Samráð fyrirhugað 08.03.2022—22.03.2022
Til umsagnar 08.03.2022—22.03.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 22.03.2022
Niðurstöður birtar

Drög að frumvarpi um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 (afbrotvarnir og vopnaburður)

Mál nr. 57/2022 Birt: 08.03.2022 Síðast uppfært: 09.03.2022
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Almanna- og réttaröryggi

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (08.03.2022–22.03.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögreglulögum til að að skýra og efla heimildir lögreglu til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum hvað varðar skipulagða brotastarfsemi og öryggi ríkisins.

Markmið frumvarpsins er að skýra heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum hvað varðar afbrot eða athafnir sem raskað geta öryggi borgaranna og ríkisins, afbrot sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi og afbrot sem framin eru á netinu

Löggæsla nú á tíðum snýr ekki síður að frumkvæðisvinnu í formi upplýsingaöflunar og greiningu upplýsinga. Breytt afbrotamynstur og útbreiðsla skipulagðrar brotastarfsemi á milli landa krefst þess að löggæsluyfirvöld geti brugðist við og gripið til aðgerða áður en einstök brot eru framin. Með frumvarpi þessi er því lögð aukin áhersla á mikilvægi þess að lögregla geti gripið fyrr inn í atburðarás og þannig fyrirbyggt að framin séu alvarleg afbrot. Við framangreinda endurskoðun var sem endranær gætt að því að stjórnarskrárvarin grundvallarmannréttindi borgaranna væru virt í hvívetna.

Jafnframt er í frumvarpinu kveðið á um meðferð vopna hjá lögreglu, en ákvæði þess efnis hafa fram til þessa aðeins verið að finna í reglugerð á grundvelli vopnalaga.

Með frumvarpinu er skýrri lagastoð skotið undir núverandi greiningarstarf lögreglu sem fram fer í afbrotavarnaskyni sem og að grundvöllur er lagður fyrir innleiðingu á svonefndri upplýsingamiðaðri löggæslu (e. Intelligence Led Policing).

Frumvarpinu er ætlað að skerpa á heimildum lögreglu til að afla upplýsinga og viðhafa eftirlit í því skyni að draga úr brotastarfsemi en núgildandi heimildir byggja öðru fremur á almennum ákvæðum lögreglulaga auk ákvæða í sérlögum. Annars er vegar er mælt fyrir um heimild lögreglu til að afla upplýsinga í þágu afbrotvarna við framkvæmd almennra löggæslustarfa og frumkvæðisverkefna, þar á meðal samskipti við uppljóstrara, eftirlit á almannafæri og vöktun vefsíðna sem opnar eru almenningi. Hins vegar er lögreglu veitt heimild til að viðhafa sérstakt eftirlit með einstaklingum sem hafa tengsl við skipulagða brotastarfsemi eða sem af kann að stafa sérgreind hætta fyrir almannaöryggi.

Í frumvarpinu er kveðið á um afar takmarkaða heimild lögreglu til að grípa til beitingu þvingunarúrræða í afbrotavarnaskyni. Nánar tiltekið verður lögreglu heimilt að krefjast dómsúrskurðar um haldlagningu og öflun gagna sem eru í vörslum þriðja aðila í því skyni að koma í veg fyrir skipulagða brotastarfsemi og brot gegn X. og XI. kafla almennra hegningarlaga.

Í ljósi þess að frumvarpið mælir fyrir um tilteknar aðgerðir og heimildir til handa lögreglu sem kunna að skerða stjórnarskrárvarinn rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs var sérstök hliðsjón höfð af ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í samræmi við skilyrði þeirra er frumvarp þetta samið til að skýra heimildir lögreglu á grundvelli lögreglulaga til að hafa afskipti af borgurunum í því skyni að koma í veg fyrir afbrot. Hugað var sérstaklega að því að slíkar heimildir verði að vera skýrt afmarkaðar og gangi ekki lengra en nauðsynlegt er. Þá er mælt fyrir um að nefnd um eftirlit með lögreglu hafi eftirlit með þeim aðgerðum sem ganga næst friðhelgi einstaklinga.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Indriði Ingi Stefánsson - 17.03.2022

Umsögn um frumvarp

“um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum (afbrotavarnir og vopnaburður)”

Í ljósi nýlegs dæmis þar sem lögregla reyndi á afar hæpnum forsendum að veita blaðamönnum réttarstöðu sakbornings, með þvi að nýta mikilvæga réttabót fyrir þolendur rafræns kynferðisofbeldis, án þess að efnið hafi verið birt og nær engin hafi vitað um tilvist þess fyrr en rannsókn lögreglu hófst. Þetta var síðan varið af yfirmönnum í lögreglunni, ráðherrum án þess að nokkur merki séu um að neinn hyggist taka ábyrgð á framkvæmdinni þegar hún er dæmd óheimil. Þá verður að horfa til þess að þessar heimildir eru margar ansi matskenndar.

Þegar lögreglan fer út fyrir valdsvið sitt þegar það er skýrt afmarkað þá verður erfitt að samþykkja það að gefa henni matskenndar heimildir sem ganga á grundvallarrétt borgara landsins til friðhelgi einkalífsins. Eins er óljóst hvaða þörf er fyrir auka vopnavæðingu eða hver tilgangur ákvæðisins er. Greinargerð segir að vopnbeiting lögreglu sé heimil en breytingin sé til að veita skýra stoð til heimildar. Ef vopnbeiting er heimil er á það sér vonandi skýra stoð í lögum og því ákvæðið óþarfi hér væri ennfremur rétt sé vopnbeiting heimil að því fylgi vísanir í hvað segi til að um að vopnbeitingin sé heimil.

Þá er Mikið umhugsunarefni búa eigi til freistnivanda fyrir lögreglu að finna afbrot til að réttlæta vöktunina. Sem opinberar hversu gölluð þessi lagasetning er. Betur færi að auka aðgang lögreglu að dómara svo hægt sé að viðhalda stjórnarskrárvöldum réttindum almnennings til friðhelgi einkalífs.

Virðingarfyllst

Indriði Ingi Stefánsson

Varaþingmaður Pírata.

Afrita slóð á umsögn

#2 Íslandsdeild Amnesty International - 22.03.2022

Íslandsdeild Amnesty International vísar til frumvarps til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum (afbrotavarnir og vopnaburður) sem birt var á samráðsgátt stjórnvalda hinn 8. mars sl.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur stjórnvöld til að gæta þess að notkun stafrænnar tækni til að hafa eftirlit með einstaklingum og íbúum sé í samræmi við alþjóðalög um mannréttindi.

Tæknin getur og ætti að gegna mikilvægu hlutverki í aðgerðum ríkja til að bjarga mannslífum og hlúa að öryggi borgara. Aukin heimild á eftirliti ríkisins getur þó ógnað friðhelgi einkalífs, tjáningarfrelsi og félagafrelsi á þann hátt að það getur brotið á mannréttindum og rýrt traust til yfirvalda og þannig jafnvel grafið undan áhrifum viðbragða af hálfu yfirvalda er varða öryggi almennings. Slíkar ráðstafanir hafa einnig í för með sér hættu á mismunun og geta skaðað jaðarsetta hópa umfram aðra hópa.

Þó að við lifum á ógnvekjandi tímum, þá eiga lög um mannréttindi alltaf við. Reyndar er það svo að mannréttindakerfið er hannað í því augnamiði að tryggja til jafns mismunandi réttindi til verndar einstaklingum og samfélögum. Ríki geta ekki litið framhjá réttindum eins og friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsinu í nafni afbrotavarna. Þvert á móti, verndun mannréttinda stuðlar einnig að öryggi almennings. Nú meira en nokkru sinni fyrr verða stjórnvöld að gæta þess til hins ítrasta að allar takmarkanir á þessum réttindum séu í samræmi við viðurkennda og rótgróna vernd mannréttinda.

Amnesty International bendir á að ekki skuli veita löggæslu heimildir fyrir auknu eftirliti nema að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

1. Eftirlitsráðstafanir sem gripið er til verða að vera löglegar, nauðsynlegar og hóflegar. Fyrir þeim skal vera heimild í lögum og skulu þær vera samkvæmar lögmætum markmiðum. Ráðstafanir sem löggæslan grípur til verða að vera gagnsæjar svo hægt sé að grandskoða þær og, ef tilefni er til, breyta, afturkalla eða snúa ákvörðunum við. Afbrotavarnir mega ekki þjóna sem afsökun fyrir handahófskenndu eftirliti með fjöldanum.

2. Ef stjórnvöld ákveða að útvíkka eftirlits- og vöktunarheimildir sínar verða slíkar heimildir að vera tímabundnar og aðeins standa yfir eins lengi og nauðsyn krefur. Afbrotavarnir mega ekki þjóna sem afsökun fyrir ótímabundnu fjöldaeftirliti.

3. Ríki verða að tryggja að gagnaöflun, varðveisla og uppsöfnun persónuupplýsinga, séu aðeins notaðar í lögmætum tilgangi. Gögnum sem er aflað, eru varðveitt og samtengd í tilgangi afbrotavarna verður að vera sett takmarkanir um umfang, og aðgengi. Þau má ekki nota í atvinnuskyni eða í öðrum tilgangi. Afbrotavarnir mega ekki þjóna sem afsökun til að brjóta á rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs.

4. Ríkisstjórnir skulu kappkosta að vernda gögn fólks, þar með talið að tryggja að öryggi persónuupplýsinga hvers og eins sé gætt, sem og að öryggi hvers konar tækja, forrita, nets eða þjónustu sem fela í sér í söfnun, sendingu, vinnslu og geymslu gagna sé tryggt. Allar fullyrðingar um að gögn séu nafnlaus verða að vera byggðar á áreiðanlegum heimildum og studdar með nægilegum upplýsingum um hvernig þau hafa verið gerð nafnlaus. Afbrotavarnir mega ekki þjóna sem réttlæting á skertu stafrænu öryggi fólks.

5. Hvers konar notkun á stafrænni eftirlitstækni verður að fela í sér umræðu um að slík tæki geti auðveldað mismunun og falið í sér önnur brot á réttindum minnihlutahópa, fólki sem býr við fátækt og öðrum jaðarhópum, þar sem þarfir og raunveruleiki þessara hópa endurspeglast ekki endilega í stórum gagnagrunnsupplýsingum. Hætta er á að afbrotavarnir auki enn á bilið milli ólíkra hópa samfélagsins, þeirra sem njóta fullra réttinda og hinna sem gera það síður.

6. Samningar stjórnvalda um samnýtingu gagna við einka- eða opinbera aðila verða að vera lögmætir og opinberir svo hægt sé að meta áhrif þeirra á friðhelgi einkalífs og mannréttindi. Samningarnir skulu vera skriflegir, með sólarlagsákvæði, gerðir undir opinberu eftirliti og innihalda aðrar varúðarráðstafanir. Afbrotavarnir mega ekki þjóna sem afsökun til að fela fyrir almenningi hvaða upplýsingum er safnað af stjórnvöldum og deilt með þriðja aðila.

7. Öll viðbrögð verða að fela í sér öryggisráðstafanir þannig að ábyrgð sé tryggð og að komið sé í veg fyrir misbeitingu. Einstaklingar skulu eiga tækifæri á að vita um og hafa skoðun á viðbrögðum vegna afbrotavarna sem fela í sér öflun, varðveislu og notkun gagna. Einstaklingar sem hafa verið undir eftirliti verða einnig að hafa aðgang að raunhæfum úrræðum til að leita réttar síns.

Í frumvarpsdrögum sem eru til umræðu er lögreglu veittar víðtækar heimildir til að fylgjast með einstaklingum sem ekki eru grunaðir um afbrot. Þrátt fyrir að tillagðar heimildir hafi það að markmiði að koma í veg fyrir glæpi er hættan á misnotkun svo víðtækra rannsóknarheimilda sem hér um ræðir mikil. Íslandsdeild Amnesty International minnir á að íslenskum stjórnvöldum ber að tryggja að lög séu í samræmi við alþjóðlega mannréttindasamninga, svo sem mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, samning Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland hefur fullgilt, auk Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópu sem báðir hafa verið lögfestir hér á landi.

Ofantalin skilyrði eru ekki uppfyllt í frumvarpsdrögunum. Hvetur Íslandsdeild Amnesty International stjórnvöld til að gera nauðsynlegar breytingar á þeim í samræmi við ofangreinda mannréttindasamninga.

Að lokum áskilur deildin sér rétt til að koma að fleiri athugasemdum við frumvarpið á síðari stigum verði það lagt fyrir Alþingi.

Afrita slóð á umsögn

#3 Persónuvernd - 22.03.2022

Vegna mikilla anna og manneklu hjá Persónuvernd er stofnuninni ekki fært að skila inn umsögn innan gefins frests. Persónuvernd mun senda dómsmálaráðuneytinu umsögn stofnunarinnar á næstu dögum og birta hana á vefsíðu stofnunarinnar.

Afrita slóð á umsögn

#4 Hólmsteinn Gauti Sigurðsson - 22.03.2022

Umsögn Landssambands lögreglumanna fylgir í pdf viðhengi

Viðhengi