Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 8.–22.3.2022

2

Í vinnslu

  • 23.3.2022–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-57/2022

Birt: 8.3.2022

Fjöldi umsagna: 4

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Almanna- og réttaröryggi

Drög að frumvarpi um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 (afbrotvarnir og vopnaburður)

Málsefni

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögreglulögum til að að skýra og efla heimildir lögreglu til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum hvað varðar skipulagða brotastarfsemi og öryggi ríkisins.

Nánari upplýsingar

Markmið frumvarpsins er að skýra heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum hvað varðar afbrot eða athafnir sem raskað geta öryggi borgaranna og ríkisins, afbrot sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi og afbrot sem framin eru á netinu

Löggæsla nú á tíðum snýr ekki síður að frumkvæðisvinnu í formi upplýsingaöflunar og greiningu upplýsinga. Breytt afbrotamynstur og útbreiðsla skipulagðrar brotastarfsemi á milli landa krefst þess að löggæsluyfirvöld geti brugðist við og gripið til aðgerða áður en einstök brot eru framin. Með frumvarpi þessi er því lögð aukin áhersla á mikilvægi þess að lögregla geti gripið fyrr inn í atburðarás og þannig fyrirbyggt að framin séu alvarleg afbrot. Við framangreinda endurskoðun var sem endranær gætt að því að stjórnarskrárvarin grundvallarmannréttindi borgaranna væru virt í hvívetna.

Jafnframt er í frumvarpinu kveðið á um meðferð vopna hjá lögreglu, en ákvæði þess efnis hafa fram til þessa aðeins verið að finna í reglugerð á grundvelli vopnalaga.

Með frumvarpinu er skýrri lagastoð skotið undir núverandi greiningarstarf lögreglu sem fram fer í afbrotavarnaskyni sem og að grundvöllur er lagður fyrir innleiðingu á svonefndri upplýsingamiðaðri löggæslu (e. Intelligence Led Policing).

Frumvarpinu er ætlað að skerpa á heimildum lögreglu til að afla upplýsinga og viðhafa eftirlit í því skyni að draga úr brotastarfsemi en núgildandi heimildir byggja öðru fremur á almennum ákvæðum lögreglulaga auk ákvæða í sérlögum. Annars er vegar er mælt fyrir um heimild lögreglu til að afla upplýsinga í þágu afbrotvarna við framkvæmd almennra löggæslustarfa og frumkvæðisverkefna, þar á meðal samskipti við uppljóstrara, eftirlit á almannafæri og vöktun vefsíðna sem opnar eru almenningi. Hins vegar er lögreglu veitt heimild til að viðhafa sérstakt eftirlit með einstaklingum sem hafa tengsl við skipulagða brotastarfsemi eða sem af kann að stafa sérgreind hætta fyrir almannaöryggi.

Í frumvarpinu er kveðið á um afar takmarkaða heimild lögreglu til að grípa til beitingu þvingunarúrræða í afbrotavarnaskyni. Nánar tiltekið verður lögreglu heimilt að krefjast dómsúrskurðar um haldlagningu og öflun gagna sem eru í vörslum þriðja aðila í því skyni að koma í veg fyrir skipulagða brotastarfsemi og brot gegn X. og XI. kafla almennra hegningarlaga.

Í ljósi þess að frumvarpið mælir fyrir um tilteknar aðgerðir og heimildir til handa lögreglu sem kunna að skerða stjórnarskrárvarinn rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs var sérstök hliðsjón höfð af ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í samræmi við skilyrði þeirra er frumvarp þetta samið til að skýra heimildir lögreglu á grundvelli lögreglulaga til að hafa afskipti af borgurunum í því skyni að koma í veg fyrir afbrot. Hugað var sérstaklega að því að slíkar heimildir verði að vera skýrt afmarkaðar og gangi ekki lengra en nauðsynlegt er. Þá er mælt fyrir um að nefnd um eftirlit með lögreglu hafi eftirlit með þeim aðgerðum sem ganga næst friðhelgi einstaklinga.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa almanna- og réttaröryggis

kjartan.olafsson@dmr.is