Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 24.2.–8.4.2022

2

Í vinnslu

  • 9.4.2022–26.1.2023

3

Samráði lokið

  • 27.1.2023

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-46/2022

Birt: 24.2.2022

Fjöldi umsagna: 4

Drög að frumvarpi til laga

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Markaðseftirlit og neytendamál

Drög að frumvarpi til laga um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar

Niðurstöður

Máli lauk með framlagningu frumvarps í október 2022. Í 4. kafla frumvarpsins er fjallað um með hvaða hætti tekið var tillit til framkominna umsagna: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill?ltg=153&mnr=415

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðherra birtir til umsagnar drög að frumvarpi til innleiðingar í íslenskan rétt á reglugerðum (ESB) 2019/2088 (SFDR) og 2020/852 (Taxonomy).

Nánari upplýsingar

Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.Meginefni frumvarpsins er því lögfesting tveggja reglugerða, annars vegar reglugerð (ESB) 2019/2088, um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (SFDR), og hins vegar reglugerð (ESB) 2020/852 um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu og um breytingu á reglugerð (ESB) 2019/2088 (Taxonomy), nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um hvernig eftirlit fari fram, viðurlagaákvæði og heimildir til setningar stjórnvaldsfyrirmæla.

Í reglugerð (ESB) 2019/2088 er mælt fyrir um samræmdar reglur fyrir aðila á fjármálamarkaði, eins og þeir eru skilgreindir í 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar, og fjármálaráðgjafa um þær upplýsingar sem þeim ber að birta fjárfestum með viðeigandi hætti um sjálfbærnitengd áhrif í tengslum við fjármálaafurðir. Reglugerðin tekur mið af markmiðum Parísarsamkomulagsins um að draga verulega úr áhættu og áhrifum af loftslagsbreytingum með því, meðal annars, að samhæfa fjármálamarkaðinn við ferli í átt að þróun að minni losun gróðurhúsalofttegunda og viðnámi gegn loftslagsbreytingum. Reglugerðin leggur skyldur á herðar aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa til að birta upplýsingar um það hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvarðanir og í ráðgjöf og hvort, og þá hvernig, tekið er tillit til skaðlegra áhrifa á sjálfbærni. Með áhættu tengdri sjálfbærni er átt við atvik eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta, sem gætu haft veruleg, neikvæð áhrif á virði fjárfestinga. Upplýsingarnar eiga að gera endanlegum fjárfestum kleift að taka upplýstari fjárfestingarákvarðanir og eiga því að vera hluti af þeirri upplýsingagjöf sem veitt eru fjárfestum áður en samningur er gerður.

Samkvæmt reglugerðinni ber aðilum á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjöfum að birta upplýsingarnar á vefsetrum sínum, í starfskjarastefnum sínum og áður en samningur er gerður við fjárfesta.

Reglugerð (ESB) 2020/852 kveður á um samræmdan ramma sem stuðlar að sjálfbærum fjárfestingum. Með reglugerðinni er komið á fót flokkunarkerfi með skilgreiningum á því hvað teljist sjálfbær atvinnustarfsemi. Flokkunarkerfinu er ætlað að auka gagnsæi með tengdri upplýsingagjöf markaðsaðila og stórra fyrirtækja og hjálpa fjárfestum og fyrirtækjum að átta sig á því hversu sjálfbær tiltekin atvinnustarfsemi er svo þeim sé kleift að taka upplýstar fjárfestingarákvarðanir með sjálfbærni að leiðarljósi. Flokkunarkerfinu er jafnframt ætlað að sporna við svokölluðum „grænþvotti“, sem lýsir sér í því að tiltekin atvinnustarfsemi eða fjárfestingarafurð er markaðssett sem sjálfbær án þess að hægt sé að sýna fram á það. Flokkunarkerfið skapar grundvöll fyrir evrópska staðla og vottanir fyrir sjálfbærar fjármálaafurðir.

Flokkunarkerfið tekur mið af sex umhverfismarkmiðum:

- Mildun loftslagsbreytinga.

- Aðlögun að loftslagsbreytingum

- Sjálfbærri nýtingu og verndun vatns og sjávarauðlinda.

- Umbreytingu í hringrásarhagkerfi.

- Mengunarvörnum og eftirliti með mengun.

- Verndun og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa.

Í reglugerðinni eru sett fram fjögur grunnskilyrði þess að atvinnustarfsemi geti talist sjálfbær:

- Verulegt framlag til a.m.k. eins af umhverfismarkmiðunum

- Starfsemin skaði ekki verulega neitt af öðrum markmiðum

- Lágmarks verndarráðstöfunum sé fullnægt

- Megindlegum og eigindlegum tæknilegum viðmiðunum sé fullnægt.

Ítarlegri tæknileg viðmið um hvaða atvinnustarfsemi telst færa verulegt framlag til umhverfismarkmiða reglugerðarinnar verða útfærð í framseldum reglugerðum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Í reglugerð (ESB) 2020/852 eru gerðar kröfur um tiltekna upplýsingagjöf sem birta þarf ef fjármálaafurð er markaðssett sem sjálfbær. Meðal annars þarf að tilgreina hvernig og að hvaða leyti flokkunarkerfið hefur verið notað til að meta hvort fjármálaafurðin teljist sjálfbært, að hvaða umhverfismarkmiðum fjármálaafurðin stuðlar og hlutfall þeirra fjárfestinga sem leggja grunn að fjármálaafurðinni teljast sjálfbærar í skilningi reglugerðarinnar. Reglugerðin gildir um aðila á fjármálamarkaði, eins og þeir eru skilgreindir samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/2088. Þá gildir hún einnig um stór félög og einingar tengdar almannahagsmunum sem falla undir skyldu til að birta ófjárhagslegar upplýsingar, sbr. 66. gr. d. laga um ársreikninga, nr. 3/2006.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa fjármálamarkaðar

benedikt.hallgrimsson@fjr.is