Samráð fyrirhugað 04.03.2022—15.03.2022
Til umsagnar 04.03.2022—15.03.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 15.03.2022
Niðurstöður birtar 26.01.2023

Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011. (Íbúakosningar á vegum sveitarfélaga)

Mál nr. 53/2022 Birt: 04.03.2022 Síðast uppfært: 26.01.2023
  • Innviðaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Sveitarfélög og byggðamál

Niðurstöður birtar

Frumvarpið var samþykkt á Alþingi þann 15. júní 2022. Sjá niðurstöður samráðs í 5. kafla greinargerðar með frumvarpinu.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 04.03.2022–15.03.2022. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 26.01.2023.

Málsefni

Innviðaráðuneytið birtir til umsagnar drög að frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum vegna íbúakosninga sveitarfélaga.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 er í þremur tilvikum gert ráð fyrir íbúakosningum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir kosningum um skipan nefndar samkvæmt 38. gr. laganna, í öðru lagi kosningum um einstök málefni samkvæmt 107. gr. og í þriðja lagi kosningum um sameiningu sveitarfélaga samkvæmt 125. gr.

Fengin reynsla hefur leitt það í ljós að þær reglur sem nú gilda um íbúakosningar mættu vera skýrari. Jafnframt hefur komið fram að þær kröfur sem gerðar eru til íbúakosninga á grundvelli núgildandi sveitarstjórnarlaga kunna að vera óþarflega miklar sem leitt hefur til þess að sveitarfélög nýta sér ekki þau úrræði sem sveitarstjórnarlögin bjóða til þess að kanna vilja íbúa, heldur halda þess í stað sérstakar kannanir.

Tilgangur frumvarpsins er að (1) einfalda og skýra þær reglur sem gilda um íbúakosningar sveitarfélaga, (2) rýmka og lögfesta varanlega heimildir sveitarfélaga til að halda íbúakosningar með rafrænum hætti og (3) leiðrétta ágalla sem eru á hinu lögbundna ferli sem fylgja þarf þegar kemur að sameiningu sveitarfélaga.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Matthildur Ásmundardóttir - 11.03.2022

Ég fagna þessum lögum, virkileg þörf á uppfærslu og einföldun á framkvæmd íbúakosninga.

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur verið að undirbúa íbúakosningar skv. 108 gr. sveitarstjórnarlaga eftir að íbúar kröfðust þess með undirritun undirskriftalista. Til stóð að framkvæma rafrænar íbúakosningar sem gekk ekki þar sem ekkert kosningakerfi er til staðar í landinu sem uppfyllir öryggiskröfur. Ekkert er fjallað um kosningakerfi í frumvarpinu þó komið sé inn á það í greinargerðinni. Ráðuneytið og/eða Þjóðskrá Íslands þarf að tryggja nothæft kosningakerfi þannig að sveitarfélög geti með góðu móti framkvæmt rafrænar íbúakosningar sem uppfylla lagaskilyrðin.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri Sveitarfélaginu Hornafirði

Afrita slóð á umsögn

#2 Dalabyggð - 14.03.2022

Efni: Umsögn um Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011. (Íbúakosningar á vegum sveitarfélaga)

Dalabyggð fagnar því að einfalda eigi sveitarstjórnarlög með tilliti til íbúakosninga á vegum sveitarfélaga.

Nú liggur fyrir að mörg sveitarfélög þurfa að huga að sameiningarmálum og er Dalabyggð eitt þeirra. Komi til sameiningar Dalabyggðar við önnur sveitarfélög er líklegt að einhvers staðar í ferlinu komi fram heimastjórn. Sem dæmi um verkefni heimastjórna má nefna, samræmingu verkefna og ályktanir til sveitarstjórnar um málefni sem varða íbúa á starfssvæðinu, afgreiðslu deiliskipulagstillagna á sínu starfssvæði, verkefni náttúruverndarnefndar, umsagnir og tillögur um leyfismál, ýmis landbúnaðar- og menningarmál ásamt staðbundnar gjaldskrár. Upp gæti komið sá möguleiki að kjósa þyrfti um mál er varða starfssvæðið og tengjast þeim málefnum sem heimastjórnin fer með.

Í því samhengi telur Dalabyggð að horfa þurfi til þess við lagabreytinguna að heimastjórnir/staðbundin stjórnvöld hafi möguleika íbúakosningu um staðbundin málefni, þar sem aðeins kjörgengir eru íbúar starfssvæðis staðbundins stjórnvalds tækju þátt, í stað allra íbúa viðkomandi sveitarfélags.

Afrita slóð á umsögn

#3 Samband íslenskra sveitarfélaga - 15.03.2022

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið.

F.h. sambandsins,

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Reykjavíkurborg - 15.03.2022

Vísað er til tilkynningar í samráðsgátt dags. 4. mars sl. þar sem óskað er eftir umsögnum um frumvarp til breytingar á sveitarstjórnarlögum.

Reykjavíkurborg tekur undir markmið frumvarpsins og telur mikilvægt að skýra og einfalda þær reglur sem gilda um íbúakosningar á vegum sveitarfélaga. Sérstaklega er talið mikilvægt að lögfesta varanlegar heimildir sveitarfélaga til að halda íbúakosningar með rafrænum hætti.

Að öðru leyti gerir Reykjavíkurborg eftirfarandi athugasemdir:

- Þær reglur sem nú gilda um íbúakosningar má annars vegar finna í sveitarstjórnarlögum og hins ákvæðum kosningalaga. Lögð er áhersla á að lögfest verði almennt ákvæði sem gildir um allar tegundir íbúakosninga.

- Lögð er mikil áhersla á að sveitarstjórnum verði veitt heimild til að lækka kosningaaldur í tilteknum íbúakosningum í 16 ár eins og lagt er til í frumvarpinu.

- Í frumvarpinu er lagt til að ráðuneyti geti heimilað, að beiðni sveitarstjórnar, að íbúakosning skv. 133. gr. fari fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn. Reykjavíkurborg telur að ákvörðun um rafrænar íbúakosningar ættu að vera á forræði sveitarfélaganna sjálfra og ekki háðar samþykki ráðuneytis. Til þess að það geti orðið er nauðsynlegt að Þjóðskrá Íslands búi yfir öruggu kosningakerfi sem heldur utan um rafrænar kosningar.

Reykjavíkurborg tekur einnig undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið.

Með vísan til ofangreinds telur Reykjavíkurborg efni frumvarpsins til bóta og hvetur til þess að það verði að lögum að teknu tilliti til ábendinga.

F.h. Reykjavíkurborgar,

Helga Björk Laxdal

skrifstofustjóri borgarstjórnar

Viðhengi