Reykjavík
Reykjavík 15. febrúar 2022
Efni: Umsögn um frumvarp heilbrigðisráðherra til sóttvarnalaga - mál nr. 26/2022.
Fréttaflutningur í heimsfaraldri
Þótt það komi ekki beint þessari umsögn um sóttvarnalög við, þá tel ég nauðsynlegt að vekja athygli á fréttaflutningnum í þessum Covid-19 faraldri, og hvernig upplýsingagjöf til þjóðarinnar hefur verið háttað.
Það er mat mitt að hann hafi verið ámælisverður, ákaflega einhliða, og einkennst af hræðsluáróðri með aðaláherslu á að fá fólk til að bólusetja sig með tilraunalyfjum sem lítil reynsla var komin af.
Daglega eru birtar nýjustu smittölurnar, og birtar sérstakar fréttatilkynningar um að einhver hafi látist úr veirunni, og nú síðast ef einhver hefur látist með hana í sér.
Aldrei eru birtar sérstakar fréttatilkynningar um þá sem létust í kjölfar bólusetninganna, sem eru 36 til og með janúar 2022.
Sjaldan eða aldrei hefur verið fjallað í fréttum um þá sem hafa fengið aukaverkanir eftir bóluefnin, sem samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Lyfjastofnun eru 6.110, þar af 246 alvarlegar og lífsógnandi, og 36 andlát.
Þarna virðist upplýsingum sem sannanlega varða almannaheill hafa verið kerfisbundið haldið frá almenningi.
Mega völd á fárra höndum stjórna því hvað telst fréttnæmt og hvað ekki þegar þjóðin glímir við heimsfaraldur?
Þessi gríðarlegi fjöldi aukaverkana og andláta í kjölfar bólusetninganna vekur líka upp þær áleitnu spurningar hvers vegna þær voru ekki stöðvaðar strax og tilkynningar fóru að berast í janúar 2021 þegar 6 aldraðir einstaklingar höfðu látist í kjölfarið.
Hvar liggur sú ábyrgð?
Kristín Þormar
Gjaldkeri í stjórn Mannréttindasamtakanna MÍN LEIÐ MITT VAL
Jafnframt vísa ég í umsögn Guðrúnar Bergmann sem færð var inn í þessa samráðsgátt fyrr í dag.
Í viðhengi er umsögn mín um ný sóttvarnarlög.
ViðhengiÉg legg til að í sóttvarnalögum eigi aldrei að veita heimild til sviptingar mannréttinda jafnvel í neyðartilfellum líkt og í heimsfaraldri.
Lýðræði á einnig að ríkja í neyðarástandi.
Borgurum er ekki síður treystandi til að ákveða hvernig sé best að bregðast við í neyðarástandi en yfirvöldum. Lýðræðið er virkast ef hver og einn ákveður fyrir sig sjálfan hvernig sé best að bregðast við neyðarástandi.
Hættan á misnotkun yfirvalda á slíku valdi sem sóttvarnarlög veita er meiri en hættan við að borgarar ráði sér sjálfir á tímum neyðarástands. Fullorðið fólk er hæft til að taka ábyrgð á sjálfu sér og þarfnast ekki valdbeitingu yfirvalda til að auka velferð sína.
Meðfylgjandi er umsögn Viðskiptaráðs Íslands.
Viðhengi