Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun var kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda 21. febrúar 2022. Með hliðsjón af umsögnum um áformaskjal var sú leið farin að leggja til að ekki eingöngu tæknilegar aflaukningar virkjana verði undanskildar ferli rammaáætlunar heldur einnig stækkanir virkjana í rekstri sem hafa eingöngu áhrif á svæði sem þegar hefur verið raskað af viðkomandi virkjun. Stækkanir virkjana sem gera það að verkum að uppsett rafal verði yfir 10 MW í vatnsafli eða 50 MW í jarðvarma þurfa hins vegar ávallt að fá umfjöllun í rammaáætlun.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 04.02.2022–18.02.2022.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 21.02.2022.
Áformað er að vinna frumvarp um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun á þann hátt að tæknilega aflaukningar virkjana í rekstri þurfi ekki að fara í gegnum ferli áætlunarinnar.
Verndar- og orkunýtingaráætlun er áætlun sem lögð er fyrir Alþingi þar sem lagt er mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar. þ.m.t. verndunar. Í áætluninni eru virkjunarkostir flokkaðir í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Áætlunin tekur til virkjunarkosta sem verkefnisstjórn hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Hún tekur ekki til stækkana virkjana nema þegar slíkar stækkanir fela í sér matsskyldar framkvæmdir, en í dag er staðan sú að allar stækkanir á virkjunum eru umhverfismatsskyldar. Það hefur í för með sér að þegar virkjanaaðilar fara í tæknilegar aflaukningar á virkjunum sem nú þegar eru í rekstri þurfa slíkar aukningar að fara í gegnum ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar og teljast þá sem sérstakur virkjunarkostur. Skv. núverandi lögum nr. 48/2011 getur umfjöllun um einstaka virkjunarkosti í verndar- og orkunýtingaráætlun tekið allt að fjögur ár, frá því að virkjunaraðili sendir inn umsókn um mat á virkjunarkostinum og þar til virkjunarkosturinn er afgreiddur inn í orkunýtingar-, bið- eða verndarflokk af Alþingi.
Með frumvarpinu er ætlunin að undanskilja tæknilegar aflaukningar á virkjunum sem nú þegar eru í rekstri umfjöllun rammaáætlunar. Slíkar framkvæmdir munu eftir sem áður þurfa að fara í gegnum umhverfismat samkvæmt lögum þar að lútandi.
Þetta er ákaflega þörf og góð breyting á lögunum um rammaáætlun.
Rammaáætlun á að vera aðferð til að velja staði og/eða svæði til að virkja eða friða gegn virkjunum og reyndar allri orkunýtingu sem reyndar kann að vera tvíbent. Þegar staður eða svæði hefur verið sett í nýtingaflokk skiptir uppsetta aflið litlu máli varðandi umhverfisáhrif, umfram það sem tekið verður á í mati á umhverfisáhrifum.
Það væri hinsvegar líka æskilegt að skýra og einfalda fleiri atriði. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvernig Rammaáætlun tekur á hækkun inntakslóna, stækkun miðlunarlóna eða nýjum miðlunarlónum innan virkjanasvæðisins, eða veitingu vatns inna svæða eða frá nálægum svæðum, sem þegar hefur verið sett í nýtingarflokk. Slíkar framkvæmdir hafa aðeins óbeina skírskotun í MW, þó þær geti með aflaukningu virkjana verið grundvöllur miklu stærri aflaukningar en 10 MW. Þessar framkvæmdir eru oft grundvöllur aflaukningar og oft tengdar henni. Slíkar framkvæmdir ætti ekki að þurfa að taka sérstaklega fyrir í rammaáætlun á svæðum sem þegar hafa verið sett í nýtingarflokk, mat á umhverfisáhrifum ætti að vera nægjanlegt. Eðlilegt væri að miða við tilteknar GWh, td. 70 GWh (sem jafngildir um 10 MW) eða tiltekið hlutfall aukinnar orkuframleiðslu, til að þurfa ekki að fara sérstaklega í rammaáætlun.
Þorbergur Steinn Leifsson Verkfræðingur Verkís
Á 1002. fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 9. febrúar 2022 var eftirfarandi bókað um mál 31/2022 til samráðs "Áform um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 - bætt nýting virkjana".
Byggðarráð tekur undir meginmarkmið frumvarpsins.
F.h. byggðarráðs
Sigfús Ingi Sigfússon
sveitarstjóri
Vinsamlegast sjá umsögn Landverndar í viðhengi.
ViðhengiÍ viðhengi er umsögn Verkfræðingafélags Íslands.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Ungra umhverfissinna.
Viðhengi